Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að tryggja sjálfstæði Íslands

Margir hafa sett spurningarmerki varðandi sjálfstæði íslensku þjóðarinnar í kjölfar hrunsins. Grunnstoðir samfélagsins eru í uppnámi með sífellt lengri röðum fólks að biðja um mat og fjöldauppsagnir þykkja vart fréttnæmar lengur.

 

Í 76. grein stjórnarskrár Íslands stendur að tryggja eigi öllum, öldnum sem ungum, rétt til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og almennrar menntunar. Til að slíkt megi tryggja þurfa grunnstoðir samfélagsins að vera á föstum grunni. Hvort sem fólki líkar betur eða verr er þjóðfélaginu nauðsynlegt að hafa traust fjármálakerfi þar sem að hægt er að beina fjármagni sparifjáreigenda með skilvirkum hætti í verkefni sem skapa tekjur til að uppfylla markmiðum 76. greinarinnar.

 

Til þess þarf að tryggja að fyrirtæki (t.d. orkufyrirtæki, vatnsveitu og viðskiptabankar) sinni sínu hlutverki í þágu samfélagsins með heilbrigð arðsemisjónarmið að leiðarljósi, án þess að stefna í hættu innviðum þess. Búið er t.d. að skuldsetja orkufyrirtæki hérlendis langt umfram því sem nauðsynlegt er fyrir almenningsþjónustu.  Aðskilja þarf fjárfestingarstarfsemi banka frá viðskiptabankastarfsemi þannig að innstæðutryggingar séu ekki notaðar við áhættusamar fjárfestingar.

 

Í 40. grein stjórnarskrárinnar stendur að ekki megi taka skuldbindandi lán né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.  Þessa grein þarf að skerpa betur til að tryggja auðlindir þjóðarinnar nýtist þjóðinni sjálfri, en eru ekki skuldsetar í botn til að ná hámarks gróða fyrir örfáa einstaklinga.

 

Heilstæð stefna varðandi fjármál þjóðarinnar þarf að koma fram í stjórnarskrá þar sem að tryggt er aðhaldi í fjármálum þjóðarinnar og að heilbrigt fjármálakerfi sé við lýði.

 

Birtist í Morgunblaðinu 18.11.2010 og er aðgengileg á þessari slóð - http://www.mbl.is/mm/mogginn/blad_dagsins/netgrein.html?art_id=110667

mwm, 4041


4041 - Áhersla fjármála á stjórnlagaþingi

Ég hef starfað við fjármál í tæp 15 ár á Íslandi. Allan minn starfsferil hef ég lagt mikinn metnað í að veita einstaklingum og fyrirtækjum góða ráðgjöf sem miðaði af því að það gæti tekið upplýsta ákvörðun um þá áhættu sem það var tilbúið að taka.

 

Því miður hafa menn með takmarkaða siðferðiskennd ráðið ferðinni í samfélaginu og misnotuðu þeir glufur í regluverki fjármála og brotalama í stjórnsýslu landsins. Það er alkunna að þjóðin var leidd í skuldafen og má benda á margt sem úrskeiðis fór í þeim efnum en þó var þetta ekkert nýtt, hvorki nýverið á alþjóðavísu né sögulega séð. Þessi þróun sýnir að grunnatriði varðandi uppsetningu stjórnkerfis Íslands er ábótavant.



Í 76. grein stjórnarskrár Íslands stendur að tryggja eigi öllum, öldnum sem ungum, réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og almennrar menntunar. Hér skal með öðrum orðum ríkja velferðarkerfi.



Til þess að slíkt kerfi sé starfhæft þarf fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar að vera tryggt. Undanfarnar fjármálalegar hamfarir sýna að nú þegar er farið að skerða slíka velferð og hugsanlega eru fleiri skerðingar gagnvart þeim sem síst mega við þeim í aðsigi.



Í 40. grein stjórnarskrárinnar kemur fram að ekki megi taka skuldbindandi lán né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Þetta tel ég vera veik vörn gegn því að sjálfsstæði Íslands sé sett í uppnám ef að verðmæti þjóðarinnar og framtíðartekjur séu færð úr landi.



Þessu vil ég breyta með framboði til setu á stjórnlagaþingi á næsta ári. Mitt framlag við stjórnlagaþingi væri að tryggja að heilstæð stefna tengd fjármálum væri við lýði. Sú stefna á að tryggja rétt þegna til aðhalds í fjármálum þjóðarinnar og að fjármálakerfi landsins vinni með fólkinu, ekki á móti því. Þannig er stuðlað að því að stoðum velferðakerfis þjóðarinnar sé ekki teflt í tvísýnu og auki lífskjör okkar og afkomenda.


Ég hvorki er né hef verið flokksbundinn og ég hef starfa ekki fyrir hagsmunasamtök.  Ekki gleyma að skrá 4041 á kjörseðilinn 27. þessa mánaðar.


mwm


IceSave - aðskilnaður banka og ruðningsáhrif vegna greiðsluþrots

Þeim fjölgar ört sem telja að aðskilja eigi starfsemi banka til þess horfs sem það var áratugum saman í kjölfar Kreppunnar miklu, það er að fjárfestingarbanka- og viðskiptabankastarfsemi sé aðskilin.  Meðal þeirra er hagfræðingurinn Michael Hudson sem er orðinn Íslendingum vel kunnur.  Hef ég fjallað töluvert um þetta og hægt er að sjá þau skrif vinstra megin á blogg síðu minni undir tenglinum Endurreisn bankanna, sjá meðal annars Aðskilnaður fjármálaþjónustu.  Einhverra hluta vegna virðist takmarkaður áhugi ríkja hérlendis um slíka skiptingu.  Í drögum um endurreisn banka fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir slíkri skiptingu eins mikið og auðið er, sem er einfaldlega umorðun um að dregið verði úr fjárfestingargleði banka sem ætti að vera augljóst mál.

Nú, þegar að viðhorf erlendra aðila er (loks) að snúast á sveif með Íslendingum varðandi Icesave, ætti ákveðið skref í þeim efnum að undirstrika gagnvart umheiminum að Íslendingar séu að einhverju leyti að takast á við fortíðina.  Þetta er góð tímasetning til að aðskilja rekstur fjárfestinga og þjónustu til einstaklinga og smárra fyrirtækja; ríkisábyrgð yrði þá takmörkuð við viðskiptabankaþjónustu.  Skilaboðin á alþjóðlegum vettvangi væru þau að Íslendingar væru nú þegar farnir að taka skref til að koma í veg fyrir annað fjármálahrun vegna áhættusækni í fjárfestingum (skref varðandi aukið regluverk bera sögulega lítinn árangur, sígild spurning er til dæmis hverjir sinna regluverki á störfum þeirra sem starfa innan fjármálaeftirlita eða 'who regulates the regulators').  Skilaboðin væru ótvíræð: Ísland er að læra af reynslunni.  Erfiðra er að beita hörku í samningaviðræðum á alþjóða vettvangi gagnvart slíkri þjóð.

Það er auk þess að koma æ betur í ljós að staða okkar skiptir máli á erlendum vettvangi.  Nýleg grein í The Economist bendir á að lendi einhver þjóð innan evrusvæðisins í greiðsluþroti gæti það sett evruna í tilvistarkreppu.  Spurt er hvort að önnur ríki kæmu slíku ríki til aðstoðar.  Greiðsluþrot eins ríkis gæti hæglega leitt til aukinna vandræða og jafnvel orðið til þess að stórt ríki lendi í svipaðri stöðu.  Aukin skuldaaukning ríkja undanfarin ár hefur opnað möguleikann á slíkri þróun.  Því má bæta við að aðstoð stærri ríkja gæti leitt til þess að önnur færu að reiða sig á að slíka aðstoð og hefðu því minni ástæðu til aðhalds í útgjöldum.  Vandamál þjóða í vandræðum gæti ekki verið leyst með veikingu gjaldmiðils þar sem þau væru tengd evrunni og þegar þau eru eitt sinn orðin hluti af ESB er nánast ógerlegt að snúa til baka.  Þetta eru í fyrsta lagi rök gegn aðild Ísland að ESB.  Í öðru lagi gefur þetta til kynna að hagur flestra þjóða í Evrópu ætti að vera að koma í veg fyrir að skuldbindingar Íslendingar verði það miklar að greiðsluþrot væri raunverulegur möguleiki.


100 daga áætlun - Endurreisn bankanna - Aðskilnaður í bankarekstri, SNB og aukið sjálfstæði SÍ

Lykilatriði við endurreisn efnahags Íslands er að ná aftur trausti almennings og erlendra aðila á fjármálakerfi landsins.  Ný ríkisstjórn þarf að skipa sérstaka nefnd hið fyrsta með sjálfstæði til erfiðra ákvarðanna.  Helstu verk þeirrar nefndar væri að:

  1. Aðskilja bankarekstur
  2. Stofna nýja banka
  3. Auka sjálfstæði Seðlabankans á ýmsum sviðum

Bankarekstur - Það þarf enga skoðanakönnun til að staðfesta að traust almennings til íslenskra banka er lítið.  Traust er hins vegar orðið sem þarf að vera til staðar í huga fólks eigi íslenskir bankar að ná fótfestu á nýjan leik.  Einfaldasta aðgerðin í þeim efnum er að aðskilja viðskipta- og fjárfestingarþjónustu þeirra.  Viðskiptaþjónustan nýtur þess að innstæður eru tryggðar af ríkinu.  Rétt væri að slíkir bankar væru u.þ.b. 40% í eigu ríkisins og afgangurinn í dreifðri eignaraðild.  Hægt væri að veita erlendum kröfuhöfum einn slíkan banka upp í skuldir, ein 40% ríkisbanki sæti eftir ásamt sameinuðum sparisjóði Íslands.  Lilja Mósesdóttur hefur lýst því yfir að hún sé hlynnt slíkum aðskilnaði, vonandi notar hún nýtilkomin áhrif sín til að koma slíku í verk.

Stofna nýja banka - Fjárfestingararmur bankanna fer í nýja banka.  Slíkur banki tæki við þeim eignum sem hægt væri að skapa virði úr.  Þær eignir sem aðeins eru rekstrarhæfar vegna þjóðfélagslegs ábata færu undir vernd ríkis og sveitarfélaga.  Slíkur banki færi fljótt að mestu í eigu stofnannafjárfesta en bakhjarl þeirra nyti ekki ríkistryggingar.

Sjálfstæði Seðlabankans er nauðsynleg aðgerð.  Stýrivaxtaákvarðanir bankans þurfa að endurspegla ríkjandi efnahagslegar aðstæðum hverju sinni.  Til að vextirnir beri tilætlaðan árangur þarf bankinn einnig að hafa sjálfstæða skoðun varðandi áhrif ákvarðanna sem stjórnvöld taka og afleiðingar þeirra.  Sú þróun undanfarin ár að SÍ hækki stöðugt vexti samhliða þensluhvetjandi ákvörðunum stjórnvalda má ekki eiga sér stað á nýjan leik. 

Þetta er, í stuttu máli, þau markmið sem 100 daga áætlun endurreisnar fjármálakerfisins ætti að einblína á. 


Atvinna

Umræðan og ýmsar lagasetningar sem henni tengjast hefur undanfarið verið á þeim nótum að nauðsynlegt sé að fólk auki við neyslu sína.  Margir halda að aukin neysla sé nauðsynleg til að koma hjólum efnahagslífsins í gang á nýjan leik.

Hefur til að mynda heyrst að við ættum að auka neyslu okkar á nýjan leik til að hjálpa efnahagnum.  Margt það sem flestir flokkar hafa nú þegar lofað snýst í kringum örvun neyslu, svo sem aukning vaxtabóta og aðrar niðurfellingar gjalda.

Ástæða þess að við getum neytt meira nú en fyrir nokkrum áratugum síðan er að við framleiðum meira.  Það var óhófleg neysla, hjá heimilum og fjármálastofnunum, sem kom okkur í núverandi vanda.  Aukin framleiðsla er lykillinn að því að við náum að vinna okkur úr honum. 

Fjármagn á ekki að streyma í aukna neyslu.  Við þurfum að draga hana saman og setja fjármagn þess í stað í arðbærran rekstur.

Í sjónvarpsumræðum gærkvöldsins var rætt um atvinnu en enginn virtist skilja þessa staðreynd jafn vel og Guðjón Arnar Kristjánsson hjá Frjálslynda flokknum.  Þó svo að ég hafi verið um tíma í framboði fyrir hreyfingu sem var með ESB fremst á stefnuskrá sinni þá furða ég mig á því hversu lítil umræða hefur verið um þetta málefni.  Flestir aðilar sem hafa rætt um atvinnumál hafa komið með tölur um fjölda nýrra starfa en afar hvernig ætti að skapa þau hefur verið óljóst.

Verði kosið á nýjan leik innan skamms tíma vona ég að þetta verði framarlega í umræðunni.  Allt tal um greiðsluaðlögun, leiðréttingu skulda, virði fasteigna, refsun útrásarvíkinga o.s.frv. skiptir litlu máli til lengri tíma ef atvinnusköpun á sér ekki stað.

Þetta skiptir mig mestu máli þegar að ég fer í kjörklefann á eftir.  Hverjir koma til með að skapa atvinnu næstu misseri og með hvaða hætti.  


mbl.is Gengur hægt á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver ber ábyrgð á skuldastöðu íslenskra heimila í dag? Svarið er íslensk stjórnvöld

Gull, silfur og brons sætin deila Framsóknarmenn, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn.  

 

Árið 2001 hófst sú hættulega þróun sem nú er búin að koma mörgum íslenskum heimilum í skuldafjötra.  Ég vitna í grein sem ég skrifaði sama ár, Hinir skuldugu munu landið erfa, en þar stendur:  

 

...nýlega er búið að setja ný lög um lán frá Íbúðalánasjóði og brunabótamat, sem ... stuðla enn frekar að skuldasöfnun vegna íbúðarkaupa.

...Áhrifin af þessum breytingum verða að hærri lán eru veitt til dýrara húsnæðis en áður, samanborið við ódýrari húsnæði. Það er m.ö.o. verið að gera það hagstæðara fyrir einstaklinga að fjárfesta í dýrara húsnæði en áður á sama tíma og verið er með breytingum á brunabótamati að skerða lán til kaupa á ódýrari húsnæði.

90%

Það hlýtur að vera flestum í fersku minni sú kosningaherferð sem Framsókn stóð fyrir árið 2003.  Hún gekk nánast út á eitt atriði, að allir ættu rétt á að fá sitt eigið þak yfir höfuð sér.  90% lán til allra var auglýst og eins og galdrasprota væri veifað snar jókst fylgi flokksins rétt fyrir kosningar. 

Flokksmenn Framsóknar hafa síðar verið duglegir við veita þá mynd að þeir hafi ekki í raun verið sökudólgar og að ýmis önnur atriði hafi haft meiri áhrif.  Þau rök hófust reyndar ekki fyrr en almenningi var orðið ljóst hversu slæm áhrif þetta loforð hafði.  Hafa þeir aðallega dregið bankanna til ábyrgðar í þeim efnum.  Rökin eru aftur á móti rökleysa. 

Skuldahvetjandi vaxtabótakerfi

Það er merkilegt að enginn íslenskur stjórnmálaflokkur virtist hafa haft þor til að leggjast gegn þessu loforði.  Samfylking, með núverandi forsætisráðherra í fararbroddi, stóð meira að segja föst á því að viðhalda vaxtabótakerfinu, þrátt fyrir að um fjórðungur lána, samkvæmt Samtökum atvinnulífsins eins og sést í grein minni Vaxtabætur – Úrbætur (2002), væri niðurgreiddur af ríkinu.  Samfylkingin, með öðrum orðum, hélt fast í þessa þensluhvetjandi stefnu sem auk þess sendir þau skilaboð að betra sé að skulda en að spara.  Flokkurinn er enn við sama heygarðshornið því nýlega var verið að auka vaxtabætur enn einu sinni – um að gera að skulda sem mest eru skilaboðin.  Ætti ekki að einbeitta sér að þeim sem eru verst settir?

Bankar og stjórnvöld

Bankar hafa verið nefndir sem sökudólgar í þessu sambandi.  Aðkoma þeirra að lánveitingum hófst haustið 2004.  Þetta var í mínum huga glapræði – sjá grein mína Skuldabyrði heimilanna – sem gæti aðeins endað illa.  Stjórnvöld virtust ekki þó ekki hafa sérstakar áhyggjur af þessu.  Ágreiningurinn snérist í raun fyrst og fremst um það hvort að leggja ætti Íbúðalánasjóð (ÍLS) niður og færa alla þjónustuna til fjármálafyrirtækja eða ekki.  Það sem meira er, ÍLS fjármagnaði mörg þessara lána fjármálafyrirtækja svo að þau gætu veitt enn fleiri lán.  Þessi hringrás olli enn frekari þenslu og hækkun á húsnæðisverði. 

Ég vitna í orð mín í Skuldabyrði heimilanna - Það er umhugsunarefni að ekkert ráðuneyti virðist hafa tekið saman skýrslu um  áhrif vegna tilgreindra kerfisbreytinga á hinu opinbera íbúðalánakerfi.  Var ekki augljóst að með við því að rýmka lánaheimildir Íbúðalánasjóðs myndi verðbólguþrýstingur aukast um árabil?  Með því að soga öllu þessu lánsframboði til sín, hafði engin áhyggjur af því að bankar færu inn á þennan markað?  Því má við bæta að yfirdráttarlán minnkuðu mjög í kjölfar aukins lánsframboðs á betri kjörum, aðeins til að fara aftur í sömu hæðir tæpum 2 árum síðar. 

Ég spyr aftur, tók ekkert ráðuneyti saman slíka skýrslu?  Ef svarið er nei, hví ekki?  Ég tel að svarið sé einfaldlega að það sé af því að enginn flokkur hafði þor til að taka rétt á málinu því það myndi vera til skemmri tíma óvinsælt.

Erlend lán

Þegar að Seðlabanki Ísland fór að lýsa yfir áhyggjum af þenslu hérlendis og hóf feril vaxtahækkana tók við enn verri þróun, þ.e. erlend lán.  Þar með féllu íslensk heimili í sömu gryfju og fólk erlendis.  Ofurlágt vaxtastig í USA og Evrópu gerði það að verkum að greiðslumöt voru í besta falli óáreiðanleg, því í þeim var gert ráð fyrir að vextir gætu ekki hækkað á nýjan leik.  Hér var reyndar auk þess gefin sú hættulega forsenda að íslenska krónan gæti ekki veikst á nýjan leik!  Einhver vafi (sjá færslu Guðmundar Ásgeirssonar) virðist m.a.s. vera um það hvort að slík lán væru lögleg. 

Hefði ekki verið rétt að skrúfa fyrir þessa tímasprengju.  Ekki ætla ég að afsaka stefnu fjármálastofnanna en áttu stjórnmálamenn ekki að taka á þessu?  Kannski er ekki við slíku að búast þegar að í ljós hefur komið að margir stjórnmálamenn tóku sjálfur slík lán. 

Það birtist bæði forsíðufrétt og heilsíðu grein eftir mig, Varað við erlendum skuldum,  í 24 stundum vorið 2007 þar sem ég varaði við erlendum lántökum.  Lestur blaðsins var minni en hjá Fréttablaðinu og Morgunblaðinu en það munaði ekki miklu.  Ég er því enn að velta því fyrir mér af hverju enginn stjórnmálamaður hafi notað tækifærið og hafið umræðu á þessu.  Getur verið að samskipti þeirra við banka hafi haft eitthvað um þetta að segja? 

Hver ber ábyrgðina?

Íslensk heimili bera að sjálfssögðu hluta af ábyrgðinni.  Margir fóru allt of geyst í lántökur og er hrikalegt að hugsa til erfiðleika þess fólks í dag.  Það er hins vegar svo að ófáir tóku lán í góðri trú að slíkt væri skynsamlegt.  Stanslaus áróður um að íbúðaverð gæti ekki lækkað, fjárfesting í húsnæði væri skynsöm og þannig tal glumdi frá stjórnvöldum.  Því er staða margra sem töldu sig vera á skynsömum nótum slæm. 

Þeir 3 flokkar sem voru við stjórn á þessu tímabili bera ábyrgðina.  Undanfarið hefur verið talað um að nauðsynlegt væri að biðjast afsökunar á því að verjast ekki bankahruninu.  Ég spyr, er ekki enn meiri ástæða að biðjast afsökunar á skuldastöðu heimila í dag?

Lausnir

Þær lausnir sem flokkarnir hafa hingað til komið með eru slakar, verri og 20% “leiðrétting”.  Margir hafa furðað sig á því að enginn flokkur virðist geta komið með lausnir í sambandi við skuldastöðu heimila.  Spurningin ætti frekar að vera hvort að líklegt sé að sömu flokkar sem komu okkur í þetta kviksyndi séu líklegir til að koma okkur úr því.

Athugasemd 15.5.2009:  Þetta var upprunaleg fyrsta setning:  Fremstir í flokki eru Framsóknarmenn, silfur og brons sætin fá Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn. Eins og sést voru ekki allir sáttir með þetta og voru Framsóknarmenn skiljanlega fremstir í flokki.  Voru heitar umræður um þetta í athugasemdadálknum.  Ég hef breytt þessari setningu og gef öllum flokkum 1-3 verðlaun.  Þó svo að Framsókn hafi að mínu mati komið skriðunni af stað þá gerðu hinir flokkarnir ekkert í málunum og tóku svo þátt í þeirri óheilla þróun sem átti sér stað næstu árin.  Því er upprunaleg setning mín ekki sanngjörn.


Skuldabyrði heimilanna

Þessi Grein birtist í styttri útgáfu í Morgunblaðinu 16.12.2008

Skuldabyrði heimilanna

Mikið hefur verið rætt um skuldastöðu þjóðarinnar í sömu andrá nú eftirbankahrunið. Sumpart hefur staðan versnað mjög í framhaldi af hruninu og veikingu krónunnar en það virðist þó gleymast að jafnvel þó að ekkert hrun hefði átt sér stað væri skuldastaðan hér  mjög alvarleg. 

Því er rétt að staldra við og spyrja hvort að engin(n) hefði varað við skuldasöfnunni og samhliða því erlendum lántökum? Slíkt heyrist nú víða í fjölmiðlum,og og ef fjallað er um það þá er það almennt á þeim nótum sem tal um stefnu sem heil þjóð tók þátt í. 

Þetta er hins vegar ekki rétt.  Margir vöruðu við þessu með umfjöllun um þá hættu sem til dæmis fylgdi auðveldu aðgengi að fjármagni, vaxtabótum og erlendum lántökum.  Það er auk þess einföldun að allir hafi tekið þátt í einhverju sukki, margir sem tóku lán með skynsömum hætti eru nú í verulegum vandræðum vegna samspils hækkana lána og margþættra vandamála tengdum kreppu af verstu  tegund.

Vandamálið er að kraft vantaði í blástur herlúðra gegn slíkri þróun og almenningur hefur í stórum stíl fallið í skuldafen sem erfitt verður að vinna sig úr.

90% lán 

Burtséð frá þeim mistökum sem áttu sér stað í fjármálageiranum er ljóst að stjórnmálamenn áttu einnig sinn þátt, allir sem einn, í aukningu lána til íbúðakaupa.  Gaman væri að fá skjalfest frá einhverjum þingmanni yfirlýsingu um að hækkun á þaki lána væri varhugaverð.  Þá á ég ekki við nýlega yfirlýsingu, þegar að heimili landsins eru mörg hver kominn í skuldafen sem ekki sér fyrir endann á, heldur þegar að framkvæmdin átti sér stað.  Hví í veröldinni tók enginn þingflokkur sig til og barðist með kjafti og klóm gegn þessari þróun?  Þessi ráðstöfun átti stóran þátt í þeirri keðjuverkun sem gegnsýrði íslenskt samfélag að það væri allt í lagi að taka lán svo lengi sem þau væru í boði.

Það er umhugsunarefni að ekkert ráðuneyti virðist hafa tekið saman skýrslu um  áhrif vegna tilgreindra kerfisbreytinga á hinu opinbera íbúðalánakerfi.  Var ekki augljóst að með við því að rýmka lánaheimildir Íbúðalánasjóðs myndi verðbólguþrýstingur aukast um árabil?  Með því að soga öllu þessu lánsframboði til sín, hafði engin áhyggjur af því að bankar færu inn á þennan markað?  Því má við bæta að yfirdráttarlán minnkuðu mjög í kjölfar aukins lánsframboðs á betri kjörum, aðeins til að fara aftur í sömu hæðir tæpum 2 árum síðar. 

Það er ekki svo að allir í fjármálageiranum hafi verið sammála þessari stefnu, eins og stundum hefur verið gefið í skyn.  Á mínum gamla vinnustað voru margir með efasemdir um skynsemi þessara lána og benti meðal annars einn yfirmaður minn á að meiri en minni líkur væru á því að sá dagur kæmi að höfuðstóll lána yrði hærri en markaðsvirði húsnæðisins.  Engu að síður var farið í það að fylgja samkeppninni, enda krafa frá mörgum viðskiptavinum.  Þar fór gott tækifæri í súginn að sýna forræðishyggju  sem þá var gagnrýnt sem hluti af gömlum tímum en sem viðskiptavinir kynnu að meta í dag.  Dæmið gekk reyndar svo langt að einn bankinn auglýsti 100% lán, 100% banki.  Í dag mætti bæta við auglýsinguna 100% gjaldþrot.

Um daginn skrifaði Páll Magnússon, sem nú býður sig fram sem formaður Framsóknarflokksins, grein þar sem hann leggur til að afskrifa 40% húsnæðislána! Láttum okkur nú sjá, hver borgar það?  Augljóslega þeir sem sýndu hyggju með því að skulda minna auk komandi kynslóða.  Maður spyr sig, hlustar fólk virkilega á svona ennþá í dag?  Það má kannski segja að þetta sé sniðugt frá ákveðnu sjónarhorni: Að opna lánadyrnar upp á gátt og nokkrum árum síðar þegar að allt er komið í steik að veita sömu aðilum afslátt á kostnað þeirra sem ekki tóku þátt í lánasukkinu.

Vaxtabætur

Ég hef  fjallað um vaxtabætur og auknar skuldsetninga heimila í nokkrum greinum.  Nokkrir aðrir aðilar fjölluðu reyndar einnig um þessi atriði, meðal annars Sigríður Andersen og Pétur Blöndal.  Ég hef ávallt í gagnrýni minni á vaxtabótum lagt áherslu á að þeir sem minnst mega sín í samfélaginu fái sér aðstoð vegna húsnæðis. 

Vaxtabótakerfið er til þess fallandi að best er að skulda sem allra mest.  Fólk hefur í þeim tilgangi leitað alls kyns leiða til að auka framlag ríkisins í þeirra garð í formi vaxtabóta.  Staðreyndin er sú að vaxtabætur eru góðar í sjálfu sér með það grunn markmið að aðstoða þá sem eru að koma undir sig fótunum í húsnæðismálum.  Kerfið er hins vegar mein gallað og ætti að hafa verið lagt af fyrir löngu síðan.  Nú þegar að skuldir eru að sliga svo marga skipta vaxtabætur ekki lengur sama máli og áður, margir sjá jafn lítið til sólar með eða án vaxtabóta. 

Þó er enn á ný verið að tala um að auka vaxtabætur á nýjan leik.  Skilaboðin eru með öðrum orðum enn einu sinni að best sé að skulda nógu mikið til að ríkið komi til aðstoðar.  Réttara væri auðvitað að aðstoða fyrst og fremst þá aðila sem verst eru settir, sérstaklega vegna atvinnuleysis.  Slíkir aðilar eru ekki endilega í verstu skuldunum, þeir hafa hins vegar orðið verst úti í núverandi kreppu.

Erlendar skuldir

Vinur minn kom með afar gott dæmi um daginn varðandi vexti.  Hefði einhver labbað til bankastjóra fyrir rúmu ári síðan og verið sagt að bankinn tæki 20% vexti vegna húsnæðisláns hefði sami bankastjóri sjálfssagt verið fluttur á hæli.  Aftur á móti virtust allir vera sammála um að erlend lán væri svarið, þrátt fyrir að slíkt stangaðist á við alla fjármálafræði og hagsögulega séð væri yfirvofandi skellur ekki svo ólíklegur (ólíklegustu menn féllu í þessa gildru).  Það var eiginlega nánast sama hversu mikið maður rökræddi þetta, alltaf voru til rök um að þetta væri hið eina rétta. 

Húsnæði, bílar, tjaldvagnar, nánast allt sem hægt var að hugsa sér var hægt að fá lánað í erlendri mynt.  Þessi þróun minnir óþægilega á undanfara kreppunnar miklu sem hófst árið 1929.  Viðvörunargrein mín um erlend lán sem birtist í Blaðinu sáluga í maí 2007 vakti nánast enga athygli, þrátt fyrir að hafa verið stillt upp á forsíðu þess og í blaðinu sjálfu, enda hafði þáverandi fréttastjóri áhyggjur af þessu.  Engin annar miðill tók þó umræðuna um málið sem hlýtur að hafa verið einfaldlega merki um áhugaleysi yfir viðfangsefninu.  Því er kannski erfitt að saka fjármálastofnunum um þetta (hér er rétt að taka fram að ég vinn við eina og hef margra ára reynslu við störf hjá íslenskum fjármálastofnunum) því hefðu þau sagt því miður, engin erlend lán að hafa hér, þá hefðu viðskiptin einfaldlega farið annað. 

Stundum vill maður hafa rangt fyrir sér og ég játa fúslega að ég bjóst ekki við veikingu af þessari stærðargráðu.  Þessi stefna varðandi erlendar lántökur þverbraut hins vegar grunn atriði í fjármálum; ekki taka of mikla áhættu og í ljósi þess að í fjármálum gerist alltaf hið ótrúlega. Í upphafi skal endinn skoða. 

Nauðsyn á umræðu

En af hverju skiptir máli nú hvað var sagt eða ekki sagt?  Það nauðsynlegt að skoða hvað fór úrskeiðis þegar verið er að endurskipuleggja fjármálakerfið.  Fyrir utan það að allir beri ábyrgð á gjörðum sínum í þessu þjóðfélagi, þá er gagnrýnin endurskoðun á þeirri þróun sem hefur verið hér síðustu ár nauðsynleg til þess að byggja upp betra kerfi.   

Auk þess er ekki síður mikilvægt að minna á hvað fór úrskeiðis til þess að koma í veg fyrir að sömu mistök haldi áfram undir öðrum formerkjum.  Dæmi um það er að halda áfram að verðlauna þá sem skulda meira með því að láta þá sem skulda minna niðurgreiða skuldir þeirra eins og núverandi vaxatbótakerfi gengur út á. 

Burtséð frá því hver eigi sök á núverandi ástandi, til að vinna okkur úr kreppunni verðum við að minnka skuldir, snúa við blaðinu og fara að skapa og spara. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband