Enron - The Smartest Guys in the Room

 Það vakti takmarkaða athygli þegar að bókaumfjöllun mín um Enron bókina The Smartest Guys in the Room birtist á síðum Morgunblaðsins í lok ársins 2004.  Ég man hins vegar vel eftir samtali við ákveðna manneskju sem sagðist hafa miklar áhyggjur af því að einmitt svipað væri að eiga sér stað í íslenskum bönkum á þeim tíma.  Ekki löngu síðar var heimildarmynd byggð á bókinni sýnd í kvikmyndahúsum, það var nánast tómur salur þegar að ég kom að sjá myndina, og þó var hún í litlum sal.

Því er það áhugavert hversu mikil spenna er fyrir leikritinu sem bráðlega verður frumsýnt hérlendis með sama viðfangsefni.  Það sem er e.t.v. merkilegast er hversu oft sömu hlutirnir virðast hafa gerst síðasta áratug.  Fræðimaður sem stundar rannsóknir á "menningu" bankamanna sagði nýlega við mig að það sem hann undrist mest er að engin lexía virðist hafa verið numin af hruninu tengdu Long Term Capital Management árið 1998, dot.com bólunni í upphafi áratugarins og Enron.

Það er þess virði að lesa bókina aftur því margt af því sem gerðist innan þess fyrirtækis endurspegluðu því miður margir í fjármálageiranum, mínum geira, í ekki minna mæli.  Að neðan er upphafleg gagnrýni mín skrífuð fyrir tæpum 6 árum síðan.

The Smartest Guys in the Room

Höfundar: Bethany McLean & Peter Elkind

Már Wolfgang Mixa

Það kann að vera fjarlæg tilhugsun í dag en árið 2000 endaði vel hjá Enron. Mitt í öllu hruninu á gengi hlutabréfa hækkaði gengi fyrirtækisins um tæp 90% á árinu og var markaðsverðmæti þess um 70 milljarðar dollara. Jeffrey Skilling hafði ekki verið nema nokkra mánuði í framkvæmdastjórastarfinu þegar Worth-tímaritið valdi hann sem næstbesta framkvæmdastjóra landsins, aðeins Steve Balmer hjá Microsoft þótti standa honum framar. Fortune-tímaritið valdi fyrirtækið eitt af framsæknustu fyrirtækjum sjötta árið í röð og greiningaraðilar fjárfestingarbankanna mæltu næstum því allir með kaupum í hlutabréfum þess. Bjartsýnin, í það minnsta út á við, var því orðin taumlaus. Skilling hélt því fram á fundi í ársbyrjun 2001 með greiningardeildum að hann teldi að fyrirtækið ætti að vera 50% hærra en þáverandi markaðsvirði gæfi til kynna. Mánuði seinna á fundi með starfsmönnum kom Skilling fram með þá hugmynd að fyrirtækið, sem þau sjálf skilgreindu sem "leiðandi orkufyrirtæki heimsins," yrði einfaldlega skilgreint sem "leiðandi fyrirtæki heimsins," og var þá átt við markaðsvirði. General Electrics hafði þá, sem í dag, þann heiður og var það þá um sexfalt meira virði en Enron. Í stað þess að vaxa með þessum hraða var Enron lýst gjaldþrota áður en árið hafði runnið sitt skeið.

Mikið hefur verið fjallað um aðdraganda og þá atburði sem urðu Enron svo skyndilega að falli. Fáir hafa þó fengið almennilega sýn í þá fléttu atburða með heildrænum hætti, enda var rekstur fyrirtækisins í öllum atriðum afar flókinn. Haustið 2003 kom út bók sem reynir að varpa ljósi á atburðarásina og nefna höfundarnir, Bethany McLean og Peter Elkind, hana því kaldhæðnislega nafni The Smartest Guys in the Room: The Amazing Rise and Scandalous Fall of Enron. Persónur bókarinnar eru svo margar að í upphafi hennar er listi yfir "söguhetjur", svipað og gerist best í rússneskum stórsögum þó svo að fjórir aðilar séu mest áberandi.

Bókin hefst með lýsingu á því að þrátt fyrir allar þær milljónir dollara sem hann hafði áunnið sér hjá Enron ákvað Cliff Baxter, einn af hæst settu yfirmönnum Enron, að fyrirfara sér í ljósi þeirrar auðmýkingar sem fylgdi gjaldþrotinu og til að forðast þær yfirheyrslur sem óumflýjanlega voru framundan. Það upphaf gleymist ekki við lestur bókarinnar; það voru ekki aðeins fjármunir sem töpuðust í miklum mæli, persónulegu harmleikirnir voru einnig margir. Frásögnin snýr svo aftur í tímann og fjallar um tilurð fyrirtækisins frá grunni. Lýst er hvernig Ken Lay smám saman vinnur sig úr því að vera fátækur strákur í að verða forstjóri stórs orkufyrirtækis í krafti dugnaðar og gáfna. Lay byrjaði á því að stækka fyrirtækið hratt með skuldsettum yfirtökum á fyrirtækjum með gastengingar til Kaliforníu og Flórída. Kenningin var að með afléttingu hafta (de-reglulation) kæmi markaðsverð gass til með að endurspeglast í framboði og eftirspurn; þau fyrirtæki sem ættu bestu gastengingarnar yrðu leiðandi í slíku viðskiptaumhverfi. Það kom ekki á daginn. Eftir sameiningu við annað fyrirtæki, sem var síðan nefnt Enron Oil, var Enron fljótlega komið í fjármagnsvandræði. Allar deildir þess skiluðu tapi að einni undanskilinni. Lítil viðskiptastofa þess í Valhalla, úthverfi New York borgar, skilaði miklum hagnaði á stöðutökum tengdum olíu. Því leit Lay í hina áttina þegar upplýsingar um að miðlararnir væru líklega ekki allir þar sem þeir voru séðir. Slíkt kom rækilega í bakið á Enron þegar í ljós kom að miðlararnir höfðu brotið allar innri verklagsreglur og veðjað allt of mikið á lækkun á verði olíu, sem þrjóskulega hækkaði stöðugt í verði. Tapið var það mikið að á tímabili voru heildareignir fyrirtækisins minni en heildarskuldir þess. Þó svo að Lay hafi haldið í framhaldi af því tilfinningaþrungna ræðu með starfsmönnum fyrirtækisins þar sem hann hét því að slíkt kæmi aldrei fyrir aftur átti annað eftir að koma í ljós. Í raun má segja að þar hafi vísirinn að falli Enron strax myndast; skammtímasjónarmið ríkjandi, stjórnleysi, lygar um raunverulega stöðu fyrirtækisins og aðgerðarleysi svo lengi sem menn högnuðust burtséð frá meðulunum til þess.

Lay hóf að ráða til sín vini og kunningja ásamt nýútskrifuðum nemum sem þóttu framúrskarandi. Meðal þeirra voru Rebekka Mark og Jeffrey Skilling. Mark hafði umsjón með samningagerð á alþjóðavísu við kaup Enron á ýmsum virkjunum og fyrirtækjum tengdum orkugeiranum. Hún þótti áköf við samningagerð enda var hún fyrst og fremst verðlaunuð fyrir fjölda samninga, þó svo að mörgum yrði það fljótlega ljóst að oft væri verið að kaupa köttinn í sekknum. Skilling hafði allt aðrar hugmyndir varðandi stefnu Enron. Hann var, eins og Lay, sannfærður um að afnám samkeppnishafta væri á næsta leiti. Því lagði hann áherslu á að efla fyrirtækið á sviði viðskipta með orku, enda augljóst ef slík sýn yrði að veruleika að þar yrði hægt að gera mikil viðskipti. Í fyrstu voru slík viðskipti ábatasöm. Í ofurkrafti þess að fá sem hæsta bónusa sem fyrst voru samningar, jafnvel langtímasamningar, bókfærðir miðað við markaðsvirði, oft reiknaðir út frá eigin líkönum fyrirtækisins. Ekki leið á löngu þangað til að allir langtímasamningar voru bókfærðir miðað við bjartsýnustu spár og tekjufærðir alla sína lífstíð strax. Með því að tekjufæra samninga með þessum hætti varð stöðugt erfiðra að sýna fram á vöxt tekna. Þar sem Skilling einblíndi á skammtímasjónarmið var ekkert svigrúm til að játa minnkandi tekjustreymi. Þegar allir leiðir virtust lokaðar við að auka tekjur Enron kom Andrew Fastow til sögunnar. Hann var snillingur í því að setja saman afleidda samninga sem ekki aðeins huldu minnkandi hagnað heldur einnig auknar skuldir (og hagnaðist sjálfur í leiðinni sem "fjárfestir" án vitundar stjórnar Enron). Með slíkum bókhaldsbrögðum og misnotkun á afnámi samkeppnishafta á orku í Kaliforníu tókst Enron að halda því fram að rekstur fyrirtækisins stæði í blóma í einhvern tíma. Þegar spákaupmenn smám saman komust á sporið hrundi spilaborgin á ótrúlega skömmum tíma eins og alkunna er.

The Smartest Guys in the Room er viðamikil bók sem lýsir í smáatriðum þeim atburðum sem urðu Enron að falli. Það er í raun ótrúlegt hversu mikinn efnivið höfundar hafa tekið saman og komið saman í heilsteyptum verkum á svo skömmum tíma. Persónulýsingar eru sterkar og veita lesandanum innsýn í þá mannlegu þætti sem keyrðu áfram þá tálsýn sem Enron var. Kaflinn "þegar svínin gátu flogið" veitir stórskemmtilega innsýn í það hvernig fyrirtækið gat platað heila hjörð af virtum greiningaraðilum um stöðu fyrirtækisins. Höfundar liggja ekkert á þeim skoðunum sínum að stjórnendur og stór hluti yfirmanna (auk endurskoðenda þess og fjármálafyrirtækja) hafi átt sök á því hvernig fór, þó svo að ekki sé lagður beinn dómur á það hvort þeir allir geti talist vera saknæmir. Fyrir þá sem vilja kynna sér náið upphaf og endalok Enron er því hér um mjög góða bók að ræða.

Birtist í Morgunblaðinu, 9.desember, 2004


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband