Hver ber ábyrgð á skuldastöðu íslenskra heimila í dag? Svarið er íslensk stjórnvöld

Gull, silfur og brons sætin deila Framsóknarmenn, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn.  

 

Árið 2001 hófst sú hættulega þróun sem nú er búin að koma mörgum íslenskum heimilum í skuldafjötra.  Ég vitna í grein sem ég skrifaði sama ár, Hinir skuldugu munu landið erfa, en þar stendur:  

 

...nýlega er búið að setja ný lög um lán frá Íbúðalánasjóði og brunabótamat, sem ... stuðla enn frekar að skuldasöfnun vegna íbúðarkaupa.

...Áhrifin af þessum breytingum verða að hærri lán eru veitt til dýrara húsnæðis en áður, samanborið við ódýrari húsnæði. Það er m.ö.o. verið að gera það hagstæðara fyrir einstaklinga að fjárfesta í dýrara húsnæði en áður á sama tíma og verið er með breytingum á brunabótamati að skerða lán til kaupa á ódýrari húsnæði.

90%

Það hlýtur að vera flestum í fersku minni sú kosningaherferð sem Framsókn stóð fyrir árið 2003.  Hún gekk nánast út á eitt atriði, að allir ættu rétt á að fá sitt eigið þak yfir höfuð sér.  90% lán til allra var auglýst og eins og galdrasprota væri veifað snar jókst fylgi flokksins rétt fyrir kosningar. 

Flokksmenn Framsóknar hafa síðar verið duglegir við veita þá mynd að þeir hafi ekki í raun verið sökudólgar og að ýmis önnur atriði hafi haft meiri áhrif.  Þau rök hófust reyndar ekki fyrr en almenningi var orðið ljóst hversu slæm áhrif þetta loforð hafði.  Hafa þeir aðallega dregið bankanna til ábyrgðar í þeim efnum.  Rökin eru aftur á móti rökleysa. 

Skuldahvetjandi vaxtabótakerfi

Það er merkilegt að enginn íslenskur stjórnmálaflokkur virtist hafa haft þor til að leggjast gegn þessu loforði.  Samfylking, með núverandi forsætisráðherra í fararbroddi, stóð meira að segja föst á því að viðhalda vaxtabótakerfinu, þrátt fyrir að um fjórðungur lána, samkvæmt Samtökum atvinnulífsins eins og sést í grein minni Vaxtabætur – Úrbætur (2002), væri niðurgreiddur af ríkinu.  Samfylkingin, með öðrum orðum, hélt fast í þessa þensluhvetjandi stefnu sem auk þess sendir þau skilaboð að betra sé að skulda en að spara.  Flokkurinn er enn við sama heygarðshornið því nýlega var verið að auka vaxtabætur enn einu sinni – um að gera að skulda sem mest eru skilaboðin.  Ætti ekki að einbeitta sér að þeim sem eru verst settir?

Bankar og stjórnvöld

Bankar hafa verið nefndir sem sökudólgar í þessu sambandi.  Aðkoma þeirra að lánveitingum hófst haustið 2004.  Þetta var í mínum huga glapræði – sjá grein mína Skuldabyrði heimilanna – sem gæti aðeins endað illa.  Stjórnvöld virtust ekki þó ekki hafa sérstakar áhyggjur af þessu.  Ágreiningurinn snérist í raun fyrst og fremst um það hvort að leggja ætti Íbúðalánasjóð (ÍLS) niður og færa alla þjónustuna til fjármálafyrirtækja eða ekki.  Það sem meira er, ÍLS fjármagnaði mörg þessara lána fjármálafyrirtækja svo að þau gætu veitt enn fleiri lán.  Þessi hringrás olli enn frekari þenslu og hækkun á húsnæðisverði. 

Ég vitna í orð mín í Skuldabyrði heimilanna - Það er umhugsunarefni að ekkert ráðuneyti virðist hafa tekið saman skýrslu um  áhrif vegna tilgreindra kerfisbreytinga á hinu opinbera íbúðalánakerfi.  Var ekki augljóst að með við því að rýmka lánaheimildir Íbúðalánasjóðs myndi verðbólguþrýstingur aukast um árabil?  Með því að soga öllu þessu lánsframboði til sín, hafði engin áhyggjur af því að bankar færu inn á þennan markað?  Því má við bæta að yfirdráttarlán minnkuðu mjög í kjölfar aukins lánsframboðs á betri kjörum, aðeins til að fara aftur í sömu hæðir tæpum 2 árum síðar. 

Ég spyr aftur, tók ekkert ráðuneyti saman slíka skýrslu?  Ef svarið er nei, hví ekki?  Ég tel að svarið sé einfaldlega að það sé af því að enginn flokkur hafði þor til að taka rétt á málinu því það myndi vera til skemmri tíma óvinsælt.

Erlend lán

Þegar að Seðlabanki Ísland fór að lýsa yfir áhyggjum af þenslu hérlendis og hóf feril vaxtahækkana tók við enn verri þróun, þ.e. erlend lán.  Þar með féllu íslensk heimili í sömu gryfju og fólk erlendis.  Ofurlágt vaxtastig í USA og Evrópu gerði það að verkum að greiðslumöt voru í besta falli óáreiðanleg, því í þeim var gert ráð fyrir að vextir gætu ekki hækkað á nýjan leik.  Hér var reyndar auk þess gefin sú hættulega forsenda að íslenska krónan gæti ekki veikst á nýjan leik!  Einhver vafi (sjá færslu Guðmundar Ásgeirssonar) virðist m.a.s. vera um það hvort að slík lán væru lögleg. 

Hefði ekki verið rétt að skrúfa fyrir þessa tímasprengju.  Ekki ætla ég að afsaka stefnu fjármálastofnanna en áttu stjórnmálamenn ekki að taka á þessu?  Kannski er ekki við slíku að búast þegar að í ljós hefur komið að margir stjórnmálamenn tóku sjálfur slík lán. 

Það birtist bæði forsíðufrétt og heilsíðu grein eftir mig, Varað við erlendum skuldum,  í 24 stundum vorið 2007 þar sem ég varaði við erlendum lántökum.  Lestur blaðsins var minni en hjá Fréttablaðinu og Morgunblaðinu en það munaði ekki miklu.  Ég er því enn að velta því fyrir mér af hverju enginn stjórnmálamaður hafi notað tækifærið og hafið umræðu á þessu.  Getur verið að samskipti þeirra við banka hafi haft eitthvað um þetta að segja? 

Hver ber ábyrgðina?

Íslensk heimili bera að sjálfssögðu hluta af ábyrgðinni.  Margir fóru allt of geyst í lántökur og er hrikalegt að hugsa til erfiðleika þess fólks í dag.  Það er hins vegar svo að ófáir tóku lán í góðri trú að slíkt væri skynsamlegt.  Stanslaus áróður um að íbúðaverð gæti ekki lækkað, fjárfesting í húsnæði væri skynsöm og þannig tal glumdi frá stjórnvöldum.  Því er staða margra sem töldu sig vera á skynsömum nótum slæm. 

Þeir 3 flokkar sem voru við stjórn á þessu tímabili bera ábyrgðina.  Undanfarið hefur verið talað um að nauðsynlegt væri að biðjast afsökunar á því að verjast ekki bankahruninu.  Ég spyr, er ekki enn meiri ástæða að biðjast afsökunar á skuldastöðu heimila í dag?

Lausnir

Þær lausnir sem flokkarnir hafa hingað til komið með eru slakar, verri og 20% “leiðrétting”.  Margir hafa furðað sig á því að enginn flokkur virðist geta komið með lausnir í sambandi við skuldastöðu heimila.  Spurningin ætti frekar að vera hvort að líklegt sé að sömu flokkar sem komu okkur í þetta kviksyndi séu líklegir til að koma okkur úr því.

Athugasemd 15.5.2009:  Þetta var upprunaleg fyrsta setning:  Fremstir í flokki eru Framsóknarmenn, silfur og brons sætin fá Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn. Eins og sést voru ekki allir sáttir með þetta og voru Framsóknarmenn skiljanlega fremstir í flokki.  Voru heitar umræður um þetta í athugasemdadálknum.  Ég hef breytt þessari setningu og gef öllum flokkum 1-3 verðlaun.  Þó svo að Framsókn hafi að mínu mati komið skriðunni af stað þá gerðu hinir flokkarnir ekkert í málunum og tóku svo þátt í þeirri óheilla þróun sem átti sér stað næstu árin.  Því er upprunaleg setning mín ekki sanngjörn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Hárrétt Már!  Og enn þann dag í dag eru þeir þrír flokkar sem mesta ábyrgð bera á lagaumhverfinu þrír af stærstu fjórum flokkunum.

Axel Þór Kolbeinsson, 22.4.2009 kl. 00:09

2 identicon

"Þær lausnir sem flokkarnir hafa hingað til komið með eru slakar, verri og 20% “leiðrétting”.  Margir hafa furðað sig á því að enginn flokkur virðist geta komið með lausnir í sambandi við skuldastöðu heimila"

Er ekki bara málið að það er enginn "góð" lausn til, hvað þá einhver patent lausn?

Tómas (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 08:42

3 identicon

Íbúðarlánasjóður gat í fæstum tilvikum veitt 90% lán ástæða er sú að lánað var að hámarki 18 millj (á þeim tíma) sem þýðir að verð íbúða gat að hámarki verið 20 millj ef 90% áttu að nást og í annan stað var krafa um 1. veðrétt þannig að ef keypt var dýrari eign sem veðsett var með láni frá annarri lánastofnum fyrir framan skertist lán Íbúðalánasjóðs þannig að þeir sem voru að kaupa eignir á 38 millj eða meira gátu ekki tekið lán hjá íbúðarlánasjóðu ef þeir þurftu meira lánsfé eða 90% sem væri 34,2 millj. Alveg með ólíkindum hvað þetta vefst fyrir þeim sem eru að hygla bönkunum vegna fyrri útlánastefnu þeirra til að drepa Íbúðalanásjóð. Hvar eru bankavitringarnir núna,  á uppboðum??? 

elli (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 10:13

4 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

elli - þetta er rétt hjá þér, aðkoma bankanna að íbúðarlánum var eins og olía á eldinn.

Axel - takk!

Tómas - þú hittir naglann á höfuðið. 

Sigurður Hermannsson sendi athugasemd við aðra grein mína, 20%/jeppar, sem ég vona að sé í lagi að birta hér líka.

Það sem fólk er að gleyma er að umræðan um skuldirnar er spurning hver eigi að taka skellinn.

Option 1.

Gera ekki neitt og setja u.þ.b. 15-20% af fasteignaeigendum á höfuðborgarsvæðinu á hausinn.  Stærsti hópurinn er ungt fólk á aldrinum 25-35 ára með góða menntun.  Þetta er lausn út af fyrir sig og afleiðingarnar eru líka þekktar - unga fólkið fer erlendis (sjá t.d. eftir þrot Færeyja og týnda kynslóðin þar).  Hversu mikils virði er ungur menntaður einstaklingur fyrir þjóðfélagið?

Option 2.

Fella niður skuldir.  Einnig slæmt því til að það sé hægt þarf að leita í vasa sparifjáreiganda, lífeyrissjóði og í ríkiskassann (hærri skattar).  Afleiðing til langs tíma er það að við Íslendingar lærum aldrei af reynslunni og við lendum í öðru svona skuldasukki vegna þess að heil kynslóð er alin við það að þurfa ekki að taka afleiðingum skuldasöfnunar.

Option 3.

Gjaldþrota leiðin, þ.e. fólk er ekki gert gjaldþrota heldur eru einfaldlega gerð "eignalaus" þ.e. húsið, jeppinn og allur pakkinn tekinn af þeim og skuldir umfram það afskrifaðar.  Þetta þýðir það að ef fólk á eitthvað eigið fé í þessum eignum heldur það áfram að borga af sínum lánum og þau á endanum innheimtast 100% en hinir sem eiga í raun ekki neitt eru gerðir eignalausir og þurfa að byrja upp á nýtt.  Þetta er ódýrasti kosturinn (það þarf hvort sem er að afskrifa helling í öllum þeim gjaldþrotum sem framundan er) og ætti að koma í veg fyrir mesta fólksflóttann.

Ljóst er að þær lausnir sem komu okkur í þennan vanda eru vart lausnirnar til að koma okkur úr honum.

Már Wolfgang Mixa, 22.4.2009 kl. 11:16

5 identicon

Ég er einn af þessum skuldugu (ungu, menntuðu) einstaklingum. Ég keypti hús fyrir réttum 2 árum og fjármagnaði að mestu með verðtryggðum lánum í krónum. Ég er í góðri vinnu og á ekki í neinum vandræðum með afborganir, en eiginfjárstaðan er líklega neikvæð.

En ég skuldsetti mig alls ekki hugsunarlaust. Ég reiknaði út hvað þyrfti að gerast í hagkerfinu til þess að ég yrði gjaldþrota (þ.e.a.s. að skuldir yrðu umfram eignir). Ég komst að því að annaðhvort þyrftu uppsafnaðar verðbætur af lánum að komast í c.a. 50% af höfuðstól eða að íbúðaverð myndi lækka um 50% (eða einhver blanda af þessu tvennu).

Ég skoðaði líka hverjar líkurnar væru á að þetta gerðist. Þá gat ég skoðað upplýsingar frá Seðlabankanum, Hagstofu, Fjármálaráðuneyti og greiningardeildum bankanna. Ekkert benti til þess að nokkuð af þessu tagi gæti gerst. En ég man að ég spurði sjálfan mig hvort ég gæti treyst greiningardeildunum og ríkisstjórninni, en ég efaðist ekki um seðlabankann og hagstofuna. Fljótlega eftir að ég samdi um húsakaupin byrjuðu dönsku blöðin að spá ragnarökum á Íslandi.

Skortur á traustum, óháðum og áreiðanlegum greiningaraðlia (lesist þjóðhagsstofnun) á líka sinn þátt í skuldsetningu heimilanna (allavegana míns heimilis).

Jens (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 12:01

6 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Jens, þetta er góður punktur hjá þér.  Erfitt er að finna aðila (óháðum og áreiðanlegum greiningaraðlia (lesist þjóðhagsstofnun)) sem er tilbúinn til að koma með svartsýnar spár sem eru í andstöðu við allar (aðrar) opinberar upplýsingar og umræðu fjölmiðla. 

Ef ég man rétt þá sýndi haustskýrsla Landsbankans árið 2007 þróun íbúðaverðs á Íslandi og önnur ríki.  Ég taldi grafið vera skýrt hættumerki en fáir veittu því eftirtekt.  Þegar að Seðlabanki Íslands spáði miklum lækkunum í virði fasteigna í lok árs 2007 fékk bankinn skammir.  Nú er ég ekki viss um að það hafi verið í verkahring hans að gera slíkt en þetta lýsir vel þeim tíðaranda sem ríkti.

Már Wolfgang Mixa, 22.4.2009 kl. 12:41

7 Smámynd: Ísleifur Gíslason

Már þú ert góður !

Ísleifur Gíslason, 23.4.2009 kl. 13:13

8 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

Bíðum við, ritskoðarðu sjálfan þig? Settir hérna inn frámunavitlausa grein í gær og fékkst komment við en nú er greinin og auðvitað kommentin horfin líka.

Skrifar svo núna einhvern doðrant og vitnar statt og stöðugt í sjálfan þig! Merkilegur andskoti þetta. Já og þessi grein er engu minna vitlaus heldur en hin.

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 24.4.2009 kl. 12:53

9 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Snæþór, þetta var einfaldlega slök grein hjá mér í gær og tók ég hana því út - hef gert slíkt áður.  Greinin var fyrst og fremst að vísa í þessa grein en athugasemd frá (Framsóknar)manni sem ég hef mikið álit á fékk mig til að endurskoða færsluna með þessum hætti.

Már Wolfgang Mixa, 24.4.2009 kl. 14:52

10 Smámynd: Agnar Bragi

Varðandi 90% lánin lestu þetta:

http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/575944/ 

og svo þetta: 

Framsóknarflokkurinn er fulltrúi skynseminnar, ábyrgrar félagshyggju og uppbyggingar á innviðum þjóðfélagsins. Við stundum okkar kosningabaráttu með uppbyggingu og jákvæðni, sanngirni og mannlegri virðingu, og að takast á um málefni og hugmyndir. Við höfnum neikvæðri kosningabaráttu þó að það sé staðreynd að sumir flokkar nái atkvæðum á þann hátt.Framsóknarflokkurinn á merkilegustu sögu íslenskra stjórnmálaflokka, með uppbyggingu mennta- og heilbrigðiskerfisins, nýtingu náttúruauðlindanna og grunnurinn að sterkri sjálfsmynd og stöðu okkar sem þjóðar í alþjóðasamfélaginu. Við erum félagshyggjuflokkurinn sem skilur sambandið á milli atvinnuuppbyggingar og velferðar. Framsóknarflokkurinn leggur áhersluna á skynsemina og hið stóra samhengi hlutanna. Í stjórnmálum nútímns er það kannski ekki alltaf sú leið sem er vænlegust til flestra atkvæða, í samburði við flokka sem segja allt við alla og mismunandi hluti á mismuandi stöðum til að ná að hreppa atkvæði fólks, en engu að síður hin rétta leið.

Framsókn virðist vera eini stjórnmálaflokkurinn sem ætlar að verða við kröfu almennings um breytingar og að leiða ungt fólk til áhrifa. Glæsileg er ákvörðun formanns Framsóknarflokksins að bjóða sig fram í Reykjavík á stað þar sem flokkurinn hefur ekki þingsæti nú um stundir. Það er í höndum okkar Reykvíkinga að styðja við bakið á Sigmundi Davíð og fleyta honum og sem flestum framsóknarmönnum inn á þing í kosningunum á morgun. Saman munum við berjast fyrir leiðréttingu lána vegna ósanngjarnrar vísitöluhækkunar, stjórnlagaþingi til að bæta pólitíska siðmenningu á Íslandi, atvinnuuppbyggingu og nýtingu náttúruauðlindanna til hagsbóta fyrir alla og loks standa vörð um heilbrigðis- og menntakerfið sem flokkurinn hefur átt svo stóran þátt í að móta. Ennfremur er Framsókn best treystandi til að leiða aðildarviðræður við Evrópusambandið þar sem flokkurinn hefur einn flokka skilgreint samningsmarkmið og stendur í báðar lappirnar varðandi íslenska hagsmuni í ferli sem síðan verður lagt í dóm þjóðarinnar. Ég trúi því að skynsemi, traust og mannleg virðing muni skila sér þegar fram í sækir því annars verður veröldin okkar fátækari.

Verum framsækin og ábyrg í öllu sem við gerum. Það er leiðin okkar!

Agnar Bragi, 24.4.2009 kl. 15:53

11 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Sæll Agnar,

Nú er ég ekki einungis að gagnrýna Framsókn þó að spjótin beinist vissulega mikið að flokknum.  Neikvæðu athugasemdirnar sem ég fæ eru hins vegar nánast undantekningarlaust frá XB fólki - og undantekningarlaust eru svörin á þá leið að 90% loforð þeirra árið 2003 komi málinu ekkert við (ein undantekning á þessu). 

Ég las þetta varðandi 90% lánin og fannst umræðan í athugasemdum áhugaverð.  Læt hana því fylgja hér með og hef feitletrað orð Hinriks Pálssonar (sem ég þekki vel að merkja ekki) sem fjallar um þetta á skynsömum nótum:

Það er von að umræðan um þessa atburðarás sé heit, enda afar mikilvægt mál á ferðinni. 

Ég er sammála þér Hallur um rétta tímasetningu atburða. Ekki dreg ég heldur í efa að tölur sem þú setur fram um hlutdeild ÍLS annars vegar og bankanna hins vegar í útlánum séu réttar.

Þó að Þórólfur gerist hugsanlega sekur um ónákvæmni í tímaröð atburða, þá er ég sammála greiningu hans að innkoma bankanna á markaðinn var að sjálfsögðu svar við fyrirætlunum stjórnvalda.

Það kemur skýrt fram í stjórnarsáttmálanum frá 2003 hvað stjórnvöld ætluðust fyrir, í samræmi við kosningaloforð Framsóknarmanna um 90% lán:

"Að haldið verði áfram endurskipulagningu á húsnæðismarkaði í samræmi við markmið um Íbúðalánasjóð. Lánshlutfall almennra íbúðalána verði hækkað á kjörtímabilinu í áföngum í allt að 90% af verðgildi eigna, að ákveðnu hámarki. Leigumarkaður íbúðarhúsnæðis verði efldur." (Úr Stjórnarsáttmála 2003, sjá http://www.stjornarrad.is/Stefnuyfirlysing/nr/138)

Það að ÍLS var ekki byrjaður að lána 90% er í raun aukaatriði, því að bankarnir vissu í hvað stefndi og viðbrögð þeirra urðu að koma inn á markaðinn af krafti.

Umræðan er því að mínu mati á villgötum þegar verið er að togast á um hvort ÍLS eða bankarnir eigi sökina.  Ábyrgðin liggur fyrst og fremst hjá þeim stjórnmálamönnum sem mörkuðu þessa stefnu og þeirri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks sem sat á þessum tíma.  

ÍLS og bankarnir voru einingis að sinna sínum hlutverkum innan þess ramma sem lög og reglur setja þeim, þ.e. ÍLS að lána skv. reglum og fyrirmælum stjórnvalda og bankarnir að slást um hlut af kökunni á markaði. 

Þegar bankarnir komu inn á markaðinn af fullum krafti brugðust þeir aðilar sem áttu að gæta hagsmuna almennings og þar er þáttur Seðlabankans stór.  Hann gerði ekkert til að hefta gríðalegt innflæði erlends fjármagn, t.d. með því að beita bindisskyldu og öðrum tiltækum ráðum.  Slíkt aukið peningamagn í umferð er einingis ávísun á verðbólgu og nú súpum við seyðið af þessari atburðarás. 

Þessi heimatilbúni vandi, sem okkar ágæti hagfræðingur Jónas Haraldz hefur lýst sem miklu slysi í efnahagsstjórn, gerði það svo að verkum að íslenska hagkerfið stóð verulega höllum fæti þegar, lánsfjárkreppan skall á. 

Hinrik Pálsson (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 01:48

14 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti Hinrik.

Af hverju þurftu bankarnir að koma inn á þennan markað af þetta miklum krafti?

Bankarnir höfu ekki verið á þessum markaði.  Þeir höfðu einungis 5% markaðshlutdeild - og höfðu haft um langa hríð möguleika á að setja lán sín á 1.veðrétt á undan húsbréfalánum ÍLS á millistórum og stærri eignum - og þannig notið óbeinnar ríkisábyrgðar. Þeir gerðu það ekki.

Vextir svokölluðu íbúðalána bankanna var á bilinu 8 - 9,5% - verðtryggt!

Ástæða 90% lána til kaupa á hóflegri íbúð var einmitt skortur á eðlilegum íbúðalánum bankanna - vegna fjarveru þeirra!!!

Við breytingar á húsbréfakerfinu yfir í peningalán var einmitt sérstaklega gætt að því að lán Íbúðalánasjóðs væru ekki hindrun fyrir mögulega innkomu bankanna. Unnt var að greiða up plán ÍLS án kostnaðar hvenær sem er - einmitt þess vegna!

Í viðræðum við bankanna var jafn ljóst að ef bankarnir kæmu inn á markaðinn á 2.veðrétt á eðlilegum kjörum - þá yrði ekki ástæða til að hækka hámarkslán ÍLS - bankarnir gætu komið inn á þennan markað með heildstæð lán á milli eignir og stærri eignir - og þróunin gæti orðið sú að almenn lán færðust yfir til bankanna.

Þannig að innkoma bankanna væri viðbragð við 90% lánum ÍLS er bull. Innkoman varð í reiðikasti - nánast óundirbúin-  þegar ESA hafði úrskurðað starfsemi ÍLS stæðist ríksistyrktarreglur EES. Bankarnir trúðu því að ÍLS yrði hent út af almenna íbúðalánamarkaði - og að þeir gætu komið inn á miklu mun hærri vöxtum en þeir gerðu á sínum tíma.

Hallur Magnússon, 1.7.2008 kl. 09:26

Sæll Hallur

Ég get tekið undir með þér að bankarnir hafa jafnan verið að horfa til þess að losna við ÍLS útaf markaðnum með gagnrýni á að starfsemin standist ekki ríkisstyrktarreglurnar.

Reiðkast bankanna - það kann e.t.v. að vera hluti af skýringunni.    Bankarnir buðu áður íbúðalán á vöxtum sem voru engan veginn samkeppnishæf við ÍLS og eins og þú rekur að ofan var markaðshlutdeild þeirra í beinum íbúðalánum lítil.

Sá hlutur bankanna á lánamarkaði sem 90% lánin hefðu hugsanlega hoggið í var ekki sá sem laut að íbúðalánum með veð í þeirri eign sem fólk var að kaupa.  Fólk fékk gjarnan lánað 65-70% hjá ÍLS, en átti oft ekki nægt fé til að brúa bilið.  Bankarnir höfðu haft umtalsverð viðskipti af því að lána fólki fyrir því sem uppá vantaði.  Sérstaklega held ég að það hafi verið algengt hjá ungu fólki (ég þekki af eigin reynslu og fleiri í kringum mig) að brúa það sem uppá vantaði með því að fá "lánað" veð, t.d. hjá foreldrum o.s.frv. og fá þannig lánafyrirgreiðslu hjá bönkum og lífeyrissjóðum.  Einnig þekktist að fólk væri jafnvel að fjármagna hluta af íbúðakaupum með yfirdráttarlánum, sem bankarnir auðvitað mylja gull á.

Það eru einmitt þessi viðskipti sem ég held að bankarnir hafi séð fram á missa.  Mig grunar að það hafi fyrst og fremst verið yngra fólk sem var að kaupa minni eignir, e.t.v. sína fyrstu íbúð, sem hafi notað þessa leið.  Og þetta er einmitt fólkið hefði haft mest gagn af 90% lánunum. Því get ég ekki tekið undir skýringu þína Hallur að 90% lánin hafi ekkert haft með þetta að gera.

Bankarnir eru auðvitað bara að slást við ÍLS á þessum markaði og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það.  Þeir höfðu aðgang að ódýru fjármagni erlendis og það var einnig forsenda þess að þeir gætu yfirhöfuð komið svona sterkt inn.  Það höfðu þeir ekki haft áður.  Það má þó að sjálfsögðu gagnrýna þá fyrir að hafa farið fram af óskynsemi í að ausa erlendu fjármagni inn í hagkerfið.  Þar átti hins vegar Seðlabankinn að stöðva þá, en því miðust brást það.  Mér finnst mjög mikilvægt að menn gleymi ekki hlut þeirra sem setja leikreglunar fyrir bankana og ÍLS.  Ef einhverjir eru sökudólgar í málinu eru það ekki ÍLS eða bankarnir, heldur miklu fremur stjórvöld og Seðlabankinn.

Persónulega er ég eins og staðan er í dag á móti því að leggja niður ÍLS.  Þar sem fákeppni er mjög mikil á bankamarkaði held ég að neytendur á íbúðamarkaði yrðu afar illa settir án ÍLS.  Að mínu áliti kemur það vart til greina að breyta hlutverki ÍLS yfir í gegna eingöngu félagslegu hlutverki, nema ljóst sé að alvöru samkeppni ríki á lánamarkaðnum.  Sú samkeppni mun varla koma nema erlendis frá. Það mun þó vart gerast fyrr en við höfum tekið upp annan gjaldmiðil.

Þakka annars fyrir góða umræða og skjót svör.

Hinrik

Már Wolfgang Mixa, 24.4.2009 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband