Lífeyrir

Inga Jessen spurði nýlega hvort ríkið tryggði séreignarsparnað fólks.  Hún segir orðrétt:  Þegar ríkið gerir að lögum að vinnuveitendum sé skylt að greiða 2% mótframlag í séreignasparnað og ýtir þess vegna undir að fólk nýti sér það, ætti séreignasparnaðurinn þá ekki að vera tryggður eins og innistæður?

 

Svarið við spurningunni er nei.   Slíkt hafa aðeins ríkistryggð bréf borið og í haust hlutu innstæður í íslenskum bönkum sömu vernd.

 

Því má spyrja hvort að þær stefnur sem hafa verið viðloðandi í viðbótarlífeyrissparnaði hafi verið nægjanlega vel ígrundaðar.  Þó svo að þær eigi að heita langtímaávöxtun þá er staðreyndin sú að fjárfestingartímabil fólks eru oft töluvert styttri en það gerir ráð fyrir í upphafi sparnaðar.

 

Besta/skynsamasta leiðin í dag virðist vera einfaldlega sú að kaupa einungis ríkistryggð bréf og er það mikið auglýst (sjá grein að neðan) þessa daganna.  Þessi aðferð uppfyllir öll þau skilyrði sem Inga ber upp, þ.e. að inneign sé tryggð af ríkissjóði.  Þetta er þó ekki svo einfalt.  Ríkið gæti einn daginn lent í þeirri stöðu að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar.  Núverandi lánshæfismat gefur til kynna að slíkt sé alls ekki óraunhæft næstu 12 mánuði, hvað þá næstu 20 ár.

 

Því er nauðsynlegt að dreifa fjárfestingum í erlend verðbréf.  Með því að hafa slíkar fjárfestingar óvarðar hvað gjaldeyri varðar þá felst óbein vörn í því að þegar að hér fari allt á hliðina þá veikist krónan og erlendar eignir (í krónum talið) aukast í virði.

 

Því má segja að besta "tryggingin" í sparnaði sé að mestu leyti sambland af ríkistryggðum bréfum og traustum erlendum eignum.  Þetta á ekki aðeins við um séreignasparnað heldur einnig lífeyrissparnað.  Heilsíðugrein varðandi þau sjónarmið mín er í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.

 

Því má við bæta að einnig kemur fram í Morgunblaðinu í dag sú hugmynd að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði.  Nú ætti að vera augljóst að stór hluti af núverandi vanda hefur verið sú stefna að umbuna skuldsetningar og letja fólk til sparnaðar.  Á virkilega að taka á vandanum með því að draga enn frekar úr hvata sparnaðar? 

 

Að lokum - að neðan er grein sem ég upphaflega birti 2.5.2007.  Í henni er varað við að fylgja fjárfestingarstefnum sem hverju sinni virðast vera skynsamar og réttar. 

 

Umfjöllun um fjárfestingar
Sjónvarp, auglýsingar og verðbréf 
Oft er það svo að verðbréfin sem mest er fjallað um í samfélaginu eru þau sem hafa veitt bestu ávöxtun síðustu mánuði og ár.  Það merkilega við slíkar umræður er að þegar umræðan nær hámarki þá er það oftar en ekki merki um að hámarkinu í gengi þeirra sé í þann mund að nást. Mörgum er sjálfssagt enn minnisstætt þegar að Kastljós fékk í upphafi ársins 2000 sérfræðinga til sín vikulega til að velta fyrir sér bestu kaupin á markaði hverju sinni.  Umræðan í þjóðfélaginu snérist um verðbréf og skjótfenginn gróða.  deCODE genetics og OZ  voru meðal félaga sem fjallað var mest um.  Fyrra félagið hefur enn ekki sýnt hagnað og hitt er fyrir löngu gjaldþrota.  Margar hlutabréfavísitölur eru enn lægri en þær voru á þessu tímabili, meira en 7 árum síðar. 
Auglýsingar
Jafnan er samhengi á milli þess hvað mest er fjallað um hverju sinni og hverskonar verðbréfaafurðir eru auglýstar hverju sinni. (aðeins óljóst hvað þú átt við)  Það er staðreynd að í verðbréfageiranum er það ávöxtun síðustu mánaða sem selur best og því einblína flestar auglýsingar á  þær afurðir sem veitt hafa bestu ávöxtun síðustu 6 til 12 mánuði, þrátt fyrir að í raun og veru sé velgengni fortíðarinnar ekki alltaf besti mælikvarðin á framtíðar velgengi (hérlendis leyfa sum fjármálafyrirtæki sér meira að segja að uppreikna 1 mánaðar ávöxtun í heilt ár til að ná athygli fjárfesta).  Eftirfarandi dæmi sýna að oft hefur það reynst vera léleg fjárfestingarstefna að fylgja því sem fjármálafyrirtæki auglýsa mest í fjölmiðlum hverju sinni.  
Erlendir valréttir
Rétt fyrir aldamót, þegar að erlendar hlutabréfavísitölur hækkuðu nær látlaust, voru erlendir valréttir auglýstir svo mikið að það kom fyrir að 3 fjármálafyrirtæki auglýstu þá í sama Morgunblaðinu.  Ég minnist þess ekki að hafa séð slíka auglýsingu nú í mörg ár en þær hefðu verið frábærar fjárfestingar árin 2002 og 2003 þegar að umræðan um hlutabréf var sem neikvæðust. 
Tæknisjóðir
Slíkir sjóðir voru mikið auglýstir, meðal annars í sjónvarpinu, í kringum aldamótin.  Þarf að fara mörgum orðum um ávöxtun þeirra? 
Íslensk skuldabréf
Eftir að hlutabréf bæði hér og erlendis höfðu tekið mikla dýfu niður á við höfðu skuldabréf aftur á móti veitt góða ávöxtun árin 2001 til 2005.  Í framhaldi af því fóru verðbréfafyrirtæki smám saman að einblína á að auglýsa skuldabréfasjóði sem virtust  vera álitlegri kostur en verið höfðu í fjölda mörg ár.  Sjálfur stóð ég við gerð einnar herferðar og hringdi fólk í framhaldi af því og spurði um væntingar mínar um árið sem var framundan.  Þó svo að þær væru hæfilegar bjartsýnar þá varð ávöxtun næstu 12 mánuði miklu betri.  Þá fyrst dundi auglýsingaherferðir skuldabréfasjóða yfir.  Þó svo að ávöxtun þeirra geti ekki verið lýst sem hræðilegri frá þeim tímapunkti þá er aftur á móti hægt að fullyrða að hún hafi verið dræm. 
Íslensk hlutabréf
Hlutabréfasjóðir sem fjárfesta í íslenskum hlutabréfum voru mikið auglýstir fyrstu mánuði síðasta árs enda höfðu íslensk hlutabréf veitt einstaka ávöxtun síðustu tvö ár (svo einstök var ávöxtunin að bandarísk hlutabréf veittu aldrei á tveggja ára tímabili jafn góða ávöxtun á síðustu öld).  Eftir að hlutabréf höfðu aftur á móti fallið mikið sáust slíkar auglýsingar hins vegar ekki lengur.


 

Hvað er mest auglýst í dag?

Það er eðlilegt að velta því fyrir sér hvað sé mest auglýst í dag?  Samkvæmt ofangreindu eru það fjármálaafurðir sem fólk ætti í það minnsta að hugsa sig vandlega um áður en það setur mörg egg í þær körfur. 

Íslenskir valréttir

Það er forvitnilegt að sjá valrétti auglýsta á nýjan leik.  Nú eru þeir tengdir við íslensk hlutabréf,  sem hafa hækkað aftur í sögulegar hæðir.  Höfuðstóllinn tapast ekki en þegar að hægt er að fá í kringum 13-14% ávöxtun inn á bankabók í dag þá er ljóst að raunveruleg eign í lok samningstímabils valréttar getur hjaðnað verulega. 

Erlend lán (aðallega húsnæðislán)

Rétt er að gera örlítinn formála á þessu.  Hér er ekki um almenn verðbréf að ræða en engu að síður fjármálaafurð.  Kannanir gerðar um aldamótin gáfu sterklega til kynna að flestir töldu hlutabréf vera bestu langtímaávöxtunina.  Enda var það svo að flestir á Íslandi sem tóku þátt í reglubundnum sparnaði, til að mynda séreignalífeyri, settu mestan pening sinn í hlutabréf.  Ekki liðu meira en tvö ár áður en að viðhorf til hlutabréfa höfðu snúist nánast um 180 gráður.  Það voru jafnvel dæmi um að fólk flutti fjármagn sitt úr hlutabréfum, þegar að þau voru miklu verðminni en áður, yfir í tryggari fjárfestingakosti en þó ekki nauðsynlega betri kosti.  Þetta mótaðist að stórum hluta af því að margir höfðu um nokkurt skeið ávaxtað sitt pund vel í hlutabréfum og fleiri vildu taka þátt í leiknum, oft með vanmat á áhættu tengdum hlutabréfafjárfestingum.   

Mér finnst óþægilega lík þróun vera farin að myndast varðandi húsnæðislán í erlendum myntum.  Í fjöldamörg ár hafa sumir hagnast gríðarlega á því að skuldsetja sig í erlendri mynt.  Þetta tímabil hefur nú varað það lengi að varnaðarorð um gengisáhættu eru farin að verða sífellt veikari.  Bæði eru þeir sem hafa haldið aftur af fólki orðnir þreyttir á því að sjá ráðgjöf sína skila litlu og þeir sem hafa hlustað á varnarorð eru farnir að efast um réttmæti þeirra, erlendar lántökur hafa jú verið hagstæð í samfelld 5 ár.  Það að erlendar skuldir heimila hafa aukist um rúmlega 150% síðustu 12 mánuði er vísbending um að margir hafi ákveðið að tími sé kominn til að taka þátt í þessum leik. 

Nýlega sá ég sjónvarpsauglýsingu þar sem verið var að bjóða uppá erlend lán til íbúðakaupa.  Hjá sumum eru aðstæður þannig að slík lán, jafnvel með gengisáhættu, eru ekki óskynsamleg vegna þess að ef vel gengur getur ávinningur orðið talsverður.  Það er aftur á móti forvitnilegt að vita hvernig afstaða fólks í raun verður ef íslenska krónan veikist skyndilega mikið, sem eykur höfuðstól lánanna. Tökum dæmi hjón sem kaupa 20 milljóna króna hús og taka 90% lán, fjármagnað í erlendri mynt.  Eigið fé fólksins í húsinu eru 2 milljónir.  Nú gerist hið óvænta að aðeins 12 mánuðum eftir að lánið var tekið hefur íslenska krónan veikst um 20% og höfuðstóll lánsins hækkað samsvarandi mikið.  Þetta gæti virst vera óhugsandi en ætti þó ekki nauðsynlega að koma á óvænt; veiking krónunnar sem átti sér stað á tímabilinu 2000 til 2001 var t.d. meira en þetta.  Í stað þess að eiga 2 milljónir í húsnæðinu þá skulda þau svipaða upphæð 12 mánuðum síðar. 

Í slíkri aðstöðu er líklegt að margir, burtséð frá skynsemi slíkra ákvarðana, umbreyti erlendum lánum sínum í íslensk lán til að forða sér frá enn frekari skuldasöfnun.  Viðhorfið gagnvart áhættu tengdum erlendum lántökum gæti umbylst með svipuðum hætti og átti sér stað varðandi hlutabréf fyrir nokkrum árum síðan.  Slík viðhorfsbreyting getur í raun stigmagnað áhrifin því ef fólk fer að greiða upp erlend lán veikist íslenska krónan enn frekar. 

Hvað skal gera?

Því miður hef ég ekki áreiðanlega kristalskúlu á borði mínu.  Hugsanlega eiga íslensk hlutabréf eftir að hækka enn meira og valréttarsamningar sem nú eru sem mest auglýstir skili viðunandi ávöxtun.  Varðandi húsnæðislánin þá hafa margir virtir sérfræðingar spáð fyrir um veikingu krónunnar lengi vel án þess að slíkt hafi gengið eftir.  Þó að slíkir spádómar hafi ekki ræst hingað til er ekki þar með sagt að þeir rætist ekki í framtíðinni.  Reyndar gerist það oft að loksins þegar að þeir rætast þá gerist það með meiri hvelli en flestum grunar.  Því er rétt að minna á söguna um strákinn sem stöðugt kallaði úlfur, úlfur.  Úlfurinn kemur að lokum og étur þá sem eru síðastur í röðinni.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband