Joseph Stiglitz - vatnaskil skilgreind

Á vefsíðu Egils Helgasonar kemur fram að Stefán Snævarr, heimspekingur og háskólaprófessor í Noregi, telji að fundurinn með Joseph Stiglitz í gær hafi það mikla þýðingu að þarna hafi myndast vatnaskil í efnahagslegri umræðu á Íslandi.

Margt áhugavert kom fram í máli Stiglitz.  Hann ræddi meðal annars um tilhneiginguna að 'nú væri þetta öðruvísi' (sagt hefur verið að setningin This Time It's Different séu 4 dýrustu orð fjármálasögunnar) sem skóp umræðuna í aðdraganda þessa hruns sem og flestra annarra.  Hann gerir lítið úr skýringunni að núverandi hrun hafi verið eins og ófyrirséð fárviðri, sem margir hafa gripið til í umræðunni.  Hrun er ekki eitthvað sem gerist á 100 ára fresti, eins og óvæntur stormur, heldur eitthvað sem gerist reglulega, m.a. í Mexikó 1994 og Savings and Loans krísan 1987.  Þetta var auk þess ekki stormur af náttúrunnar hendi heldur gert af manna völdum og ótrúlega líkur aðdragandi og sjá má í fyrri krísum.

Skoðun Stiglitz varðandi bankakerfið er sérstakt áhugaefni hjá mér.  Hann vill að bankakerfið starfi með 2 sjónarmið að leiðarljósi; að veita einstaklingum og smáum fyrirtækjum lán og að sjá um greiðslumiðlun með skilvirkum og ódýrum hætti.  Starfsemi fjárfestingarbankaarmsins ætti að vera lítill hluti af banka.  Þetta er auðvitað það sem að Sparisjóðir voru fyrir nokkrum árum síðan, áður en ákveðnir aðilar ákváðu að endurskilgreina þá með hrikalegum afleiðingum (þeir hafa þó alltaf tekið þátt í fáránlegum gjöldum vegna kreditkorta sem Stiglitz gagnrýndi, greiðslumiðlun almennt á Íslandi er hins vegar í heimsklasa).

Stiglitz telur að bankar hafi með óbeinum hætti arðrænt fjölda einstaklinga með því að lokka þá til lántaka sem þeir höfðu engan veginn efni á eða með innbyggðri áhættu sem sumum, jafnvel ráðgjöfum, var ekki ljós.  Á Íslandi á þetta auðvitað fyrst og fremst við um erlendar lántökur (Stiglitz veit reyndar tæplegast að margir þeirra sem voru mjög gagnrýnir í aðdraganda hrunsins mæltu engu að síður með erlendum lántökum).  Því var verið "að selja" fjölda fólks gallaðar vörur.  Það eru þessar forsendur, þær sömu og komu fram hjá mér í Moggagreininni Viðskiptafræði á rangri braut (sjá annarsstaðar á bloggi mínu), sem gera það að verkum að einstaklingar ættu að krefjast þess að bankar gefi eftir hluta af slíkum lánum.  Benti hann á áhugaverða útfærslu af Chapter 11 leiðinni (bankinn tekur til sín í raun hluta íbúðar en fær til baka hluta hækkun á virði hennar við endursölu, ef einhver er). Það sem Stiglitz minntist þó ekki á er sú staðreynd að þeir bankar sem seldu fólki þessa gölluðu vöru eru ekki lengur til nema að nafninu einu saman (sem verið er að breyta), ef 'bankarnir' fara að greiða til baka eru það í raun bara skattborgarar sem þurfa að borga brúsann.

Hann gagnrýnir mjög kröfu AGS að fjárlög séu hallalaus.  Þetta er rétt hjá honum, spurningin er aðallega hvernig þeim fjármunum sé varið (reisa tónlistarhallir eða tryggja heilsugæslu og menntun kom í huga minn þótt ég sé mikill tónlistar unnandi).  Stiglitz benti á að margir hafi reynt árangurslaust að benda AGS á hversu slök stefna þetta er á slíkum tímum sem nú.  Reyndar var slík stefna ríkjandi í Bandaríkjunum í upphafi kreppunnar miklu og eru flestir sammála um að það hafi verið ein af helstu hagstjórnarmistökum þess tíma.  AGS virðist halda að This Time It's Different.

Það sem mér fannst vera eftirtektarverðast var hugmyndin um að skattleggja orkulindir Íslendinga.  Stiglitz sagði að Íslendingar Blew It með innleiðingu kvótakerfisins og erfitt sé að snúa klukkunni aftur hvað það varðar.  Hins vegar ætti að skattleggja kvótann til að þjóðin fái eitthvað til baka frá auðlindum sem tilheyrðu henni.  Auk þess varaði hann við að selja orkulindir okkar, þ.e. að leyfa öðrum að hirða gróðann af þeim.  Má segja að Stiglitz hafi þar verið fyrst og fremst að lýsa frati í þá skoðun sem Hannes Hólmsteinn og fleiri komu fram með um að allar eigur þjóðarinnar, jafnvel náttúruperlur, eigi betur heima í höndum auðmanna.

Þetta var afar góður fyrirlestur en það kom að mínu mati ekki margt nýtt fram.  Það sem kom fram var aftur á móti afar skilmerkilega orðað og það var aðdáunarvert hversu vel hann byggði upp fyrirlesturinn, að því virtist vera án nokkurs undirbúnings.  Vatnaskilin eru kannski helst þau að það var Nóbels verðlaunahafi, HANN, sem sagði það sem svo margir hafa verið að fjalla um, hins vegar í brotum og sitt hvoru horninu.  Það er kannski það sem er forvitnilegt:  Hversu vel fyrirlestur hans endurspeglar þær gagnrýnisraddir sem hafa hljómað í umræðunni undanfarið með mismiklum árangri. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Már, þú segir: " Það eru þessar forsendur, þær sömu og komu fram hjá mér í Moggagreininni Viðskiptafræði á rangri braut (sjá annarsstaðar á bloggi mínu), sem gera það að verkum að einstaklingar ættu að krefjast þess að bankar gefi eftir hluta af slíkum lánum.

Það ætti fólk að gera og það hef ég gert: Í tæp 2 ár hef ég krafist leiðréttingar af Avant og þeir hlusta ekki á rök og rukka jafnóðum jafnfast og jafnstíft og hafa hagað sér eins og ósvífnustu handrukkarar.  Málið var kært til Neytendastofu þegar "Úrskurðarnefnd um fjármálafyrirtæki" í FME hafnaði málinu á þeim forsendum að Avant ætti ekki að vera ábyrgt fyrir gengisfallinu!  Ólöglegt lán samt!  Undarlegt réttarríki þetta land þar sem embætti og yfirvöld vinna fyrir bankana og fjármálafyrirtækin, EKKI endilega neytendur.  

Og: "Það sem Stiglitz minntist þó ekki á er sú staðreynd að þeir bankar sem seldu fólki þessa gölluðu vöru eru ekki lengur til nema að nafninu einu saman (sem verið er að breyta), ef 'bankarnir' fara að greiða til baka eru það í raun bara skattborgarar sem þurfa að borga brúsann."

En ef þau eru ólögleg, eru þau ótvírætt skaðabótaskyld.  Kannski hlustaðir þú á Gunnar Tómasson í kvöld, en hann var alveg skýr:
http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4472013/2009/09/08/1/

ElleE (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 23:13

2 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Varðandi skattlagningu á fiskinn þá er í gildi auðlindagjald sem útgerðirnar borga. Sem var "sáttaleið" til að réttlæta kvótakerfið (sem ég reyndar tel hafa skilað mörgu góðu, þrátt fyrir gallana). Og auðlindagjaldið rennur til ríkisins.

Sigurjón Sveinsson, 10.9.2009 kl. 18:12

3 identicon

Ég er sammála að það er hreinasta vitleysa að halda áfram með þetta tónlistahús. Hins vegar má við þetta bæta, að það er aldrei vitlaust að bæta samgöngur á krepputímum.  Ef við þurfum að reka ríkissjóð með einhverjum halla ætti féð að fara í grunnþjónustu og samgöngur að mínu viti.  Hagstæðar framkvæmdir í samgöngum geta aldrei skilað öðru en arði, jafnvel þótt til skamms tíma sé litið, þ.e. nokkur ár.  Annars hefði pólitísk stefnumörkun átt að miðast við að láta tekjur duga fyrir öllum tegundum ríkisútgjalda.  Það er óvíst að það sé hægt miðað við þær skuldbindingar sem Íslendingar hafa tekið á sig fyrir syndir heimsins (Icesave-stigmata).

Gunnar Kristinn Þórðarson (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 22:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband