Vilt þú borga jeppa nágranna þíns?

Ég er ósáttur með að þurfa að greiða fyrir neyslu annarra.  Auk þess er það með ólíkindum hve stjórnvöld virðast kerfisbundið aðstoða þeim sem skuldsetja sig sem mest.  Nýjasta dæmis eru aðgerðir vegna greiðslubyrði.  Það er í sjálfu sér eðlilegt að fólk sem er í mestum vandræðum vegna húsnæðislána fái aðstoð frá stjórnvöldum, þau eiga stóra sök á því skuldafeni sem margir eru í.  Bílalán er annað mál.

Með því að færa greiðslubyrði bílalána í svipað horf og var fyrir efnahagshrunið; lengja lánstíma aðeins um 3 ár og afskrifa afganginn fá þeir sem að keyptu bíla dýru verði með erlendum lánum mestan afslátt.  Þeir sem að tóku gengistryggð lán þurfa t.d. í sumum tilfellum ekki að greiða nema um helming af skuld bílsins.  Þetta þýðir að ég, sem keyri um á gömlum Peagout, stend í því að niðurgreiða Range Rovera og Bimma nágranna minna.  Er þetta eðlilegt?

Greinin að neðan, birt í Mogganum 7. september, 2006, segir allt sem segja þarf.  Nú er ekki aðeins verið að greiða fyrir eyðslu í gegnum vaxtabótum heldur beinan afslátt.  Skilaboðin eru, skuldsettu þig í botn, keyptu dýran jeppa og aðrir sjá um að borga brúsann.

Vilt þú borga jeppa nágranna þíns?

Undanfarið hefur verið fjallað um að margir þeirra sem fengið hafa vaxtabætur missa þær í ár. Eins og flestir vita er ákveðið hámark á vaxtabótum, þannig að þeir sem eiga mikið í húsnæði sínu, þ.e. skulda lítið, geta verið fyrir neðan þau viðmið sem ákvarða hvort vaxtabætur fáist. Með hækkun fasteignaverðs hefur eignahlutfall fólks aukist í húsnæði sínu samkvæmt fasteignamati og því hefur þeim fjölgað sem fallið hafa utan viðmiðunarmarka, sem áður voru innan þeirra.

Þetta finnst sumum afleitt og telja að ríkið skuldi þessu fólki bætur. Heyrst hafa þær raddir að ríkið eigi að greiða dráttarvexti fyrir að hafa ekki staðið sig nógu vel í að rétta hlut þeirra sem voru óheppnir með undanfarna þróun fasteignaverðs. Vilja þessir aðilar auka vaxtabætur á nýjan leik með hækkun viðmiðunarmarka. Þessa umræðu þarf hins vegar að skoða í víðara samhengi.

Auðvelt aðgengi lánsfjár

Aukið aðgengi að lánsfé á betri kjörum er meginástæða þess að fasteignaverð hefur hækkað eins mikið og raun ber vitni undanfarin ár. Þetta kallast á ensku "easy money" og er ein helsta skýring á myndun fjármálabóla, hvort sem um er að ræða verðbréf eða fasteignir. Lánakjörin eru reyndar svo hagstæð að miðað við íslenskan markað eru þau beint og óbeint niðurgreidd. Það má því segja að með hækkuðum lánshlutföllum, úr 65% í 90%, hafi þá þegar verið aukin niðurgreiðsla á húsnæðislánum, ekki í formi vaxtabóta heldur aukið aðgengi að niðurgreiddum lánum.

Margir nýttu sér þessa þróun til hins ýtrasta. Niðurgreiðslur á yfirdráttarlánum jukust afar mikið samhliða auknum lánshlutföllum. Fólk tók einfaldlega húsnæðislán til að greiða niður yfirdrátt sinn (það leið reyndar ekki nema um ár þangað til að yfirdráttarskuldir landans urðu jafnmiklar og áður) og fjármögnuðu þannig neyslu á betri lánskjörum en áður með því að veðsetja hús sín í meira mæli. Þeir sem voru í húsnæðishugleiðingum áttu skyndilega auðveldari aðgang að fjármagni og því skipti verð á húsnæði minna máli, því hægt var að dreifa afborgunum yfir lengra tímabil. Kaup á margskonar neysluvörum, t.a.m. jeppum, jukust í framhaldi af auknu aðgengi að ódýru (og niðurgreiddu) lánsfé.

Má því segja að þeir sem hafi ekki ákveðið að taka þátt í þessum darraðardansi hafi með aðgerðarleysi sínu að vissu leyti tapað. Þeir einstaklingar urðu ekki aðeins af niðurgreiddu lánsfé, þeir greiða nú með sköttum sínum frekari vaxtabætur til handa þeim sem voru duglegastir að taka lán í skjóli húsnæðiskaupa. Sá hópur sem sýndi skynsemi (eða er það óskynsemi í núverandi stöðu?), með því að lágmarka skuldir í stað þess að keppast við að skuldsetja sig allt að 100% af kaupverði húsnæðis, lendir m.ö.o. í þeirri stöðu að fjármagna að hluta til skuldasöfnun hinna.

Jeppinn í flotta húsinu

Það væri áhugavert að gera könnun á því hversu margir séu virkilega fylgjandi vaxtabótastefnu sem stöðugt gerir skuldasöfnun eftirsóknarverðari. Spurningin gæti verið eitthvað á þessa leið:

Ert þú reiðubúin(n) til að fjármagna kaup á jeppa nágranna þíns?

Sjálfsagt myndu fæstir svara þessu játandi, jafnvel þeir sem nú þiggja vaxtabætur. Þó er þetta einmitt það sem vaxtabótakerfið hefur undanfarið stuðlað að. Önnur spurning gæti verið hvort fólk kjósi að kynda undir enn frekari verðbólgu; myndu margir svara því játandi? Auknar vaxtabætur gera einmitt slíkt sem er óneitanlega í andstöðu við sífellt hækkandi vaxtastig. Forvitnilegt væri að heyra álit alþjóðlegra sérfræðinga hjá lánshæfisfyrirtækjum um þessa þróun; tæplegast eykur hún líkur á styrkingu á lánshæfismati ríkis (sem lækkar vaxtastig fyrir okkur öll til lengri tíma) sem boðar aðhald í einu orðinu en hvetur til skuldsetningar í hinu.

Hvað er til ráða?

Spyrja má hvort vaxtabótakerfið sé ekki barn síns tíma sem nú er liðinn, sérstaklega í ljósi þess að flestallir geta nú þegar fengið stærstan hluta húsnæðislána á vildarkjörum. Hugsanleg ástæða langlífis vaxtabóta er líklega vegna þess að flestir hugsa ekki um að vaxtabætur fara úr sameiginlegum sjóði okkar allra (peninga sem mætti nota í annað), þær hvetja til skuldasöfnunar en refsa fyrir sparnað og stuðla að aukinni verðbólgu.

 

Réttast væri því að afnema vaxtabætur í áföngum (sem undanfarnar hækkanir fasteignaverðs stefndu óbeint að) og hækka skattleysismörk. Hækkun skattleysismarka myndi t.a.m. hjálpa mest þeim sem nú eru að koma undir sig fótunum, þ.e. ungu fólki. Slíkt væri hvatning til vinnu en ekki aukinna lántaka. Hafi einstaklingar áhuga á því að kaupa dýrara húsnæði með þeim aukapeningi sem fæst með hækkun skattleysismarka er það þeirra val. Þeir sem kjósa að verja hamingju sinni minna í steypu þurfa hins vegar ekki að fjármagna jeppakaup nágranna síns.

 

Birtist í Morgunblaðinu, 7.september, 2006


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er samt staðreynd að þetta fólk fék lánaða íslenskar krónur og kemur líklega til með að borga allar íslensku krónurnar sem það fékk lánaðar til baka með vöxtum.

Það að bankarnir hafi platað fólkið til að tengja þetta við erlendar myntir of fellt svo gengið uppá eigin spítur er bara ekki vandamál þessa fólks.

Ég er reyndar nokkuð viss um að með aðgerðaleysi sínu sé ríkistjórnin búin að síja burtu mesta óreyðufólkið svo núnar er mest venjulegt fólk eftir.

INGI (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 15:43

2 identicon

Nei ég er ekki sáttur við að (óbeint) greiða fyrir annarra ofneyslu. Ég var að spá í að fá mér nýjan f nokkrum árum en hélt mig frekar við þennan gamla bíl - sem er nú orðinn 23 ára. Það var einfaldlega ekki aðlaðandi dæmi að fara að kaupa nýjan á lánum og þurfa að greiða "viðhalds"gjöld til bílaumboðs og kaskó tryggja og svo greiða háa vexti sem voru í kringum 7%. Og svo var gengisáhættan sem venjulegt fólk átti að vita að var raunveruleg áhætta í þessu landi sem við búum á. Nei þessa áhættu vildi ég ekki taka og ég veit að margir eru mér sammála, en nú á að fara af stað með aðgerð til þess að bjarga þessu fólki með almannafé. Það finnst mér miður. Ég tek það hinsvegar fram að hvað varðar húsnæðisskuldirnar þá var þörf að gera eithvað til bjarga fólki. 

booboo (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 16:05

3 identicon

Hvað finnst þér þá um að  ríkið borgi allar innistæður í gjaldþrota bönkum upp í topp?

Hvað finnst þér þá um að ríkið setji 200 milljarða í að "leiðrétta" peningamarkaðssjóðina?

Mér finnst það voðalega súrt að hafa þurft að borga nágrönnum mínum þetta.

Okkar  peugeot er skuldlaus og kostar innan við milljón, en við skuldum slatta í húsinu sem við keyptum vorið 2007. Datt ekki í hug að taka lán í erlendu vegna þess að gengisvísitalan var svo svimandi há. En við gerðum þau mistök að trúa greiningardeildum, þjóðhagsspá og peningamálum seðlabankans varðandi spá um vísitölu neysluverðs og kaupmáttarþróun þegar við gerðum okkar áætlanir. Já, við erum óreiðufólk, hefðum átt að fatta að það var ekkert mark takandi á þessum sérfræðingum og eigum skilið að sitja hjálparlaus í súpunni. Hefði betur átt að lesa þínar greinar, eða hvað? (sjá t.d. "Verðtryggð lán - Bráðum kemur betri tíð", 2007)

Jens Gíslason (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 16:30

4 identicon

Það er kannski eitt sem þarf að hafa í huga. Það er hagur allra að fá þennan hóp skuldara á lappir á ný. Þetta er sennilega hópur fólks á besta vinnualdri og aktífur í ýmsu t,d fyrirtækjarekstri. Það væri slæmt fyrir þjóðarbúið að hafa þennan hóp múlbundinn í skuldafen árum eða áratugum saman. Þó svo að það sé kannski blóðugt að kjána-bjánar á fimmtugs og sextugsaldir hafa verið svo vitlausa að treysta íslensku krónunni. Sporin hefðu átt að hræða fólk sem á að vera komið til vits og ára. Ég skulda ekki krónu í mínum bíl eða íbúðinni. En ég vill samt sjá skuldurunum hjálpa út úr ógöngunum.  

Jón G Snæland (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 16:53

5 identicon

Jón,

  Þú segir að þú viljir hjálpa skuldurum úr þeim ógöngum sem þeir eru komnir í. Málið er bara að þeir geta sjálfir hjálpað sér(all flestir), með því að draga úr ýmsum útgjöldum, taka strætó, minnka við sig húsnæði, o.s.frv. 

   Það er það sem fólk gerir þegar það lendir í kröggum. Ef við ætlum að fara að ala upp aumingjaskap í fólki, þá eru náttúrulega framtíðarhorfur Íslendinga ekki góðar!!

   Málið er að þú VILT AÐ ellilífeyrisþegar, framtíðarskattborgarar, skuldarar sem falla ekki inn í þinn hóp, velferðarkerfið, fólk sem á eftir að kaupa húsnæði o.s.frv. eigi að borga fyrir eitthvað sem var algjörlega fyrirsjáanlegt. Jafnvel seðlabankinn spáði þessu fyrir, og sagan hefur kennt okkur að þetta gerist alltaf á Íslandi. 

        ....Við bara vildum ekki hlusta, um það snýst málið!!!!!!

Jóhannes (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 17:09

6 identicon

Þetta er gild athugasemd varðandi bílakaupin en ekki líkleg til vinsælda hjá forráðamönnum bílanna.

Haukur (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 17:18

7 identicon

Já þú ert ósáttur við að borga jeppan hjá nágranna þínum. Ég get alveg skilið það, en hvað áttir þú mikla peninga á innlánsreikningum þegar bankarnir fóru á hausinn? Ég átti nánast ekki neitt, innan við 100 þúsund krónur. Segjum sem svo að þú hafir átt fimm miljónir og hafir fengið til baka á milli 70-85%. Bíddu, á ég svo að borga það fyrir þig? Mér finnst allt í lagi þó bílalánið hjá mér lækki um fimm þúsund krónur á mánuði, þegar þú fékkst rúmar fjórar miljónir frá ríkinu við hrun bankanna, ef við miðum við dæmið hér að ofan.

Valsól (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 17:19

8 identicon

Nei ég vil ekki borga fyrir neyslu annara. Ég tók ekki lán og engan þátt í þessu góðærisrugli og finnst ekki sanngjarnt að borga neyslu þeirra sem tóku bíla og íbúðalán. Ég á hvorki íbúð né bíl og er á leigumarkaði. Ég tek einnig undir með þér að það ætti að hækka skattleysismörk sem fyrst.

Auðvitað vil ég samt að fólki sé hjálpað sem er í miklum kröggum. En það verður að vera einhver skynsemi í þeim aðgerðum. Sumir eru svo skuldsettir að þeim verður ekki hjállpað því miður.

Ína (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 17:19

9 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Það er kannski rétt að halda því til haga að ég er fyrst og fremst að fjalla um afskriftir bílalána (ekki peningasjóði osfrv.).  Með núverandi fyrirkomulagi er hæsta afskriftarhlutfallið tengt slíkum lánum. 

Eldri grein mín fjallar um húsnæðislán, en síðan hafa aðstæður vissulega breyst.  Í nýlegri grein sem ég skrifaði í Mogganum bendi ég á að helsta ástæða þess að einhverjar afskriftir EIGI að vera á erlendum lánum sé slök ráðgjöf hjá bönkum.  Þeir eiga vissulega sök á því hversu margir tóku erlend lán.  Ég hef m.a.s. heyrt um dæmi þar sem haft var samband við fólk að fyrra bragði og bent á að umbreyta íslenskum lánum í lán tengdum erlendri mynt. 

Jens, rétt hjá þér, þetta var slök greining hjá mér en ef þú beinir bendlinum á greinina á bloggi mínu þá sérð þú að ég viðurkenni það (ég þarf reyndar að uppfæra tengingu).  Það er aftur á móti villandi hjá þér að segja "t.d.", ég varaði almennt við lántökum og auk þess væri staða þeirra með óverðtryggð lán á svipuðum nótum og þeirra með verðtryggð lán.

Már Wolfgang Mixa, 1.10.2009 kl. 17:21

10 identicon

Einstaklingur tekur myntkörfulán fyrir þremur árum að upphæð kr. 500.000.-

Nú þremur árum seinna er hann búinn að greiða rúma 1.5 milljón.

Við hrunið stóð lánið í 970.000.- núna í 1490 þúsundum, semsagt tæplega 1.5. Ef hann greiddi þetta upp í dag væri hann búinn að borga 3 milljónir fyrir að fá hálfa milljón að láni í þrjú ár. Það er milljón á ári.

Er þetta sanngjarnt?

Þetta eru náttúrlega drullufínir vextir fyrir bankann enda ráðlagði bankinn honum að borga lánið ekki upp þegar það stóð í 970.000.- krónum.

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 17:23

11 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

"Í nýlegri grein sem ég skrifaði í Mogganum bendi ég á að helsta ástæða þess að einhverjar afskriftir EIGI að vera á erlendum lánum sé slök ráðgjöf hjá bönkum.  Þeir eiga vissulega sök á því hversu margir tóku erlend lán."


Exactly.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 1.10.2009 kl. 18:00

12 identicon

Góð athugasemd hjá Valsól.

  Hvernig væri ef innlánsreikingar bankana sem eru hærri en 3 milljónir væru teknir, og Icesave borgað, allavega að hluta til með þeim peningum, þar sem jú stór ástæða þess að við þurfum að borga þetta eru þessi blessuðu lög sem sögðu 0kr. til þeirra sem eiga Landsbankareiking í Bretlandi??!! Síðan væri hægt að hafa þetta sigmagnandi eftir því sem upphæðin væri hærri, og enda kannski í 30% í upphæðum sem eru hærri en 100 millj. 

.........Ég er búinn að leysa Ice save!!!!!!!

    Hvernig lýst mönnum á þetta?

Þorsteinn,

    Þetta dæmi þitt stenst engan veginn, og einungis sett fram til að rugla umræðuna.

  Snorri, 

   Já það var slök  ráðgjöf. Aftur á móti græddi fullt af fólki á þessari slöku  ráðgjöf!!!!!!

      Jafnvel maður sem tók bílalán til 5 ára, árið 2005, og er að klára það......GRÆDDI á því að taka það, fremur en að tapa. Ætlar hann í mál?

Við bjuggum í sjúku samfélagi, og að e-u leyti ennþá sbr. sum kverúlantasamtök í dag.

Jóhannes (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 18:22

13 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Már:

Mér finnst ekki gaman af að skrifa þetta, en það er bara ekki annað hægt!

Ég fann þetta í upplýsingum um þig, en skv. því hefur þú starfað rúmlega 10 ár á fjármálamarkaði og þær stofnanir, sem þú hefur unnið hjá eru:

Sparisjóðabanki Íslands
NordVest verðbréf
Verðbréfaþjónusta Sparisjóðsins (VSP)
SPH Verðbréf
Sparisjóður Hafnarfjarðar
Búnaðarbankinn Verðbréf
Morgan Stanley


Þau störf sem þú hefur sinnt eru:

Framkvæmdastjóri
Forstöðumaður
Sjóðsstjóri - Skuldabréfasjóður, Fjármálasjóður, Tæknisjóður & innlendur hlutabréfasjóður
Verkefnastjóri - viðbótarsparnaður á hluta- og skuldabréfaáherslu sparisjóðanna og hlutabréfasjóða Sparisjóðs Hafnarfjarðar
Eigin viðskipti - innlend hlutabréf, erlend hlutabréf, innlend skuldabréf & erlend skuldabréf
Millibankamarkaður - innlendur markaður og gjaldeyrisjöfnuður
Eignastýring - hugmyndasmiður SPH Verðbréfa og ráðgjafi
Miðlun - innlend og erlend hluta- og skuldabréf og gjaldeyrir
Stofnun fyrirtækja og regluverk - stýrði stofnun Verðbréfaþjónustu Sparisjóðsins og yfirfór regluverk NordVest verðbréfa

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem þarna eru fyrir hendi þá er menntun þín þessi:

BA - Heimspeki (University of Arizona)
BSBA - Fjármálafræði (University of Arizona)
MS - Fjármál fyrirtækja (Háskóli Íslands, klára árið 2009)

Þeir kasti fyrsta steininum, sem syndlausir eru. Ég braut það af mér, að ég keypti mér bíl á 4 milljónir og borgaði milljón inn á hann, en tók 3 milljónir á myntkörfuláni. Með þessari lánalengingu er mér gert kleyft að borga hverja einustu krónu til baka á 9 árum - hverja einustu krónu, þótt það taki 9 ár!

ÉG HEF HELDUR EKKI ÁHUGA Á AÐ BORGA SKULDIR ANNARRA OG ÞAÐ HAFA BÖRN MÍN OG BARNABÖRN EKKI HELDUR! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 1.10.2009 kl. 18:42

14 identicon

Jóhannes @ 18:22

Það var nú hann sonur minnn sem tók þetta lán hjá Glitni og ég er í ábyrgð fyrir því og stend við hvert einasta orð sem ég segi/skrifa.

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 18:50

15 identicon

Sæl,Nei, ég vil og ætla ekki að borga jeppa nágranna míns.

Ég er ekki íslensk og ólst þannig upp (og hef farið eftir því) að maður eyðir þá peninga sem maður á. Það var oftar en einu sinni hlegið að mér hér á landi fyrir að vera svo óskýnsöm að leigja húsnæði fyrst hægt var að fá 100% lán hjá bönkunum til að kaupa sitt eigið.

 Nú er ég skuldlaus; á ekki íbúð og ekki heldur bíll (ég hjóla bara yfirleitt eða tek strætó).Híns vegar borga ég rúmlega 100.000 í leigu; af þeim 170.000 sem ég á á mánuði. Mig grunar að þetta sé ekki miklu minna en afborgun af litilli íbúð í dag? Eins og bent var á; húsnæðislán eru eitt og bílalán annað. Ég get sætt mig við aðgerðir í húsnæðismálum fyrir þá verst stöddu. En ég tek engar aukaskattar etc. á mig til að fjarmagna Range Rover fólks, sem á alveg örugglega meira en 170.000 krónur á mánuði og nennir ekki að sleppa utanlandsferðum, vikuinnkaupum í Hagkaup eða  einfaldlega jeppum sínum.Alveg burtséð frá því skilaboði sem sent er með svona aðgerðum: ef ríkið reddar þetta, er þá ekki bara í bestu lagi að eyða umfram; kenna börnum á kreditkortum, lita á strætó og leiguhúsnæði sem aumingjalegt? Er þá ekki bara farið inn á sama braut aftur? Ég hef hingað til ekki íhugað að yfirgefa landið; ég hef haft það sæmilega gott í 6 ár og þætti leiðinlegt að láta mig hverfa þegar skipið er að sökkva.En þetta finnst mér óþolandi, og í þessu tek ég ekki þátt ef að því kemur.

Claudia (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 19:32

16 identicon

Þorsteinn,

  Ég sé bara ekki hvernig 500 þús. lán geti farið upp í eina og hálfa milljón, og það þrátt fyrir búið sé að borga eina og hálfa. Þettta meikar bara engan sens!!!!

 Gott að heyra að fólk er að vakna af værum blundi, og t.d. tillögur framskóknarmanna um 20% niðurfellingu fyrir alla. Þvílíkir hottentottar, þeim var virkilega alvara með þessu, og núna e-r pælingar í einum þingmanni í Noregi eigi að redda þessu.

   ÞAÐ EINA SEM STJÓRNARANDSTAÐAN GETUR ER AÐ NOTA ICE-SAVE, GEGN RÍKISSTJÓRNINNI, TIL AÐ KOMA Í VEG FYRIR MÁLEFNANLEGA UMRÆÐU UM ESB. FLOKKAR SEM SKÓPU ÞAÐ FJÁRMÁLAKERFI SEM HRUNDI. HVERSU MIKLIR AUMINGJAR GETA ÞEIR VERIÐ, OG ÞEIR SEM HLUSTA Á ÞETTA RUGL Í ÞEIM ERU TÓMIR!! 

Jóhannes (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 20:56

17 identicon

Sæll Már, svar óskast...

Hvað segir þú við okkur sem keyptum fyrstu íbúð okkar með 16 m. króna verðtryggðu íslensku láni fyrir þremur árum, erum búin að borga 1/4 af upphaflegu upphæðinni í afborganir en lánið er samt komið í 19,5 m.

Erum við í raun ekki búin að vera að greiða fyrir óreiðumenn og óstjórn í efnahagsmálum?

Manni finnst það ekki skipta máli hvort maður sé í skilum eður ei. Það er verið að ræna af manni hvort eð er.

Daði (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 21:29

18 Smámynd: Billi bilaði

Á ég að gæta bróður míns?

Billi bilaði, 1.10.2009 kl. 21:36

19 identicon

Daði,

Númer eitt þú kaupir íbúð þegar íbúðarverð hefur hækkað um 120% á 2 árum, og býst síðan við því að verðið lækki ekki??!! Málið er það að þú ert heppinn að við búum í verðbótakerfi, því í því þá hækka afborganirnar lítið í samanburði við annað kerfi. 

   Ef við værum t.d. í kerfi með breytilegum vöxtum þá hefði greiðslubyrðin líklega hækkað um 100% í stað 20%!!

           ....alltaf að líta á björtu hliðarnar ....Daði litli, daði í baði, fór að blaðra og blaðra...

Jóhannes (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 21:42

20 identicon

Jóhannes @20:56

Þegar lánið var tekið var dollar í kringum 60.- kr. Núna er hann 124.-

Það er búið að borga af láninu í 3 ár, rúmar 40 þús. á mánuði. 40x36=1.440.000.-

Í október í fyrra stóð það í 970.000.- Þá hvatti ég strákinn til að nota milljón sem hann fékk í arf eftir afa sinn til að losa sig við lánið og greiða það upp. Hann fór í bankann og talaði við þjónustufulltrúann. Sá ráðlagði honum að bíða „því gengið væri svo óhagstætt“.

Hann hlustaði og fór eftir því.

Síðast þegar ég fór inn á heimabankann og las ábyrgðina stóð 1.493.000.-

Það er bankinn sem reiknar þetta, ekki ég. Og ekki biðja mig að útskýra en ég reikna með að þetta hafi eitthvað með gengisvísitöluna að gera.

P.s. Hann gæti hugsanlega fengið 300.000 fyrir bílinn.

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 21:48

21 identicon

Smá viðbót.

Fór inn á heimabankann og gáði og víííí, það hefur lækkað niður í 1.373.786,76 kr.

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 21:58

22 identicon

Bankamaðurinn spyr hvort fólk vilji borga jeppa nágrana sinna.               Svo ég svari fyrir mig þá segi ég nei. Ekki frekar en ég vill borga tapaðar innistæður í föllnu bönkunum eða tapaða sjóði ,icesave eða aðra fáráðslega fjármálagjörninga sem  bankamenn eins og þú berð mun meiri ábyrgð á en almenningur í þessu landi. Almenningur sem setti traust sitt á stjórnvöld og trúði og treysti ráðleggingum ykkar bankamannanna um kosti myndkörfulánanna á sama tíma og þið tókuð stöðu gegn krónunni og þjóðinni um leið. Þú eða starfsfélagar þínir í bönkunum eruð ekki rétta fólkið til að spyrja þjóðinna um hvað hún vill borga eða ekki borga. Þið eigið að halda ykkur til hlés þar til ljóst er hverjir úr hópi ykkar bankamanna verða dregnir fyrir dóm vegna ránsins sem hér fór fram.

Jón Magnússon (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 21:58

23 identicon

Jón G. Snæland er maður með lappir niður á jörð. 

Það gleymist hjá Mása að geta þess hvernig sjóðirnir fitnuðu um mörg hundruð prósent.   Það var m.a. af því menn tóku bílalánin.  Og eigum við þá ekki bara að hjálpast að við að komast útúr vandanum?

Claudia er nagli

Sigurður Þórðarson (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 22:10

24 identicon

Þorsteinn,

  Eins og ég sagði þá finnst mér þetta mjög óvenjulegt, og myndi ég nú kanna málið til að komast að einhverri niðurstöðu. 

  Sigurður, 

     Ég held að þú sért ekki alveg með lappir niður á jörðinni. Ein aðalástæðan fyrir þennslunni í fyrsta stað, var að fólk var að kaupa sér bíla eins og engin væri morgundagurinn, og því var gert það kleift með myntkörfulánum, meðal annars. 

   Ástandið hefði t.a.m. ekki orðið svona slæmt ef fólk hefði ekki eytt svona óheyrilega miklu í erlendar fjárfestingar..........do you understand me....ahhhh, hélt það

   ...........ekki snúa út úr. það er leiðinlegur ávani

  Jón Magnússon, 

    Þetta er ágætur punktur hjá þér, en samt að einhverju leyti virðingarvert að sjá að menn viðurkenni orðinn hlut. 

    p.s. Ég sá e-n fyrrverandi mann úr atvinnulífinu sem tók mikinn þátt í að þenja kerfið út, og sá hinn sami er núna að gagnrýna FME. 

          ......maður bíður bara eftir því að eigendur bankanna og bankastjórar, fari að bendaá FME og kenna því um hlutina. Það væri alveg í takt við íslenskt samfélag í dag

Jóhannes (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 22:27

25 identicon

Ja, var maður nokkuð maður meðal manna á Íslandi 2007 án þess að vera búinn að kaupa sér villu eða gamalt hús á góðum stað í 101? Helst með nuddpotti.
Svo líka byggja eða kaupa sumarbústað, og náttúrulega SUV til þess að komast þangað um helgar.

Var ekki einhver geðveiki í gangi þarna upp frá?

Hvernig er það með tryggingar? Atvinnuleysistryggingar? Þar borga allir sem eru ekki sjálfstæðir atvinnurekendur í sjóð. Svo borgar þú sem sagt óbeint ef nágranni þinn verður atvinnulaus.

Sennilega væri best að finna upp nýja skyldutryggingu á Íslandi:
Trygging, sem allir verða að borga í, gegn gengissveiflum krónunnar.

Eða bara ódýrari og betri kostinn, ganga í ESB!

Einar Hansson (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 22:27

26 identicon

Þetta er einhver vitlausasta lesning sem ég hef lesið í langann tíma.

En þegar fortið höfundar er höfð í huga, þá er kannski ekki við miklu að búast.

Þessir fuglar eru allir á því að skella eigin klúðri yfir á almenning í landinu.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 22:28

27 identicon

Verið ekki að klína lánum ykkar yfir á almenning sem tók engin bílalán.

Borgið bara ykkar eigin skuldir sjálf.  Ef ekki þá skulið þið skila bílunum.

Annars finnst mér að það eigi að búa til opinberan database sem aðgengilegur er á netinu hverjum sem vill.  Þessi database á að innihalda nafn og kennitölu allra einstaklinga sem þegið hafa niðurfellingar á greiðslubirði eða höfuðstól lána ásamt upphæð sem um ræðir.

Ástæðan er sú að það er veriðað klína lánum nágrannanna á hina og við eigum því fullan rétt á að vita um hverja er að ræða þar sem að við eigum jú að borga fyrir þá.

Hulda (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 22:56

28 identicon

Vilt þú borga þotu vinnuveitanda þíns,

eða snekkju.

ÞAÐ eru dótakassarnir sem VIÐ erum að borga með þessari ótrúlegu gengisfellingu.

Ég tek undir með Guðbirni.

Ég keypti íbúð á 32 mkr. og fékk 19 að láni => skulda í dag 51 mkr.

Ég keypti bíl á 1,6 mkr. allan á láni => skulda í dag 2,6

ÞAnnig urðu rúmlega 20 mkr. skuldir að nálægt því 54 mkr. skuld.

34 mkr. reikningur er því sendur til mín vegna þess að einhver reiknaði vitlaust í bankanum og lánaði Exista fyrir Bakkavör sem síðan tók lán hjá sama bankamanni og keypti Friggin Skútu fyrir Lýð.

Það er ástæða þess að ég vil leiðréttingu skulda. Ekki að ég vilji ekki borga.

Farðu nú að skilja það.

Guðmundur Andri (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 23:04

29 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Þetta stendur orðrétt í færslu minni "Það er í sjálfu sér eðlilegt að fólk sem er í mestum vandræðum vegna húsnæðislána fái aðstoð frá stjórnvöldum, þau eiga stóra sök á því skuldafeni sem margir eru í.  Bílalán er annað mál."

Ég skrifa síðar í athugasemdum "að helsta ástæða þess að einhverjar afskriftir EIGI að vera á erlendum lánum sé slök ráðgjöf hjá bönkum.  Þeir eiga vissulega sök á því hversu margir tóku erlend lán."

Hvernig sumir skilja að ég sé á móti afskriftum húsnæðislána er mér því hulin ráðgáta.  Ég er á móti afskriftum bílalána, neyslulán.

Nokkrar athugasemdir virðast gera ráð fyrir því að ég vaði í seðlum.  Ég hef það betra en margir, en ég veð ekki í seðlum.  Við hjónin skuldum verðtryggðar skuldir sem hafa hækkað upp úr öllu valdi.   

Einnig er mér núið um nasir að hafa starfað í banka.  Það er rétt að það komi fram að ég varaði opinberlega við erlendum lánum, það var forsíðugrein í Blaðinu sáluga og hluti af heilsíðugrein í því (sést vinstra megin á bloggsíðu minni undir varað við erlendum skuldum, sjá pdf skjal).  Ég furðaði mig á því að engin umræða hófst vegna þessa - lestur Blaðsins var um 70-80% af Fréttablaðinu - það að bankamaður væri að vara við þessum lánum hefði átt að hringja einhverjum bjöllum.

Að lokum, mér finnst ekkert að því að lánalenging eigi sér stað varðandi bíla.  Hugsanlega kemur það ekki nægilega vel fram.  Það að afgangurinn sé afskrifaður eftir 3 ár tel ég ekki vera rétt.  Þetta er í mínum huga neyslulán og því ekki rétt að afskrifa það.  Í flestum tilfellum er þó um miklu lægri upphæðir að ræða. 

Aftur, ráðgjöf varðandi húsnæðislán í erlendri mynt er allt annað mál.  Þar er verið að tala um hornstein fjölskyldna.  Ég væri til í að leggja í það púkk, sjálfssagt meira en nú er verið að ræða um.  Meira um það síðar.

Már Wolfgang Mixa, 1.10.2009 kl. 23:21

30 identicon

@Guðmundur Andri.

Ætlar þú að sitja bara heima og heimta og heimta?  Ætlar þú ekki að taka neina ábyrgð á lánastrúktúr þínum?  Ætlar þú að klína þínum lánum á mig, nágranna þína, ættingja þína, Már Mixa og fl.?

Hulda (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 23:26

31 identicon

Hulda,

Það sem þú skrifar er fáránlegt. Hér hefur orðið þvílíkur forsendubrestur. Nota bene, Hulda, að í öllum hinum vestræna heimi þykir sjálfsagt að taka lán hjá banka fyrir húsnæði og bíl fyrir fjölskylduna.  Það er ekkert sérstaklega virðingarvert að vera á 25 ára gamalli druslu með börn í bílnum.  Það er alveg hundleiðinlegt að lesa sum comment frá fólki eins og þér.  Það að lán hækka um 100-150 prósent finnst þér greinilega bara alveg sjálfsagt. 

Ég tek það fram að ég er ekki með neitt bílalán í erlendri mynt og ég er með íbúðalán í verðtryggðum hryllingskrónum.  Ég er farin að halda að sumt fólk, eins og þú Hulda, haldi að það sé eðlilegt ástand að lán hækki og hækki og hækki alveg sama hve mikið er borgað af því.  Ég er ekkert að segja að það sé eðlilegt að kaupa Range Rover eða Porsche Jeppa, alls ekki, en fullt af fólki sem er með myntkörfulán er bara á venjulegum fjölskyldubíl, keypti sér Toyotu station og borgar fyrir Hummer, eða þannig.

Margrét Ólafsd. (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 23:31

32 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Mest gaman hef ég samt af námslánunum mínum, sem ég hef samviskusamlega greitt af í 18 ár. Ég tók lán í um 4 ár af þeim 6 sem ég var í námi. Ég hef ekki verið á neinum ofurlaunum, en sæmilegum þó.

Lánin standa nú hærra heldur en í upphafi eftir að ég hef greitt af þeim samviskusamlega nokkur hundruð þúsund krónur í 18 ár!

Sömu sögu er auðvitað að segja um íbúðarlánin, sem maður hefur greitt af í 10 ár (verðtryggð). Ætli maður sé ekki búinn að greiða af þessum lánum 10 milljónir á þessum tíma og þau hafa farið úr 10 í 20 milljónir!

Þetta land nær því ekki einu sinni að vera bananalýðveldi! Í bananalýðveldi væri löngu búið að gera alvöru byltingu og til þess höfum við ekki þor! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.10.2009 kl. 00:10

33 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Já, og svona til viðbótar, þá bjó ég í Þýskalandi í 12 ár þar sem óverðtryggð bílalán buðust á þetta 0-3% vöxtum og óverðtryggð fasteignaveðlán á þetta 3-4% vöxtum!

Vitið þið að þetta gengur bara ekki lengur og þjóðin verður bara að opna augun fyrir því hvernig er verið að fara með hana!

Síðan vill fólk ekki skoða ESB aðild! Það er allt í lagi með landið og veðrið hérna, það þarf hins vegar að skipta um þjóð! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.10.2009 kl. 00:13

34 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Fór á netið og fann strax bílalán (Volkswagen) til 48 mánaða á 0,9% vöxtum (að sjálfsögðu óverðtryggt).

Hér að neðan voru síðan hagstæðustu vextir sem bjóðast (að sjálfsögðu óverðtryggt). Fyrst kemur binditími lánanna og síðan vaxtaprósentan:

5 ár   3,03 %
10 ár 3,84 %
15 ár 4,28 %
20 ár 4,60 %
25 ár 4,60 %
 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.10.2009 kl. 00:28

35 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Hér að neðan voru síðan hagstæðustu vextir sem bjóðast þegar fasteignalán eru tekin (að sjálfsögðu óverðtryggt). Fyrst kemur binditími lánanna og síðan vaxtaprósentan:

5 ár 3,03 %
10 ár 3,84 %
15 ár 4,28 %
20 ár 4,60 %
25 ár 4,60 %

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.10.2009 kl. 00:29

36 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Það sem hefur gerst hér með verðtrygginguna og myntkörfulánin og allt þetta bull, myndi enginn láta bjóða sér upp á í siðmenntuðu ríki!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.10.2009 kl. 00:30

37 identicon

Afhverju í ósköpunum ertu þá að taka þessi íslensku lán Guðbjörn?

Þið vitið öll að best er að safna fyrir hlutunum.  Færa fórnir í lífstíl á meðan safnað er.

Ef það var svona augljóst hvað þessi lán voru slæm sbr. verðtryggingu og annað, þá hvers vegna í ósköpunum voruð þið að skrifa undir þau?

Það er alveg hægt að safna fyrir hlutunum ef viljinn er fyrir hendi.

Hérna á klakanum eru búnar að vera frábærar aðstæður á vinnumarkaði árum saman.  En hvernig notuðu sumir það ástand?  Sumir unnu mikið og söfnuðu peningum en aðrir hlupu í bankana og skrifuðu undir fáránlegar lántökur.

Grágarpur (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 03:01

38 identicon

Alveg hjartanlega sammála Guðbirni. Ef hann stofnaði flokk yrði ég fyrstur til þess að kjósa hann ;-)

Grágarpur, þú gleymir að taka forsendurnar með inn í reikninginn. Hverjar voru forsendurnar fyrir háu atvinnustigi á Íslandi?

Eftir 1993 var það inngangan í EES sem þeytti þjóðinni upp á annað stig. Síðan kom bankaútrásin, var það ekki upp úr 2003/2004? Með henni flæddi fjármagn inn í landið, ekki eigið fjármagn, heldur lánsfé í erlendri mynt. Þessum peningum varð að eyða, þ.e.a.s. að reyna að fjárfesta í einhverju arðvænlegu, til þess að geta borgað lánin til baka ásamt vöxtum. En til þess að geta það á annað borð, varð líka að reyna að ríghalda í gengi krónunnar, til þess að ekki færi allt á annan endann. Það var gert með ýmsum ráðum, t.d. háum stýrivöxtum, sem gerðu hana enn meira aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta (eða erlent fjármagnsstreymi inn í landið, heldur ekki eigið fé).
Það bara hlaut að koma að því að þessi sápukúla mundi springa, fyrr en síðar. Einhvern tíman vilja þeir sem eru að sækja arð í ISK fá hann (sennilega aðallega Landsbankinn).

Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir svona rugl í framtíðinni er að ganga í ESB og taka upp Evru. Það eyðir mörgum óvissuþáttum og gefur stabílan grundvöll fyrir EKTA hagvexti (ekki fake eins og 2003/4-2007).

Eða af hverju eiga íslenskir borgarar að borga brúsann trekk í trekk fyrir misgóða peningastefnu ríkisstjórnar/seðlabanka?

Einar Hansson (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 07:33

39 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Ég benti á slóð í athugasemdum sem ég sé nú að er óvirk.  Gengur illa að uppfæra þetta og sett hér því hlekkinn.  http://www.box.net/files#/files/0/f/27989728/blogg_mixa

Már Wolfgang Mixa, 2.10.2009 kl. 08:36

40 identicon

Guðbjörn, ein spurning varðandi námslánin þín. Þó svo að höfuðstóllinn hafi sveiflast eitthvað til, hefur uppgreiðslutíminn breyst?

Já og hvurslags innlegg er það að þylja upp hvað Már hefur starfað og menntað sig? Hefur ekkert með innihald færslunnar að gera.

Þórður Ingi (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 13:26

41 Smámynd: A.L.F

Hvernig á að útfæra þetta með bílalánin?

Það voru ekki allir að kaupa jeppa, til var fólk eins og ég sem hafði ekkert annað val en að fara í stærri bíl. Ég þurfti þess vegna veikinda minna (lupus) og vegna þess að eitt barna minna er með CP. Engin sagði mér að ég gæti sótt um að TR borgaði með mér í öðrum bíl. Svo ég borgaði sjálf út í honum 900þús og tók rest á lánum 800þús. Þessi 800 þús standa núna í 1700 og eitthvað. Svona er með flesta sem ég þekki og keyptu bíl á bílalánum. Borguðu allir út, mismikið frá 100 upp í milljón. Öll vorum við að kaupa okkur bíl sem hentaði fjölskldustærð. Ekki jeppa.

Finnst fólki virkilega rangt að hjálpa okkur sem erum með erlend bílalán út af örfáum svörtum sauðum?

Auðvita svíður mér að þeir sem spiluðu úr efnum fram fái hjálp. Mig svíður líka að útrásarvíkingarnir og þjófsnautar þeirra sleppa án allra ábyrgðar. Mig sviður það að vegna sakir þeirra mun dóttir mín ekki fá alla þá þjónustu sem hún þarf til að verða góður og nýtur þjóðfélagsþegn. Mín reiði liggur þar, en ekki gagnvart heimsku fólki sem heldur áfram að eyða peningum eins og engin sé morgundagurinn í stað þess að allavega reyna að borga skuldir sínar. Því jú það fólk er til þó ekki séu margir.

A.L.F, 2.10.2009 kl. 15:30

42 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

ALF, ég er einmitt ósammála því að fé sé fært úr kerfinu til að niðurgreiða jeppa á sama tíma og verið sé að skerða þjónustu, t.a.m. í heilbrigðiskerfinu. Lokaorð þín eru góð.

Már Wolfgang Mixa, 2.10.2009 kl. 16:01

43 Smámynd: A.L.F

Já en þegar öllu er á botninn hvolt, þá er frekar erfitt að sigta út hver var að eyða efnum fram og vera með glæsi sýndarmennsku og hver var ekki að eyða efni fram heldur reyna að eignast biðreið sem hentaði t.d. fjölskyldustærð. Mér finnst frekar blóugt að sitja uppi með lán sem er helmingi hærra sem og afborguninn þegar ég var ekki að rasa framúr mér. Ég var ekki í endalausum utanlandsferðum og þvíumlíkt. Var meira að segja svo séð að þorri innbús míns er úr góða hirðinum.

Ég tel mig eiga rétt á réttlátri meðferð þegar kemur að bílaláninu mínu, enda varla siðferðislega rétt að ég greiði fyrir árás bankanna á íslensk krónuna.

A.L.F, 2.10.2009 kl. 19:42

44 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Svarið við fyrirsögninni er nei. Ég er með bíladellu og dreymir um Bens. Einhvern tíma á eftir að kaupa mér Bens.

En núna á ég átján ára Toyota Carinu sem ég keypti fyrir fimm árum. Hún er ekki Bens en kemur mér á milli staða og hefur m.a. gert það að verkum að ég er ekki lengur með yfirdrátt í bankanum mínum.

Af hverju ætti ég að borga (í formi skatta) þá Bensa sem voru keyptir á bílalánum? Ég hefði þá betur keypt einn sjálfur. 

Sigurður Haukur Gíslason, 3.10.2009 kl. 01:01

45 Smámynd: A.L.F

Sigurður voru þetta allt bensar sem voru keyptir á bílalánum? ert þú með lausn sem gerir það að verkum að aðeins þeim sem ekki keyptu flottheitis bíla verði hjálpað.

það verður jafnt að ganga yfir alla með bílalán, annað hvort a hjálpa öllum eða engum. eða er þér sama þó margur missi allt vegna bílaláns?

mundu það keyptu ekki allir jeppa eða bens

A.L.F, 3.10.2009 kl. 01:41

46 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

A.L.F. !

Ef það kveiknar í einu húsi í götu þá er ekki sprautað á öll húsin í götunni, er það?

Ef þú hefur þurft að fjárfesta í bíl vegna veikinda þá á að leysa það. Það á ekki að ganga yfir alla sem keyptu bíla af því að þeir voru svo flottir.

Sigurður Haukur Gíslason, 3.10.2009 kl. 01:52

47 identicon

Þetta er nú meira ruglið í ykkur öllum.  Drullisti til að borga lánin ykkar, hvort sem þau eru vegna húsnæðis-, bíla- eða annarakaupa.

Krímer (IP-tala skráð) 3.10.2009 kl. 06:24

48 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Ég kannast nú ekki við það að fólk sem tekið hefur lán vilji ekki borga þau.

Hins vegar er staðreyndin sú að bankarnir sjálfir stunduðu, samkvæmt heimildum,  ólöglega starfsemi sem hefur orðið til rúmlega tvöföldunar á afborgunum lánanna. Ég er sjálfur með lán þar sem afborgunin var 28 þúsund árið 2007. Núna er afborgunin rúm 65 þúsund.

Bankarnir stunduðu sjálfir starfsemi sem varð til þess að íslenska krónan varð nærri verðlaus með öllu.

Þegar bankarnir fóru á hausinn þá tæmdust þeir af peningum. Ríkisstjórnin ákvað að ábyrgjast innistæður að öllu leiti, þótt ekki væri lagaleg skylda til þess. Hvort sem fólk átti eina krónu á reikningi eða einn milljarð og allt þar á milli.

Einu eignir bankanna í dag eru loforð fólks að borga af lánum sínum næstu tugi ára. Þessi loforð eru notuð til að fylla á bankana aftur, bankana sem voru tómir, fylla aftur í vasa þeirra sem áttu innistæður. Það töpuðu í raun allir inneignum sínum í bönkunum og sú aðferð að fylla aftur á bankana með okurvöxtum sem fjölskyldur landsins borga mun ekki ganga upp.

Þetta er nefnilega fjölskyldufólkið með börnin, sem er á besta aldri, vinnuafl samfélagsins, þeir sem afla því tekjur og halda samfélaginu gangandi. Fólkið sem vinnur. Vinnur fyrir heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og öllu því sem samfélag þarf til að ganga. Fólkið sem vinnur og borgar fyrir öryrkja, aldraða og börn. Þetta er fólkið sem hvert samfélag þarf á að halda frekar en nokkru öðru.

Þetta er fólkið sem getur ekki gert neitt annað en flutt til annars lands til að ná endum saman.

Þetta er venjulegt fólk í þessu landi, fólk sem gerði eins og allir hinir og tók lán fyrir þaki yfir höfuðið. Þetta er fólk sem hefur ekkert á móti því að borga sín lán en hefur hins vegar ekki áhuga á að borga okurvexti eða fyrir einkaþotur, snekkjur og ofurbíla þeirra sem raunverulega ábyrgir eru fyrir hruni íslensks hagkerfis.

Baldvin Björgvinsson, 3.10.2009 kl. 10:58

49 identicon

Guðbjörn!

Þú virðist nálægt mér í aldri.  Hvernig gast þú fengið námslán?...það var hlegið af mér þegar ég sótti um...ég var með of miklar tekjur og gat bara séð um mig sjálfur!!

itg (IP-tala skráð) 3.10.2009 kl. 13:40

50 identicon

Einar!

Það er jafnmikið fake í ESB og í öllum löndum heims ( ESB er hvorki verra né betra en aðrir ).  Er ekki kominn tími til að fólk geri sér grein fyrir því að hver þjóð þarf að standa undir sér og eyða ekki um efni fram.  Allt sem talið hefur verið upp að hafi gerst hérna á svokölluðum góðæristímum ( undarleg nafngift ) hefur gerst margoft áður með sömu endalokum.

itg (IP-tala skráð) 3.10.2009 kl. 13:49

51 Smámynd: A.L.F

Krímer!

Hver er að neita að borga skuldir sínar?

Drullastu til að skilja það að lán sem var 900 þús og búið að borga af því í 2 og hálft ár á ekki að standa í 1700þús.

A.L.F, 3.10.2009 kl. 21:57

52 identicon

Jóhannes hér að ofan blaðrar eins og fleiri um hversu heppin við erum að hafa verðtrygginguna. Ef til vill drukkinn nema hann uppnefni fólk af heimsku.

Hún er hér eingöngu til að vernda arfaslaka hagstjórn og krónu sem er hentug spákaupmönnum en stórhættuleg heimilum.

Það hentar að tala um afborganir, en vandinn liggur líka í höfuðstólnum sem reisir skuldafangelsi í kringum heimilin.

Við breytum ekki því sem búið er, en við þurfum að gefa fólki séns á öruggari framtíð. Útúrsnúningar eru ekki til þess fallnir.

Daði (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 08:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband