1929 - Black Monday & Black Tuesday - 28. & 29. október

Vikuna fyrir hrunið mikla hafði gengi hlutabréfa lækkað töluvert í gífurlega miklum viðskiptum.  Eftir að kerfisbundinn stuðningur banka við gengi hlutabréfa hófst með dramatískum hætti fimmtudaginn áður glæddust vonir um að mesta fallið væri afstaðið.

Þær vonir urðu að engu mánudaginn 28. október, síðar þekktur sem Black Monday.  Magn viðskipta var mikið en fallið í gengi hlutabréfa hins vegar þeim mun meira.  Þennan dag komu engin skilaboð um kerfisbundinn stuðning.  Charles Mitchell, bankastjóri National City, sást ganga inn í byggingu Morgans.  Vonir voru um að kerfisbundin stuðningur væri í pípunum og rauk gengi bréfa upp á nýjan leik.  Þegar að ekkert gerðist hélt fallið áfram.  Í ljósi upplýsinga sem fram komu síðar er líklegt að hann hafi einfaldlega verið að slá sjálfur lán, enda á kafi í skuldsettum hlutabréfakaupum sem lækkuðu ört í virði.  Skráning á gengi viðskipta varð á nýjan leik í engu samræmi við aðstæður, enda gerði þáverandi tækni ekki ráð fyrir slíku viðskiptamagni.  Í lok dags var þó orðið ljóst að mesta verðfall sögunnar hafði átt sér stað á gengi hlutabréfa, Dow Jones hlutabréfavísitalan lækkaði rúmlega 12%.

Þeir sem héldu að hið versta væri yfirstaðið komust fljótt að hinu gagnstæða daginn eftir.  Viðskiptamagnið fyrsta hálftímann sló met sem stóð í 35 ár, magn viðskipta dagsins sló einnig met sem stóð í 39 ár.  Kerfisbundinn stuðningur, ef einhver var, sást í það minnsta ekki.  Hugsanlegt er að hann hafi einfaldlega ekki náð að gera meira en að fylla upp í eyður sem fóru að myndast á milli kaup- og sölutilboða.  Allen lýsir því í bókinni Only Yesterday að hlaupasveinn hafi sett inn kauptilboð í White Sewing Machine Company á genginu $1, en síðasta viðskiptagengi dagsins áður var rúmlega $11, og fékk bréfin.  Fall á gengi hlutabréfa var aftur mikið og sérstaklega í eignarhaldsfélögum, Exista og FL þess tíma.  Virði sumra þeirra lækkaði um meira en helming á þessum eina degi.  Gengi hlutabréfa lækkaði álíka mikið og daginn áður.  Þessi dagur er svipaður og 6. október, 2008 fyrir Íslendinga.

Dow Jones hlutabréfavísitalan lækkaði á þessum 2 dögum tæpan fjórðung, báðir dagar met í falli á gengi hlutabréfa.  Það met hefur aðeins einu sinni verið slegið, 19. október 1987 þegar að það féll tæp 23%. 

Hlutabréf lækkuðu meira næstu vikurnar í miklum verðsveiflum.  Við tók hækkun á gengi þeirra á nýjan leik áður en Kreppan mikla skall á.  John Kenneth Galbraith nefnir 5 atriði sem hann telur hafi gert efnahaginn veikan fyrir í sígildu bók sinni The Great Crash.  Þau eru:

  1. Ójöfn skipting tekna - 5% þjóðarinnar skiptu á milli sín þriðjungi tekna þjóðarinnar.  Hlutfall tekna vegna fjármagnstekna í ýmsum formum hafði tvöfaldast síðustu 10 árin.
  2. Slæm uppsetning fyrirtækja - Galbraith vísar hér fyrst og fremst til gírugra fjárfestingafélaga.
  3. Veikt bankakerfi - Lán sem virtust vera í góðu lagi í uppganginum litu flónskulega út þegar að niðursveiflan hófst. 
  4. Viðskiptajöfnuður í ójafnvægi
  5. Vanþekking í efnahagsmálum - Eins og Stiglitz þá telur Galbraith að áhersla í aðhaldi fjármála ('Balanced budget') hafa verið stórkostleg mistök þegar að fjárlagahalli hefði verið nauðsynlegur til að glæða atvinnulífið á nýjan leik.  Stjórnendur AGS eru líklegast litlir 'Galbraith' aðdáendur.

Vert er að benda á að Árni Árnason tók saman afar góða samlíkingu á síðasta ári um þetta efni, sjá hér: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1255245 (læst áskrift, aðeins fyrir Moggaáskrifendur)

Minni á fyrirlestur minn Once in Khaki Suits þar sem samfélagslegir áhrifavaldar við myndun bólunnar nýverið á Íslandi eru bornir saman við the Roaring Twenties í Bandaríkjunum.  Fyrirlesturinn, hluti af Þjóðarspeglinum (www.thjodarspegillinn.hi.is) hefst um 11.20 og er haldinn í Háskóla Íslands, Háskólatorgi 105. 

Fjallað var einnig um þetta efni í Speglinum, 29. október.  Once in Khaki Suits er lína úr laginu Brother, Can You Spare a Dime?  Sjá tengilinn: http://www.npr.org/templates/story/story.php?storyId=96654742 .  Frekari umfjöllun um atburði hrunsins fyrir 80 árum síðan er að finna á tenglum undir nýjustu færslum vinstra megin á síðu minni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband