Greinin "Once in Khaki Suits" - umfjöllun og lærdómur

Titillinn er fenginn úr laginu Brother, Can You Spare a Dime?, lag sem er nokkurs tákngervingur fyrir Kreppuna miklu sem hófst árið 1930, samhliða verstu lækkun hlutabréfa í sögu Bandaríkjanna.  Eitt sinn vorum við Íslendingar útrásarvíkingar, nú biðjum við bræður (systur, frændur og vini) um lán. 

Greinin fjallar um helstu samfélagslega þætti við myndun fjármálabóla (Behavioural Finance eða Literal Economics) og tekur sérstaklega fyrir samanburð á undanfara hrunsins í Bandaríkjunum árið 1929 og þess sem gerðist hér undanfarin ár.

Hægt er að sjá fyrirlesturinn í heild sinni hér: http://www.slideshare.net/marmixa/once-in-khaki-suits-lokautgafa

Einnig er hægt að kaupa bókina Rannsóknir í Félagsvísindum X en erindi í tengslum við greinina var flutt á ráðstefnu Þjóðarspegilsins í ár.

Margt var líkt með undanfara hrunsins hér og í Bandaríkjunum 1929.  Í viðtali við John Kenneth Galbraith árið 1987 nefnir hann 4 meginatriði sem eiga sér stað við myndun fjármálabóla; þau eru:

  1. Aukin spákaupmennska samhliða mikillri bjartsýni - bæði hjá greiningaraðilum og almenningi
  2. Fjárfestingarfélög (FL Group og Exista voru helstu dæmin á Íslandi)
  3. Lækkun skatta, aðallega í tengslum við fjármagnsskatta, sem eykur á misskiptingu auðs í þjóðfélaginu
  4. Mesta refsing fellur á þá sem njóta uppgangsins sem mest þegar að vel gengur

Það kemur hins vegar ekki fram í grein minni að hægt sé að draga lærdóm af reynslu beggja tímabila, enda viðtalið tekið við aðrar aðstæður.  Upp úr 1930 fóru bankar að verða gjaldþrota um gjörvöll Bandaríkin.  Fyrst voru það bankar sem voru veikir fyrir vegna stöðutöku í hlutabréfum, sem fór úr böndunum.  Margir töpuðu sparifé sínu vegna taps á innstæðum þeirra sem varð til þess að traust almennings á bönkum varð að engu og leiddi til þess að sumir sterkari bankar urðu einnig gjaldþrota vegna dóminó áhrifa.

Árið 1933 voru seinni Glass Steagall lögin samþykkt í Bandaríkjunum.  Í þeim fólst aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi.  Auk þess voru bankainnstæður tryggðar að ákveðnu marki.  Þetta varð undirstaða þess að traust almennings gagnvart bönkum smám saman byggðist aftur upp; minni áhætta tengdist rekstri banka og ríkisábyrgð á innstæðum. 

66 árum síðar, árið 1999, var múrnum á milli þessara sviða rutt til hliðar og bankar fóru á nýjan leik að starfa í svipaðri mynd og gert var á þriðja áratugnum.  Það tók innan við 10 ár frá því að þessi aðskilnaður var afnuminn þangað til að mesta fjármálakreppa síðan í Kreppunni miklu átti sér stað.  Þetta er ekki tilviljun; kröfur um aukna áhættusækni þegar að vel gengur verða almennar. 

Í drögum að skýrslu um endurreisn bankanna kemur fram að skilja beri reksturinn á nýjan leik að mesta mætti.  Það er loðin skilgreining, stefnan þarf að vera skýr í þessum efnum.  Ótvíræð yfirlýsing væri líklegast það áhrifamesta eina skref sem stjórnvöld gætu tekið í að senda alþjóðleg skilaboð um að endurreisn banka væri á réttri leið.

Þess má einnig geta að hefði þessi aðskilnaður verið til staðar hefði umræðan og væntanleg framtíðar skuldbinding varðandi IceSave líklegast aldrei verið til staðar.

Ég fjallaði um þennan samanburð í Speglinum á RÚV sl. fimmtudag, hægt er að nálgast viðtalið hér - http://dagskra.ruv.is/ras1/4489428/2009/10/29/2/

Var einnig í viðtali á Silfri Egils varðandi efnið sl. sunnudag, sjá hér - http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4472540/2009/11/01/3/

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

Mikill fróðleikur - spurningin er hvort einhver vill læra eitthvað af þessu?

Þú þyrftir að fá tíma og tækifæri til að greina  innri spennuvalda í kvótakerfinu og hvaða áhrif það hafði á þær bólur sem ollu bankahruninu.

Þorskkvóti var "bólaður" upp í 3500 kr/kg á  gamla genginu  2006 (max 4200) - og þá tekin kúlulán í JPY/CHF sem nú hafa hækkað um 130%  verð þorskkvóta er nú talið vera um 1500 kr/kg?? sem þá innan við 20% af því verði sem mikil viðskipt fóru fram á.

Mikið af "innleysum hagnaði" úr sjávarútvegi fór svo í að "bóla" upp verð á hlutabréfum og fasteignum... þetta rúllaði svona "nokkra hringi" 2002-2007...

Ef læra á af mistökunum - þá verður líka að greina orsakavalda - til að vara sig á þeim í framtíðinni....

Gott að fylgjast með alvöru fagmanni greina þetta svona. Takk KP

Kristinn Pétursson, 3.11.2009 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband