Fjárfestingar, neysla og vaxtastig

Umræðan um að auka neyslu á nýjan leik í þjóðfélaginu er á rangri braut.  Af hverju hafa kjör okkar verið að batna jafnt og þétt síðustu áratugi?  Vart er það vegna þess að neyslan hefur aukist.  Svarið hlýtur að liggja í því að við framleiðum meira í gegnum aukinni framleiðni.  Neyslan kemur í framhaldi af því að við höfum efni á því.

Þessi skoðun mín held ég sé á öndverðum meiði við almenna hugsun í þjóðfélaginu.  Ein af helstu rökum á lækkun vaxta og leiðréttingu skulda er að þá sé meira fé afgangs til neyslu sem skili sig til þjóðfélagsins (þetta er vel að merkja ekki umræða um meðferð skulda).  Þessi rök hafa vart verið gagnrýnd en eru að mínu mati rugluð saman við þann skilning að þjóðarframleiðsla sé fjármagn í umferð og hversu oft það skiptir um hendur.  Slíkt kemur hins vegar einfaldlega (aftur) í kjölfar sköpunar í þjóðfélaginu, en leiðir ekki af sér sköpun.

Því þarf að einblína á fjárfestingar til virðissköpunar á Íslandi til að þjóðin nái að vinna sig úr þeim (gríðarlega) vanda sem við erum í.  Einblína þarf á fjárfestingar sem skapa virði "á morgun" en ekki neyslu í dag, sem draga þarf saman.  Búið er að fjalla ítarlega um möguleika á þeim sviðum en orka (endurnýjanleg og rafmagnsbílar) og tækniúrlausnir (s.s. aðfangastjórnun RFID) eru svið sem veita framtíðarlausnir nauðsynlegar á alþjóðavísu.

Ofangreint leiðir sumpart að þeirri skoðun minni að stýrivextir eigi ekki að fara á sömu mið og þeir eru erlendis (þetta tel ég að flestir séu mér einnig ósammála).  Lágt vaxtastig erlendis og lítið aðhald í peningastefnu stjórnvalda (sem hérlendis vó meira en hátt vaxtastig) hefur ekki gert neitt annað en leitt til bólu í neyslu, sérstaklega hvað húsnæði varðar.  Lágt vaxtastig erlendis er jafn bitlaust og hátt vaxtastig hefur verið hérlendis. 

Því tel ég að stýrivextir hér eigi ekki að lækka neðar en 5%.  Hvati verður að vera til staðar til sparnaðar - og að sá sparnaður verður nýttur í skynsamar fjárfestingar.  Að sama skapi tel ég að Seðlabanki Íslands eigi að lækka stýrivexti hraðar því verðbólgumælingar og spár gefa ekki tilefni til núverandi vaxtastigs (rök um trúverðugleika eiga ekki við í dag og auðvelt væri að lækka vexti niður í 6-7% án þess að slíkt veiti röng skilaboð - hægt væri að taka fram að ekki væri gert ráð fyrir frekari lækkunum).

Í færslu minni sl. mánudag kom fram að munur á innlánsvöxtum á milli fjármálastofnanna væri mikill.  Síðan þá hafa þær fjármálastofnanir sem voru með hæstu vextina tilkynnt að þær ætli að lækka vexti.  Fjalla ég um þetta í næstu viku í stað þessarar eins og til stóð; færslan þyrfti að vera h.u.b. í beinni útsendingu...  Auk þess verð ég með skoðanakönnun áður en ég klára færsluna og verða niðurstöður hennar kynntar samhliða henni.

Að lokum: Ég skrifa 1-2 færslu í hverri viku.  Þeir sem vilja geta sent mér skeyti á marmixa@yahoo.com og beðið um að vera á póstlista.  Í hvert sinn sem ég skrifa nýja færslu sendi ég stutt skilaboð.  Annað; ég bið um fleiri athugasemdir - fleiri birtast nánast undantekningarlaust þegar að skrif mín birtast á öðrum vettvangi.  Athugasemdir veita fleiri hliðar á málum (sérstaklega þær sem eru á öndverðum meiði) og fá mig stundum til að endurmeta fyrri skrif mín.  mwm


mbl.is Ríkisbankarnir reknir með tapi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Finnbogason

Vandamálið við þetta með neysluna, er held ég, að hún er orðin óaðskiljanlegur hluti mælinga í hagfræðinni.

Rökin eru að einhver þarf að nota það sem framleitt er. Ef meira er framleitt þarf að neyta meira.

Neyslan keyrir "sjóðstreymi" í gegnum allt hagkerfið, sem hefur vanist því og kann ekki á kerfi þar sem neyslan er lítil eða minnkandi.

Þegar það gerist geta framleiðendur ekki selt óþarfnaðinn sem þeir framleiða og geta ekki borgað skuldir sínar. Það er nefnilega lífsnauðsynlegt hverju fyrirtæki að skulda gríðarlega til að vera samkeppnishæft:)

Þú baðst um athugasemd:) ég skrifaði þessa til að svara því kalli

Jón Finnbogason, 22.5.2009 kl. 08:45

2 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Ég er nú þeirrar skoðunar að þessar hagfræði kenningar um að vextir stjórni eftirspurn, og þess vegna séu vextir aðal stýritækið í hagstjórn, séu óttalegt rugl.

Peningar eru bara ávísun á að einhver sé tilbúinn að framkvæma vinnu, á meðan traust er á gjaldmiðli þá skipta menn á honum og vinnu. 

Bankarnir sjá svo um að varðveita og miðla gjaldmiðlinum, en það er engin ástæða til að borga bönkunum meira fyrir það en kostnaðurinn við þessa miðlun er.

Hvers vegna ætti fólk að borga miklu meira fyrir þjónustu banka en annara fyrirtækja, Seðlabankinn er þar meðtalinn. 

Eina leiðin til að stjóra efnahagsmálum er að fara vel með peningana og ekki lána nema til þeirra sem borga til baka. Vextir ættu að vera ca 2% + hagvöxtur. Ef vextir eru hærri en það, þá kallar það á aukna seðlaprentun og þar með verðbólgu.

Síðan ég var unglingur fyrir meira en 40 árum, hef ég fylgst með verðbólguspám og fjárlögum, allan þennan tíma hafa komið fram spár um verðbólgu fyrir næsta ár og svo hafa alþingismenn samþykkt fjárlög sem hækkuðu meira milli ára en verðbólguspáin og auk þess sýndi ríkisreikningurinn að raun hækkuni var ennþá meiri.

Það er engin tilviljun að íslenska krónan er búin að vera í frjálsu falli í 130 ár. Stjórnmálamenn okkar hafa unnið hörðum höndum að þvi að fella krónuna á hverju ári. 

Sigurjón Jónsson, 22.5.2009 kl. 08:51

3 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Takk fyrir að svara kallinu!

Jón - þetta samband neyslu og framleiðslu er rannsóknar virði, hvernig urðu þessi hugtök svona samofin?  Sjálfssagt hefur þetta þróast smám saman því ekki er mikið vit í að framleiða eitthvað sem engin eftirspurn er eftir.  Þegar að framleiðendur og neytendur eru hins vegar orðnir allt of skuldugir brestur hið vitræna í samspili framleiðslu og eftirspurnar.  Ég er kannski að verða hér of háfleygur....

Sigurjón - afar góðir punktar og rök fyrir því að skoða og endurmeti kosti þess að miða við gullfót.

Már Wolfgang Mixa, 22.5.2009 kl. 09:49

4 identicon

Már, getur ekki verið að þessar kenningar séu smíðaðar hér í Bandaríkjunum þar sem ég bý? Ég hef heyrt því fleygt að einkaneysla standi undir 3/4 af þjóðarframleiðslunni hér.  Þegar fólk hættir að endurnýja bílana sína og byggir ekki ný hús hefur það gríðarleg áhrif á innlenda framleiðslu.  Þess vegna sendi Bush mér ávísun með tilmælum um að eyða henni en hvorki setja hana í sparnað né borga með henni skuldir!

Á Íslandi er þessu allt öðru vísi farið þar sem aukin einkaneysla kemur ekki nema að litlu leyti fram í aukinni innlendri framleiðslu, heldur góssið allt meira og minna flutt inn með tileyrandi viðskiptahalla og gengisvanda.

Heimir Sverrisson (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 13:17

5 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Heimir, þessi kenning á einmitt aðallega við í USA, 3/4 er sama tala og mig minnir sjálfur.  Þetta á m.ö.o. frekar við um sjálfbær ríki.  Vona að tékkinn hafi reynst vel en Bush hlýtur að hafa orðið fyrir vonbrigðum, tékkarnir (nema auðvitað sá sem þú fékkst) hefðu betur farið í iðnsköpun í stað neysluvara (þetta á líka við um björgun margra vonlausra fyrirtækja, sjá Bank United). 

Gósið innflutt - með auðveldu aðgangi að fjármagni sem við eigum ekki en veitir falska mynd um velferð.  Þetta er góð lýsing hjá þér.

Már Wolfgang Mixa, 22.5.2009 kl. 21:32

6 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Verð að viðurkenna að ég lít á þetta sem alheimsvanda en ekki vanda sem snýr beint að Íslandi. Vandamálið skapast fyrst og fremst af of lágum vöxtum almennt í heiminum. Þessir lágu vextir sköpuðust vegna þess að japanska jenið hefur verið að lækka og vegna þess að kínverjar fjármagna hallan í kanalandi. Við þetta myndast fölsk eftirspurn og það verður leikandi létt að reka fyrirtæki líka þau sem eru ekki arðbær. Þá verður líka leikandi létt að kaupa fasteignir. Þetta skapar svo aftur hækkun fasteignarverðs.

Seinasta uppsveifla fór í gang út að þessum lágu vöxtum. En uppsveiflan var bara fúp þar sem það á að vera ölum mönnum ljóst að ekki á að vera  hægt að fá lánaða peninga á neikvæðum vöxtum. Við upphaf seinustu hagsveiflu voru skuldir heimilanna almennt á vesturlöndum og usa lágar.

Nú ætla menn að fara þá sömu leið og menn fóru við upphaf seinustu hagsveiflu þ.e. að lækka vexti. Menn stypjast þó ekki einungis við lækkun vaxta heldur hafa seðlabankar víðsvegar um heim verið að kaupa skuldabréf og með þeim hætti því verið að auka peningamagn í umferð. Þessi prentun peninga endar aldrei vel. Það kemur að því að þessi prentun peninga veldur verðbólgu með tilheirandi vandamálum og hækkandi vaxtastigi. Þá er hægt að bæta við að öll þessi fjármögnun á  bankakerfinu á eftir að kosta ríkissjóði í mörgum löndum mikla peninga. Sú fjármögnun fer annað hvort fram með hækkandi sköttum eða útgáfu ríkisskuldabréfa. Allt þetta leiðir til hækkandi vaxta og samkeppni á lánamarkaði.

Til viðbótar er hægt að bæta við (nóg til að meira svartsýnishjali). Kínverjar koma ekki til með að horfa á dollarann fall niður úr öllu valdi, sem hann óneytanlega þarf að gera. Maður getur spurt sjálfan sig að því hvað þeir geti gert. ein leið gæti verið að halda uppi hráefnaverði en hráefni verðmetin í dollar.

Við sáum einmitt að seinast þegar dollarinn féll og fór í 1,6 á móti evru fór tunnan af olíu í 150 dollara.

Eitt er alla vega ljóst að usa kemmst ekki út úr þessari skuldakreppu sinni nema með því að stilla gjaldmiðilinn. Þetta hefur svo aftur áhrif á samkeppnisstöðu evrópu með minnkandi framleiðslu sem afleiðingu. Þá hjálpar máttvana elliheimilið þýskaland ekki upp ástandið.

Ég vil meina að framundar er tímabil stöðnunar og verðbólgu. Kallið mig svartsýnan en ég hafði nú rétt fyrir mig varðandi Ísland.

Hörður Valdimarsson, 25.5.2009 kl. 17:05

7 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Ætlaði rendar að bæta við að núverandi lækkun vaxta skeður á sama tíma og heimilin almennt á vestur löndum og usa eru mjög skuldsett þ.a. ekki er hægt að búast við að þau fari út að eyða peningum í stórum stíl. Til viðbótar öllu hinu sem ég hef skrifað þá fæ ég ekki séð hvernig menn ætla út úr þessu

Hörður Valdimarsson, 25.5.2009 kl. 17:10

8 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Hörður, las viðtal við ákveðinn stjórnmálamann um helgina sem sagði að til þess að koma okkur úr þessum vandræðum þyrftum við að lækka vexti, ......

Forgangsverkefnið er m.ö.o. að vera með óvarlega peningastefnu, sem var rót vandans að fólk og fyrirtæki skuldsettu sig of mikið.  Manninum til varnar fjallaði hann einnig um mikilvægi fjárfestinga og að skuldsetning hafi verið of mikil.

Eins og þú bendir á er peningaprentun ekki uppbyggileg, hún brennir til lengri tíma peninga - gangi þér vel í bindindinu, algjör vitleysa að reykja, brennir peninga með því að kveikja.....

mwm

Már Wolfgang Mixa, 25.5.2009 kl. 21:51

9 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Sæll Már, er staðráðinn að hætta þessu bulli þó það sé nú ekki heilt einfalt. Þegar ég bjó á Íslandi þá hafði ég heimilislæknir sem hét Ólafur Mixa. Þið eruð kannski skildir.

Skrifaði nokkrar vangaveltur um neyslu á bloggið mitt. Vona að þessi linkur sé í lagi

 <a href="http://hordurvald.blog.is/">mit blog</a>,

Hörður Valdimarsson, 26.5.2009 kl. 09:53

10 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Linkurinn greinileg mistókst. Hvernig lést þú linkinn Bank United inn hjá þér.

Hörður Valdimarsson, 26.5.2009 kl. 09:56

11 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Hörður, leit á grein þína, góð.  ÓM er pabbi minn.  Highlight-a orðið, ýti á hlekk hnapp að ofan og copy/paste hlekkinn sem ég vil tengja. mwm

Már Wolfgang Mixa, 27.5.2009 kl. 11:07

12 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Takk fyrir það. Var reyndar búinn að finna út að ef maður notar html ham gat maður gert þetta eins og ég gerði það.

Hörður Valdimarsson, 27.5.2009 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband