Verðbréfasjóðir - það sem lögin gerðu ekki ráð fyrir

Í dag birti Mogginn leiðréttingu á www.mbl.is varðandi frétt blaðsins í morgun um fjárfestingaheimildir sjóða samkvæmt lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði - http://www.althingi.is/dba-bin/prentaloguti.pl?lnr=2003030&utg=137&pdf=PDF - sjá lögin á hlekknum.  Samkvæmt upphaflegri frétt fóru sjóðirnir út fyrir heimildir í fjárfestingum en orðrétt stendur í leiðréttingu á mbl að:

„Fjárfestingarsjóðum er heimilt að binda allt að 20% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum útgefnum af sama útgefanda. Þó er heimilt að binda allt að 35% af eignum sjóðs í skráðum verðbréfum í kauphöll og peningamarkaðsskjölum útgefnum af sama útgefanda enda sé fjárfesting yfir 20% aðeins í einum útgefanda," segir í lögum um verðbréfa- og fjárfestingarsjóði. Peningamarkaðssjóðir voru skilgreindir sem fjárfestingarsjóðir.

Því kemst Mogginn að þeirri niðurstöðu að röng frétt hafi birst í morgun.  Það er rétt.

Þetta er aftur á móti ekki alveg svo einfalt.  Þessir sjóðir voru skilgreindir sem fjárfestingarsjóðir og sem slíkir voru þeir aðallega ætlaðir þeim sem skilgreindir eru meira í ætt við það sem kallast fagfjárfestar, s.s. sjóðsstjórar, fjármálastjórar fyrirtækja osfrv., ekki Gunna og Jón af götunni.  Slíkar einstaklingar átta sig á því að verið er að fjárfesta í víxlum fyrirtækja og svo lengi sem allt er í sómanum fæst góð ávöxtun, en það er ákveðin áhætta til staðar.  Það að slíkir sjóðir hafi smám saman verið auglýstir í meira mæli til almennings hefði átt að skilgreina sjóðina á nýjan leik, þ.e. sem verðbréfasjóði. 

Í 1. og 2. málsgrein 2. gr. laganna kemur t.d. fram skilgreining sem aðgreinir slíka sjóði; fjárfestingasjóðir hafa ekki heimild til markaðssetningar á evrópska efnahagssvæðinu.  Í 55. gr. laganna, undir III kafla. Fjárfestingarsjóðir, kemur fram að rekstrarfélagi ber að tilkynna fjárfestum frá þeirri áhættu sem felst í fjárfestingu áður en viðskipti eiga sér stað.  

Því er verið að fjalla um sjóði sem eru skilgreindir skv. lögum með ákveðnum hætti en auglýstir með öðrum hætti.  Það að fjárfestingarstefnan sé rýmri í slíkum sjóðum er eðlilegt, tilgangur laga var að slíkir sjóðir væru almennt ekki auglýstir sem fjárfestingarkostir fyrir almenning heldur sem hluti af safni innan eignastýringadeilda og fagfjárfestum.  Lögin virðast einfaldlega ekki hafa gert ráð fyrir að slík stefna myndi smám saman breytast.

Vernd fyrir hvern?

Annað sem lögin gerðu ekki ráð fyrir var vernd fjárfesta, eða öllu heldur vernd eigenda rekstrarfélaganna.  Í 15. grein er kveðið á um aðskilnað reksturs og vörslu og óhæði rekstrarfélags og vörslufélags.  Þessi lög, sem sett voru árið 2003, ollu minni fjármálafyrirtækjum miklum vandræðum og gerðu það eiginlega vonlaust fyrir ný fyrirtæki að hefja sjóðarekstur á Íslandi.  Nú þurfti að mynda sérstaka stjórn um sjóðina með tilkomu (óháðs) rekstrarfélags og ráða sjóðsstjóra sem gerðu ekkert annað en að sjá um stýringu sjóða og ýmis konar frágang í tengslum við sjóði. 

Á mínum gamla vinnustað, Sparisjóð Hafnarfjarðar, var ég t.d. yfirmaður verðbréfasviðsins og sjóðsstjóri 4 sjóða samtímis (var vel að merkja með framúrskarandi ávöxtun þrátt fyrir að hafa marga bolta á lofti).  Þessi lög áttu að koma í veg fyrir þann möguleika að bankastjóri gæti labbað til sjóðsstjórans og beðið hann um að fjárfesta í öllum fyrirtækjum sem voru í viðskiptum við bankann og auglýst svo sjóði eftir hentisemi útlánaþarfa bankans.  Þetta voru góð rök fyrir því að vernda hagsmuni sjóðsfélaga en dýrt spaug fyrir minni fyrirtæki.

Eins og sést á þessari frétt - http://silfuregils.eyjan.is/2009/03/14/ein-staersta-svikamylla-islandssogunnar/ - þá virðist þróunin hafa farið í hina áttina síðastliðið haust.  Eins og fram kemur í 2. málsgrein þá eiga rekstrarfélög og vörslufélag ætíð að vera óháð í störfum sínum; tilgangur þessa laga var að rekstrarfélag hlyti ekki skaða.  Í þessu tilviki hlýtur það að hafa verið augljóst að vörslufélagið, þ.e. Íslandsbanki, hlyti skaða af þessum viðskiptum.  Mönnum hlýtur að hafa verið ljóst með allar þær upplýsingar sem menn höfðu aðgang að að verið var að kaupa bréfin á yfirverði.  Að stjórnmálamenn hafi íhlutast í þessi mál vekur upp enn áleitnari spurningar.

Lærdómurinn af þessu hlýtur að vera sá að sjóðafyrirtæki verði að vera óháð fyrirtæki hvað eigendur varðar.  Í Bandaríkjunum eru sum sjóðastýringarfyrirtæki m.a.s. skráð á markaði.  Það er aðeins með dreifðu eignarhaldi sem að hagur allra sjóðsfélaga er tryggður hvað óhæði varðar.  Annars, þegar að á reynir, eru smugur fundnar til að taka sveig framhjá óhæði í fjárfestingum. 


mbl.is Leiðrétting: Sjóðir innan lagaheimilda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Ég hef margoft viðrað nauðsyn þess að setja fastar skorður á auglýsingar banka og fjármálafyrirtækja, þ.m.t. tryggingarfélaga, líkt og gengur og gerist í Bretlandi og víðar. Það þarf að setja inn texta líkt þar sem neytandi er fræddur á eðli fjárfestingarinnar / þjónustunnar.

Það er löngu tímabært að upplýsa viðskiptavini betur hvað er á ferðinni.  Þetta á við þegar verið er að auglýsa afurðir og þjónustu; ímyndarauglýsingar eru undanskildar þar sem þær snúast um annað. Erlend samtök fjármálafyrirtækja hafa ákveðið að fara þá leið sjálf (self-regulatory) í stað þess að fá lög sett á sig. Það þarf að gera svipað hér.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 12.10.2009 kl. 02:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband