1929 - The Great Crash & The Great Bull Market

Í ljósi þess hversu mikil umfjöllun hefur verið í gegnum tíðina varðandi Hrunið árið 1929 og Kreppuna miklu árin 1930-1932 þá er merkilegt hversu fáar bækur hafi verið skrifaðar um þessi tímabil. Oftast þegar fjallað er um heimildir frá þessum atburðum, bæði undanfara og árin á eftir er oftast vitnað í örfá verk.  Only Yesterday (ár útgáfu gefur vísbendingu um nafngift bókarinnar, 1931) eftir Frederick Lewis Allen þykir veita bestu lýsingarnar á þeim tíðaranda sem ríkti undanfarin áratug. 

Þekktasta bókin um Hrunið heitir The Great Crash 1929 (útgefin 1955) eftir John Kenneth Galbraith og auk þess þykir The Great Bull Market (útgefin 1968) eftir Robert Sobel vera verðug lesning.  Þessar tvær bækur eru þau tvö verk sem oftast er vitnað í við lýsingar á þeirri þróun sem átti sér stað á áratugnum sem leiddi til hinna gríðarlegu hækkun sem varð á gengi hlutabréfa síðari hluta áratugarins, hið mikla fall verðbréfa haustið 1929 og sumpart hvaða áhrif sú þróun hafði á Kreppuna miklu áratuginn sem fylgdi á eftir.  

 

The Great Crash var upphaflega útgefin árið 1955.  Olli útgáfa hennar svolitlu fjaðrafoki enda var Dow Jones hlutabréfavísitalan að ná (loksins) sömu hæðum og hún var í 26 árum áður þegar að hið mikla fall hennar hófst (hún féll um næstum því 90% næstu 3 árin).  Tímasetning Galbraith var góð hvað markaðssetningu varðar, hann var kallaður í vitnaleiðslu hjá þinginu varðandi verðlagningu bandarískra hlutabréfa.  Vakti það mikla athygli og skaut sumum skelk í bringu.  Sagan segir að jafnvel Benjamin Graham, lærifaðir Warren Buffett, hafi ekki litist á blikuna.  Gengi hlutabréfa féll og kenndu sumir Galbraith um það; ávöxtun hlutabréfa næsta áratuginn var hins vegar meira en vel viðundandi. 

Hér er örlítil samanburðargreining á þessum bókum sem snýr að goðsögnum sem einkenna þessi tímabil og tengingu þeirra.

Goðsögnin    

 

Það mætti segja að ýmsar mótsagnir, sem Sobel gerir góð skil í inngangi bókar sinnar, séu til staðar í vitund flestra varðandi hrunið mikla 1929 (hér eftir oft einfaldlega vitnað í sem hrunið) og Kreppuna miklu sem fylgdi í kjölfarið.  Oftast er sögulega einblínt á þætti sem eru aðdragandi að einhverjum hápunkti sem verður hluti af almennri þekkingu fólks af sögunni.  Þetta á við um þriðja áratuginn í Bandaríkjunum sem hefur verið gerð ágætis skil enda eitt af helstu umbreytingarskeiðum hins vestræna heims.  Þetta á þó ekki við um hrunið mikla 1929.  Goðsögn um þá atburði hefur í tímans rás myndast og er í dag í hugum margra ekki litið á sem sögulegt atvik með aðdraganda heldur meira sem endi eins tímabils sem var uppfullt af ljóma og (óraunhæfs) bjartsýni og upphaf annars yfirfullt af örvæntingu og eymdar.  Þetta hljómar allt að því ljóðrænt, að eitt 10 ára tímabil í blóma sé undanfari annars í skugga örbyggðar, eins og samlíking við margar af þeim biblíusögum sem flest okkar lærum. 

 

Til að öðlast betri sýn að þeim veruleika sem þá blasti við þarf að ýta til hliðar slíkum goðsögnum (fordómum) og rannsaka allt tímabilið í samhengi við bandarískt samfélag, umheiminn, félagslega þróun og hvernig slík tengsl stuðluðu að efnahagslegum aðstæðum og ákvörðunum tengdum þeim og loks hvernig framangreindir þættir skópu þróun verðbréfamarkaða.  Sú þróun hófst á grunni endalok annars skeiðs, fyrri heimsstyrjaldarinnar, og er álitin af sumum stór ástæða þeirrar kreppu sem hófst 1930 og er jafnvel samofin upphaf þeirrar síðari og hvernig Bandaríkin náðu loks að rífa sig upp úr efnahagslegu lægð sinni.  Umfjöllun um þessa atburði er hefur verið furðu lítil og byggist sumpart á misskilningi sem rekja má að hluta til bókar Allen, sem tengdi endalok góðærisins við hrunið 1929 og hefur að mati sumra átt stóran þátt í móta goðsöguna um samband þess og Kreppuna miklu.      

 

Að mati Sobel voru fjárfestar í Bandaríkjunum ekki ofurbjartsýnir miðað við þær aðstæður sem þá ríktu í efnahagslífinu.  Hann bendir á að út frá kennitölum hlutabréfa varðandi markaðsvirði fyrirtækja, arðgreiðslur og hagnað hafi gengi hlutabréfa oft verið hærra en í undanfara hrunsins 1929 – miklar hækkanir hafi átt sér stað til að mynda frá árinu 1921 þegar að gengi hlutabréfa var afar lágt eftir slaka ávöxtun árin áður sem tengdist að stórum hluta atburðum tengdum fyrri heimsstyrjöldinni.  Þess ber að geta að Galbraith er ekki sammála þessu og telur að ofurbjartsýni fjárfesta hafi verið stór þáttur hrunsins.  Sobel kemur fram með áhugaverðar staðreyndir máli sínu til stuðnings.  Miðað við þær röksemdafærslur hafa órökrænni bjartsýnisköst oft átt sér stað síðar meir án sömu hrikalegu afleiðinga.  Sobel telur að hrunið hafi öllu heldur stafað af veikleikum í innviðum ríkisins og á Wall Street auk orsakasamfléttu viðskipta og spákaupmennsku, sér í lagi spákaupmennsku fjármagnaða með mikilli lántöku hjá fjármálastofnunum (svipuð saga rúmum 70 árum síðar á hápunkti netbólunnar og örfáum árum síðar í enn stæra mæli) – þessu er Galbraith að sumu leyti sammála en telur sálræna þáttinn eiga meiri þátt í hvernig fór.     

 

Hrunið 1929 skóp í sjálfu sér, að mati Sobel og margra fleiri fræðimanna, ekki hinn mikla skaða og gjarnan er haldið fram.  Hlutabréfamarkaðir hækkuðu mikið næstu sex mánuði í kjölfarið og margt sem var aflaga fyrir hrunið var á því tímabili lagfært að einhverjum hluta.  Sú sterka ímynd af fólki endandi tilveru sinni með því að stökkva út um gluggum er því goðsögn ein (tíðni sjálfsmorða var vel undir meðallagi árið 1929) og ótti um tilvonandi kreppu orðum aukinn í það minnsta.  Bandaríkjamenn voru vel meðvitaðir um snöggar dýfur niður á við á hlutabréfamörkuðum á þeim tíma – það er aftur á móti lítt vitað um hrunin árin 1873 og 1907 sem voru enn verri (1920 varð einnig mikið fall), enda brögguðust markaðir fljótlega aftur og efnahagur í heild og tengdust þau því ekki tímamótum í sögu Bandaríkjanna sem hrunið 1929 er gjarnan kennt við.  Það var því ekki fyrr en töluvert eftir á sem hrunið fór að verða táknrænt í hugum fólks sem undanfari Kreppunnar miklu.  

 

 

Þess má geta að RÚV sýnir í kvöld, mánudag, þátt sem heitir 1929 - The Great Crash.  Nú veit ég ekki hvort verið sé að vísa í titil bókar Galbraith.

Dómur minn um Only Yesterday - sjá hér: http://www.slideshare.net/marmixa/20020718-only-yesterday

Hér eru 5 atriði sem John Kenneth Galbraith nefnir að hafi gert efnahaginn veikan fyrir í The Great Crash (sjá í færslu minni  http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/972289/ ).  Þau eru:

  1. Ójöfn skipting tekna - 5% þjóðarinnar skiptu á milli sín þriðjungi tekna þjóðarinnar.  Hlutfall tekna vegna fjármagnstekna í ýmsum formum hafði tvöfaldast síðustu 10 árin.
  2. Slæm uppsetning fyrirtækja - Galbraith vísar hér fyrst og fremst til gírugra fjárfestingafélaga.
  3. Veikt bankakerfi - Lán sem virtust vera í góðu lagi í uppganginum litu flónskulega út þegar að niðursveiflan hófst. 
  4. Viðskiptajöfnuður í ójafnvægi
  5. Vanþekking í efnahagsmálum - Eins og Stiglitz þá telur Galbraith að áhersla í aðhaldi fjármála ('Balanced budget') hafa verið stórkostleg mistök þegar að fjárlagahalli hefði verið nauðsynlegur til að glæða atvinnulífið á nýjan leik.  Stjórnendur AGS eru líklegast litlir 'Galbraith' aðdáendur.

Vert er að benda á að Árni Árnason tók saman afar góða samlíkingu á síðasta ári um þetta efni, sjá hér: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1255245 (læst áskrift, aðeins fyrir Moggaáskrifendur)

Sjá aðrar færslur um hrunið 1929 hér...

Once In Khaki Suits fyrirlestur - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/974229/ 

Black Monday & Black Tuesday - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/972289/

25. & 26. okt. 1929 : S T E A D Y - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/970434/

Black Thursday - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/969788/

23. okt : Úlfur Úlfur - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/969371/

22. okt : Orðræða tímabilsins - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/968726/

1929 Endalok the Roaring 20s - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/968161/

Brother Can You Spare a Dime? - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/964637/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka góða grein

Erlingur Þ (IP-tala skráð) 23.11.2009 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband