IceSave - aðskilnaður banka og ruðningsáhrif vegna greiðsluþrots

Þeim fjölgar ört sem telja að aðskilja eigi starfsemi banka til þess horfs sem það var áratugum saman í kjölfar Kreppunnar miklu, það er að fjárfestingarbanka- og viðskiptabankastarfsemi sé aðskilin.  Meðal þeirra er hagfræðingurinn Michael Hudson sem er orðinn Íslendingum vel kunnur.  Hef ég fjallað töluvert um þetta og hægt er að sjá þau skrif vinstra megin á blogg síðu minni undir tenglinum Endurreisn bankanna, sjá meðal annars Aðskilnaður fjármálaþjónustu.  Einhverra hluta vegna virðist takmarkaður áhugi ríkja hérlendis um slíka skiptingu.  Í drögum um endurreisn banka fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir slíkri skiptingu eins mikið og auðið er, sem er einfaldlega umorðun um að dregið verði úr fjárfestingargleði banka sem ætti að vera augljóst mál.

Nú, þegar að viðhorf erlendra aðila er (loks) að snúast á sveif með Íslendingum varðandi Icesave, ætti ákveðið skref í þeim efnum að undirstrika gagnvart umheiminum að Íslendingar séu að einhverju leyti að takast á við fortíðina.  Þetta er góð tímasetning til að aðskilja rekstur fjárfestinga og þjónustu til einstaklinga og smárra fyrirtækja; ríkisábyrgð yrði þá takmörkuð við viðskiptabankaþjónustu.  Skilaboðin á alþjóðlegum vettvangi væru þau að Íslendingar væru nú þegar farnir að taka skref til að koma í veg fyrir annað fjármálahrun vegna áhættusækni í fjárfestingum (skref varðandi aukið regluverk bera sögulega lítinn árangur, sígild spurning er til dæmis hverjir sinna regluverki á störfum þeirra sem starfa innan fjármálaeftirlita eða 'who regulates the regulators').  Skilaboðin væru ótvíræð: Ísland er að læra af reynslunni.  Erfiðra er að beita hörku í samningaviðræðum á alþjóða vettvangi gagnvart slíkri þjóð.

Það er auk þess að koma æ betur í ljós að staða okkar skiptir máli á erlendum vettvangi.  Nýleg grein í The Economist bendir á að lendi einhver þjóð innan evrusvæðisins í greiðsluþroti gæti það sett evruna í tilvistarkreppu.  Spurt er hvort að önnur ríki kæmu slíku ríki til aðstoðar.  Greiðsluþrot eins ríkis gæti hæglega leitt til aukinna vandræða og jafnvel orðið til þess að stórt ríki lendi í svipaðri stöðu.  Aukin skuldaaukning ríkja undanfarin ár hefur opnað möguleikann á slíkri þróun.  Því má bæta við að aðstoð stærri ríkja gæti leitt til þess að önnur færu að reiða sig á að slíka aðstoð og hefðu því minni ástæðu til aðhalds í útgjöldum.  Vandamál þjóða í vandræðum gæti ekki verið leyst með veikingu gjaldmiðils þar sem þau væru tengd evrunni og þegar þau eru eitt sinn orðin hluti af ESB er nánast ógerlegt að snúa til baka.  Þetta eru í fyrsta lagi rök gegn aðild Ísland að ESB.  Í öðru lagi gefur þetta til kynna að hagur flestra þjóða í Evrópu ætti að vera að koma í veg fyrir að skuldbindingar Íslendingar verði það miklar að greiðsluþrot væri raunverulegur möguleiki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband