Fjárfestingar ömmu minnar
20.5.2010 | 14:38
Allir erlendir hlutabréfasjóðir voru seldir en ég breytti engu varðandi örugga hluta verðbréfasafnsins, enda ávöxtunarkrafa á tryggum íslenskum skuldabréfum og innstæðum á þeim tíma afar há. Hún var raunar svo há að ljóst var í mínum huga að hún gæti ekki með nokkru móti haldist til lengri tíma.
Verðbréfasafnið var með öðrum orðum nánast einungis bundið í innlendum eignum sem taldar voru eins öruggar og hægt var að hugsa sér. Stýringin fólst aðallega í kaupum og sölum verðbréfa í útboðum, ég fjárfesti örlítið í erlendum hlutabréfum eftir að gengi þeirra hafði fallið mikið 2000-2003 (og krónan sterk) og fjárfesti í 3 hlutbréfum. Þetta voru ekki háar upphæðir en skiptu miklu máli. Innlendu hlutabréfin voru:
Húsasmiðjan - Keypt voru bréf á genginu 19, það féll aðeins en síðan var fyrirtækið tekið yfir á sama gengi tap nam því fjármagnskostnaði í nokkra mánuði.
Actavis - Ég keypti hlutabréf í Actavis 2001. Gengið var 7,6 (hér miða ég við fjölda bréfa áður en jöfnun átti sér stað). Að mínu mati var fyrirtækið gróflega vanmetið í ljósi einfaldrar ávöxtunarkröfu sem fólst í gengi bréfanna og vaxtatækifæri fyrirtækisins. Árið 2004 seldi ég 2/5 af bréfunum á genginu 40 og setti í örugga ávöxtun. Þremur árum síðar var fyrirtækið síðan tekið yfir á genginu 90. Á þeim tímapunkti, 6 árum síðar, var virði innleysts hagnaðar samtals u.þ.b. 10 faldur af upphaflegri fjárfestingu.
Össur - Árin 2001 og 2002 keypti ég bréf í Össuri á meðalgenginu 42. Bréfin hafa ekki verið seld. Eftir að hafa meira en 4 faldast í verði er ég farinn að hallast að því að minnka eigi þá stöðu. Ávallt skal hafa í huga sannindi sem oft er sagt um hlutabréf (hef þetta á ensku, þýðing gæti bjagast): Never fall in love with your stocks because one thing is certain; they will never fall in love with you.
Þetta eru reyndar einu hlutabréfin enn skráð á íslenskum hlutabréfamarkaði sem ekki hafa orðið meira og minna verðlaus síðasta áratuginn.
Ávöxtun og samanburður við aðra lífeyrissjóði
Lauslegur útreikningur minn gefur til kynna að raunávöxtun síðasta áratugar hafi árlega verið um 6,1% af safninu. Séu tölur fáanlegar hjá FME notaðar sést að árleg raunávöxtun lífeyrissjóða 1999-2008 var um 3% á tímabilinu. Samkvæmt nýlegum upplýsingum frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) var meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðasta áratugar (2000-2009) 0,8%.
Þessar tölur skipta verulega miklu máli. Ef maður miðar við raunvirði þá er þúsund kall lagður í lífeyri fyrir 10 árum síðan hjá lífeyrissjóðum kominn í um 1.345 krónur, hjá LSR (betra samanburðartímabil) væri þúsund kallinn orðinn um 1.083. Með sömu ávöxtun í lífeyri ömmu minnar væri upphæðin í kringum 1.808. Ávöxtun fjármagnsins væri h.u.b. tífalt hærri á einum áratug, eignin meira en helmingi hærri. Þessi samanburður er vitanlega ekki alveg sanngjarn, en frekari umræða um slíkt er tilefni í aðra grein.
6,1% raunávöxtun á tímabilinu er ekki alveg svo ótrúleg. Í upphafi tímabilsins var ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa á bilinu 5-6% (lífeyrissjóðir voru með h.u.b. 60% eigna sinna í verðtryggðum fjárfestingum í upphafi áratugarins). Raunvextir óverðtryggðra innlána voru einnig afar háir síðasta áratug, sérstaklega frá því að bankar fóru inn á íbúðalánamarkað og fram að hruni. Með stærsta hluta safnsins í slíkum fjárfestingum og ævintýralegan hagnað af hlutabréfum náðist þessi ávöxtun.
Því má við bæta að slík ávöxtun er til lengri tíma óraunhæf fyrir einstaklinga. Lærdómurinn af þessu er:
- Hafðu mestan hluta fjárfestinga þinna í öruggum verðbréfum. Almenn skoðun um að meira óöryggi í fjárfestingum (sveiflum í virði) skili sér í betri ávöxtun til lengri tíma er í besta falli ónákvæm. Warren Buffett segir að verðið er það sem þú borgar, virði er hins vegar það sem þú færð.
- Ekki hafa of mörg egg í körfunni, en fylgstu þeim mun betur með þeim.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:02 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er svona álíka góð ráðgjöf eins og "buy low - sell high" ráðgfjöfin. Án þess að ætla að vera með útúrsnúning á því sem þú ert að segja, þá held ég að felstir hafi t.d. talið að íslensku bankarnir væri örugg fjárfesting. Það reyndist ekki vera. Sama má segja um ýmis félög sem voru á markaðnum. Eftir stendur að það eru nánast engin félög sem eru skráð í kauphöllina.
Það er líka alltaf hægt að vera vitur eftir á. Þá skýrist myndin yfirleitt og menn sjá hversu galnar ýmsar fjárfestingar eru.
TómasHa, 20.5.2010 kl. 15:23
viðskipti Stór hluti starfsfólks gamla Kaupþings tapaði svo gott sem öllum viðbótarlífeyrissparnaði sínum sem það átti í séreignarsjóði Kaupþings fyrir starfsmenn. Sjóðurinn var í umsjón Frjálsa lífeyrissjóðsins og fjárfesti eingöngu í hlutabréfum bankans. Í lok september 2008 voru í sjóðnum tveir milljarðar króna. Þegar skilanefnd á vegum Fjármálaeftirlitsins tók lyklavöldin yfir í Kaupþingi í annarri viku október 2008 varð viðbótarlífeyrissparnaðurinn að engu.
Yfirstjórn Kaupþings stofnaði sjóðinn árið 2002 og var starfsfólki í sjálfsvald sett hvort það lagði fyrir í sjóðinn. Sjóðsfélagar gátu ekki losað eignir úr honum fyrr en þeir komust á aldur. Enginn sérstakur ávinningur var því með fjárfestingu í honum annar en sá að tvinna saman hagsmuni starfsfólks og Kaupþings.
Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að þegar halla tók undan fæti á hlutabréfamarkaði árið 2008 hafi stjórnendur bankans hvatt starfsfólk til að færa viðbótarlífeyrissparnað sinn yfir í séreignarsjóðinn. Undir það síðasta var þrýstingurinn allnokkur, jafnt frá stjórnendum sem öðru starfsfólki. Þeim sem ekki höfðu flutt sparnað sinn yfir var brigslað um að styðja ekki við bankann.
Dæmi eru um að starfsmenn Kaupþings sem hófu störf hjá Búnaðarbankanum fyrir tíu til fimmtán árum og áttu nokkurra milljóna króna uppsafnaðan viðbótarlífeyrissparnað hjá Lífeyrissjóði bankamanna hafi látið undan þrýstingi frá samstarfsfólki sínu og flutt sparnað sinn yfir í séreignarsjóðinn nokkrum dögum fyrir fall bankans.
Nokkrir fyrrverandi starfsmenn Kaupþings leituðu ráða hjá Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) vegna málsins skömmu eftir fall bankans og könnuðu hvort þeir gætu gert kröfu í bú hans. Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri SSF, segir ekki hægt að gera kröfu um séreignarsparnað.
Séreignarsjóður starfsfólks Kaupþings er enn starfandi en fyrirhugað er að slíta honum. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka eru nú 9,5 milljónir króna í séreignarsjóði starfsmanna Kaupþings. Áður en til slita kemur verður eign sjóðsins dreift á meðal sjóðsfélaga. Miðað við að þeir séu jafn margir og í lok september 2008 fær hver um 5.463 krónur, sem verða fluttar í annan séreignarsjóð. jonab
@frettabladid.is
Síða 1
Allar síður
Opnur Stök síða
Veldu blað Full útgáfa (zip) Full útgáfa (exe)
1600x1200 800x600 1024x768 1280x1024 1600x1200
Gísli (IP-tala skráð) 20.5.2010 kl. 16:14
Mig langar að benda Tómasi á að þegar hann segir
"þá held ég að felstir hafi t.d. talið að íslensku bankarnir væri örugg fjárfesting"
Þá er hann að lýsa tískubólu.
Það er "Common sense" að átta sig á að verðbréf eru ekki öruggari fjárfesting en rekstur þess aðila sem gefur bréfin út. Tekjustraumur hans verður að geta staðið undir rekstrinum sem og endurgreiðslu þeirra skuldbindinga sem viðkomandi aðili hefur tekið á sig.
En verð að taka undir það sem þú segir um að tískan geti verið hættuleg.
Hún blindar og brenglar "Common sense" í viðskiptum sbr. ÍE á sínum tíma.
Þá má bæta við að "Common sense is not so common" og enn erfiðara að fara eftir eðlísávísun sinni þegar markaðurinn tekur tískusveiflu.
Ég gleymi því aldrei þegar viðskiptastjóri LÍ harðneitaði að skuldabréfasjóðir þeirra gætu lækkað í verði, þeir væru verðtryggðir...
Ég spurði þá einfaldlega afhverju inneign í sjóðnum væri reikuð út frá gengi en ekki vísitölu neysluverðs... og fékk engin svör.
Þegar um lífeyrir er um að ræða þá er öryggi ekki nauðsynlegt, það er grundvallarskilyrði.
Kjartan Kjartansson (IP-tala skráð) 20.5.2010 kl. 17:10
En voru þá ekki viðskipti á verðbréfamörkuðum allmennt tískubóla á þessum tíma. Hérna er talað um húsasmiðjuna, sem var sett á markað en er í dag gjaldþrota (mörgum árum og eigendum síðar), Actavis sem er tæknilega gjaldþrota, Össur sem stóð á kafi í útrásinni þótt þeir ætli að koma réttir út úr þessu og ef við hendum inn Marel þá hafa þeir fjárfest gríðarlega.
Þegar rætt er um Buffett þá hefur hann einnig fjárfest í bönkum, þó á öðrum forsetum og ekki á bólutímum. Már útskýrir kannski hvort það sem hann eigi við sé fjárfesting í íslensku bönkunum. Það væri annars fróðlegt að sjá hvort einhver geti bent á mann sem var að stýra nokkrum hlutabréfasöfnum á Íslandi sem átti ekki krónu í íslenskum banka (óháð kröfu viðskiptavina). Ég efast um að sá maður finnist og ef hann finnist að ástæðan hafi verið að hann hafi trúað því að bankarnir væru tískubóla.
Menn geta verið ofboðslega gáfaðir eftir á og horft í baksýnisspegilin á þetta á þá auðn sem er núna á verðbréfamörkuðum. Ég held að sama hversu klár menn hafi verið, þá hafi þeir ekki getað spáð fyrir um þetta eða hvaða fyrirtæki áttu að versla í.
TómasHa, 20.5.2010 kl. 18:59
Almenningur á ekki kost á því að gera svona hluti. Í fyrsta lagi þarf nokkra kunnáttu til og einnig þarf nokkurn tíma til að fylgjast með þessu. Því lögðu flestir traust sitt á bankana.
Sjálfur átti ég sparireikning í banka, hann gaf ágætis ávöxtun en var að hluta til lokaður. Fulltrúi í bankanum kom eitt kvöldið í heimsókn til mín og benti mér á að ég gæti ávaxtað mitt sparifé betur með því að kaupa hlutabréf. Auðvitað vissi ég það, en ævintýramennska í fjármálum hefur aldrei heillað mig. Því vildi ég hafa mína peninga á öruggri bankabók.
Fulltrúinn var ekki af baki dottinn, hann lagði fyrir mig flottann bækling. Í þessum bækling voru útlistaðar þrjár sparnaðarleiðir. Sú fyrsta gaf mesta ávöxtun og hún taldist örugg, önnur leiðin var með aðeins minni ávöxtun og var öruggari, þriðja leiðin hafði minni ávöxtun, samt mun meiri en bankabókin mín, og var sú leið sögð öruggust.
Skemmst er frá að segja að ég ákvað að láta stóran hluta af sparnaði mínum inn á þriðju leiðina. Þessi fulltrúi (sölumaður) var frá bankanum og því ekki ástæða til efast um heiðarleika hanns.
Um það bil ári seinna verður bankahrunið, öruggasta leiðin var ekki öruggari en svo að ég tapaði 70% af innistæðunni. Það fé sem ég hélt eftir á bankabókinni hélt sér.
Þetta er sennilega saga margra, fólk treysti bönkunum enda ekki ástæða til annars. Þetta traust nýttu þeir til að hafa féð af fólki.
Gunnar Heiðarsson, 20.5.2010 kl. 21:31
Það var augljóslega heppilegt að fjárfesta ekki í séreignasjóði Kaupþings. Sjálfur var ég undrandi á því að þetta væri hreinlega leyfilegt. Reynsla af falli Enron hefði átt að hringja viðvörunarbjöllum. Margir starfsmenn fyrirtækisins áttu allt sitt sparifé í fyrirtækinu. Þegar að Enron fór á hausinn misstu starfsmenn ekki einungis vinnuna heldur líka lífeyrissparnað sinn. Slök áhættudreifing er varlega til orða tekið.
Hvað varðar Buy Low Sell High þá er ég frekar að vísa í þá almennu trú að hlutabréf veiti svo miklu betri ávöxtun en skuldabréf. Að mínu mati eru hlutabréf stundum að veita betri ávöxtunarkröfu, stundum skuldabréf. Sjá t.d. greinar mínar um goðsögn hlutabréfa (skrifuð 2001 - þar vara ég við vonbrigðum á ávöxtun þeirra á næstu árum) og V/H hlutföll og ávöxtunarkrafa skuldabréfa (þar mæli ég með kaupum í bandarískum skuldabréfum, sú ráðgjöf snérist við eftir miklar lækkanir á gengi hlutabréfa árið 2003). Það að hlutabréf séu alltaf besti langtímakosturinn er aftur á móti fjarstæða.
Buffett hefur átt bréf í bönkum og tryggingarfélögum. Eitt einkenni á rekstri félaga í eigu fjárfestingarfélags hans kemur fram í þessari grein
Það sem Gunnar skrifar var því miður allt of algengt. Hér bera margir sök en þó aðallega stjórnendur banka sem áttu að vita betur. Aftur, aukin áhætta skilar sér ekki nauðsynlega í betri ávöxtun, né var nægur skilningur á áhættu sem fólst í slíkum fjárfestingum (þetta á ekki síður við um lántökur í erlendum myntum). Því voru slíkar söluherferðir dæmi um vankunnáttu og flokkast í sumum tilfellum í besta falli undir siðleysi.
Már Wolfgang Mixa, 20.5.2010 kl. 23:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.