Saga um skulduga þjóð

Sagan sýnir að viðhorf fólks til ýmissa þátta breytist miklu meira en flestir gera sér grein fyrir.  George Freidman dregur skemmtilega fram í bók sinni The Next 100 Years hversu framtíðarsýn fólks breytist ört.  Í upphafi síðustu aldar var því haldið fram að stríð væri óhugsandi, viðskiptahagsmunir hreinlega leyfðu það ekki og friðsöm Evrópu myndi stýra heiminum.  Aðeins tuttugu árum síðar var Evrópa í rústum eftir hrikaleg stríðsátök og Bandaríkinn og Japan fóru að vera aðeins meira en vaxandi þjóðir.  Aðeins eitt þótti vera víst; Stríð yrði aldrei aftur leyft að eiga sér stað.  Árið 1940 var Evrópa enn aftur í viðjum stríðsátaka og Þýskaland yrði ráðandi afl í framhaldinu.  Tuttugu árum síðar réði Evrópa litlu, álfan var klufin í tvennt af Bandaríkjamönnum og Sovétríkjum; kalt stríð var hafið.  Það kalda stríð réði enn ríkjum árið 1980 og þótti eitthvað eins og niðurrif járntjaldsins vera óhugsandi.  Það var þó staðreyndin um næstu aldamót og stríð þótti á nýjan leik vera óhugsandi.  Hverjum datt 9/11 þá í hug?

 


Ofangreindir þættir eru umhugsunarefni varðandi eftirfarandi sögu.  Einu sinni var ríki sem hafði öðlast sjálfsstæði nokkrum áratugum áður.  Þjóðin samanstóð af 280 þúsund einstaklingum sem byggði afkomu sína fyrst og fremst af fiskveiðum.  Farið var hins vegar í dýrar framkvæmdir sem kostuðu sitt.  Þegar að mikill samdráttur átti sér stað á heimsvísu drógust tekjur saman, fjárlagahallinn fór yfir 10% af þjóðartekjunum og skuldir þjóðarinnar borið saman við tekjur þess voru orðnar meira en tífaldar.  Stjórnmálamenn voru rúnir öllu trausti og þurftu ráðherrar jafnvel vernd gegn fjöldanum sem vildi ganga í skrokk þeirra.

 


(Næstum því) nýja Ísland

 

Þetta var Nýfundnaland árið 1933.  Samdrátturinn var Kreppan mikla.  Niðurstaða þessarar fjármálakreppu landsins var að þjóðin samþykkti að fórna sjálfsstæði sínu og Bretar fengu sínu fram við að innlima hana við Kanada.  Nýfundnaland er tekið sérstaklega sem dæmi í nýútgefinni bók Reinhart og Rogoff sem nefnist This Time Is Different sem fjallar um megindlegar stærðir í tengslum við fjármálabólur.   Skuldir þjóðarinnar voru yfirteknar af kanadísku ríkisstjórninni til að koma í veg fyrir að dóminó áhrif færu yfir landamærin til þeirra banka (bankakrísa í einu landi getur auðveldlega breiðst yfir til annars lands þegar að skuldunautar fara að svipast eftir líkum einkennum á svæðinu þar sem krísan á upptök sín).

 

Nýfundnaland lenti tæknilega aldrei í gjaldþroti, það einfaldlega blasti við.  Sagan er auk þess full af dæmum þar sem að þjóðir, jafnvel heimsveldi, hafa ekki staðið í skilum við skuldbindingar sínar.  Rússland er nýlegt dæmi en viðhorfið á þeim tíma, fyrir rúmum áratug, var ekki að ráðast á landið og taka til dæmis listaverk þjóðarinnar upp í skuldir (það er auðvitað ekki hægt gegn þjóð sem getur varið sig með þeim hætti).  Það eru hins vegar dæmi um slíkt í Suður Ameríku á fyrri hluta síðustu aldar, þegar að Bandaríkjamenn yfirtóku tollstöðvar þjóða til að innheimta skuldir og hernámu jafnvel Dominíska lýðveldið árið 1916.

 

Höfundar benda á að aðkoma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) hafi jafnvel komið í veg fyrir slíkum aðgerðum síðar.  Það þýðir þó ekki að þær aðgerðir hafi skilað góðum árangri, hann er raunar frekar slakur hjá skuldugum þjóðum.  Reynslan sýnir að skuldugar þjóðir nái sjaldan að vinna sér úr þeim vandamálum með auknum vexti tekna, einhverjar afskriftir séu nauðsynlegar.  Höfundar velta einnig fyrir sér menningarleg sjónarmið ríkja í þeim efnum; hafa þau burði til að ávinna sér á ný lánshæfnistraust?

 

Lærdómur

 

Þó svo að hrunið hafi valdið gífurlegum búsifjum á Íslandi þá mátti litlu muna að ekki færi jafnvel enn verr.  Aðkoma AGS hafur sett spurningarmerki um hvort að stýring fjármála þjóðarinnar sé í raun í hennar höndum. 
Íslendingar verða að skilgreina sig sem þjóð sem leggur áherslu á aðhaldi í fjármálum.  Alþingismenn, lög og reglugerðir duga skammt.  Þetta þarf að vera hluti af almennri hugsun samfélagsins.  Það er ekki einungis hluti af því að fá aftur traust erlendra aðila, heldur lykill að því að viðhalda aðra grunn þætti þjóðarinnar, til dæmis velferðasamfélagi.  Ég tel að slíkt þurfi að koma fram í stjórnarskrá Íslands.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Mjög góð lesning.

Sumarliði Einar Daðason, 27.11.2010 kl. 16:06

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Fínn pistill.

Ég myndi vilja sjá í stjórnarskrá ákvæði um sjálfsskuldarábyrgð valdahafanna á opinberum skuldbindingum sem eftir standa að kjörtímabili þeirra loknu. Það myndi hamla gegn ósjálfbærri skuldsetningu. Í lok hver kjörtímabils ættu fráfarandi valdhafar að vera skyldaðir til að skila af sér skýrslu um þau verkefni sem unnin hafi verið á kjörtímabilinu, helstu stefnumarkandi ákvarðanir, og fjárhagslega afkomu, svo hægt sé að leggja mat á frammistöðu þeirra með sannreynanlegum hætti. Og það ÁÐUR en kosið er að nýju. Með þessu móti væri komið í veg fyrir að óreiðumenn nái endurkjöri.

Einnig vil ég sjá ákvæði um stöðugleika mælieininga, þ.m.t. gjaldmiðils sem notaður er í verslun og viðskiptum. Við myndum ekki samþykkja fermetraverð á parketi ef lengdin á metranum væri síbreytileg, eða hveiti á kílóverði ef magnið sem við fengjum væri síbreytilegt. Það sama ætti að gilda um mælieininguna sem greiðsla fyrir vöruna er mæld í, sjálfan gjaldmiðilinn. Annars erum við í nákvæmlega sömu stöðu og ef aðrar mælieiningar væru breytilegar og háðar duttlungum sérhagsmuna.

Enn fremur er mikilvægt að leiðrétta sem allra fyrst þann óskapnað sem kallaður hefur verið eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, og skilgreina betur þannig að öll tvímæli séu tekin af um að mannréttindi eigi aðeins við um mannfólk, og fyrirtæki hafi engin réttindi heldur aðeins starfsreglur. Þetta er einfaldlega spurning um eðlilega forgangsröð, fyrirtæki geta ekki verið til án fólks, en á meðan þau eru jafnsett að lögum munu fyrirtækin alltaf hafa yfirburði í krafti stærðar og fjármagns, og leitast við að gera okkur að þrælum sínum. Það er eitthvað verulega mikið að fyrirkomulagi þar sem mannskepnan og velferð hennar er sett í annað sæti, en í fyrsta sæti eru tilbúin fyrirbæri sem eru óefnisleg, ómanneskjuleg, hafa enga siðgæðisvitund og hafa aðeins það markmið að græða peninga alveg sama hvern það skaðar. Þetta er þveröfug forgangsröðun, fyrirtækin eiga að þjóna okkur mannfólkinu, ekki við þeim.

Loks ætti að vera ákvæði sem bannar sérreglur fyrir stjórnmálastéttina. Helst þannig að stjórnmálamenn væru skyldaðir til að upplifa á eigin skinni afleiðingar þeirra ákvarðana sem þeir taka. Stjórnmálamenn myndu t.d. líklega hugsa sig tvisvar um áður en þeir skera niður þjónustu, ef þeir þyrftu sjálfir að verða af þeirri þjónustu. Þannig mætti hugsa sér að sá sem skerðir kjör einhvers hóps í þjóðfélaginu yrði að taka á sig sambærilega skerðingu á sínum eigin kjörum. Stjórnmálamaður sem myndi vilja hækka skatt á eitthvað sem fólki er nauðsynlegt yrði að borga sjálfur sama skatt, nema tvöfaldan. Sá sem vill heimila mengandi starfsemi gæti það ekki nema búa sjálfur á áhrifasvæði mengunarinnar. Sá sem vildi hafa tannlækningar undanskildar þeirri heilbrigðisþjónustu sem fólk almennt á rétt á fengi sjálfur ekki að fara til tannlæknis. Og þar fram eftir götunum. Meginástæðan fyrir því að stjórnmálamenn taka slæmar ákvarðanir af áyrgðarleysi er að þeir þurfa einmitt aldrei að bera neina ábyrgð, það er alltaf einhver annar sem tekur skellinn og oftast er það almenningur. Með þessu móti væri þeim hinsvegar beinlínis gert ókleift að firra sig ábyrgð, og ef þeir ætluðu að gera vel við sjálfa sig gætu þeir það ekki nema leyfa öllum öðrum að njóta góðs af líka.

Guðmundur Ásgeirsson, 29.1.2011 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband