LIBOR & peningaþvætti
24.8.2012 | 00:12
Tvær fréttir hafa verið mest áberandi í sumar varðandi bankastarfsemi. Önnur fjallaði um LIBOR svindl og vakti töluverða athygli og nú nýlega önnur frétt varðandi peningaþvætti. Ég er undrandi á því hversu mikla athygli LIBOR fréttin fékk á meðan að frétt um peningaþvætti virðist vera minna áberandi.
LIBOR
LIBOR fréttin gekk í stuttu máli út á það að bankar svindluðu á því hvaða kjör þeir voru að fá í millibankaviðskiptum í hamaganginum þegar að fjármálakerfi heimsins hrundi, næstum því endanlega fyrir marga stóra banka, haustið 2008. Skilja má af fréttaflutningi að margir starfsmenn bankastofnanna hafi vísvitandi veitt rangar upplýsingar um kjör bankanna til að hagnast á ástandinu sem ríkti á þeim tíma. Þessi nálgun er þó ekki í samræmi við einhvern raunveruleika.
LIBOR vextir eru ekki ákvarðaðir miðað við viðskiptakjör banka heldur frekar hvað bankar telja að kjör sín verði. Meðaltal nokkurra banka í London er fengið af slíkum kjörum miðað við mismunandi myntir og tímalengdir. Þetta kerfi gengur snuðrulaust hér um bil alltaf. Kerfið hrynur hins vegar örugglega án undantekninga þegar að mikil hræðsla gengur yfir á fjármálamörkuðum. Bankamenn sem veita upplýsingar um vænt kjör sem eru hærri en aðrir bankar veita gefa höggstað á sér.
Í ástandi eins og ríkti haustið 2008 hefði nær örugglega frést fljótlega innan bankageirans ef einhver banki gerði ráð fyrir hærri vaxtakjör heldur en flestir aðrir bankar gerðu ráð fyrir. Ástandið var þannig að flestir bankar hreinlega lánuðu ekki peninga sín á milli og því vart annað en ágiskanir hvort er eð hvaða kjör hefðu ríkt (íslensk millibankaviðskipti höfðu verið óvirk svo mánuðum skipti fyrir hrun). Slíkar upplýsingar hefðu getað fljótlega undið uppá sig og leitt til fjárskorts á afar stuttum tíma. Það hafði raunar gerst aðeins nokkrum mánuðum áður þegar að Merrill Lynch varð gjaldþrota á aðeins nokkrum dögum vegna orðróms um slaka lausafjárstöðu (því hefur verið haldið fram að einhverjir fjárfestar með skortstöðu í hlutabréfum fyrirtækisins hafi komið orðróminum af stað). Því var eðlileg tilhneiging hjá bankamönnum að veita lægri tölu en raunin var (ef menn vissu yfir höfuð hver raunin væri); kerfið eins og það er sett upp hreinlega býður uppá slíkt.
Nú er ég ekki að mæla með því að verið sé að veita rangar upplýsingar. Ef kostirnir eru hins vegar að veita nákvæmar upplýsingar (eða ágiskanir um slíkt) sem leiða hugsanlega til falls banka (meðal annars vegna þess að aðrir veita ekki nákvæmar upplýsingar og bjarga þannig þeim bönkum) eða koma með tölur sem fela í sér óeðlilega bjartsýni miðað við ástandið (aftur, eða ágiskun um bjartsýna tölu) en leiða hugsanlega til falls banka (sem gæti þó verið almennt í góðum málum), þá hlýtur að vera hægt að setja spurningarmerki við hvað flestir í slíkri stöðu gerðu.
Því skil ég ekki af hverju fréttaflutningurinn af þessu máli varð jafn heiftugur og raun bar vitni. Ef það reynist rétt að einhverjir starfsmenn hafi persónulega hagnast á slíku þá er það auðvitað glæpsamlegt. Enn sem komið er hef ég ekki rekið augun í slíkan fréttaflutning. Það þarf aftur á móti að miða við viðskipti á milli aðila við að ákveða kjör sem hafa jafn gríðarleg áhrif og LIBOR vextir. Að hringja í aðila og spyrja hvað þeir telji að kjörin séu er forneskjuleg aðferð og mun alltaf veita bjagaða mynd þegar að fjármálaheimurinn lendir í lausafjárkrísu.
Peningaþvætti
Hin fréttin fjallar um peningaþvætti; fyrst var Standard Chartered Bank var sakað um að hafi staðið að peningaþvætti í starfsemi sinni og síðan hafa aðrir bankar bæst í hópinn. Standard í fyrstu harðneitaði slíkum ásökunum bandarískra stjórnvalda og lýsti meira að segja borgarstjóri Lundúna því yfir að Bandaríkin væru að ráðast á fjármálamarkaði borgarinnar með slíkum ásökunum. Ekki liðu þó margir dagar þangað til að Standard greiddi sekt fyrir athæfið án þess að viðurkenna sök.
Sektin er ekki afgangsstærð, heldur $430. Það eru í rúmlega 50 milljarða króna, sem samsvarar byggingarkostnaði Hörpunnar og margra ára tapi við rekstur hennar. Getur verið að stór hluti af bankastarfsemi jafnvel stærstu banka Evrópu hafi tengst peningaþvætti? Þetta hlýtur hreinlega að vera frétt ársins í bankageiranum, en virðist einhvern vegin vanta persónugervingu til að ná athygli almennings.
MWM
Ég var í viðtali í Speglinum á þriðjudaginn vegna íslensku krónuna í umhverfi gjaldeyrishafta. Hægt er að nálgast upptöku af viðtalinu hér - http://www.ruv.is/sarpurinn/spegillinn/20082012/gengi-kronunnar-og-hvad-styrir-thvi
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
"Ástandið var þannig að flestir bankar hreinlega lánuðu ekki peninga sín á milli og því vart annað en ágiskanir hvort er eð hvaða kjör hefðu ríkt"
og:
"Nú er ég ekki að mæla með því að verið sé að veita rangar upplýsingar."
Jú, þú ert að mæla því bót að bankarnir megi ljúga þegar skóinn kreppir.
Annars verður þú að skýra út fyrir okkur hvers vegna "ágiskanir" bankanna eru annað en nákvæmlega það, þegar vel gengur.
Jóhann (IP-tala skráð) 24.8.2012 kl. 21:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.