Skuldabyrði heimilanna
15.12.2008 | 12:53
Þessi Grein birtist í styttri útgáfu í Morgunblaðinu 16.12.2008
Skuldabyrði heimilanna
Mikið hefur verið rætt um skuldastöðu þjóðarinnar í sömu andrá nú eftirbankahrunið. Sumpart hefur staðan versnað mjög í framhaldi af hruninu og veikingu krónunnar en það virðist þó gleymast að jafnvel þó að ekkert hrun hefði átt sér stað væri skuldastaðan hér mjög alvarleg.
Því er rétt að staldra við og spyrja hvort að engin(n) hefði varað við skuldasöfnunni og samhliða því erlendum lántökum? Slíkt heyrist nú víða í fjölmiðlum,og og ef fjallað er um það þá er það almennt á þeim nótum sem tal um stefnu sem heil þjóð tók þátt í.
Þetta er hins vegar ekki rétt. Margir vöruðu við þessu með umfjöllun um þá hættu sem til dæmis fylgdi auðveldu aðgengi að fjármagni, vaxtabótum og erlendum lántökum. Það er auk þess einföldun að allir hafi tekið þátt í einhverju sukki, margir sem tóku lán með skynsömum hætti eru nú í verulegum vandræðum vegna samspils hækkana lána og margþættra vandamála tengdum kreppu af verstu tegund.
Vandamálið er að kraft vantaði í blástur herlúðra gegn slíkri þróun og almenningur hefur í stórum stíl fallið í skuldafen sem erfitt verður að vinna sig úr.
90% lán
Burtséð frá þeim mistökum sem áttu sér stað í fjármálageiranum er ljóst að stjórnmálamenn áttu einnig sinn þátt, allir sem einn, í aukningu lána til íbúðakaupa. Gaman væri að fá skjalfest frá einhverjum þingmanni yfirlýsingu um að hækkun á þaki lána væri varhugaverð. Þá á ég ekki við nýlega yfirlýsingu, þegar að heimili landsins eru mörg hver kominn í skuldafen sem ekki sér fyrir endann á, heldur þegar að framkvæmdin átti sér stað. Hví í veröldinni tók enginn þingflokkur sig til og barðist með kjafti og klóm gegn þessari þróun? Þessi ráðstöfun átti stóran þátt í þeirri keðjuverkun sem gegnsýrði íslenskt samfélag að það væri allt í lagi að taka lán svo lengi sem þau væru í boði.
Það er umhugsunarefni að ekkert ráðuneyti virðist hafa tekið saman skýrslu um áhrif vegna tilgreindra kerfisbreytinga á hinu opinbera íbúðalánakerfi. Var ekki augljóst að með við því að rýmka lánaheimildir Íbúðalánasjóðs myndi verðbólguþrýstingur aukast um árabil? Með því að soga öllu þessu lánsframboði til sín, hafði engin áhyggjur af því að bankar færu inn á þennan markað? Því má við bæta að yfirdráttarlán minnkuðu mjög í kjölfar aukins lánsframboðs á betri kjörum, aðeins til að fara aftur í sömu hæðir tæpum 2 árum síðar.
Það er ekki svo að allir í fjármálageiranum hafi verið sammála þessari stefnu, eins og stundum hefur verið gefið í skyn. Á mínum gamla vinnustað voru margir með efasemdir um skynsemi þessara lána og benti meðal annars einn yfirmaður minn á að meiri en minni líkur væru á því að sá dagur kæmi að höfuðstóll lána yrði hærri en markaðsvirði húsnæðisins. Engu að síður var farið í það að fylgja samkeppninni, enda krafa frá mörgum viðskiptavinum. Þar fór gott tækifæri í súginn að sýna forræðishyggju sem þá var gagnrýnt sem hluti af gömlum tímum en sem viðskiptavinir kynnu að meta í dag. Dæmið gekk reyndar svo langt að einn bankinn auglýsti 100% lán, 100% banki. Í dag mætti bæta við auglýsinguna 100% gjaldþrot.
Um daginn skrifaði Páll Magnússon, sem nú býður sig fram sem formaður Framsóknarflokksins, grein þar sem hann leggur til að afskrifa 40% húsnæðislána! Láttum okkur nú sjá, hver borgar það? Augljóslega þeir sem sýndu hyggju með því að skulda minna auk komandi kynslóða. Maður spyr sig, hlustar fólk virkilega á svona ennþá í dag? Það má kannski segja að þetta sé sniðugt frá ákveðnu sjónarhorni: Að opna lánadyrnar upp á gátt og nokkrum árum síðar þegar að allt er komið í steik að veita sömu aðilum afslátt á kostnað þeirra sem ekki tóku þátt í lánasukkinu.
Vaxtabætur
Ég hef fjallað um vaxtabætur og auknar skuldsetninga heimila í nokkrum greinum. Nokkrir aðrir aðilar fjölluðu reyndar einnig um þessi atriði, meðal annars Sigríður Andersen og Pétur Blöndal. Ég hef ávallt í gagnrýni minni á vaxtabótum lagt áherslu á að þeir sem minnst mega sín í samfélaginu fái sér aðstoð vegna húsnæðis.
Vaxtabótakerfið er til þess fallandi að best er að skulda sem allra mest. Fólk hefur í þeim tilgangi leitað alls kyns leiða til að auka framlag ríkisins í þeirra garð í formi vaxtabóta. Staðreyndin er sú að vaxtabætur eru góðar í sjálfu sér með það grunn markmið að aðstoða þá sem eru að koma undir sig fótunum í húsnæðismálum. Kerfið er hins vegar mein gallað og ætti að hafa verið lagt af fyrir löngu síðan. Nú þegar að skuldir eru að sliga svo marga skipta vaxtabætur ekki lengur sama máli og áður, margir sjá jafn lítið til sólar með eða án vaxtabóta.
Þó er enn á ný verið að tala um að auka vaxtabætur á nýjan leik. Skilaboðin eru með öðrum orðum enn einu sinni að best sé að skulda nógu mikið til að ríkið komi til aðstoðar. Réttara væri auðvitað að aðstoða fyrst og fremst þá aðila sem verst eru settir, sérstaklega vegna atvinnuleysis. Slíkir aðilar eru ekki endilega í verstu skuldunum, þeir hafa hins vegar orðið verst úti í núverandi kreppu.
Erlendar skuldir
Vinur minn kom með afar gott dæmi um daginn varðandi vexti. Hefði einhver labbað til bankastjóra fyrir rúmu ári síðan og verið sagt að bankinn tæki 20% vexti vegna húsnæðisláns hefði sami bankastjóri sjálfssagt verið fluttur á hæli. Aftur á móti virtust allir vera sammála um að erlend lán væri svarið, þrátt fyrir að slíkt stangaðist á við alla fjármálafræði og hagsögulega séð væri yfirvofandi skellur ekki svo ólíklegur (ólíklegustu menn féllu í þessa gildru). Það var eiginlega nánast sama hversu mikið maður rökræddi þetta, alltaf voru til rök um að þetta væri hið eina rétta.
Húsnæði, bílar, tjaldvagnar, nánast allt sem hægt var að hugsa sér var hægt að fá lánað í erlendri mynt. Þessi þróun minnir óþægilega á undanfara kreppunnar miklu sem hófst árið 1929. Viðvörunargrein mín um erlend lán sem birtist í Blaðinu sáluga í maí 2007 vakti nánast enga athygli, þrátt fyrir að hafa verið stillt upp á forsíðu þess og í blaðinu sjálfu, enda hafði þáverandi fréttastjóri áhyggjur af þessu. Engin annar miðill tók þó umræðuna um málið sem hlýtur að hafa verið einfaldlega merki um áhugaleysi yfir viðfangsefninu. Því er kannski erfitt að saka fjármálastofnunum um þetta (hér er rétt að taka fram að ég vinn við eina og hef margra ára reynslu við störf hjá íslenskum fjármálastofnunum) því hefðu þau sagt því miður, engin erlend lán að hafa hér, þá hefðu viðskiptin einfaldlega farið annað.
Stundum vill maður hafa rangt fyrir sér og ég játa fúslega að ég bjóst ekki við veikingu af þessari stærðargráðu. Þessi stefna varðandi erlendar lántökur þverbraut hins vegar grunn atriði í fjármálum; ekki taka of mikla áhættu og í ljósi þess að í fjármálum gerist alltaf hið ótrúlega. Í upphafi skal endinn skoða.
Nauðsyn á umræðu
En af hverju skiptir máli nú hvað var sagt eða ekki sagt? Það nauðsynlegt að skoða hvað fór úrskeiðis þegar verið er að endurskipuleggja fjármálakerfið. Fyrir utan það að allir beri ábyrgð á gjörðum sínum í þessu þjóðfélagi, þá er gagnrýnin endurskoðun á þeirri þróun sem hefur verið hér síðustu ár nauðsynleg til þess að byggja upp betra kerfi.
Auk þess er ekki síður mikilvægt að minna á hvað fór úrskeiðis til þess að koma í veg fyrir að sömu mistök haldi áfram undir öðrum formerkjum. Dæmi um það er að halda áfram að verðlauna þá sem skulda meira með því að láta þá sem skulda minna niðurgreiða skuldir þeirra eins og núverandi vaxatbótakerfi gengur út á.
Burtséð frá því hver eigi sök á núverandi ástandi, til að vinna okkur úr kreppunni verðum við að minnka skuldir, snúa við blaðinu og fara að skapa og spara.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.1.2009 kl. 10:53 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Már,
Vil þakka þér fyrir afar góða grein í Morgunblaðinu í gær. Get ekki annað en verið þér hjartanlega sammála. Þú fjallar þar um það sem enginn þorir að nefna, nefnilega "lánasukkið hjá Jón og Gunnu". Það þarf virkilega að berja á þá putta sem krefjast "lána-fyrirgefningar" á kostnað okkar hinna sem bara keyrunm glaðir á okkar 12 ára gamla jeppa, greiddum niður skuldir í góðærinu og söfnum á bók í banka. Eins og Davið sagði; þá segi ég það líka: Ég harðneyta að borga skuldir óráðsíufólks. Öðru máli gildir um þá sem virkilega hafa það skítt og hreinlega gátu ekki búið í haginn fyrir mögru árin í góðærinu, þeir eiga aðstoð skilið...en bara þeir!
Með kveðju frá Egilsstöðum
Þröstur Jónsson
Þröstur Jónsson (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 09:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.