Kallaði engin(n) Úlfur Úlfur?
18.3.2009 | 07:50
Hví stöðvaði þetta engin(n)? Augljóst var að aukin skuldtaka var í tísku. Hér er ekki einungis hægt að benda á einhverja útrásarvíkinga, stjórnvöld hefðu átt að taka í taumanna á þessu máli löngu fyrr.
Hægt er að sjá viðvaranir mínar sem fram komu vorið 2007 í forsíðugrein 24 Stunda í 2 pörtum, í Varað við erlendum skuldum undir dálknum Skuldasöfnun. Það er svolítil fjallabanksleið að nálgast skjölin og því læt ég hluta þess fylgja hér að neðan. Þegar að greinin birtist á sínum tíma bjóst ég við viðbrögðum. Þau voru, því miður, engin. mwm
Erlend lán (aðallega húsnæðislán)
Rétt er að gera örlítinn formála á þessu. Hér er ekki um almenn verðbréf að ræða en engu að síður fjármálaafurð. Kannanir gerðar um aldamótin gáfu sterklega til kynna að flestir töldu hlutabréf vera bestu langtímaávöxtunina. Enda var það svo að flestir á Íslandi sem tóku þátt í reglubundnum sparnaði, til að mynda séreignalífeyri, settu mestan pening sinn í hlutabréf. Ekki liðu meira en tvö ár áður en að viðhorf til hlutabréfa höfðu snúist nánast um 180 gráður. Það voru jafnvel dæmi um að fólk flutti fjármagn sitt úr hlutabréfum, þegar að þau voru miklu verðminni en áður, yfir í tryggari fjárfestingakosti en þó ekki nauðsynlega betri kosti. Þetta mótaðist að stórum hluta af því að margir höfðu um nokkurt skeið ávaxtað sitt pund vel í hlutabréfum og fleiri vildu taka þátt í leiknum, oft með vanmat á áhættu tengdum hlutabréfafjárfestingum.
Mér finnst óþægilega lík þróun vera farin að myndast varðandi húsnæðislán í erlendum myntum. Í fjöldamörg ár hafa sumir hagnast gríðarlega á því að skuldsetja sig í erlendri mynt. Þetta tímabil hefur nú varað það lengi að varnaðarorð um gengisáhættu eru farin að verða sífellt veikari. Bæði eru þeir sem hafa haldið aftur af fólki orðnir þreyttir á því að sjá ráðgjöf sína skila litlu og þeir sem hafa hlustað á varnarorð eru farnir að efast um réttmæti þeirra, erlendar lántökur hafa jú verið hagstæð í samfelld 5 ár. Það að erlendar skuldir heimila hafa aukist um rúmlega 150% síðustu 12 mánuði er vísbending um að margir hafi ákveðið að tími sé kominn til að taka þátt í þessum leik.
Nýlega sá ég sjónvarpsauglýsingu þar sem verið var að bjóða uppá erlend lán til íbúðakaupa. Hjá sumum eru aðstæður þannig að slík lán, jafnvel með gengisáhættu, eru ekki óskynsamleg vegna þess að ef vel gengur getur ávinningur orðið talsverður. Það er aftur á móti forvitnilegt að vita hvernig afstaða fólks í raun verður ef íslenska krónan veikist skyndilega mikið, sem eykur höfuðstól lánanna. Tökum dæmi hjón sem kaupa 20 milljóna króna hús og taka 90% lán, fjármagnað í erlendri mynt. Eigið fé fólksins í húsinu eru 2 milljónir.
Nú gerist hið óvænta að aðeins 12 mánuðum eftir að lánið var tekið hefur íslenska krónan veikst um 20% og höfuðstóll lánsins hækkað samsvarandi mikið. Þetta gæti virst vera óhugsandi en ætti þó ekki nauðsynlega að koma á óvart; veiking krónunnar sem átti sér stað á tímabilinu 2000 til 2001 var t.d. meira en þetta. Í stað þess að eiga 2 milljónir í húsnæðinu þá skulda þau svipaða upphæð 12 mánuðum síðar. Í slíkri aðstöðu er líklegt að margir, burtséð frá skynsemi slíkra ákvarðana, umbreyti erlendum lánum sínum í íslensk lán til að forða sér frá enn frekari skuldasöfnun. Viðhorfið gagnvart áhættu tengdum erlendum lántökum gæti umbylst með svipuðum hætti og átti sér stað varðandi hlutabréf fyrir nokkrum árum síðan. Slík viðhorfsbreyting getur í raun stigmagnað áhrifin því ef fólk fer að greiða upp erlend lán veikist íslenska krónan enn frekar.
Hvað skal gera?
Því miður hef ég ekki áreiðanlega kristalskúlu á borði mínu. Hugsanlega eiga íslensk hlutabréf eftir að hækka enn meira og valréttarsamningar sem nú eru sem mest auglýstir skili viðunandi ávöxtun. Varðandi húsnæðislánin þá hafa margir virtir sérfræðingar spáð fyrir um veikingu krónunnar lengi vel án þess að slíkt hafi gengið eftir. Þó að slíkir spádómar hafi ekki ræst hingað til er ekki þar með sagt að þeir rætist ekki í framtíðinni. Reyndar gerist það oft að loksins þegar að þeir rætast þá gerist það með meiri hvelli en flestum grunar. Því er rétt að minna á söguna um strákinn sem stöðugt kallaði úlfur, úlfur. Úlfurinn kemur að lokum og þá er ekki gott að vera með þeim seinustu í röðinni.
15.685 milljarða skuldir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:37 | Facebook
Athugasemdir
Þeir sem vöruðu við uppskáru ekki miklar vinsældir; voru annaðhvort gamaldags eða öfundsjúkir skemmdarvargar.
Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 08:20
Lýðveldið Ísland og Evrópusambandið
Andstæðingar aðildar vildu láta reyna á tvíhliða viðræður við Evrópusambandið (ESB) um samning sem yrði svo hægt að auka að efni til eftir atvikum. Þeir sem voru á móti EES-samningnum töldu hann ekki verða til góðs því með honum yrðu tekin tvö skref af þremur inn í ESB sem hefði í för með sér brot á fullveldisákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Annað ákvæði í EES- samningnum um frjálst fjármangsflæði milli aðildarríkjanna skipti sköpum og fullveldissinnar treystu því ekki að okkar litla hagkerfi stæðist ágang erlends fjármagns og myndi því hreinlega sogast inn í hringiðu hagkerfis Evrópusambandslandanna. Þetta myndi leiða til þess að Íslendingar misstu efnahagslegt sjálfstæði sitt í framtíðinni.
Eins og sjá má á þjóðmálaumræðunni í dag hafa erlendar skuldir landsmanna vaxið langt umfram getu okkar litla hagkerfis eftir inngönguna í EES og hafa þær aldrei verið meiri. Góðæriskenningin á sínar rætur frá þessari þróun, skuldir undirstaðan þótt þeirra væri aldrei getið í sjálfum málflutningnum þ.e.a.s. þeirra sem studdu EES-samninginn. Sannarlega hafa þær verkað sem driffjöður á lífæð hagkerfisins hér á landi, já, hér er verið að tala um skuldir, sem jafnframt hafa verið stór þáttur stöðugleikans, svokallaða. En hvar er hin raunverulega framleiðni?
Uppsveifluna í efnahagslífinu má rekja að mestu leyti til uppbyggingar á Reykjavíkursvæðinu sem varð til vegna landsbyggðarflóttans sem hefur verið mikill síðustu tvo áratugina. Hornsteinn þessarar þróunar, (landsbyggðarflóttinn annars vegar og fjármagnsstreymið til uppbyggingar hér syðra hins vegar) var lagður með kvótabraskkerfinu sem tryggt var svo í sessi með aðildinni að EES-samningnum, áratug síðar. Þetta gerði hinum fáu útvöldu kleift að fjármagna mestu búsifjan af mannavöldum í sögu þjóðarinnar. Alls kyns spákaupmennska hefur rutt sér til rúms síðustu árin þar sem arður er gerður úr væntingum og greiddur út í milljörðum til réttra aðila. Þetta hefur verið að gerast í íslensku atvinnulífi og nú síðast í sjávarútveginum á Akureyri, sem tekið sé dæmi.
Sameiningarferli íslenskra fyrirtækja undir nafninu ,,Hagræðing" er eingöngu til þess fallið að fyrirtækin geti haldið sjó á meðan þau eru að ná þeim stærðum á markaðinum að þau verði góður fjárfestingarkostur fyrir stóru erlendu fjárfestana sem bíða handan við hornið. Lykillinn til að ná þessum markmiðum endanlega er innganga okkar í ESB svo að erlendir fjárfestar geti eignast hér áhrif og völd í framtíðinni í okkar annars auðuga landi. Með inngöngunni myndu hinir fáu útvöldu áskotnast mikið fé við að selja auðlindir íslensku þjóðarinar ásamt réttindum til lands og sjávar sem þeir hafa verið að sölsa undir sig síðustu misserin gegn vilja þorra landsmanna.
Íslenskum útflutningsfyrirtækjum er fyrirmunað að stunda sjálfbæran og heilbrigðan atvinnurekstur svo sem í sjávarútvegi og iðnaði. Þau heyja allt að því vonlausa baráttu vegna kvótabrasksins og hás gengis íslensku krónunnar en í staðinn hefur rekstrargrundvelli þeirra verið haldið gangandi með stöðugu flæði af erlendu lánsfé inn í hagkerfið. Gjaldþrot hafa verðið með mesta móti á síðasta ári og sér ekki fyrir endann á þeirri óheillaþróun. Samtök iðnaðarins hafa staðfest flótta iðnfyrirtækja frá Íslandi. Þreytumerki hafa líka komið fram hjá fyrirtækjum sem framleiða gjaldeyrissparandi vörur fyrir innanlandsmarkað og eru í samkeppni við innfluttar vörur sem eru ódýrari en ella vegna gjaldeyrisútsölunnar. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins Sveinn Hannesson vísaði til þeirra staðreynda í Viðskiptablaði Mbl. 26. febrúar s.l. þegar hann sagði að mörg fyrirtæki væru í rekstri þrátt fyrir að í raun væru þau löngu orðin gjaldþrota. Þar kom einnig fram að Samtök iðnaðarins teldu að full aðild að ESB og upptaka evru væri besta vörnin til að bæta markaðsstöðu íslenskra útflutningsfyrirtækja.
Hér ber að hafa í huga þegar Íslendingar gerðust aðilar að EES samningnum töldu sömu aðilar að stigið hefði verið eitt stærsta skref til sóknar fyrir atvinnulífið hér á landi. Stundum verður manni á að þekkja ekki muninn á vörn og sókn þegar kemur að framsetningu markaðsmála. Matarbúr landsmanna, íslenski landbúnaðurinn, sem er einn stærsti öryggisþáttur í almannavörnum þjóðarinar, vegna legu landsins sem eyríki, er í hættu vegna áhrifa frá Evrópusamrunnanum.
Hörðustu stuðningsmenn aðildar að ESB er að finna í Samfylkingunni og vilja þeir hefja aðildarviðræður sem fyrst. Framsóknarflokkurinn er líklegastur ásamt Samfylkingunni að vera í þeirri ríkisstjórn sem myndi samþykkja inngöngu okkar inn í Evrópusambandið. Hæstvirtur utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, sem settist í stól fyrirrennara síns Jón Baldvins hefur verið að undirbúa jarðveginn fyrir seinni áfangann að Ísland geti tekið þriðja skrefið inn í ESB.
Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála í umræðunni um ESB hér á landi eftir að verðandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson tekur við starfanum 15. september n.k úr hendi núverandi hæstvirts forsætisráðherra Davíðs Oddssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.
Eftir Baldvin Nielsen sem var í framboði til alþingis 1991 fyrir Heimastjórnasamtökin. Frjálslynda flokkinn 2003. og Íslandshreyfinguna 2007 jafnframt var hann oddviti Reykjanesbæjarlistans í sveitarstjórnarkosningunum 2006 í Reykjanesbæ.
P.S. Það sem er rautt er það sem er að gerast núna.
b.N. (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 08:40
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 6.júni 2004 á Sjómannadaginn.
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
B.N. (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 08:44
Kíktu á þetta myndband ef þú finnur tíma, það er komið með annan vinkil á þessu máli.
http://thecrowhouse.com/aw1.html
Magnús Sigurðsson, 18.3.2009 kl. 08:46
Það er lífsnauðsynlegt fyrir íslendinga að fá mann einsog þig Már inná þing!
Guðrún Sæmundsdóttir, 18.3.2009 kl. 20:46
Takk fyrir athugasemdir, afar athyglisverð grein og Guðrún, ég er að setja mig í gírinn, þarf að klára nokkur önnur mál fyrst.
Már Wolfgang Mixa, 18.3.2009 kl. 23:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.