Mikil lækkun stýrivaxta framundan?

Frétt á RÚV í gær um að vinna við að finna leiðir til að létta þrýstingi af íslensku krónunni væri á lokastigi er afar athyglisverð.  Fram kemur að áætlun til að fá þá fjárfesta sem eiga krónueignir upp á mörg hundruð milljarða til að fjárfesta innanlands í gjaldeyrisskapandi fyrirtækjum til langs tíma væri á lokastigi.  Nú spyr maður sjálfan sig, hví ættu erlendir fjárfestar að setja fjármagn í innlendar áhættufjárfestingar þegar að þeim stendur til boða "áhættulaus" ávöxtun í ríkisvíxlum sem bera 13-14% vexti?

 

Svarið hlýtur að liggja í því að mikil lækkun stýrivaxta sé framundan.   Með því að lækka stýrivexti lækkar ávöxtunarkrafa ríkisvíxla mikið og erlendir fjárfestar sem brunnið hafa inni með sína fjárfestingu í vaxtaskiptasamningum á Íslandi hafa minni ástæðu til að geyma fé sitt þar áfram og líta því hugsanlega til verkefna sem bera meiri ávöxtun.  Í framhaldi af því er hægt að minnka gjaldeyrishöft enda verður vaxtamunur hér og erlendis væntanlega orðinn töluvert minni.

 

Skuldabréfamarkaðurinn virðist hafa verðlagt þessa þróun nú þegar.  Gengi ríkisbréfa á gjalddaga 2019 hækkaði mikið síðasta föstudag, sem þýðir að ávöxtunarkrafan lækkaði mikið.  Slíkt á sér stað þegar að óvissa um greiðslustöðu skuldara breytist mikið, eins og átti sér stað mánuðina eftir bankahrunið, og þegar að væntingar um þróun vaxta taka umskiptum.  Slíkar vaxtavæntingar eru nú að koma fram í ávöxtunarkröfunni.  Fyrstu viðskipti í morgun gefa enn frekar til kynna að fjárfestar vilji "læsa" vexti sína til lengri tíma því kaupþrýstingur á löng ríkisbréf er mikill í fyrstu viðskiptum dagsins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Sæll Reynir,

1. Þetta er rétt hjá þér, það gætu orðið áhrifin - sjá skoðun mína hér - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/826681 - með því að koma þessum fjármunum úr ríkisbréfum yfir í langtímafjárfestingar er hins vegar dregið úr veikingu krónunnar þegar að höft verða smám saman aflögð.

2. Íslenska ríkið - það var einfaldlega fjárfest að mestu í ríkisbréfum, tekin var meðvituð áhætta varðandi vaxtamun og gjaldmiðlakrossa.  Þeir sem nú sitja í súpunni er þeir sem djöfullinn tók - sjá Devil Take the Hindmost.

Már Wolfgang Mixa, 4.5.2009 kl. 11:07

2 Smámynd: Einar Karl

Sæll Már,

þú svara hér að nokkru leyti spurningum sem ég einmitt varpaði fram í bloggfærslu, Jöklabréf, hver skilur þau? Dæmi um fyrirbæri sem allir tala um en fáit skilja!  En ef jöklabréfin eru aðallega ríkisskuldabréf, af hverju hafa eigendurnir rétt á að fá vextina greidda í gjaldeyri? 

Einar Karl, 4.5.2009 kl. 16:21

3 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Rosalega GÓÐAR & VANDAÐAR greinar sem þú skrifar!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 4.5.2009 kl. 17:06

4 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Það er mikill misskilningur að háir vextir haldi uppi gengi krónunnar. Þar sem útlendingum (og innlendum eigendum erlendra eignarhaldsfélaga) er heimilt að breyta vöxtum yfir í gjaldeyri, liggur það í hlutarins eðli að þeim mun hærri sem vextirnir eru, þeim mun meira verður útflæðið.

Því miður eru þessi einföldu vísindi ekki kennd í hagfræði en kanski kemur að því.

Síðan eru vissulega fleiri atriði sem spila þarna inn sem er algerlega fyrir ofan skilning hagfræðinga, svo sem eins og að þeim mun hærri vextir, þeim mun verri verður greiðslugeta hagkerfisins.

Arnar Sigurðsson, 4.5.2009 kl. 18:48

5 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Fyrir þá sem vilja kafa dýpra ofan í þessi mál má benda á eftirfarandi skrif: http://stiklur.blogspot.com/2009/04/rokstuningur-astoarselabankastjora.html

Arnar Sigurðsson, 4.5.2009 kl. 18:50

6 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Einar Karl - ég geri ráð fyrir að eigendur fái greidda íslenska vexti í erlendri mynt en taki á sig gjaldeyrisáhættu.  Vaxtagreiðslum er m.ö.o. einfaldlega skipt yfir í erlenda mynt.

 Jakob Þór - TAKK!

Arnar - sé ekki í hvaða færslu þú ert að vísa í en greinarhöfundurinn, Jón Helgi Egilsson, er maður sem ég tek mikið mark á.  Hann fjallaði um þessi rök sem þú nefnir um daginn og er mikið til í þeim í núverandi ástandi.

Már Wolfgang Mixa, 4.5.2009 kl. 20:57

7 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Til útskýringar:

Reynir spurði: " 1. Með mikili stýrivaxtalækkun, vinnur það ekki gegn styrkingu krónunnar ?"

Þú svarar:  " Þetta er rétt hjá þér, það gætu orðið áhrifin"

Mín athugasemd er að "mikil stýrivaxtalækkun" vinnur einmitt ekki gegn styrkingu krónunnar.

Ég hinsvegar skil ekki alveg hvað þú ert að fara með skrifum þínum í eldri færslu þar sem þú segir:

"Skörp vaxtalækkun hjálpar sumum en án gjaldeyrishafta kæmi slík lækkun jafnvel til með að gera núverandi ástand enn verra.  Hver tæki ábyrgð á því?"

Nú er það svo að við erum með höft og í því ástandi er hreinlega galið að keyra hagkerfið endanlega í þrot með 15,5% stýrivöxtum í 1-2% verðbólgu ofan í 10% samdrátt.

Kveðja,

Arnar Sigurðsson, 4.5.2009 kl. 23:19

8 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Arnar, aftur, það er mikið til í þessum rökum.  Jón Helgi er á þeirri skoðun að gjaldeyrishöft verði hvort er eð veruleiki sem við lifum við næstu árin, því séu háir vextir einfaldlega að sliga þjóðfélagið. 

Ekki er hins vegar hægt að lækka vexti án þess að gjaldeyrishöft séu til staðar.  Við getum ekki bæði lækkað vexti og afnumið gjaldeyrishöft í einu kasti, eins og sumir hafa viljað (ég skil það ekki svo að þú sért í þeim hópi), án þess að lenda í óvissu varðandi afleiðingarnar. 

Már Wolfgang Mixa, 5.5.2009 kl. 01:12

9 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk fyrir þetta Már.

Já. Mikil vaxtalækkun er greinilega í mótunum núna því annars væri tilganglaust að gangsetja bankakerfið á ný. M.ö.o það er ekki hægt að gangsetja bankakerfið í svona háum vöxtum því arðsemi fjárfestinga í umhverfi þessarar Seinni Heimskreppu getur ekki borið þetta vaxtastig.

Þetta er forsendan fyrir því að ferskt bankakerfi geti farið að starfa á ný og lána fé til atvinnulífsins aftur. Mjög lág króna áfram er einnig ein af forsendunum fyrir að bati geti orðið sterkur og barið niður atvinnuleysi => Bætt skilyrði til atvinnusköpunar og lækkun atvinnuleysis (sem í praxís þýðir bætta greiðslugetu ríkissjóðs) mun svo bæta lánshæfnismat Íslands og lækka vexti enn frekar

Það verða fundamentals sem munu skila batanum á braut

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 5.5.2009 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband