Viðhorf og grúsk - Vextir og verðtrygging BEG

Það hljómar eins og þversögn en oft sér maður hlutina skýrar úr fjarska.  Því er forvitnilegt að fá skoðanir manna sem fylgst hafa náið með framvindu efnahagsmála hérlendis en eru búsettir erlendis.  Einn slíkur er Birgir Ernst Gíslason.  Hann hefur lengi búið og starfað erlendis og fylgist auk þess náið með verðbréfamörkuðum, alþjóðlegum og íslenskum.  Hann og kona hans vörðu heilu ári í heimsreisu fyrir nokkrum árum síðan og voru aðallega á tiltölulega ótroðnum slóðum.  Hann hefur því öðlast sýn á hlutum sem ég get líklegast aðeins leyft mér að dreyma um á minni lífsleið.  Oft þegar ég hitti hann fæ ég nýja sýn á stóru myndinni. 

Því var það mikill fengur að fá heila grein frá honum í athugasemdadálki um daginn þar sem hann kemur fram með skoðanir sínar.  Sumt af því hef ég áður fjallað um, en hann orðar stundum með skýrari hætti.  Með leyfi hans endurbirti ég hér greinina að neðan með örlitlum tilfæringum og vona að þurr titill (sem ég á „heiður“ af) fæli fáa.

Vextir og verðtrygging

Ég hef búið erlendis sl. 14 ár og því horft á íslenska "efnahagsundrið" utan frá, oft með undrun, stundum með skelfingu en því miður sjaldan með aðdáun - en það er annað mál.  Ég vil horfa á þessa umræðu út frá einstaklingum en ekki fyrirtækjum því fyrirtæki hafa mismunandi möguleika á að fjármagna starfsemi sína sem einstaklingar hafa ekki.

Sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að fela Seðlabanka Íslands umsjón með vaxtastigi í landinu var án efa rétt svo langt sem það náði og kannski nauðsynleg í alþjóðlegu samhengi til að sýna umheiminum að vaxtamál þjóðarinnar væri ekki í höndum stjórnmálamanna.  

Hins vegar tel ég að það sé grundvallar hugsanavilla í þessari stefnu hvað Ísland varðar.  Ein helsta notkun á stýrivöxtum erlendis (UK og US sem ég þekki best til) er að auka eða draga úr neyslu og þenslu í þjóðfélaginu á hverjum tíma og þar með hafa bein áhrif á þróun verðbólgu.  Þetta virkar svona:

A. Hækkun stýrivaxta - Einstaklingar með lán hafa minni pening aflögu til annarrar neyslu og aðrir einstaklingar auka sparnað sinn.  Neysla dregst saman, sparnaður eykst og þrýstingur á verðbólgu minnkar.

B. Lækkun stýrivaxta - Einstaklingar með lán hafa meira til aflögu og eyðsla þeirra eykst, einstaklingar með sparnað minnka sparnað sinn og auka eyðslu.  Neysla eykst, sparnaður dregst saman og þrýstingur á verðbólgu vex.

Það má gagnrýna hversu vel Seðlabönkum erlendis hefur tekist þetta verkefni, en það er annað mál.  Það sem skiptir mestu máli er að þetta stjórntæki svínvirkar í löndum þar sem öll lán og innlán til einstaklinga eru háð stýrivöxtum Seðlabanka viðkomandi lands, t.d. hér í Bretlandi.  Áhrif af vaxtabreytingum skila sér mjög fljótt út í efnahagskerfið.

Á Íslandi eru (voru) öll helstu lán til einstaklinga verðtryggð (húsnæðislán og önnur lengri lán).  Stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa engin áhrif á vaxtastig þessara lána, því kostnaður við þau er fyrst og fremst háð verðbólgunni í landinu.  Þegar draga þurfti úr þenslu á Íslandi fyrir nokkrum árum og Seðlabankinn fór að hækka stýrivexti þá hafði það engin áhrif á neyslu einstaklinga því mánaðarlegar afborganir af húsnæðislánum þeirra breyttist lítið sem ekkert.  Verðbólguþáttur lánanna er nefnilega endurlánaður að stórum hluta til lántakandans skv. skilmálum lánsins.  Jafnframt var sú ákvörðun stjórnvalda að heimila íslensku bönkunum að lána einstaklingum langtímalán með gengistryggingu síðan viðbótar þensla sem stýrivextir Seðlabanka Íslands höfðu engin áhrif á. Það eina sem stýrivextir höfðu áhrif á var að auka "carry trade" til Íslands þegar það var það síðasta sem Ísland þurfti. 

Á meðan öll lán til einstaklinga eru bundin verðtryggingu annars vegar og erlendum gjaldmiðlum hins vegar, hafa stýrivextir Seðlabankans mjög takmörkuð/lítil áhrif hvað varðar efnahagstýringu landsins til að hafa áhrif á þróun verðbólgu.  Í þeim skilningi hafa stýrivextir engin áhrif. 

Þetta er í raun og veru spurning um hvort menn vilji hafa stýrivexti eða verðtryggingu.  Grunnvandi  íslensks efnahagslífs er verðtryggingin og erlend lán einstaklinga en ekki stefna stýrivaxta Seðlabankans.

Það sem þarf að gerast á Íslandi núna er þetta:

1. Afnema verðtryggingu án tafar og binda öll lán miðað við stýrivexti Seðlabanka + ákveðið % álag (t.d. 1-1.5%).

2. Skuldbreyta öllum gengistryggðum lánum einstaklinga yfir í krónulán með sama hætti og í lið 1.

3. Afskrifa hluta höfuðstóls húsnæðislána hjá einstaklingum sem ekki geta staðið undir núverandi greiðslubyrði þeirra í samræmi við ákveðna hlutfallslega greiðslubyrði (í US er greiðslubyrðin miðað við max ca. 30% af ráðstöfunartekjum, í Bretlandi 3.5 - 4.0 sinnum heildarárslaun fyrir 25 ára lán).  Í þeim tilfellum þar sem það er ekki fýsilegt, þarf viðkomandi einstaklingur að lýsa sig gjaldþrota.

4. Skuldbinda lífeyrissjóði landsins til að flytja erlent fjármagn sitt til Íslands (gjaldeyrir heim) og styðja þannig við uppbyggingu á íslensku atvinnulífi (en ekki erlendu).

Birgir Ernst Gíslason

Sjálfur er ég sammála flestu af því sem Birgir skrifar.  Liður 3. er nokkurs konar LÍN tillaga sem fram hefur komið áður á öðrum vettvangi. 

Hvað skuldbindingu lífeyrissjóði má deila endalaust um hvort flytja eigi fjármagn til Íslands.  Það hefði örugglega jákvæð áhrif nú en á móti væri verið að auka innlenda áhættu lífeyrisþega og ef slíkar fjárfestingar skiluðu slakri arðsemi þá væri lífeyrir fólks ofan á allt einnig kominn í uppnám.  Þetta leiðir umræðuna að því að hvort hámark erlendra fjárfestinga eigi að vera 50%.  Hefði slíkt hámark ekki verið til staðar og t.d. ¾ fjárfestinga lífeyrissjóða tengd erlendum myntum þá væri auðveldara að réttlæta 4. lið tillagna Birgis; í raun erfitt að réttlæta nokkuð annað. 

Það er von mín að geta birt í framtíðinni öðru hverju greinar sem mér berast eins og nú.  Verða slíkar greinar flokkaðar sem Viðhorf og grúsk.  Auk þess mun ég senda öðru hvoru hlekki tengdum áhugaverðum greinum til þeirra sem eru á póstlista mínum (beiðni sendist til marmixa@yahoo.com). Bendi auk þess á aðra áhugaverða grein sem Kristinn Snævar Jónsson sendi og hægt er að lesa hér þar sem fjallað er ítarlega um vexti. 

Minni að lokum á skoðanakönnun sem er efst hægra megin á síðunni – þeir sem hafa ekki tekið þátt, svarið núna!  mwm

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Hef áður lýst því yfir að grein Birgis er gríðalega góð. En lágir stýrivextir (sumstaðar) erlendis valda carry trade þ.e. skortsölu á lágvaxtamyntum fyrir hávaxtamyntir. Stýrivextir í hávaxtalöndum bitlausir vegna þess að þeir eru háðir áhættuvilja fjárfesta. Til viðbótar eru stýrivextir bitlausir á verðtryggð lán (sér íslenskt fyrirbæri). 

Áhættuvilji fjárfesta er þó lykilorð hér en þetta er stærð sem við ráðum ekkert við. Á tímabili flýtur allt í peningum hér á vesturlöndum og leituðu menn lýsandi ljósi eftir fjárfestingum (góðum og lélegum) til að parkera þessum peningum. Vextir voru svo að segja neikvæðir t.d. hér í danmörku. Ég kalla það neikvætt þegar maður fær vexti upp á 3 prósent og verðbólgan er 2 og maður fær einn þriðja til baka frá skattinum. 

Þess vegna hefði þurft að setja einhverjar kvaðir á útgáfu íslensku jöklabréfanna (carry trade). Þá er seðlabankinn allt of seinn að hækka stýrivexti, og lendir eftir á í kúrfunni. Þessir vextir hafa lítið að segja nema á óverðtryggð lán og yfirdrátt annað er í höndum fjárfesta og áhættufælni á markaði.

Til gamans má geta þess að yfirdráttur (man ekki tímapunkt en þetta var í kringum þegar bankarnir fóru að veita 100 prósent lán) heimilanna var 60 milljarðar hann var sléttaður í núll vegna skuldbrytinga. Tveimur mánuðum seinna var hann aftur kominn í sömu stærð. Stýrivextir duga ekki mikið þarna. En það er í raun og veru verið að stækka kerfið með utanaðkomandi fjármagni.

Hörður Valdimarsson, 29.5.2009 kl. 00:20

2 identicon

Algjörlega ósammála grein Birgis Ernst Gíslasonar.

Eignarétturinn er friðhelgur og mönnum er frjálst að ganga til samninga.  Að ætla sér að breyta gengistryggðum lánum án samþykkis skuldara og kröfuhafa fer gegn þessum meginreglum.

Það er á forræði kröfuhafa að afskrifa lán.  Ef kröfuhafi samþykkir að afskrifa lánin með þeim hætti sem Birgir lýsir þá er afskriftinni ekkert til fyrirstöðu.

Lífeyrissjóðir eru ekki til að styðja við bakið á íslensku atvinnulífi, þeir eru til að styðja við bakið á íslenskum lífeyrisþegum.  Að skylda menn til að greiða í lífeyrissjóði er á mörkum þess að standast 72. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.  Löggjöf sem lífeyrissjóðir starfa eftir verður að byggjast á því að hagsmunum greiðenda í sjóðina sé borgið.

Krímer (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 13:19

3 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Sæll Már!

Ég er algjörlega sammála Birgi hvað verðtrygginguna varðar enda benti ég á þetta oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í skrifum mínum í Viðskiptablað Morgunblaðsins (ýmist undir nafni eða ekki).

Hvað varðar orð Krímers hér að ofan um eignaréttinn hef ég oft velt því fyrir mér hversu óhelgur sá réttur er þegar kemur að innheimtu krafna, svo virðist vera sem hægt sé að ganga í fasteignir fólks vegna óveðtryggðra lána að því einu gefnu að dómstólsúrskurður liggi fyrir. 

Hvað lífeyrissjóðina varðar þá er tilgangur þeirra tvíþættur, annars vegar að tryggja almenningi sæmileg lífskjör á ævikvöldinu og hins vegar að búa til uppsafnaða fjárfestingargetu í hagkerfinu. Sparnaður=fjárfesting heitir það í þjóðhagslíkaninu og á Íslandi er sparnaður nánast eingöngu í lífeyriskerfinu.

Guðmundur Sverrir Þór, 29.5.2009 kl. 19:44

4 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Már, ég hafna flestum þeim hugmyndum sem fram koma hjá Birgi. Hann segir eftirfarandi:

Sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að fela Seðlabanka Íslands umsjón með vaxtastigi í landinu var án efa rétt svo langt sem það náði og kannski nauðsynleg í alþjóðlegu samhengi til að sýna umheiminum að vaxtamál þjóðarinnar væri ekki í höndum stjórnmálamanna.

Það má gagnrýna hversu vel Seðlabönkum erlendis hefur tekist þetta verkefni, en það er annað mál. Það sem skiptir mestu máli er að þetta stjórntæki svínvirkar í löndum þar sem öll lán og innlán til einstaklinga eru háð stýrivöxtum Seðlabanka viðkomandi lands, t.d. hér í Bretlandi. Áhrif af vaxtabreytingum skila sér mjög fljótt út í efnahagskerfið.

Seðlabankinn er hluti af ríkjandi peningastefnu, sem nefnist "torgreind peningastefna" (discretionary monetary policy), en er af stjórnvöldum nefnd "sjálfstæð peningastefna". Eins og fleirri, lætur Birgir blekkjast af þessari nafngift og tilgangurinn með henni er auðvitað að blekkja.

"Torgreindri peningastefnu" er framfylgt í náinni samvinnu við stjórnvöld, enda er Seðlabankinn formlega undir stjórn forsætisráðherra. Seðlabankinn er ein af stofnunum ríkisins og ef hann vantar pening er leitað til ríkissjóðs og reikningar fyrir sukkið eru sendir til ríkissjóðs. Seðlabankar eru því gamaldags ríkis-fyrirtæki, sem hafa einokrun á útgáfu peninga, auk annara myrkraverka á sviði efnahagsmála.

Auðvitað virka stýrivextir hvergi. Að öðrum kosti hefði núverandi kreppu verið afstýrt. Þetta ættu allir að sjá sem hugleiða efnahagsmál. Bretar hafa lent í sömu aðstæðum og við, það er að segja skuldasöfnun og gengishruni. Í því sambandi má má nefna fjárglæframanninn George Soros, sem felldi gengi Bretska Pundsins 16.september 1992. Þetta hefði auðvitað ekki tekist, ef Seðlabanki Bretlands hefði haft einhver alvöru tæki. Fullyrðingar Birgis eru því innistæðulausar.

Hugmyndir Birgis um afnám "leiðréttingar á höfuðstól lána" eru einnig gagnslausar. Rannsóknir hafa sýnt, að lántakendur hagnast á þessu fyrirkomulagi, því að hinn kosturinn er háir vextir og stuttur lánstími. Ef við tökum upp "fastgengi undir stjórn myntráðs" njóta lántakendur ennþá betri kjara, því að gjaldmiðillinn sjálfur gerir leiðréttingu óþarfa.

Myntráð eru óháðar stofnanir sem stjórnmálmenn geta ekki nálgast. Þau eru meðal annars vernduð af Stjórnarskránni og sá peningur sem þau gefa út er 100% baktryggður með alþjóðlegri sterkri stoðmynt. Myntráð eru verkfæri "reglu-bundinnar peningastefnu" (rule-bond monetary policy). Peningakerfi myntráðs er markaðs-drifið og ríkisvaldið kemur hvergi nærri stjórnun þess. Ef Birgir vill bæta efnahagskerfi Íslands, ætti hann að tala fyrir Myntráði.

Loftur Altice Þorsteinsson, 2.6.2009 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband