Vilt þú borga húsnæði nágranna þíns?
27.10.2009 | 08:28
Vilt þú borga húsnæði nágranna þíns? Svar mitt er að sjálfssögðu nei. Ég hef ekki áhuga á því að greiða niður lán sem aðrir hafa tekið, sérstaklega bílalán, lán til hlutabréfakaupa (trúi því vart að ég hafi skilið konu rétt í viðtalsþætti s.l. sunnudag að slíkt væri sjálfssagt) eða önnur form af neyslulánum. Ef ég fer á flipp í útlöndum, eiga aðrir að leggja í það púkk?
Ólíkt bílalánum, lánum til brasks og önnur neyslulán, þá er dæmið ekki alveg eins einfalt með húsnæðislán. Eitt er að samfélagið borgi ekki neyslu fólks sem kann sér ekki hóf. Dæmið lýtur öðruvísi út með húsnæðislán, sérstaklega þau sem tekin eru í erlendri mynt. Það eru 3 hópar sem fjármögnuðu lán sín í erlendri mynt:
- Þeir sem vissu af áhættunni en töldu hana vera það fjarlægja að það væri þess virði að taka hana.
- Aðrir sem fengu slaka (vægilega til orða tekið) ráðgjöf hjá bönkum sem fólst í því að fjármagna ótrúlega hátt hlutfall lána í erlendri mynt, jafnvel 100%.
- Að lokum þeir sem fjármálastofnanir mæltu með að fyrra bragði að taka erlend lán, jafnvel að skuldbreytta íslensk lán í lán tengd erlendum myntum.
Væri þetta eini hópurinn væri dæmið einfalt; engin eftirgjöf. Í hópi 2 & 3 eru samt ótrúlega margir sem rætt hafa við mig um slæma stöðu sína. Tvö furðu lík dæmi eru um fólk sem keypti húsnæði fyrir 33 milljónir, lagt var fram þriðjung upphæðarinnar í eigið fé, afgangurinn tekinn með erlendri lántöku. Í dag skuldar þetta fólk 48 milljónir fyrir húsnæði sem það fengi líklegast 30 milljónir fyrir í dag ef það slyppi vel. Í báðum tilfellum var ráðgjöf banka sú að taka lán til húsnæðiskaupa í erlendri mynt.
Ráðgjöf
Hér liggur ábyrgðin klárlega að hluta til hjá slakri ráðgjöf banka. Í grein minni Viðskiptafræði á rangri braut sem birtist í Mogganum í lok ágúst, 2009, stendur: Þessi vanþekking hefur ollið þjóðarbúinu og sérstaklega sumum einstaklingum hræðilegan skaða. Sorglegasta dæmið er erlend lántaka. Þeir sem vöruðu við of mikillar skuldsetningar í erlendri mynt fengu rök gegn slíkum viðvörunum á eiginlega alltaf sömu nótum, þ.e. að sveiflur hefðu verið svo litlar í fortíðinni (og því væri þetta nánast áhættulaus lántaka), og að ráðgjafar í bönkum mæltu með slíkum lántökum. Sú ráðgjöf hlýtur að hafa sprottið í innri kynningu banka frá sérfræðingum þeirra. Sú meingallaða ráðgjöf er að mínu mati helsta ástæða þess að fólk með erlend lán á bakinu eigi kröfu á að fjármálafyrirtæki afskrifi hluta höfuðstólsins.
Forsendubrestur hefur ekki átt sér stað á lánum því ákveðin gjaldeyrisáhætta ætti að hafa verið öllum með lágmarksþekkingu í fjármálum ljós*, heldur frekar brestur á þekkingu og kynningu þjónustufulltrúa varðandi áhættu sem fylgir erlendum lántökum.
Ekki er hægt að dæma í hvaða hópi einstaklingar voru í. Bankar bera aftur á móti klárlega ábyrgð á slæmri stöðu þeirra sem flokkast í hópi 2 & 3 sem tóku erlend lán vegna húsnæðiskaupa. Tilfellin eru mismunandi en einhvers staðar verður að draga línu í sandinn. Hún er að mínu mati sú að húsnæði er hornsteinn fjölskyldunnar, bílar, tjaldvagnar osfrv. er neysla. Ráðgjöf varðandi neyslulán lýtur því öðrum lögmálum. Ef einhver tekur neyslulán og þolir ekki hækkun á láninu (undir eðlilegum kringumstæðum, breyttar aðstæður vegna atvinnuleysis er auðvitað önnur saga) þá er lántakan einfaldlega of mikil. Ráðgjöf varðandi húsnæðislán er miklu meira ábyrgðarhlutverk. Fólk fer í greiðslumat; krafa um ákveðinn stöðugleika hlýtur að fylgja slíkum forsendum. Erlendar lántökur eru allt annað en ávísun á stöðugleika. Íslenskir bankar brugðust og verða því að koma til móts við þá sem skulda í erlendri mynt vegna húsnæðiskaupa. Ég vil ekki borga í húsnæði þeirra, en þar sem að ríkið hefur tekið yfir rekstur bankanna tel ég það aftur á móti vera réttlátt.
Ég er...
Rétt er að halda því til haga að ég hef starfað hjá fjármálafyrirtækjum nær sleitulaust allan minn starfsferil. Það er ekki þar með sagt að ég hafi verið sammála öllum stefnum og straumum í geiranum, sérstaklega þá þróun sem fór að myndast af alvöru upp úr 2003. Á síðu minni vinstra megin er hægt að finna tengla af eldri opinberum greinum þar sem ég vara við þenslu í tengslum við húsnæði. Ég varaði sérstaklega við erlendum lánum vorið 2007 í grein sem birtist í Blaðinu sáluga. Lestur þess var um 70-80% af þeim fjölda sem las Fréttablaðið. Þetta birtist á forsíðu Blaðsins og var auk þess hluti af heilsíðugrein í blaðinu. Sjá tengla hér http://www.slideshare.net/marmixa/varad-vid-erlend-lan-forsida-2007-05-04 og hér http://www.slideshare.net/marmixa/varad-vid-erlend-lan-2007-05-04 . Ég taldi að þar sem að bankamaður væri að vara við slíkum lánum (held ég hafi verið sá eini úr geiranum sem gerði slíkt á opinberum vettvangi) væru sjónvarp- og útvarpsviðtöl næstu skref. Áhuginn var hins vegar enginn. Hér brugðust fjölmiðar, að undanskildu Blaðinu auðvitað.
Þegar ég vann hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar lagði ég til haustið 2004 að lánshlutfallið yrði lækkað úr 90% niður í 80% - með því væri sparisjóðurinn að sýna samfélagslega ábyrgð. Þó svo að sumir tækju vel í þau hugmynd mína var samt ákveðið að gera slíkt ekki. Það var kannski hægara sagt en gert; í könnun sem gerð var í nóvember 2003 kom fram að langstærsti hluti þjóðarinnar væri ánægður með 90% lán. Það er erfitt að synda á móti straumnum, sérstaklega ef að straumur viðskiptavina er í aðra banka ef maður neitar þeim um lán sem þeir vilja. Í viðtali við mig sem fyrsta frétt í sjónvarpsfréttum RÚV í nóvember 2001 rakti ég neikvæðar afleiðingar við auknu aðgengi lánsfjármagns til íbúðakaupa, nefndi þar sérstaklega vaxtabætur. Jóhanna Sigurðardóttir fannst lítið til þess koma í viðtali daginn eftir. Í dag er hún að auka vaxtabætur á nýjan leik; betra hefði verið að hún veitti viðvörunum einhvern gaum á sínum tíma.
* Bandaríski dollarinn veiktist næstum 80% gagnvart Evru árin 2000-2003, hvernig datt ráðgjöfum í hug að íslenska (ör)krónan gæti ekki veikst jafn mikið gagnvart helstum myntum?
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:36 | Facebook
Athugasemdir
Blessaður og takk fyrir fínan pistil. Eru ekki líka mörg af þessum húsnæðislánum sem fólk var að taka með neyslu inn í sér? Fólk tók of hátt lán eða endurfjármagnaði eldri lán (því að húnæðisverð hækkaði og þá myndaðist eign til að slá lán út á) til að kaupa jeppa, fellihýsi og annað. Ertu tilbúinn að borga það niður fyrir fólk?
Kristján Jónas Svavarsson (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 09:19
Kristján,
góð spurning og svarið er nei. Þegar að lánshlutfallið hækkaði upp í 90% og bankar fóru inn á markaðinn þá lækkaði yfirdráttur fólks mikið, enda voru margir að leika þann leik að taka húsnæðislán til að fjármagna neyslu. Það liðu aðeins 12-18 mánuðir þangað til að yfirdráttur var kominn í sömu hæðir og áður, augljóslega var neyslumunstrið komið úr böndunum.
Þetta var aftur á móti 2004-2005. Fáir tóku á þeim tímapunkti erlend lán. Fólk var farið að taka erlend lán í stórum stíl árin 2006-2007, oft einföld neyslulán. Sögur af því að fellihýsi voru einungis seld með erlendum lánum heyrðust t.d. haustið 2007. Ég hreinlega veit ekki, því miður, hvernig hægt sé að aðskilja neyslulán tekin í skjóli húsnæðislána. Mér er illa við að niðurgreiða slíkt en finnst ekki að þeir aðilar sem eru í flokki 2&3 (sjá pistil) þurfi að taka á sig höggið vegna erfiðleika við að aðskilja hópa.
Már Wolfgang Mixa, 27.10.2009 kl. 09:39
Það er grátbroslegt að hugsa til þess að maður hefur gengið í gegnum það sem ungur maður að skulda upp fyrir höfuð vegna fasteignakaupa, að maður hefur notað alla sína tíð í að borga lánin, síðustu árin hefur maður borgað síðustu milljónirnar sem eftir voru, á þeim tíma lét maður sér nægja að hýrast í gömlum tjaldvagni meðan vinirnir voru í nýja húsbílnum eða hjólhýsinu með "auðvelda" erlenda lánið, þeir horfðu samúðaraugum á mig aumingjann að "njóta" ekki lífsins og kímdu við af vitleysunni í mér þegar ég tjáði skoðun mína að sú þensla sem væri í gangi stefndi í ógöngur og að skuldir dagsins yrðu martraðir morgundagsins.
Nú þegar ég bjóst við því að ávöxtur erfiðisins og skynseminar væri í nánd, ég var búinn að borga upp mínar skuldir, tók 30 ár og öruggir tímar framundan... nei félagi, nú fór sem fór og þú átt að borga fyrir skuldir vina þinna sem álitu varkárni þína vott um heigulshátt, ef ekki hreinlega nísku :)
Hún er grátbrosleg þessi veröld, fjöldi manns sá þetta fyrir og tók ekki þátt í vitleysunni, sorglegast er að þetta hégómapakk sem ásælist áhrif og völd, er ekki fíkn sinni vaxin, þar liggur ábyrgðin, hjá stjórnvöldum. Neyslufíklarnir og áhættufíklarnir, tala nú ekki um fjárglæfra og glæpamennirnir, þeir eru eins og lögmál, ef skilyrðin eru fyrir hendi, þá fara þeir í gang og stoppa ekki fyrr en bakkus hefur lagt þá að velli.
Að sjálfsögðu eigum við ekki að borga lán nágranna okkar, en eigum við val ?
Ólafur (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 10:30
Áttir þú sparifé í banka? Hélstu ekki þeirri upphæð við hrunið? Ég átti ekkert í banka en ég var með húsnæðislán sem hefur hækkað óeðlilega mikið. Ég borgaði fyrir þig varðandi inneign þína í bankanum og nú borgar þú fyrir mig vegna þeirra óeðlilegu skulda sem ég skyndilega hef fengið yfir mig. Við erum þannig kvittir.
Valsól (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 10:47
Leiðin til að leysa neyslulán, falin sem húsnæðislán er að skoða aðrar eignir. Það verður alltaf að skoða eignahliðina áður en skuldir eru felldar niður. Fólk keypti sumarbústaði, hesthús, bíla, hjólhýsi ofl með endurfjármögnun húsnæðislána. Það getur ekki gengið að fella niður stórar skuldir af húseign meðan eigandinn heldur 10m króna jeppa og sumarbústað. Þá er verið að verðlauna þá sem voru í mesta óhófinu.
Jón H (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 10:48
Bæði verðtryggð og gengistryggð lán stóðu fólki til boða sem var að fjárfesta í íbúðarhúsnæði. Þessi lán voru kynnt á heimasíðu bankanna. Þó að einhverjir starfsmenn hafi haft einhverjar efasemdir skiptir það litlu máli því að bankarnir auglýstu þessi lán. Þetta voru lán fyrir almenna neytendur.
Núna er ljóst að fólk keypti köttinn í sekknum.
Það er rökstuddur grunur um stófellda markaðsmisnotkun viðskiptabankanna á gjaldeyrismarkaði. Fáum ef einhverjum óraði fyrir því. Og hver á að bera skaðann af þessum vörusvikum, kaupandinn eða seljandinn?
Toni (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 11:15
Merkilegt að Valsól sé ennþá að endurtaka þessa vitleysu með bankainnistæður.
Matthías Ásgeirsson, 27.10.2009 kl. 11:19
Valsól, það er langt því frá að hægt sé að tala um að vera kvitt þó einhver hafi átt einhverjar krónur í banka, þær krónur rýrna nefnilega hratt líka í takt við að lánin okkar hækka, nema kannski hjá þeim börnum sem eru með sitt fé bundið á verðtryggðum reikningum til 18 ára.
MItt lán hækkar og þessar fáu krónur sem við hjónin vorum búin að leggja fyrir til að eiga upp á að hlaupa ef þvottavélin, bíllin eða bara ef veikindi kæmu upp á, við höfum ekki tök á því að binda þær krónur í 3 ár eða meira og vextir á óbundnum innistæðum reikningum eru lágir, langt undir verðbólgutölum og því eru þær innistæður að rýna hratt, étið af verðbólgunni. Svo því miður get ég ekki tekið undir þetta með þér hvað varðar hinn almenna borgara, þín jöfnun á einungis við hina svokölluðu braskara og ríkistjórnin er svo sannarlega ekki að skuldajafna þeirra krónum til ykkar / okkar hinna.
(IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 11:22
Már.
Ég vil auðvitað ekki borga skuldir annarra en mínar eigin. Þetta spursmál sem þú lætur í veðri vaka að þú sért að stilla upp er ósvaranlegt; rétt eins og fræg spurning; " ertu hættur að berja konuna þína?"
Valsól nefnir það sem máli skiptir í því "jafnræði" sem lýðræðishefð okkar heimshluta stærir sig af og skuldaskil eftir hrunið þarf að styðjast við. Ríkissjóður Íslands tók 100% ábyrgð á almennum sparisjóðsinnistæðum - og greiddi þær út - á kostnað skattgreiðenda. Ekki var miðað við nafnverð innistæðna við áramótin á undan - nei heldur var miðað við fullar verðbætur og gildandi hávexti. Verðbætur einar á innistæður landsmanna munu hafa mumið nærri 180 milljörðum. Einnig voru greiddar út nær 220 milljarðar af peningamarkaðsreikningum föllnu bankanna - á kostnað skattgreiðenda.
Þessar greiðslur voru teknar út úr efnahag bankanna - en ríkissjóður Íslands tók að sér að stilla upp efnahag - til að gera bankana fýsilega fyrir kröfuhafana.
Sama ríkisvald og ríkisstjórn ber ábyrgð á því að allir lánasamningar með verðtryggingarviðmiðun flytja hundruðir milljarða úr persónulegum efnahag skuldara yfir til fjármálafyrirtækjanna og kröfuhafanna. Með því eru afleiðingar hrunsins "persónugerðar" hjá skuldsettum fjölskyldum.
Mistök voru gerð með neyðarlögunum; - það voru mistök að lofa 100% innistæðutryggingum og miða þá ekki við "nafnverð innistæðna" - og tilteknar dagsetningar - og sérstaklega þar sem ca. 10% innistæðueigenda áttu ríflega 70% af öllum bankainnistæðum. Almenningur hefði fengið allt sitt nánast að fullu bætt með 20 þusund Evru-viðmiðun.
Það voru mistök að bæta peningamarkaðsreikningana og greiða þá út . . . . en láta þá ekki falla á efnahag bankanna.
Það voru sennilega stærstu mistökin hins vegar að frysta ekki allar vísitölur og gengisviðmiðanir lánasamninga við ákveðin - mögulega eldri gildi - strax á fyrstu dögum hrunsins og í kjölfar neyðarlaganna. Forsendur verðtryggingar eru alltaf vafasamamar og ekki tilviljun að ekkert siðmenntað ríki hefur tíðkað verðtryggingu almennra lána - nokkurn tímann. Forsendur vísitöluviðmiðana og gengisviðmiðana í gegn um allsherjar hrun eru augljóslega alveg út úr korti.
Ef stjórn völd hefðu borið gæfu til að frysta vísitölurnar allar strax í október 2008 - þá værum við ekki að tala um innlendan rekstrarvanda heimila - né heldur fyrirtækjanna . . .
Sá ótímabæri "örlætisgjörningur" af lofa 100% innistæðutryggingum sparifjár - er hins vegar rótin að stóru vandamálum dagsins . . . . bæði vegna þess að hann kom ekki í veg fyrir bankahrun (hrunið var orðið) og ekki síður fyrir það að ICESAVE-skandalinn má rekja beint til þeirrar mismununar Íslenskra og erlendra sparifjáreigenda sem "Stóra planið" við "borgum ekki skuldir óreiðumanna" - gekk út á. . .
Veltu endilega fyrir þér jafnræði sparifjáreiegnda og sparnaði íbúðareigenda - og jafnræði sparnaðarforma gagnvart lántakendum - í gegn um hrunið.
Kveðja
benedikt Sigurðar
http://blogg.visir.is/bensi
Benedikt Sigurðarson, 27.10.2009 kl. 11:25
Og hvar er jafnræðið fyrir þá sem ekki geta bundið fé sitt til lengri tíma Benedikt??? það er búið að afnema verðtrygginu á innlánum nema til lengri tíma. Það bitnar á okkur sem tókum ekki þátt á brjálæðinu, okkur sem ekki steyptum okkur í skuldir, heldur lögðum fyrir til að eiga fyrir hlutum sem við vildum eignast hvort sem það var bíll eða annað.
Enn á ný er verið að refsa fólki fyrir aðhaldssemi og sparnað, og fyrir mína parta er ég búin að fá mig full sadda af slíkum vinnubrögðum. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem það er gert, loðdýragreinin er gott dæmi um það, þar voru felldar niður skuldir þeirra sem mest höfðu bruðlað en við hin sem höfðum sýnt fyllstu aðgælsu var refsað harðlega, svona vinnubrögð eru óþolandi og eiga ekki að líðast í okkar þjóðfélagi og ef þetta eru einu lausnirnar sem boðið er upp á, þ.e að refsa þeim sem kunnar að spara að þá er illa komið hjá okkur. Nákvæmlega svona aðgerðir eru að ganga að jafnaðarstefnunni dauðri sem annars væri bara nokkuð þokkaleg ef góðir væru við stjórn, svona jafnaðarmennska er röng og siðlaus svo vægt sé til orða tekið.
(IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 11:39
Fínn pistill!
Því miður leggja lýðskrumararnir á þingi einkum eyrun við hinum háværu öskrum þeirra sem sýndu nákvæmlega enga aðgát - héldu í barnaskap sínum að línan færi bara uppá við - alltaf. Að tala um að bankarnir hafi auglýst þessi og hin lánin og telja sig þannig stikkfrí, að þeir beri enga persónulega ábyrgð á þeim lánum sem þeir skrifuðu undir, er barnaskapur svo vægt sé til orða tekið. Og argument Valsólar er eitthvað það undarlegasta sem ég hef séð. Ég er smeykur um að ef stjórnvöld ætla að mylja undir skuldarana á kostnað hinna sem sýndu aðgát af ótta við landflótta - þá snúist vopnin í höndum þeirra. Þeir sem ekki tóku þátt í þessum æðisgengna dansi munu ekki sætta sig við að borga neyslulán þeirra sem fóru offari. Ef menn geta ekki borgað af lánum sem þeir tóku, ber þeim að skila lyklunum af lúxusjeppunum, sumarbússtöðunum og fellihýsunum. Það verður ekkert hjá því litið að ýmsir umturnuðust á þessum tíma í braskara. Margir keyptu húsnæði á 30 millur, nugguðu saman höndum meðan þeir fylgdust með bólunni; "elskan, veistu, við græddum milljón í þessari viku, húsið er nú metið á 64 milljónir," ríghalda í að húsið eigi að kosta 64 millur og ekki krónu minna. En markaðurinn kaupir það því miður ekki.
Þessi skref sem verið er að stíga núna bjóða uppá svo geggjaða mismunun og eignatilfærslu í gegnum skattkerfið og sjóði í eigu almennings að mann svimar. Hvað t.d. um þá sem settu sitt sparifé í hlutabréf en ekki steinsteypu? Menn virðast líta svo á að þeir hefðu mátt átta sig á áhættunni. Þó voru það nú þessir sem voru í og með að bakka upp atvinnulífið - nokkuð sem sárlega vantar núna.
Kveðja,
Jakob
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 11:41
Már.........
Hefur þú verið í einangrun í kolbeinsey síðasta árið, eða bara lokaður niðri í kjallara upp á vatn og brauð????
Hefur þú enga hugmynd um hvað er í gangi í landinu, hefur öll umræða um þessi mál farið algerlega fram hjá þér???
Eða ertu bara svona ofboðslega ákveðinn í að láta ekki segjast????
Svona heimskulegar færslur voru í hundraða vís síðasta vetur á blogginu, en ég hélt að það væri búið að koma vitinu fyrir ykkur, og það fyrir löngu.
Um allann heim er verið að fangelsa bankamenn sem hafa hagað sér eins og íslensku bankamennirnir.
Sakar þú fórnarlamb nauðgara um kæruleysi að fara út úr húsi, eða fórnarlamb sem liggur í götunni eftir hnífaárás??
Ykkur var nær að halda ykkur ekki bara heima hálfvitar, þið getið sjálfir ykkur um kennt!!!!
Bankarnir felldu sjálfir gengið á skipulegann hátt, þetta eru löngu þekkt sannindi.
Bankarnir gera greiðsluáætlanir hjá lántakandanum, en um leið og lántakandinn er búinn að skrifa undir, labbar bankamaðurinn í næsta herbergi og fer í beinar aðgerðir til að fella gengið og tvöfalda höfuðstólinn á láninu sem hann var að lána!!!!!!
Þú ert að verja þetta??????????????
Er ekki allt í lagi með þig?????
Sigurður #1 (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 11:43
Már, þetta er ágætis samantekt hjá þér.
Það sem vantar inn í dæmið hjá þér lítur að skilvirkum og eðlilegum markaði, þ.e.a.s. það var aldrei til staðar.
Eins og bent hefur verið á, voru hér stórir markaðaðilar sem höfðu persónulegan hag af því að allt hækkaði (hlutabréf og húsnæði) því þeir fengu bónusa samfara því.
Í dag er enginn markaður með fjármálaafurðir, hvort sem það eru myntir eða önnur bréf. Allt er á hliðinni og verður það þar til erlend aðstoð berst.
Þegar séð verður fram í tímann, eftir c.a. 2 ár, er hægt að tala um hvað á að gera við fólk sem tók erlend lán og reiknaði með skilvirkum markaði.
Góðar Stundir
Árni.
Árni (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 11:49
Sæll Már.
Auðvitað vill enginn borga lán sem annar tók, það þarf ekki að spyrja þessarar spurningar.
Spyrjum annarar spurningar. Ef brotið er á lögbundnum rétti borgara, t.d. með líkamsárás eða öðrum hætti eru honum réttilega dæmdar bætur. Segjum nú að árásaraðilinn sé ekki borgunarmaður fyrir bótunum, finnst þér þá óeðlilegt að ríkið (við) borgi bæturnar?
Skuldabréf bankanna eru þannig orðuð að ómögulegt er að lesa þau öðruvísi, eftir að maður hefur séð lögin, en að þau séu sérsniðin til að fara framhjá lögum sem banna tengingu höfuðstóls við erlent gengi. Nú skilst mér að einnig séu í gildi lög sem eiga að tryggja rétt aðila í samningum þar sem staða þeirra til að meta forsendur samninga sé mjög ójöfn (bankinn með sína lögfræðideild á móti neytandanum). Í þessu samhengi er nokkuð augljóst flestum að bankinn vissi að hann var að sveigja lögin all harkalega, án þess þó kannski að brjóta þau endilega (það eiga dómstólar eftir að skera úr um).
Ég tek það fram að ég er með lítið húsnæðislán og bílalán í erlendri mynt. Þau voru tekin á fyrrihluta árs 2008, ég vissi af því að þau ættu eftir að hækka, en miðað við þær forsendur sem tuggðar voru í fjölmiðlum frá forsætisráðherra, greiningardeildum og fleiri aðilum um að búast mætti við sveiflum í gengi en það myndi róast á bilinu 155-175 í gengisvísitölu þá var engin spurning um hvort það erlenda eða íslenskt væri betra fyrir okkur því við höfðum þol fyrir þónokkrum sveiflum. Almenn skynsemi átti náttúrulega að segja manni að þessi augljósi munur gengi ekki upp, en hvernig á ómenntuðum manni að detta það í hug að hann sé mikið fróðari en yfirvöld og hámenntaðir hagfræðingar.
Ræð ágætlega við að borga af þessum lánum en það svíður að sjá sparnaðinn étast upp og þurfa að neita sér um flestallt og börnunum um margt vegna þess að enginn í þessum hálaunuðu "ábyrgðarstöðum" hvort sem er í einkafyrirtækjunum eða opinberum stofnunum var að sinna sínu starfi.
Og það svíður ekki minna þegar manni er pent sagt það að maður sé óábyrgur bruðlari fyrir það að reikna út sína kosti miðað við þær upplýsingar sem maður fær frá bankanum, eftirlitsstofnunum og yfirvöldum.
Kv. Eggert Jóhannesson
Eggert Johannesson (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 13:12
Fín comment hér sérstaklega frá Benedikt....... takk Benedikt.
Guðmundur Sigurðsson (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 13:59
Samkvæmt Valsól er það nánast glæpsamlegt að eiga einhvern sparnað í banka. Ég ætla ekki að borga skuldir annarra svo mikið er víst.
Finnur Bárðarson, 27.10.2009 kl. 14:16
tek undir með Sigurlaugu og hvernig það lendir á okkur sem varlega fórum að "beila" út alla sem lifðu hátt.
Og svona ummæli eins og frá Valsól eru alveg útí hött. Það virðist eins og sumir séu svo hátt uppi af gleðigufunum sem bólan spýjaði út að allt í einu er fasteign orðin að sparibauk en ekki neysluvara eins hún raunverulega er.
Ef einhver fjárfestir í steypu er það eitt og sér ekki á neinn hátt verðmætaskapandi, það kostar jú að viðhalda fasteign sem setur hana í flokk með neysluvörum. Ef þú sinnir fasteign ekki neitt þá grotnar hún niður og það ansi hratt. Sparnaður í banka er peningur sem bankinn getur notað til þess að lána einhverju sem er verðmætaskapandi, eða það er í það minnsta kenningin þó raunin hafi mögulega verið önnur hér á landi.
Örn Ingvar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 15:04
Jújú, þetta er allt voðalega ósanngjarnt. Ég hef fulla samúð með hremmingum þeirra sem skulda í húsnæði sínu því sem má flokka sem hóflegt. En þegar menn setja fram þessa ófrávíkjanlegu kröfu um að ríkið eigi bara að borga og bjarga skauta menn alltaf hjá því að skilgreina hvað ríkið sé eiginlega? Hverjir eru eiginlega að borga þegar allt kemur til alls? Ríkisstjóður er að uppistöðu það fé sem skattgreiðeindur leggja í pott til að sjá um það sem fellur undir samneyslu: flestir eru sammála um að ríkisstjóði beri að standa straum að kostnaði við óarðbær fyrirbæri á borð við heilbrigðis- og menntakerfið. Að láta, eins og þeir gera margir sem nú eru í lánahremmingum, að það sé einhver almenn sátt um það að ríkissjóður standi straum af kostnaði við öll sín lán með niðurfellingum, er búllshitt. Ég tala nú ekki um þegar fyrir liggur að góður hluti skuldaranna eru þeir sem augljóslega kunnu sér ekki hóf en vilja halda í lúxusdótið sitt hvað sem það kostar. Á það er ítrekað bent í þessari umræðu að svo virðist sem hinir og þessir glæpamenn ætli að sleppa. Það er viðbjóður. En kemur þessu máli ekkert við.
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 15:07
Mér finnst nú Már hafa nokkuð til máls síns, eftir lestur greinanna sem hann lagði fram.
Í það minnsta finnst mér hann hafa stöðu réttláts gagnrýnanda í þessu máli.
En ég á bágt með að skilja gagnrýni á málflutning þeirra sem spyrða saman rétt innistæðueigenda og húsnæðiseigenda.... er þetta ekki einungis misjöfn meðferð á sparifé og ætti að vera í sama mengi þegar kemur að vernd hins opinbera á fjármunum almennings ???
runar (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 15:08
Til allra sem er á móti LEIÐRÉTTINGU lána:
Er ekki búið að fella niður þessar skuldir meira og minna niður?
Eru peningar almennings sem streyma inn í bankana á einhverjum gjalddaga erlendis sem ég veit ekki um?
Er ríkið að fara að grípa inn í og greiða einhver lán fyrir bankana sem þeir geta ekki staðið skil á?
Eru ekki allar skuldir inní gömlu bönkunum?
Ég get ekki séð að ykkur verði sendur reikningur fyrir neinu, ekki einu sinni þessum endurfjármögnunar neyslulánum.
Er eðlilegt að skuldir landsmanna hækki um 100.000 þúsund á heimili þegar skattar á tóbak eru hækkaðir? Er einhver glóra í í þessum verðtryggðu lánum þar sem þjóðinni er refsað fyrir eitthvað sem aðeins 15% gera? Af hverju ætti fólk að sætta sig við þessa fáránlegu upphæðir sem það skuldar þegar vísitalan er kolröng og reiknuð út á óskiljanlegan hátt.
Þessar skuldir eru útblásinn pappírhagnaður sem verðmætasköpun þjófélags og einstaklinga stendur ekki undir á endanum þó fólki takist að ná endum saman í bili.
Ég fór varlega í þessu öllu saman en samt er ég að greiða sem samsvarar 2x bíla nágranna minna aukalega vegna stökkbreytts láns og svo greiði ég fyrir einn hóflegan bíl fyrir einn breta/hollending í formi skatta. Ég var að greiða 80 þúsund af láninu mínu snemma 2006 og nú er ég að greiða 120 þúsund. Launin hafa ekki hækkað í takt. Þess má líka geta að ég greyddi rúma milljón inná á höfuðstól lánsins 3. október 2008.
Ég sé ekki af hverju ég ætti að borga lánið mitt eins hratt upp og ég get eins og til stóð. Af hverju tek ég ekki bara þessari greiðslujöfnun og læt afskrifa restina ef það gerist þá einhverntíman.
Ég er tilbúinn að greiða fyrir MÍNAR skuldir hratt og örugglega þegar ég sé að höfuðstóllinn á láninu verður færður í rétt horf. Ég er ekki tilbúinn að greiða uppblásinn höfuðstól sem samanstendur af fáránlegum þáttum eins og húsnæði, áfengi og sígarettum.
Arnar (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 16:51
Ég hef áður lesið pistlana þína Már, en nú blöskrar mér eiginlega.
Ég skil ekki alveg hvernig þú sem bankamaður getur talað þannig að þeir séu að fara fram á að aðrir greiði lánin þeirra sem fara fram á almennar leiðréttingar á stökkbreyttum höfuðstólum gengis- og verðtryggðra lána útaf þeim gífurlega forsendubrests sem hér varð í hruninu, bankamenn tóku stöðu gegn krónunni og má rekja gengisfellinguna beint til þessa og í kjölfarið fer verðbólgan náttúrulega uppúr öllu valdi. ??????????????????
Hvernig geturðu rökstutt þessa fullyrðingu þína, "að þú greiðir fyrir skuldir nágranna þíns"?
Ef stjórnvöld gætu sýnt okkur landsmönnum það réttlæti að leiðrétta höfuðstól lána okkar, þá kemur þú eða hinir ábyrgu sko alls ekki til með að borga neitt fyrir það. Þú ættir að vita það að til þess að leiðrétta skuldirnar kemur ekki til neinna fjárútláta frá þér né ríkissjóð þess vegna, heldur væru þetta tilfærslur í ríkisbókhaldinu.
Auk þess ættir þú að vita það sem bankamaður að nú þegar hafa allir bankarnir fengið miklar niðurfærslur á sínum eigin skuldum og það er að sjálfsögðu eðlilegt að þær gangi til skuldaranna og höfuðstólar þannig leiðréttir.
Mig langar að biðja þig og aðra þá sem tala um að þú eða aðrir landsmenn eigið að greiða fyrir leiðréttingar á höfuðstólum stökkbreyttra lána um að hætta að tala með svo óábyrgum hætti og segja fólki ósatt um það hvernig slíkt myndi fara fram.
Ef ætti að leiðrétta stökkbreytta höfuðstóla núna til þess sem þau voru fyrir hrun, hvernig kæmir þú til með að borga fyrir það? Mér þætti gaman að sjá röksemdarfærslu þína fyrir því hvernig peningar færu úr þínum vasa til þessarar leiðréttingar, sem færi einungis fram á blaði og engir peningar væru færðir neins staðar til né frá, og ekki teknir úr neinum vasa.
Andrea Ólafs (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 17:05
Fólk er nú alveg að missa sig í vitleysunni hérna. Það er enginn að biðja um að einhver borgi lán nágranna sinna. Það er verið að biðja um að þið sem fóruð svona "varlega" hagnist ekki eins mikið á nágrönnum ykkar og þið hafið gert.
Athugið þetta:
Við erum því að tala um að þeir sem fóru svona stórkostlega varlega og áttu bara fullt af pening á bankabók héldu ekki bara öllu sínu heldur fengu þeir líka bónus sem skuldararnir eiga að borga.
Það er enginn að tala um að borga skuldir nágrannanna. Tilboð Íslandsbanka hljóðar t.d. upp á 25% eftirgjöf erlendra lána. Lánin hafa hækkað um 100% og síðan eru gefin eftir 25% sem þýðir á mannamáli að lánin hækka bara um 50% á þessu eina ári.
Er það ekki nægilega mikil refsing fyrir allt bruðlið? Mér finnst það svona svipað og að segja að nauðgunin sé nú ekki svo slæm því það var notað vaselín. Þetta hefði verið miklu verra án sleipiefnis!
Verðtryggð lán hafa hækkað fáránlega mikið. Verðbólgumarkmið á Íslandi er 2,5%. Vikmörk eru 1,5% þannig að eðlilega eiga skuldarar að geta gert ráð fyrir að verðbólga sé hæst 4%. Að öðrum kosti er stjórn efnahagsmála í ólestri og einhver ætti að segja af sér. Hvað var hún á síðasta ári? 20%? Hversu margir heldurðu að hefðu keypt sér húsnæði ef þeir hefðu gengið inn í bankann og beðið um húsnæðislán og fengið þessi fínu svör: "Ekkert mál, 4,15% vextir og síðan máttu gera ráð fyrir 20% verðbólgu. Þetta eru ekki nema tæplega 25% vextir á ári. Er það ekki sanngjarnt?". Ég hefði frekar leigt.
Íslandsbanki býður 10% eftirgjöf á verðtryggð lán. Það þýðir að 20% hækkunin breytist í 8% hækkun vegna verðbólgu. Það er samt tvöföld sú verðbólga sem búast mátti við miðað við markmið Seðlabankans og þeim lögum sem gilda í landinu!
Sparnaðarpostularnir og fjármagnseigendur sem aldrei hafið gert nokkuð rangt eru að væla yfir því að menn biðji um leiðréttingu á því ranglæti sem orðið er. Allt vegna þess að menn fóru svo glannalega og eigi allt vont skilið!
Mitt dæmi er svona: Ég skulda EKKERT nema húsnæðislánið mitt. Ég hef aldrei tekið neyslulán og hef aldrei notað yfirdrátt lengur en 2 mánuði. Fyrir hrun átti ég 78% í húsinu mínu. Eftir hrun á ég 52% í húsinu. Ég er s.s. búinn að tapa 26% af húsinu mínu. Ef eign mín í húsinu er minn sparnaður þá tapaði ég 1/3 af mínum sparnaði. Ég hef stritað við að spara og allur minn sparnaður hefur farið í að greiða aukalega inn á húsnæðislánið mitt. Vúppí. Ég var þó tiltölulega heppinn að eiga svona mikið í húsinu því annars hefði minn sparnaður breyst í stórkostlega skuld og ég hefði farið á hausinn. Húrra fyrir erlendu lánunum sem ekki má leiðrétta. Það er þetta issue með djöfulsins nágrannanna sem fóru svo óvarlega. Ég er líklega einn af þessum sem eiga allt vont skilið. Ég átti ekki nægilega mikið inni á bankabók og hlýt því að vera fáviti sem fór óvarlega. Gott á mig.
Hvað töpuðu innlánseigendur miklu? Af hverju leigði ég ekki bara og sparaði inn á innlánsreikning. Þá hefði ég ekki tapað! Þá hefði ég bara grætt. Þá væri ég líklega einn af þessum sem borga ekki neina skatta, ekkert útsvar og lifa bara af fjármagnstekjum. Og þegar þessum fjármagnstekjum er ógnað þá reddar ríkið því fyrir mig og ég fer hlæjandi í bankann.
Hvernig væri að rannsóknarnefnd Alþingis birti lista yfir þá 50 innlánseigendur sem mest græddu á þeirri vernd sem skattgreiðendur punguðu út fyrir? Það skyldi þó ekki vera að einhver ósnertanlegur sé á þeim listum? Alþingismenn? Ætli útrásarvíkingarnir séu þar? Ekki ólíklegt miðað við allt.
Maelstrom, 27.10.2009 kl. 17:51
Tuff luck. En þetta er ekki leiðrétting, það er verið að tala um niðurfellingu. Köllum hlutina sínum réttu nöfnum. Liggur ekki fyrir að einhverjir þurfa að borga þetta? Þetta er ekki að fara neitt. Ekkert hókus pókus. Hvað í ósköpunum koma þessi húsnæðislán hinum almenna skattgreiðanda við? Sem er nótabene ekki innlánseigandi. Það á við um fjölmarga. Af hverju á hann líka að taka þátt í kostnaði við þessa spilaborg sem hrundi því miður? Málflutningurinn byggist á: Innlánseigendur þetta, bankarnir hitt, útrásarvíkingar þetta og hinir hitt. Það sem einkennir þessa umræðu, þeirra sem kalla sig digurbarkalega "hagsmunasamtök heimilanna", er þetta: Þessir komust upp með að labba frá skuldum sínum þannig að það hlýtur að vera sanngjarnt að við fáum að gera það líka. Hvurskonar siðferði er það?
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 18:54
Jakob Bjarnar:
"Liggur ekki fyrir að einhverjir þurfa að borga þetta? Þetta er ekki að fara neitt"
Hvað áttu nákvæmlega við með því? Geturðu bent á einhver augljós útgjöld sem á að nota þessa peninga í sem annars koma frá ríkinu? Heldur þú að bankarnir sem eru að soga þessa peninga inn til sín séu að fara að niðurgreiða skóla, vegaframkvæmdir eða annað fyrir ríkið?
Arnar (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 19:16
Ég held að fólk líti framhjá einu. Verði húsnæðislánin ekki leiðrétt, þá munu allir tapa. Ástæðurnar eru eftirfarandi:
- Verð fasteigna mun falla enn frekar eða frost vara í lengri tíma. Ástæðan er að fjármálafyrirtæki munu eignast mikið magn eigna, sem þau munu vilja losna við. Það verður ekki gert nema með miklum afslætti, sem lækkar verð allra fasteigna.
- Þeir sem halda fasteignum sínum, en fara í gegnum sértæka skuldaaðlögun munu þurfa að draga mjög mikið saman neyslu sína eða fara yfir í svarta vinnu. Þetta verður til þess að skatttekjur ríkis og sveitarfélaga koma frá færri einstaklingum sem þurfa því að greiða hærri skatta eða búa við skerta þjónustu.
- Minnkuð neysla mun draga úr veltu fyrirtækja og fækka störfum eða lækka laun.
Nú getur fólk valið hvort er betra að fara í niðurfærslu/leiðréttingu á stökkbreyttum, forsendubrosnum höfuðstól fasteignalánanna eða þetta sem lýst er að ofan. Auk þess er að mín skoðun að búið sé að gera ráð fyrir þessari niðurfærslu í afslætti á lánasöfnum sem færð eru úr gömlu bönkunum í þá nýju. Síðan eru margar aðferðir til að koma þessu þannig í kring að óverulegur hluti falli á ríkissjóð og jafnvel orðið til þess að kostnaður sem fallið hefur á ríkissjóð endurheimtist að einhverju leiti.Marinó G. Njálsson, 27.10.2009 kl. 19:45
Marínó:
Ég hef margsinnis reynt að spyrja þessarar spurningar, enginn vill svara henni en kannski að þú getir það:
Hvað nákvæmlega fellur á ríkissjóð sé leiðréttingarleiðin farin?
Arnar (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 19:51
Arnar, það er ómögulegt að segja fyrr en við skoðum hlutina í heild. Ef við gerum ráð fyrir að húsnæðislán Íbúðalánasjóðs til heimilanna séu eitthvað um 460-480 milljarðar og þau verði færð niður um 16% (sem væri í samræmi við tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna), þá nemur það 73,6 - 76,8 milljörðum króna. Af því eru líklega ríflega 10 milljarðar þegar tapaðir, ef ekki meira, og aðrir 10 milljarðar fara líklegast vegna sértækrar skuldaaðlögunar. Eftir standa því 53 - 57 milljarðar. Það hafa komið fram fjölmargar hugmyndir hvernig væri hægt að bæta Íbúðalánasjóði upp þetta tap, en yfirvöld hafa engan áhuga á að skoða þær, að því virðist. Einnig klúðruðu stjórnvöld hlutunum gagnvart minni fjármálafyrirtækjum, þegar peningar voru settir inn í Seðlabankann. Þá var tækifæri að láta peningana koma við á nokkrum stöðum á leið til Seðlabankans og leysa vanda margra í leiðinni.
Marinó G. Njálsson, 27.10.2009 kl. 20:29
Marínó:
Eins og ég skil þetta eru húsnæðislán íbúðalánasjóðs ekki hrein eign í dag heldur framreiknuð vænt endurheimta. Reiknuð út frá því að sokkar, bensín og sígarettur kosta meira í dag en í gær. Erum við að tala um alvöru tap eða minni gróða?
Arnar (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 21:17
Már
Málið er að íslendingum hefur verið slátrað af stjórnvöldum á ca 10 til 13 ára fresti svo lengi sem ég man og er þetta í þriðja sinn eftir að ég verslaði húsnæði sem það gerist en þetta þykir bara sjálfsagt að gera eignaupptöku hjá fólki. Nú er staðan eins og hún er í dag og fortíðin skiptir engu máli, í dag verðum við að vinna úr stöðunni eins og hún er, það er enginn önnur leið.
Tryggvi Þórarinsson, 27.10.2009 kl. 22:01
Ég held að fólk líti framhjá einu. Verði húsnæðislánin ekki leiðrétt, þá munu allir tapa. Ástæðurnar eru eftirfarandi:
Sæll Marinó!
Ég heyri það og sé að menn vilja tönnlast á þessu orði leiðréttingu fremur en skuldaniðurfellingu. En, ók. Eru allir að tapa á því að húsnæðisverð lækki í verði? Og við hvað ertu að miða þá þegar þú talar um húsnæðisverð? Er það verðið sem fasteignasalar töluðu um þegar BÓLAN var í hámarki? Er ekki réttara að nota orðið leiðrétting í því sambandi að húsnæðisverð einfaldlega lækki í verði miðað við það bull? Ég hef fulla samúð með fólki sem keypti sér húsnæði fyrsta sinni á síðustu tveimur árum eða svo. En hinum, sem voru margir hverjir orðnir braskarar, keyptu húsnæði sem tvöfaldaðist í verði í BÓLUNNI, en mega ekki heyra á það minnst að húsnæðisverð leiðréttist... tjahhh, nei, eiginlega ekki.
En það er gott að fá það fram að niðurfellingarleiðin eigi að kosta okkur skattgreiðendur, hvort sem við tókum þátt í ballinu eða ekki, 73,6 - 76,8 milljarða. Takk fyrir það.
Arnar, varðandi spurningu þína. Þú afsakar, en ég bara skil ekki hvað þú ert að tala um. Með fullri virðingu.
Kveðja,
Jakob
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 22:23
Jakob
Ég var að reyna að fá þig til að útskýra fyrir mér hvernig þér reiknast til að skattgreiðendur beri einhvern skaða af leiðréttingu. Það er staðreynd að skuldir hafi verið afskrifaðar, með leiðréttingu innheimtist einfaldlega minna en gert var ráð fyrir.
Ef bankinn minn innheimtir 15-20% minna af mér en þeir vilja taka, hvernig berð þú eða aðrir í þessu þjóðfélagi einhvern fjárhagslegan skaða af því?
Arnar (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 22:45
Mér langar ekkert til að borga skuldir annara. En hvað um það ekki langar mig að reka fólk út á guð og gaddinn. Ekki vill ég að 20-30% þeirra sem eiga að endurreisa verði gjaldþrota, því ég tel það heimsku að reyna að reisa á ónýtum grunni.
Þetta er því spurning hvort vil ég frekar en ekki hvort ég vilji borga annara manna skuldir. Frekar vill ég borga annara manna skuldir en að reyna tilgangslausa endurreisn á ónýtum grunni. Eina leiðin útur þessari kreppur er að byrja á traustum grunni.
Offari, 27.10.2009 kl. 23:13
Enhver verður af óréttmætum 3,8 miljörðum..á ári ef leiðrétt verður.
Vilhjálmur Árnason, 27.10.2009 kl. 23:18
Jakob Bjarnar, raunverð fasteigna var það sama í júlí og það var í júní 2004. Við erum komin yfir bóluna. Hún er sprungin. Allt sem fasteignir lækka úr þessu er því niður fyrir raunverð eigna eins og það var fyrir innkomu bankanna inn á fasteignalánamarkaðinn. Það getur verið að nafnverð eignanna sé hærra, en það breytist með verðbólgu, ekki satt. Vissulega hefur hækkun fasteignaverðs leitt til hækkun verðbólgu og því má segja að eitthvað svigrúm ætti að vera aukalega fyrir lækkun, en hún er óveruleg.
Hvernig getur þú sagt að kostnaður skattborgara af leiðréttingunni sé 73,6 - 76,8 milljarðar þegar ég bendi á að það sé ekki málið. 20 milljarðar eru mjög líklega tapaðir eða tapast á næstu árum og hjá því verður ekki komist. Mér finnst það gróft að ætla að telja það til kostnaðar af leiðréttingunni fyrir ÍLS. Það er kostnaður af efnahagshruninu, ekki leiðréttingunni. Þessir 53-57 milljarðar eru ekki einu sinni 5% af því sem sett var í að bjarga innistæðum, er innan 20% af því sem fóru í að bjarga gjaldþroti Seðlabankans og innan við 20% af því sem fer í að endurreisa Landsbankann.
Verði farið í þessa leiðréttingu, þá munu heimilin hafa líklegast um 450 milljarða meira til ráðstöfunar á líftíma lánanna. Tekjur ríkissjóðs af því gætu orðið hátt í helmingurinn af þeirri upphæð, þegar uppsöfnunaráhrif eru tekin með. Ríkið nær því þeirri upphæð sem ÍLS þarf að afskrifa margfalt til baka. Auk þess fær ríkið tekjur af hærri þinglýsingargjöldum, tekjuskatti fasteignasala o.s.frv.
Marinó G. Njálsson, 27.10.2009 kl. 23:59
Takk fyrir athugasemdir frá Benedikt og Marinó.
Til að draga þetta saman þá segir Benedikt að "verðbætur einar á innistæður landsmanna muni hafa numið 180 milljörðum" Það má hafa skoðun á því hvort yfir höfuð hafi átt að tryggja allar innistæður eins og gert var en að bæta fólki verðbætur sem eins og Benedikt segir að hafi verið gert er út í hött "miðað vil fullar verðbætur og gildandi hávexti" sem við vitum núna að var reiknaður út miðaða við rangar forsendur. Það má einnig setja spurningamerki við útgreiðslu á peningamarkaðsreikningum (220 milljarðar) en nú er komið í ljós að þeir voru ofmetnir á 50 milljarð.
Ef við drögum þessa tvo vafasömu gjörninga saman þ.e. verðbætur og vexti á 180 milljarða og ofmat á peningamarkaðsreikningum upp á 50 milljarða þá erum við að tala um að innistæðueigendur og peningamarkaðseigendur hafi fengið sem nemur 220 milljörðum of mikið. Rétt er að ítreka að þessir aðila fengu sínar inneignir tryggðar - bankainnistæðueigendur 100% og peningamarkaðseigendur ca. 75%.
Marinó tala um að leiðrétta húsnæðislán Íbúðalánasjóðs "um 16% (sem væri í samræmi við tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna), þá nemur það 73,6 - 76,8 milljörðum króna" Ef farið yrði eftir þessum tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna varðandi húsnæðislán Íbúðalánasjóðs standa enn eftir 140 milljarðar til þess að leiðrétta erlendu húsnæðislánin og bílalánin. Marinó - þú hefur e.t.v. upplýsingar hvað þarf mikið fjármagn til að leiðrétta erlendu húsnæðislánin.
Ég minni á að þessar 220 milljarðar sem ég er að miða við eru þær upphæðir sem Benedikt telur hafi verið ofgreiddir til þeirra aðila sem fengu sínar innistæður tryggðar.
Við skulum líka hlusta á það sem Offarir skrifa hér að framan.
Rétt er að benda á að tímasetningar geta skipt máli hjá því fólki sem er að lenda í greiðsluerfiðleikum í dag. Þeir sem tala digurbarkalega um að þeir vilji ekki borgar skuldir annarra ættu að leiða hugann að því hvernig staða þeirra væri ef þessi efnahagskreppa hefði komið á öðrum tímapunkti í lífi þeirra. Vandræði þorra þeirra sem eru að lenda í vandræðum í dag byggir á algjörum forsendubresti sem m.a. má rekja til vafasamra gjörninga þeirra sem ráðlögðu fólki og eftirlitskerfi sem brást.
Hér er einföld dæmi til umhugsunar:
Ég vil biðja menn í flokki með Má að endurskoða afstöðu sína og hugsa þetta mál með heildarhagsmuni okkar allra í hug. L eiðrétting til handa þeim sem skulda er réttlætismál sem þjóðin verður að sameinast um að standa að svo sátt megi ríkja hér um ókomin ár.
Björn Hermannsson
Björn Hermannsson, 28.10.2009 kl. 00:01
takk fyrir góða grein
Adda Laufey , 28.10.2009 kl. 00:05
Hvað með skuldir sem bankamenn stofnuðu til út um allan heim og almenningur er látin borga í gegnum gengishrun, verðbólgu, atvinnuleysi, kjararýrnun, niðurskurði í mennta og heilbrigðismálum, skattahækkunum, og annari lífskjaraskerðingu.
Fynnst þér rétt að almenningur sé látin borga skuldir óreiðubankamanna á þennan hátt?
Toni (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 00:11
Björn, gengistryggð húsnæðislán voru um 180 milljarðar um síðustu áramót. Þau hafa ekki hækkað mikið síðan vegna þess að jenið og frankinn hafa hækkað lítið samanborið við aðrar mynt (a.m.k. jenið). Af þessum 180 milljörðum, þá met ég að 90 milljarðar séu vegna gengishrunsins, en HH gera ráð fyrir að þessum lánum verði breytt í verðtryggð lán frá lántökudegi, sem veldur lækkun á þessum 90 milljörðum sem nemur 18 milljörðum. Önnur lán bankanna eru um 520 milljarðar og 16% leiðrétting á þeim því 83,2 milljarðar. Niðurfærsla á lánum hjá bönkunum, samkvæmt tillögum HH, nemur því 163 milljörðum. Þá eru eftir lífeyrissjóðirnir, en sjóðfélagalán voru 168 milljarðar í upphafi árs og 16% niðurfærsla á þeim nemur því 26,9 milljörðum. Samtals gerir þetta 76 + 83 + 72 + 27 = 258 milljörðum. (Ef þetta hefði verið framkvæmt í febrúar þá hefði þetta verið um 50 milljörðum lægri tala.) Frá þessu dregst það sem er sannanlega tapað eða búast má við að aldrei fáist innheimt. Ég reikna með að það sé á bilinu 50 - 60% af heildarupphæðinni, þar af nánast öll hækkun gengistryggðra lána. Sé talan 50% notuð standa því eftir 129 milljarðar. Hafa skal í huga að gert er ráð fyrir miklum afföllum hjá bönkunum og við ættum ekkert að velta þeim 155 milljörðum fyrir okkur, en einbeita okkur eingöngu að ÍLS og lífeyrissjóðunum og síðan minni sparisjóðum (lán þeirra eru skiptimynt miðað við hina). Niðurfærslan sem fellur á lífeyrissjóðina er smámunur miðað við tapið sem þeir eru búnir að taka á sig og telst innan skekkjumarka miðað við heildareignir þeirra. Lífeyrissjóðirnir ættu því auðveldlega að bera það tap, þó ég dragi ekki frá óumflýjanlegt tap. Þetta endar allt með því að eingöngu þarf að hugsa um ÍLS, þegar kemur að hugsanlegum greiðslum úr ríkissjóði, þ.e. þessum 53 - 57 milljörðum.
Nú ég er búinn að sjá a.m.k. þrjár lausnir á því hvernig hægt er að fría ÍLS alveg við þetta tap og þar með skattgreiðendur. Ein þessara leiða verður kynnt á opnum borgarafundi HH 2. nóvember í Iðnó.
Gleymum síðan ekki, að margt bendir til þess að gengistryggð lán séu ólögleg. Verði úrskurður dómstóla á þann veg, þá gætu fjármálafyrirtækin, sem buðu slík lán, mögulega þurft að lækka höfuðstól þeirra verulega og hugsanlega greiða bætur.
Marinó G. Njálsson, 28.10.2009 kl. 00:34
Svar við fyrirsögn: Þú, og við öll, höfum þegar greitt fyrir húsnæði nágranna okkar. Til dæmis þegar eldgos eyðilagði fjölda húsa í Vestmannaeyjum og þegar Suðurlandsskjálftinn eyðilagði húsbyggingar og önnur mannvirki. Þessi ósköp sem dunið hafa yfir nú lenda mun verr á sumum en öðrum (eins og í Vestmannaeyjum og á Suðurlandi) og þá er kannski einhver sanngirni í því að skaðinn lendi ekki á þeim óbættur (frekar en í Vestmannaeyjum og á Suðurlandi). Valdi fólkið ekki sjálft að taka þessi lán? Valdi fólkið ekki sjálft að reisa sér hús á Suðurlandi?
Magnús (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 00:58
Jú plís borgiði fyrir mig skuldirnar. Ég nenni ekki að fara minnka við mig. Ég bý í góðu raðhúsi og ég bara get ekki hugsað mér að minnka við mig og kaupa bara íbúð. Frúin fílar það ekki.
Áfram svo, fáum hina til að borga skuldir okkar. Ef við verðum bara nógu hörð þá fæst þetta í gegn.
Jóhann (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 08:50
Auðvitað eigið þið sem áttuð peninga inn í banka að borga og taka þannig þátt í skuldavanda heimilanna. Ég ætla ekki að sitja uppi með stórfelldar skuldir á meðan þið dundið ykkur við að leggja inn í banka.
Valsól (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 08:58
Valsól þú hlýtur að vera að grínast núna.
Hér er Már að tala um þá sem tóku þátt í neyslufylleríi og sitja þess vegna uppi með stórfelldar skuldir. Hann gerir greinarmun á því hvernig skuldirnar eru tilkomnar, ég held að þú ættir að lesa greinina.
Hvað mig varðar þá bítur þetta mig súrt. Ég er námsmaður sem hef alla tíð (þar til nú í vetur) búið í foreldrahúsum og unnið myrkranna á milli á sumrin. Ég er því með lítil sem engin námslán á bakinu og engin húsnæðis eða bílalán, og heldur ekki yfirdrátt. En þetta er bara af því að ég hef lifað sparlega.
Nú í vetur verða námslánin mín skert stórlega af því að ég vogaði mér að vera duglegur að vinna í sumar, núna fyrst þegar ég þarf á þeim að halda. Þess utan verður þessi litli sparnaður, sem ég á inn á læstri bankabók síðan á grunn og menntaskólaárunum, skattlagður upp í rjáfur. Ég er eiginlega farinn að sjá eftir því að hafa ekki tekið þátt í neyslufylleríinu með tilþrifum til að njóta þeirra afskrifta sem nú á að fara út í.
Þórður Ingi (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 11:50
Húsnæðiseigendur eiga líka sparífé. Það væri nokkuð sárt fyrir þá sem hafa verið að spara fé fyrir námi, læknisþjónustu eða bara hverju sem er að missa hluta hans til þess eins að lækka íbúðalánið, hvort sem það er hans eða annarra.
Hvaða ávinningur er á því að færa peninga úr einum vasa í annan?
Hvaða réttlæti er í því að gera eignir upptækar til að greiða skuldir annarra?
Marínó, tók ríkisstjórnin 1100 milljarða lán til að bjarga innistæðum? Á hvaða vöxtum?
Innistæður og sparnaður eru mjög mikilvægur þáttur í efnahgslífinu, mikilvægari en húsnæðislán. Algert vantraust hefði orðið á bankakerfinu, enginn með réttu ráði myndi setja peninga inn í banka, engir peningar hefðu verið til að lána og hagkerfið hefði dregist miklu meira saman. Það er enn mikil hætta á þessu, enda freistandi að gera innistæður upptækar eins og heyrist hérna í athugasemdunum.
Svo hefur enginn svarað hvernig eigi að borga skuldaleiðréttinguna. Hver getur svarað því?
Lúðvík Júlíusson, 28.10.2009 kl. 15:26
Ég þakka allar góðu athugasemdirnar og biðst afsökunar á því að hafa ekki svarað fyrr, geri það fyrst þegar að flestir eru farnir að huga að öðrum blog færslum. Fékk slæma magakveisu sem dró úr mér allan mátt, kannski hefur einhver ósammála mér verið bænheyrð(ur).
Sumir skilja grein mína sem svo að ég telji ekki rétt að koma til móts við fólk sem skuldar erlend lán vegna húsnæðiskaupa. Það er rangt.
Sumar athugasemdir virðast gera ráð fyrir að ég sé skuldlaus maður. Aftur, það er rangt, ég skulda í húsnæði mínu og sit ekki á gildum sjóðum.
Ólafur skrifar ósáttur "Að sjálfsögðu eigum við ekki að borga lán nágranna okkar, en eigum við val ?" - það er mikið til í því hjá honum, en eins og aðrir benda á eru þetta ekki náttúruhörmungar. Sjálfur finnst mér við ekki eiga val í sumum tilfellum vegna slakrar ráðgjafar.
Önnur vinsæl rök eru jafnræði lántaka og fjármagnseiganda, sérstaklega þeirra sem fengu allt sitt tryggt varðandi peningamarkaðssjóði og innstæður umfram EUR 2.100. Nú er ég að mælast til að komið verði til móts við aðila með erlend lán á bakinu svo þetta finnst mér ekki eiga við hér. Aftur á móti er það mitt álit að inngrip vegna peningamarkaðssjóða vera allt eins flókið mál, þeir voru auglýstir á röngum forsendum - aftur - slök ráðgjöf. Mér finnst það vera langsótt að spyrða þessi mál svona saman en ég skil vel gremjuna.
Jóh H skrifar og hefur mikið til síns máls, sem er þó erfitt í framkvæmd: Leiðin til að leysa neyslulán, falin sem húsnæðislán er að skoða aðrar eignir. Það verður alltaf að skoða eignahliðina áður en skuldir eru felldar niður. Fólk keypti sumarbústaði, hesthús, bíla, hjólhýsi ofl með endurfjármögnun húsnæðislána. Það getur ekki gengið að fella niður stórar skuldir af húseign meðan eigandinn heldur 10m króna jeppa og sumarbústað. Þá er verið að verðlauna þá sem voru í mesta óhófinu. Þetta gerðist að mestu árin 2004-2005 og voru þá erlend lán ekki komin á hið mikla skrið sem síðar gerðist, því á þetta síður við um þann hóp sem ég tel eigi að beina jákvæðum sértækum aðgerðum að.
Góð orð hjá Eggerti - Almenn skynsemi átti náttúrulega að segja manni að þessi augljósi munur gengi ekki upp, en hvernig á ómenntuðum manni að detta það í hug að hann sé mikið fróðari en yfirvöld og hámenntaðir hagfræðingar. Aftur, slök ráðgjöf og ótrúleg meðvirkni.
Andreu blöskrar skrif mín, mér sýnist að hún sé oft ósammála mér en nú sem aldrei fyrr. Afskriftir erlendra banka er að mestum hluta til vegna taps tengdum lánum til eignarhaldsfélaga sem höfðu gíraðar fjárfestingar að eina markmiði sínu. Mér finnst líka fúlt að þurfa að greiða vegna þeirra gjörninga (skrifa jafnvel grein um það á næstunni) sem voru í mörgum tilfellum ólýsanlegir. Nú veit ég ekki hversu mikið hefur verið afskrifað vegna húsnæðislána en ég tel að erlend lán eigi að vera í forgangi afskrifta. Nú er ríkissjóður að leggja fram fé í bankanna svo ég tel einsýnt að almenningur, þú - ég - við öll, leggi fram þessar upphæðir.
Marinó bendir á að Verði húsnæðislánin ekki leiðrétt, þá munu allir tapa. Við erum örugglega ekki sammála um alla hluti en þetta er hluti af minni málflutningi varðandi erlendu lánin.
Ég held að ég hafi tæpt á flestu hérna. Bendi á að ég var í viðtali í Síðdegisútvarpinu á þriðjudaginn varðandi þessa grein. Hægt er að nálgast það hér. http://dagskra.ruv.is/ras2/4495667/2009/10/27/4/
Varðandi bænheyrnina, neibb, ég meinti það nú ekki.
Már Wolfgang Mixa, 29.10.2009 kl. 10:23
Ég er nú einn af þeim sem tók þessi erlendu lán bæði á bíl og hús. Og ekki þarf að borga neitt fyrir þá sem það gerðu við viljum samt fá leiðréttingu á yfir 100% hækkun lána og þar af er allavega 40% útaf gjöf alþingismanna til þeirra sem áttu peninga inn í banka eftir að þeir lofuðu að tryggja allar innistæður þá hrundi gjaldmiðill okkar niður og má vera ljóst að þeir 2-300 milljarðar sem þar voru gefnir, höfðu bein áhrif á lán okkar sem skuldum er ekki nóg að ég þurfi að borga allt að 60% meira fyrir lán mín útaf fjárglæframönnum á síðan að bæta ofan á það 40% þar sem það þurfti jú að passa upp á fé þeirra ríku. Það er ekki verið að tala um leiðréttingu þar sem farið er í upprunalegt gengi heldur 40% og þá erum við en með 60% álagningu á lán okkar. Annars ´býst maður ekki við neinu gáfulegu frá þeim fávitum sem starfa núna á alþingi. þeir munu örugglega skattleggja lánin okkar um 20% í viðbót
Sigurður Hjaltested (IP-tala skráð) 30.10.2009 kl. 01:51
Það er nefnilega málið með stökkbreyttu höfuðstólana. Skuldarar íbúðalána eiga að borga fyrir húsnæði og allt annað hjá útvöldum. Hr. Mixa hefur snúið þessu á haus í rauninni. Það er búið að stökkbreyta höfuðstólum þessara lána einmitt svo elítan þurfi ekki að borga fyrir sig. Það má segja að þetta sé ein af afleiðingum þess að tryggja öll innlán og halda úti verðtryggingunni. Hefði það ekki verið gert hefði peningamagn í umferð leiðrétt sig sjálfkrafa og verðgildi krónunar fallið mun minna og jafnvel leitað töluvert til baka. Reyndar er búið að selja svo gríðarlegt magn af krónum (jöklabréfin) að þetta hefði kannski skipt litlu máli í heildardæminu. Og þó, það var haldið inni um 800 milljörðum sem annars hefðu fokið út í veður og vind. Þar á meðal eru eignir lífeyrissjóða ofl.
Bankarnir 3 voru almenningi dýrkeyptir en það á að nota þá til að mjólka enn meir úr eignum almennings fyrir útvalda. Þetta er gert í gegn um húsnæðisskuldir. En þetta gengur að sjálfsögðu ekki upp. Þeir sem yfirgefa skerið og þeir sem yfirgefa stökkbreyttar skuldir munu ná sér aftur á strik. Þeir sem reyna að greiða fyrir þessa vitleysu eins og Hr. Mixa munu enda á að greiða fyrir mörg mörg hús elítunnar.
Ólafur Garðarsson (IP-tala skráð) 1.11.2009 kl. 15:22
það sem Mixa talar ekki um eru hve stór hluti yfirdráttar er tilbúin skuld í formi okurvaxta og ólöglegra yfirdráttasekta.
Þú getur fengið upplýsingar um það hjá neytendastofu.
Það voru nokkrir miljarðar. Aðrir miljarðar voru rukkaðir í færslugjöld. Seðilgjöld.
Fylleríið var í vaxta-okri og svikum. Í nafni frjálshyggju. Það sem Mixa vill ekki viðurkenna er það hlutverk sem bankakerfi á að hafa í samfélagi.
Það á að taka ábyrgð á því hlutverki. Punktur. Það gerði íslenska bankakerfið ekki.
Það er að mínu mati algerlega galið að tala um eiðslufyllerý fólksinns í landinu.
Bankakerfið er helsjúkt fyrirbrigði sem verður að lóga. aflífa , taka af lífi, drekkja, fella, brjóta niður. Því miður er það ekki byggt á heiðarlegum grunni og getur því ekki staðist.
Þér finnst ég kannski nota stór orð í þessu samhengi. En bankakerfið í þeirri mynd sem það er núna verður að líða undir lok.
Vilhjálmur Árnason, 1.11.2009 kl. 17:05
Já herra Mixa, ég er verulega ósammála þér í þessari færslu og það sem meira er að ég sé hvergi rökstuðning þinn fyrir því hvernig til koma greiðslur frá þér vegna lána nágranna þíns ef farið verður í leiðréttingar.
Eins og talað er um að ofan þá eru bankarnir nú þegar búnir að fá mikið af lánasöfnum sínum afskrifað og þótt meirihluti þess sé vegna eignarhaldsfélaga (sem fjármálagæjarnir stofnuðu hægri vinstri til að fyrra sig persónulegri ábyrgð og væntanlega gaurar eins og þú sem hafa unnið í fjármálafyrirtækjum síðast liðin ár, hafa ráðlagt þeim að gera? eða hvað? )
Önnur rök sem má færa fyrir því að leiðréttingar skulda eru raunhæfur möguleiki og kosta nágranna mína ekki krónu er einnig bent á hér að ofan, þe. að þessar tekjur í gegnum ofurverðbólgu og okurvexti eru tekjur í bókhaldi framtíðarinnar. Þótt hluti þeirra sé færður niður vegna þess að ríkið viðurkennir skömm sína og lýsir því yfir að það eigi einfaldlega ekki rétt á þessum ofteknu vöxtum og verðbótum vegna hrunsins, þá er ekki um fjárútlát að hálfu ríkisins né nágranna minna að ræða. Þar væri um tilfærslur í bókhaldi ríkisins að ræða, viðurkenningu á að þessar framtíðartekjur séu ekki réttlætanlegar og verði því bakfærðar í bókhaldinu.
Það er enginn að tala um að ætla ekki að greiða skuldir eða höfuðstól sem þeir réttilega stofnuðu til þegar lán var tekið, heldur einungis að leiðrétta það sem umfram það er komið vegna óréttmætra okurverðbóta. Þetta er krafa fólksins, ólíkt óráðsíueignarhaldsfélagapakkinu sem greiðir ekki krónu af upphaflega höfuðstólnum einu sinni, heldur fær hann líka niðurfelldan. Það er nefnilega óábyrgt fyrir þá að greiða sín lán, því þeir vita sem víst að þeir fá þetta allt niðurfellt í skítinn.
Sjálf stofnaði ég til 8 milljóna króna skuldar til íbúðakaupa og hlýtur það að teljast nokkuð ábyrg upphæð sem ég ætti vel að ráða við afborganir af og það geri ég. Ég sé hins vegar ekkert réttlæti í þeirri hækkun höfuðstóls vegna vísitölutengingar sem ég horfi upp á hver einustu mánaðarmót. Lánið mitt er núna komið yfir 11 milljónir á einungis 6 árum á meðan ég hef greitt yfir 3,5 milljónir af því á þeim tíma!!! Hvað er réttlætið í þessu??? Það er ekki til staðar. Verðtryggingin er bull og vitleysa og hana verður að afnema hið fyrsta. Lánveitendur hafa beina hagsmuni að því að halda henni uppi og ekkert er réttátt við það að lánþegar sitji til borðs með lánveitanda ásamt stjórnvöldum sem ekki eru tilbúin til að setja neitt þak á verðtrygginguna, heldur á hún bara að vera óútfylltur tékki og óvissuþáttur um ókomna tíð?!!!
Andrea Ólafs (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 00:15
Andrea,
Ég get vel skilið gremju fólks við að sjá suma einstaklinga sleppa við að greiða sínar skuldir á sama tíma og gengið er hart á eftir hverri einustu krónu.
Við getum verið sammála með að vera ósammála um ýmsa hluti. Það afsakar þó ekki innstæðulausar ásakanir í minn garð. Þú mátt eiga það að þú setur spurningamerki fyrir aftan fullyrðinguna; svarið er nei.
Það er svívirðilegt að mínu mati að menn séu stikkfrí vegna ehf. gjörninga sem gerðir voru í þeim tilgangi að græða ef vel gengi, láta aðra borga brúsann ef illa gengi. Ég skulda líka í húsi mínu og er ekkert frekar ánægður með það en þú að sjá þær hækka.
Már Wolfgang Mixa, 2.11.2009 kl. 10:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.