Auglýsingar og fjárfestingar - Eru ríkistryggð skuldabréf virkilega besti kosturinn?

deCODE, OZ, hlutabréf í tæknifyrirtækjum, hlutabréf, valréttir, og síðast en ekki síst erlend lán: Allt eru þetta fjárfestingarákvarðanir sem margir hafa tapað miklum fjárhæðum á.  Þær eiga það allar sameiginlegt að hafa verið mikið í umræðunni á sínum tíma. 

Eitt einfalt viðvörunarmerki um hvað eigi ekki að fjárfesta í (eða form á láni sem maður eigi að taka) eru fjármálaafurðir sem fjallað er um með glaðbeittum hætti í fjölskylduboðum.  Hver kannast ekki við að hlusta endalaust á aðila fjalla um auðfenginn gróða á fjárfestingum eða erlendum lánum sem lengi vel lækkuðu í virði vegna styrkingar krónu (Kindleberger lýsir þessu svona: There is nothing so disturbing to one's well-being and judgement as to see a friend get rich).  Margar fjárfestingarákvarðanir hafa verið teknar í framhaldi af slíkum samtölum án mikillar yfirlegu varðandi áhættu.

Mon(k)ey see, Mon(k)ey do

Annað viðvörunarmerki sem er jafnvel enn betra eru fjárfestingar sem mikið eru auglýstar. Nýleg dæmi eru erlend lán (man einhver eftir sjónvarpsauglýsingum þar sem Frjálsi Fjárfestingarbankinn hvatti fólk til að umbreyta lánum sínum í erlend lán þar sem að teningar með ISK breyttust í merki erlendra mynta?), peningamarkaðssjóðir og hlutabréfasjóðir.  Íslenskar fjármálastofnanir höfðu hins vegar takmarkaðan áhuga á því að auglýsa íslensk ríkistryggð skuldabréf árin 2007 og 2008.

Nú, hins vegar, þegar að þau bréf hafa hækkað mikið í virði hamast íslenskar fjármálastofnanir við að auglýsa kosti slíkra bréfa.  Bent er til dæmis á að ávöxtunarkrafa þeirra er hærri en vextir sem fást á bankareikningum.  Þetta eru svipuð rök og notuð voru mánuðina áður en peningamarkaðssjóðir fóru á hliðina.  Nú ættu þó allir að vita að góðar líkur eru á því að íslenska ríkið geti ekki á einhverjum tímapunkti staðið við allar þær skuldbindingar og því verði einhver afföll af bréfunum.  Það er því eðlileg ástæða fyrir því að ávöxtunarkrafan er hærri en sú sem fæst á bankainnstæðum.

Því ætti fólk í það minnsta ekki setja öll egg sín í körfu ríkisskuldabréfa.  Fortíðin gefur til kynna að sú ávöxtunarleið eigi eftir að valda vonbrigðum.

Hægt er að lesa nánar um Sjónvarp og auglýsingar hér: Hægt er að stækka gluggann neðst í horninu vinstra megin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Smá forvitni, mun ríkið ekki alltaf standa í skilum á ríkisskuldabréfum í innlendri mynt? Myndi ríkið ekki frekar "prenta peninga", þótt slíkt kosti verðbólgu og ýmis önnur leiðindi, fremur en að standa ekki í skilum?

Eru það ekki frekar lán í erlendri mynt sem ríkið mun lenda í vandamálum með?

Andri Thorstensen (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 14:09

2 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Andri, góðar spurningar.  Rétt er að taka það fram að ég er ekki að koma fram með skoðanir um möguleika þess að íslenska ríkið geti ekki staðið 100% í skilum.  Opinber umfjöllun í fjölmiðlum sýnir að skuldatryggingarálag á íslenskum ríkisskuldabréfum er afar hátt, sem gefur til kynna ótta um að ekki verði að fullu staðið í skilum.  Auk þess er lánshæfismat íslenska ríkisins afar lágt, það lágt að sögulega séð eru töluverðar líkur á afföllum ríkisskuldabréfa.

Ríkið getur auðvitað prentað pening til að standa í skilum og jafnvel ákveða að láta erlend lán ganga fyrir í vanskilaröð. Vandamál fylgir báðum leiðum.

Peningaprentun myndi án efa leiða af sér óðaverðbólgu.  Það þýðir að verðtryggð íslensk lán myndu hækka enn frekar.  Endurfjármögnun yrði þá enn dýrari því nafnvextir þyrftu að vera svo háir til að raunvextir verði ekki neikvæðir.  Auk þess veit ég ekki hvort eigendur ríkisbréfa vildu frekar þann kost, og sitja með bréf sem veita 7-8% ávöxtun þegar að verðbólga er miklu hærri, frekar en að taka á sig einhver afföll.

Ég held að fáir séu tilbúnir til að storka erlendum fjárfestum meira en nú þegar hefur verið gert með því að setja lán í erlendri mynt í forgang við afföllum greiðslna.  Okkar varnir í Icesave, siðferðislegar í það minnsta, væru sjálfssagt brostnar.

Aðili á póstlista mínum fannst ég vera óvæginn í umfjöllun minni með því að rifja upp auglýsingar Frjálsa fjárfestingarbankans.  Bendir hann réttilega á að prófessor hefði mælt opinberlega með slíkum lánum (því má við bæta að fleiri ráðgjafar gerðu slíkt í fjölmiðlum) og jafnvel greiningardeildir (ég minnist ekki þess en man þó að LÍ og Glitnir gerðu ráð fyrir áframhaldi á styrk krónunnar).  Ég er ekki að gera lítið úr þeim sem tóku erlend lán, það hefur komið fram opinberlega (grein í Morgunblaðinu sl. ágúst, áskrifendur Moggans geta séð hana hér) að ég tel að bankar eigi mikla sök á stöðu þeirra sem tóku slík lán.

Már Wolfgang Mixa, 17.2.2010 kl. 22:43

3 identicon

Stofnfjárbréf í Byr er eitt dæmi þau áttu að vera alveg örugg. Arðurinn átti að borga bréfin?

Kv SP

Sigurgeir Pálsson (IP-tala skráð) 7.3.2010 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband