Bjölluhljómar OR
30.4.2010 | 12:09
Eitt af því áhugaverða við útlánabólu áranna 2003-2007 var hversu mikið sveitafélög og opinberar stofnanir juku skuldsetningu sína. Þetta gerðist á sama tíma og Seðlabanki Íslands hækkaði stöðugt stýrivexti - sígild skilaboð um að of mikil þensla væri að eiga sér stað í hagkerfinu.
Orkuveita Reykjavíkur (OR) er eitt dæmi. Í samantekt sem Ívar Páll Jónsson birti í Morgunblaðinu 19. nóvember 2009 sést að heildarfjárfestingar fyrirtækisins í varanlegum rekstrarfjármunum tímabilið 2002 til haustsins 2009 voru rúmlega 120 milljarðar. Á sama tímabili jókst hlutfallsleg aukning erlendra lána á milli ára gífurlega; erlendar lántökur OR voru um 165 milljarðar á tímabilinu miðað við gengi krónunnar 16. nóvember 2009. Efnahagsreikningur OR hefur meira en þrefaldast á aðeins 4 árum.
Stefna eða stefnuleysi
Í Viðskiptablaðinu birtist athyglisvert viðtal við Guðlaug Sverrisson, núverandi stjórnarmann OR, 7. janúar á þessu ári titlað 'Loksins ljóst hvert OR á að stefna'. Blaðamaður spyr hvort það hafi ekki verið ábyrgðarleysi af hálfu stjórnar að koma sér ekki saman um heildarstefnu fyrr en nú (augljóslega undrandi á því að hún hafi ekki legið fyrir þegar að ráðist var í allar fjárfestingar af hálfu félagsins). Guðlaugar skautar framhjá spurningunni og einblínir á hversu jákvætt það sé að búið sé að mynda stefnu (rétt er að geta þess að hann gerðist ekki stjórnarmaður fyrr en 2008).
Forstjóri OR, Hjörleifur Kvaran, tekur undir þau orð og bætir við að vilji hafi ríkt lengi meðal stjórnenda OR að fá skýra stefnu frá stjórn fyrirtækisins. Af þessu að dæma var ráðist í fjárfestingar á tímabilinu 2002-2009 sem nema tæplega 10% af vergri þjóðarframleiðslu Íslands án þess að skýr stefna lægi fyrir.
Klukkur hringja ding-a-ling
Í viðtalinu við Viðskiptablaðið er Guðlaugur spurður að því hvort að viðvörunarbjöllur hefðu ekki átt að klingja innan OR vegna fasteignaverkefna. Guðlaugur svarar því til að vissulega hafi þær verið klingjandi alls staðar, þetta var hins vegar bjölluhljómur sem enginn fór eftir.
Síðar bætir hann því við að það hafi verið hárrétt ákvörðun að taka erlend lán þrátt fyrir að 80% tekna fyrirtækisins væru í íslenskum krónum, "lánin í erlendri mynt höfðu þann skýra kost að vera miklu ódýrari en krónulánin". Hér er Guðlaugur ekki að vísa í vaxtaálag heldur einungis vaxtastig á milli landa. Hann hefur líklegast verið annars hugar þegar að hann nam hagfræði 101 því eitt af undirstöðuatriðum í sambandi við gjaldmiðla og vaxtastigs er að gjaldmiðlar eiga að styrkjast eða veikjast í samræmi við misvægi vaxta á milli landa. Það sem er hugsanlega ekki kennt en allir með reynslu á gjaldeyrismörkuðum (eiga að) vita er að slík þróun gerist almennt ekki með reglubundnum hætti, heldur frekar með skörpum sveiflum.
Lánshæfismat OR hefur á aðeins 3 árum fallið úr Aa2 niður í Ba1. Á venjulegu máli þýðir það að skuldabréf fyrirtækisins hafa fallið úr lánshæfisflokki sem aðeins stöndugustu fyrirtæki heims fá í ruslflokk þar sem líkur á greiðslufalli eru töluverðar. OR er orkufyrirtæki, efnahagslegt hrun Íslands skýrir ekki þessa þróun.
Buffett fræði
Warren Buffett leggur áherslu á að gera ráð fyrir 'eðlilegu' sjóðsstreymi framtíðar þegar hann vegur og metur fjárfestingar. Samkvæmt því hefði hann tekið íslenskan vaxtakostnað við áætlanir, ekki erlendar vaxtatölur í þeirri von að íslenska krónan héldist sterk, þó svo að slíkt væri í andstöðu við hagfræði 101 kenningar. Síðan gerir hann ráð fyrir eðlilegan endurnýjunarkostnað tækja og tóla (í stuttu máli, afskriftir). Samkvæmt tölum OR virðist reksturinn vart ná endum saman sé horft til þessara þátta. Hagnaður er svo slakur að það virðist vera sama hvaða hlutföll sé litið á, þau eru öll skelfileg. Hið sama á við um efnahagsreikninginn.
Nokkur atriði finnst mér þó athyglisverðust. Varanlegir rekstrarfjármunir eru 241 milljarðar. Það segir hins vegar ekki alla söguna því heildarverðmæti slíkra eigna er 384 milljarðar - búið er að afskrifa 143 milljarða. Heildartekjur OR voru ekki nema 26 milljarðar á síðasta ári. Tekjur sem hlutfall af eignum eru því í besta falli tæp 11%. Skuldir OR eru um 230 milljarðar, miðað við lánshæfismat fyrirtækisins fer líklegur framtíðar vaxtakostnaður OR hátt í sömu upphæð og heildartekjur þess eru í dag.
3 önnur atriði er vert að nefna. Eigið fé OR var í árslok 2005 48 milljarðar en er komið niður í 40 milljarða í dag. Eiginfjárhlutfall hefur á sama tíma farið úr því að vera vel yfir 50% yfir í að fara undir 15%. Það má ekki miklu muna núna að eigið fé fari niður fyrir núllið hjá fyrirtæki með einokunaraðstöðu í orkugeiranum. Tap síðasta árs var um 2,5 milljarðar, engu að síður leggur stjórn OR til að 800 milljónir verði greiddar í arð.
Enn meiri skuldsetning
Nýlega ákvað OR að skuldsetja sig enn frekar með skuldabréfaútboði upp á 10 milljarða króna. Það er umhugsunarefni að sjóðsstreymi frá öllum fyrri fjárfestingum dugi ekki til fyrir frekari fjárfestingar. Maður setur einnig spurningarmerki við enn frekari fjárfestingum eftir það sem á undan hefur gengið.
Lífeyrissjóðurinn Gildi ákvað að fjárfesta ekki í bréfunum, eða með öðrum orðum að lána OR frekari pening. Viðbrögð Guðlaugs voru að senda út tilkynningu þar sem m.a. kemur fram að það komi verulega á óvart að sá lífeyrissjóður, sem er undir forystu framkvæmdastjóra atvinnulífsins, skyldi ekki taka þátt í skuldabréfaútboði OR. Með því vinnur hann gegn hagsmunum félaga sinna og þjóðarinnar í heild.
Í ljósi afkomu og skuldsetningu OR undanfarinna ára væri áhugavert að sjá stefnu fyrirtækisins. Hugsanlega er hún á vef OR en þá er hún það vel grafin að ég finn hana ekki. Stefnan er m.ö.o. ekki sýnileg raunverulegum eigendum OR (íbúar Reykjavíkur, borgin á u.þ.b. 93% í félaginu) og getur því enn ekki talist vera skýr.
Kannski heyrðu stjórnarmenn OR ekki klingjandi viðvörunarbjöllur, og af þessu dæma hafa ekki gert það enn, en fjárfestingarstjórar lífeyrissjóðsins virðast þó gera það. Væri ég sjóðsfélagi væri ég ánægður með þeirra afstöðu.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:42 | Facebook
Athugasemdir
"Hér er Guðlaugur ekki að vísa í vaxtaálag heldur einungis vaxtastig á milli landa. Hann hefur líklegast verið annars hugar þegar að hann nam hagfræði 101 því eitt af undirstöðuatriðum í sambandi við gjaldmiðla og vaxtastigs er að gjaldmiðlar eiga að styrkjast eða veikjast í samræmi við misvægi vaxta á milli landa."
Mér fannst þetta einmitt svo bráðskemmtileg rök hjá stjórnarformanninum. Rétt eins og: "Það voru auðvitað viðvörunarbjöllur klingjandi alls staðar, ef þannig má að orði komast. Þetta var hins vegar bjölluhljómur sem enginn fór eftir."
http://askja.blog.is/blog/askja/entry/1023618/
Ketill Sigurjónsson, 30.4.2010 kl. 14:55
Orkuveitan er eins og tifandi tímasprengja.
Ég fjallaði aðeins um hana um daginn, og makalausa gjörninga sem menn hafa staðið í þar á bæ og ætlað "að byggja fyrir margar fótboltahallir og marmarleggja götur" í sínum heimabæ fyrir gróðann af braskinu með eigur almennings í Orkuveitu Reykjavíkur.
Það var oddviti Samfylkingarinnar á Akranesi sem orðlagði sig svo i makalausri ræðu. Hann er að sjálfsögðu í framboði áfram og leiðir lista í komandi sveitarstjórnarkosningum á Akranesi. Til viðbótar þessu er hann háttsettur starfsmaður Orkuveitunnar ásamt þeirri manneskju sem er í þriðja sæti sama framboðslista. Maður getur rétt ímyndað sér hvort þetta fólk sé fært um að höndla með eigum almennigs þegar það er svona beggja megin borðs. En þetta er bara dæmi um ruglið sem er búið að vera í gangi og á að halda áfram.
Sjá nánar með því að smella hér.
Magnús Þór Hafsteinsson, 30.4.2010 kl. 16:34
Já, OR er svo sannarlega tifandi tímasprengja. Hvernig ætlar Reykjavíkurborg að dæla inn nýju hlutafé í þetta fyrirtæki? Staðan til skemmri tíma er ekki glæsileg, veltufjárhlutfallið er t.a.m. 0,45. En til lengri tíma er staðan hræðileg. Félagið skuldar 236 milljarða í vaxtaberandi skuldum, þar af eru 10,6 milljarðar til greiðslu á þessu ári. Vaxtakjör fyrirtækisins voru ansi góð á síðasta ári í samanburði við árið 2008 en hljóta að stórversna með verra lánshæfismati og hækkandi vöxtum á heimsvísu.
Eggert Þór Aðalsteinsson, 1.5.2010 kl. 00:13
Það sem verra er að fjárfestingar við Hellisheiðarvirkjun fyrir um 20 milljarða eru ekki í notkun vegna óðagots og mistaka. Hvort hluti þeirra komsist í notkun á næstu árum er óvíst. Áætla má að staða fjárfestingarlána vegna þeirra standi í um 40 milljörðum í dag. Sumar þessa framkvæmda voru tilbúnar 2007 og er það mjög slæmt ef ekki fæst arður að þeim fyrr en hálfum áratug síðar eða aldrei. Ég hef kvatt stjórn OR frá 2008 til að láta fara fram óháða úttekt á þessu en ekkert hefur gerst. sama á við um öryggismál á svæðinu sem eru í miklum ólestri
SAS (IP-tala skráð) 1.5.2010 kl. 10:21
FJÁRHAGS- OG SKIPULAGSERFIÐLEIKAR OR
Afrit af bréfi sem ég sendi á stjórn OR í um haustið 2008
Inngangur
Klæðning ehf. hefur frá árinu 2005 unnið að ýmsum verkefnum við Hellisheiðarvirkjun. Heildarumfang vinnu okkar á svæðinu er komið í um 5 milljarða og á fyrirtækið eftir að vinna fyrir um 1 milljarð.
Verkin hafa verið gerð upp að mestu leyti og samstarfið til fyrirmyndar fyrir OR þangað til að seint á síðastliðnu ári fór að bera á miklum erfiðleikum við uppgjör og stjórnun sem hefur magnast eftir því sem liðið hefur á árið 2008.
Nú er svo komið að ókláruð mál Klæðningar við OR hlaupa á hundruðum milljóna og eru svörin og fyrirvararnir þannig að við höfum frekar átt að venjast þeim hjá fyrirtækjum sem eru að fara í þrot en jafn öflugum verkkaupa og OR hefur verið.
Hönnun verkanna hefur einnig dregist fram úr hófi og virðist sem verkefnastjórn á verkstað geti ekki tekið á þeim málum og boltanum nær undantekningarlaust kastað á verktakann hvort sem um er að ræða fjárhagslegan eða tímalegan skaða. Efnisafhendingar og framkvæmdarleyfi eru einnig langt á eftir áætlun.
Slakað hefur verið á öryggiskröfum undanfarið og hefur verktaki lýst yfir miklum áhyggjum vegna þessa.
Við höfum verulegar áhyggjur af fjárhagslegum burðum OR til að standa við sínar skuldbindingar gagvart okkur sem og verkefna- og hönnurstjórn á verkunum.
Samningsaðilar okkar af hálfu OR eru hönnuðir og verkefnastjórar sem bera mikla ábyrgð á því hvernig málin hafa þróast undanfarið ár. Ljóst er að upplýsingar um það sem hefur farið úrskeiðis eru ekki að skila sér til yfirstjórnar og stjórnar OR.
Nú síðast tók steininn úr með hrokafullu svari um að samfélagsleg ábyrgð OR væri engin nema að skaffa heitt vatn. Líkja má því bréfi við beina fjárkúgun.
Það er alveg ljóst að fyrirtæki með samninga sem eru lengur enn eitt ár og voru gerðir á árinu 2007 án verðbóta getur ekki lánað OR peninga þegar rekstrarkostnaður eykst um 40 % eins og raunin hefur orðið á rekstri vinnuvéla. Samningar við Klæðningu á árinu 2007 sem eru lengri en ár eru að upphæð um 2,5 milljarðar króna.
Framvinda núverandi verkefna
Hellisheiðaræð
Verkið var boðið út í lok árs 2007 og átti að hefjast um miðjan janúar 2008. Taka tilboðs tafðist um mánuð og útgáfa framkvæmdarleyfa var þannig að fyrsti hluti fékkst í mars, vinna við aðstöðu og vinnubúðir mátti hefjast í lok júní 2008 og OR gaf leyfi fyrir vinnu á þeim síðasta 8. júlí án þess að formlegt leyfi lægi fyrir, enda óvíst hverjum bæri að gefa það leyfi, en Ölfus, Mosfellsbær, Reykjavík og Kópavogur gera tilkall til þess svæðis.
Hönnun verksins m.t.t. öryggismála er verulega ábótavant og neyddist verktaki til að fá eigin verkfræðistofu til úttektar eftir að hafa gefist upp á því að biðja verkefnisstjórn verksins um það.
Ekki hefur verið tekið með neinum hætti á kröfum um lr. einingarverða vegna tafa af hálfu verkkaupa og efnhagsástandsins. Einungis farið fram á ítarlegri og formlegri greinargerðir.
Safnæðar 3 áfangi
Verkið var boðið út í mars 2007 og var tilboði tekið stuttu síðar. Hönnuðir gáfu út yfirlýsingu um að hönnun yrði lokið í júlí 2007. Á árinu 2008 hafa hinsvegar komið um 300 teikningar þar sem um fjórðungur eru nýjar útgáfur. Menn hafa hætt við og sett inn heilu safnæðarstofnanna og sjaldan verið hægt að klárahvern stofn fyrir sig. Verktaki lét bóka í mars 2008 að grundvöllur einingarverða væri löngu brostinn. Verkkaupi fór ítrekað fram á endurskoðaða verkáætlun og þegar spurt var hvað ætti að vinna vöru svörin engin og málin látin hanga í lausu lofti þar til að í október var ákveðið að ljúka verkefninu með ákveðnum hætti.
Beiðnir okkar um lr. verða í óverðbættu verki þar sem skipulag og stjórnun var með þeim hætti sem hér er stuttlega lýst hefur verið mætt með formskröfum og allt að því afneitun þeirra sem stýra hönnun og verkefninu fyrir hönd OR.
Reynisvatnsheiði
Verkið var boðið út í lok árs 2007 og átti að taka tilboði í síðasta lagi í lok nóvember sama ár. Hönnun átti einnig að vera lokið í desember. Tilboði var tekið í desember og hófst verkið á milli jóla og nýárs þar til það var stöðvað vegna þess að öll tilskilinn leyfi lágu ekki fyrir. Vinna hófst því ekki fyrr en um miðjan janúar 2008 en þá var skollinn á mikill vetur og jarðvinna nánast vonlaus og dróst því verkið á langinn. Eitthvað hefur vantað upp á hönnun í verkinu en þó ekkert í líkingu við önnur verkefni enda gat raunveruleg vinna við uppsteypu ekki hafist fyrr en í apríl 2008 í stað desember 2007.
Hér hefur efnahagsástandið verið þannig að engar lr. á verðum gera það að verkum að verk sem var 102 % af kostnaðaráætlun nægir vart fyrir efniskostnaði og hefur OR ítrekað snúið út úr umræðum um leiðréttingar á verðum og tafið eðlilegt fjárstreymi til verktaka.
Niðurstaða
Líklegt er að ábendingum og ásökunum sem koma fram í bréfinu verði vísað á verktakann enda beinist það gegn stjórnkerfi OR á Hellisheiði og hönnunarstjórn. Slíkt mun bara skaða OR til framtíðar ef ekki er tekið á þeim vandamálum sem þar kunna að vera.
Verktaki hefur áhyggjur að OR geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart honum.
OR hefur ekki staðið við skil á hönnunargögnum, útgáfu framkvæmdarleyfa né greitt eðlilega þóknun fyrir þau verk sem þar eru unnin.
Verktaki telur að verkefna- og hönnunarstjórn við Hellsiheiðarvirkjun hafi kostað OR og verktaka mjög mikla fjármuni.
Verktaki vill beina því til stjórnenda OR að fram fari úttekt á framkvæmdum við Hellisheiðarvirkjun.
Klæðning ehf. getur því miður ekki lengur beðið eftir að unnið verði í þeim málum sem að fyrirtækinu snúa og þarf því að leyta með rétt sinn til lögræðinga.
Sigþór Ari Sigþórsson
SAS (IP-tala skráð) 3.5.2010 kl. 13:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.