Útlánabólan - í upphafi skal endinn skoða

Rannsóknarskýrslan er merkileg að því leyti að hún dregur saman útlánabóluna sem átti sér stað varðandi húsnæðislán.  Það er þekkt staðreynd að óhófleg aukning húsnæðislána hafi verið stór, ef ekki megin, ástæða þess að þessi sögulega fjármálabóla hafi myndast á þessum áratug.  

Skýrslan virðist hins vegar einblína á þá þróun sem átti sér stað í framhaldi af 90% lánum sem Framsókn lofaði árið 2003.  Það loforð hefur verið íslensku þjóðinni dýrkeypt en það er einföldun (sem ég hef sjálfur gerst sekur um) að lánabólan hafi hafist þá.  Hún hófst strax upp úr aldamótum.

Ég varaði eindregið við aukningu útlána strax árið 2001.  Það þurfti takmarkaða rannsóknarvinnu til að sjá að hættumerki væru á lofti.  Einföld sagnfræðileg þekking segir að skyndileg aukning að aðgengi fjármagns er oft fyrirboði fjármálakreppu.  Greinaskrif, til að mynda Hinir skuldugu & Í fjötrum, urðu til þess að viðtal við mig var fyrsta sjónvarpsfrétt RÚV 19.11.2001.

Í fréttinni kemur fram að nýleg hækkun á hámarkslánum á þeim tíma hafi leitt til þess að húsnæðislán Íbúðalánasjóðs (ÍLS) væri þriðjungi hærri en á sama tíma ársins áður.  Benti ég á að hækkun hámarkslána ÍLS hafi hvatt fólk til að kaupa dýrari eignir en áður.  Það sem jafnvel verra var, þá taldi ég að margir notuðu hluta af lánunum til að fjármagna almenna neyslu.

Auk þess gagnrýndi ég vaxtabótakerfið því það verðlaunar þá sem skulda mest og það dregur úr vilja fólks til að greiða lán niður.

Að lokum benti ég á að þetta gæti skapað óheppilega þróun.  Hækkun lána:

  1. Heldur fasteignaverð uppi
  2. Eykur þrýsting á þenslu
  3. Gerir það erfiðrar að lækka vexti, því verðbólguþrýstingur helst stöðugur.
  4. Vaxtastefna Seðlabanka Íslands verði árangurslaus á meðan að hin hliðin á stjórnkerfinu sjái til þess að þensla haldist stöðug.

Það má segja að þessi lýsing, seint á árinu 2001, hafi gengið sorglega eftir fram að haustinu 2008.  Það að 'verðbréfagutti' hafi ljáð þessu máls hefði átt að hringja viðvörunarbjöllum.

Kvöldið eftir að viðtalið var birt var í tengslum við það rætt við núverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur í sjónvarpsfréttum RÚV.  Hún gaf lítið út á þessar viðvaranir og lagði þess í stað meiri áherslu á að viðhalda vaxtabótakerfinu. 

Eins og sjá má á greinarskrifum mínum lagði ég áherslu á að ríkisstyrkt húsnæðislán ættu að þjóna hlutverki gagnvart þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu.  Svíar lærðu af bankahruninu að 90% útlánastefna í húsnæðislánum stenst ekki til lengdar og lækkuðu hámarksveðsetningu niður í 75%.  Íslendingar ættu draga sama lærdóm af útlánabólu þessa áratugar.      

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband