Raunvextir sem eru óraunhæfir

Hvað eru raunvextir?  Svar: Vextir umfram verðbólgu.

Hvað er hagvöxtur?  Svar: Magnbreyting landsframleiðslu frá einu ári til annars, almennt mælt í raunvirði (þ.e. að teknu tilliti til verðbólgu).

Hvað gerist ef raunávöxtun skuldabréfa er hærri en hagvöxtur?  Svar: Að því gefnu að skuldir eru ekki greiddar niður (öfugt við það sem hefur verið að gerast á Íslandi) þá fer alltaf meiri og meiri peningur í að greiða vexti sem hlutfall af landsframleiðslu.  Slíkt gengur augljóslega ekki til lengdar.

Verðtrygging

Innleiðing verðtryggingar með svokölluðum Ólafslögum árið 1979 var að vissu leyti neyðarúrræði til að bregðast við gífurlegri verðbólgu.  Sparifjáreigendur voru í æ minna mæli tilbúnir til að lána pening því að hann varð að engu í verðbólgubálinu.  Því má segja að verðtrygging hafi verið nokkurs konar brunatrygging.  Þetta leiddi til þess að einu lánin sem Íslendingar fengu orðið voru lán handstýrð af stjórnmálamönnum og erlend lán.

Ávöxtunarkrafa

Ávöxtunarkrafa verðtryggðra lána hefur í gegnum tíðina verið afar há.  Raunávöxtun verðtryggðra lána hefur hins vegar verið lægri en raunávöxtun óverðtryggðra lána (lántakendur taka á móti á sig áhættu varðandi sveiflum í verðbólgu).  Raunvextir lána til íbúðakaupa fóru ekki fyrr en árið 2003 niður fyrir 5% 'múrinn'.  Þetta var skiljanlegt til skemmri tíma þar sem að aðgangur að lánsfjármagni var takmarkaður (í dag erum við þó að súpa seyðið af of greiðum aðgangi).  Ef við ímyndum okkur að einn erlendur aðili myndi lána öll lán til Íslands þá færi smám saman allt fjármagn út úr landi til þess aðila á þessum kjörum því að raunvextir eru langt umfram hagvexti.  Því er aðeins blanda af tvennu í boði:

1. Að greiða niður lán hraðar, sem þýðir að skera þarf niður í þjóðfélaginu á öðrum vígstöðum.

2. Að raunvextir lækki.

Þessi þróun var e.t.v. skiljanleg árin í kjölfar verðtryggingar, verið var að fjárfesta til framtíðarinnar.  Því var kannski ekki óeðlilegt að há ávöxtunarkrafa væri gerð til lífeyrissjóða (sjá hér og hér umfjöllun mína um lífeyri).  Hún gengur ekki þó upp til lengri tíma.  Jöfn 6% raunávöxtun tvöfaldar raunvirði fjárfestingar á aðeins 12 árum.

(næstu línur birtust í Fréttablaðinu í gær undir fyrirsögninni Óraunhæfir raunvextir)

"Samkvæmt reglugerð um starfsemi lífeyrissjóða frá 1998 þarf árleg raunávöxtun þeirra að vera í það minnsta 3,5% og er sú tala notuð sem mat við núvirðingu lífeyris.  Þetta viðmið var e.t.v. ekki óraunhæft á þeim tíma; ávöxtunarkrafa ríkistryggðra bréfa hér á landi var töluvert hærri og um 2/3 hlutar lífeyrissjóða var í verðbréfum með föstum tekjum.  Þó fólst í þeirri einslitnu fjárfestingarstefnu lítil áhættudreifing sem gerði ekki ráð fyrir afföllum að slíkum skuldabréfum, sem í dag eru ekki óhugsandi.

Þessi ávöxtunarkrafa til fjárfestinga gengur hins vegar ekki upp.  Eðlileg raunávöxtun hlutabréfa helst í hendur við hagvöxt.  Sé hún til lengri tíma hærri verður ávöxtunin að endanum hærri en verg þjóðarframleiðsla.  Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands var meðaltal hagvaxtar 3,1% síðasta áratug, en sé miðað við magnbreytingu á mann er sú tala aðeins 1,6%. 

Árleg ávöxtun lífeyrissjóða frá árinu 1999 til 2008 var um 3,0%.  Miðað við hagvöxt á sama tímabili var sú ávöxtun þolanleg, en hálfu prósenti undir 3,5% viðmiðunarmörkunum.  Í upphafi þess tímabils var auk þess miklu hærri ávöxtunarkrafa á ríkistryggðum verðbréfum, það þótti tíðindum sætta þegar að krafan fór niður fyrir 5% múrinn árið 2003.  Raunávöxtun skuldabréfa er almennt lægri en hjá hlutabréfum. 

Ávöxtunarkrafa Íbúðabréfa í dag er í flestum flokkum í kringum 3,7%.  Miðað við 0,2% rekstarkostnaði sjóða sem hlutfall af eigum og eðlilegum viðskiptakostnaði og öðrum gjöldum geta lífeyrissjóðir nú þegar ekki reitt sig á slíkum kaupum, ávöxtunin færi niður fyrir 3,5%.  Sjóðsstjórar þeirra geta því vart undir núverandi kringumstæðum fjárfest í slíkum bréfum á núverandi kjörum.

Því þarf að lækka þessa ávöxtunarkröfu á núvirðingu lífeyris.  Slæmu fréttirnar eru að það leiðir óhjákvæmilega til enn frekari skerðingar á lífeyri landsmanna.  Á móti kemur að það veitir sjóðsstjórum lífeyrissjóða rými til að fjárfesta í Íbúðabréfum með lægri ávöxtunarkröfu.  Slíkt veitir rými til lækkunar raunvaxta, sem í dag eru óraunhæfir."

Því má við bæta að Ólafur Margeirsson hefur nýlega skrifað tvo áhugaverða pistla á www.pressan.is varðandi síðustu 2 málsgreinarnar, þ.e. að núverandi lágmarks gólf á raunávöxtun haldi ákveðnum fjárfestingum í gíslingu vegna of hás ávöxtunarkröfu.  Valdimar Ármann benti einnig á þessa staðreynd í viðtali í upphafi þessa árs, sjá www.gamma.is/frettirgreinar/nr/6

Einnig er vert að benda á að lækki 3,5% viðmiðið kemur ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til með að lækka mikið næstu mánuði sem gerir þau að áhugaverðari fjárfestingum í dag.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Raunvextir eru þeir sem þú býrð við;)  sorglegt en satt;)

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 11:48

2 identicon

Við verðum að hafa í huga að launþegar landsins eru neiddir til að greiða í sjóðina og hafa ekkert með að gera hvernig ávöxtun þeirra sparnaða er hagað. Lífeyrissjóðunun ber því skylda gagnvart sjóðsfélögum að fá sem allra bestu ávöxtun.

Hinn raunverulegi vandi lífeyrissjóðanna er:

1) Þeir geta aðeins ávaxtað hluta af sjóði sínum erlendis og því eru þeir neiddir til að fjárfesta "of" mikið innan lands.

2) Rekstur ríkisins hefur í gegnum tíðina verið neikvæður sem aftur hefur kallað á útgáfu skuldabréfa sem í reynd aðeins einn öruggur kaupandi er að - lífeyrissjóðirnir

3) Stjórnmálamenn og atvinnurekendur hafa verið of lengi með puttana í ráðstöfun lífeyrissjóðanna sem og fjárfestingarstefnu þeirra.

Menn skyldu hafa í huga að þessi aðgerð sem Ólafur lýsir er ekkert annað en óbein þjóðnýtingin á sjóðunum.

Menn skyldu einnig hafa í huga að þegar maki fellur frá þá erfist aðeins 50% af réttindum til eftirlifandi maka. Þessu er ekki til að fara t.d. í Noregi þar sem eftirlifandi maki erfir 100% af áunnum réttindum látins maka !

Menn ættu því að horfa á hlutina í víðara samhengi áður en farið er í breytingar á lífeyrissjóðakerfinu.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 14:05

3 identicon

Fyrirtæki sem býr við 8% verðbólgu og 12% vexti á sama tíma og innkoman stendur í stað, það þarf að takast á við 20% raunvexti.  Það getur verið að hagfræðinga langi að nota orðið "raunvextir" um eitthvað annað en það hjálpar fyrirtækinu ekki neitt.  20 % raunvextir eins og á síðasta ári og ca. 15% á þessu, eru ekkert annað en eignaupptaka og ýmist bráð- eða seigdrepandi eitur á fyrirtækin.

Það er útaf fyrir sig merkilegt að notast við verðbólgumælingar (hækkun á verðlagi) þegar stór hluti hagkerfisins býr ekki við neinar hækkanir.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 14:33

4 identicon

Í nýlegri fræðigrein okkar Dirk Bezemers, What is the Source of Profit and Interest? A Classical Conundrum Reconsidered, er uppspretta hagnaðar og vaxta í nútíma markaðshagkerfum krufin til mergjar.

Niðurstaðan kollvarpar þeirri forsendu ríkjandi hagfræði (e. mainstream economics) og The Washington Consensus að fjármagn sé sjálfstæður framleiðsluþáttur í sama skilningi og vinnuafl og náttúruauðlindir.

Sjá  http://mpra.ub.uni-muenchen.de/21292/1/MPRA_paper_21292.pdf

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 15:16

5 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Kannski þarf alveg nýja hugsun í lífeyriskerfið og íbúðarkerfið, þá á ekki að vera lúxus á Íslandi að eignast húsnæði sem er ekki heilsuspillandi og heldur vatni og vindum, ef lífeyrissjóðir lánuðu til íbúðarkaupa á 0% vöxtum til 30ára með jöfnum afborgunum og að höfuðstóll tæki eingöngu breytingum vísitölu kaupmáttar þ.e ef kaupmáttur eykst þá hækkar höfuðstóll í sama hlutfalli, lækki kaupmáttur þá lækkar höfuðstóll, þetta myndi tryggja stöðuga afborganir af húsnæði í hlutfalli við kaupmátt, lífeyrissjóðirnir og lífeyrisþegar sjóðanna njóta aukinnar framleiðni/kaupmáttar í þjóðfélaginu, tryggja þyrfti veðin fyrir rukkurum með því að koma í veg fyrir að annarskonar fjármálastarfsemi t.d bílalán, vísakort o.t.h gætu ekki gert kröfur í íbúðarhúsnæðið nema að hámarki 50% af sparnaði/rauneign viðkomandi lánþega í eigninni, einnig mætti afnema alla heimildir til að selja íbúðarhúsnæði á uppboði fyrir skuldir sem ekkert hafa með húsnæðið að gera.

Þetta kerfi gæti stuðlað að raunverð eigna færist nær því að vera það sem fólk ræður við með eðlilegu móti, hækkanir á vöru og þjónustu myndi draga úr kaupmætti sem myndi skerða afkomu lífeyrissjóðanna sem myndi setja þrýsting á verkalýðsfélög að sjá til þess að viðunandi kaupmætti yrði viðhaldið.

Dæmi: Afborgun af 30.000.000kr láni yrði 83.333kr á mánuði, ef kaupmáttur myndi rýrna um 20% þá myndi höfuðstóllinn lækka um 6.000.000kr og eftir stæðu 24.000.000kr en afborgun af því yrði 66.666kr.

Það myndi hagnast öllum að kaupmáttur yrði stöðugur eða aukast lítillega í takt við framleiðniaukningu.

Samhliða þessu fengju lífeyrisþegar lífeyri greiddan í sama hlutfalli við kaupmátt, í dag fá lífeyrisþegar verðtryggðan lífeyri, ójafnvægi myndast þegar raunávöxtun er neikvæð.  

Eggert Sigurbergsson, 27.5.2010 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband