Mótbyr í viðbótarlífeyrissparnaði

Eftirfarandi er fyrsti hluti af fjórum þar sem fjallað er um svokallaðan viðbótarlífeyrissparnað.  Þó svo að aðeins séu rúm tíu ár síðan að slíkt sparnaðarform hóf göngu sína á Íslandi eru fjárhæðirnar sem safnast hafa gífurlegar, að því marki að útborgun af hluta slíks sparnaðar hefur valdið titringi meðal lífeyrissjóða. 

Mikið tap hefur átt sér stað undanfarið.  Umræða hefur verið um fjárfestavernd varðandi slíkan sparnað og sitt sýnist hverjum.  Skrif mín nú fjalla meðal annars um fjárfestingarstefnur varðandi slíkan sparnað, ráðgjöf, kynningar, upplýsingagjöf og hvað séu raunhæfar væntingar varðandi slíkan sparnað.  Sjónarmið mín endurspeglast fyrst og fremst í  skrifum mínum sem viðskiptavinur, en ég og kona mín höfum lagt háar fjárhæðir í slíkan sparnað: Ég er þó einnig einstaklingur sem hefur faglega komið að uppsetningu slíks sparnaðar og hefjast þessi skrif út frá þeirri reynslu.  Hér læt ég vel að merkja eingöngu koma fram upplýsingar sem voru opinberar um samsetningu slíkra sjóða en ekki gögn sem tengjast trúnaðarstörfum mínum við bankann. 

  1. hluti

 Ég hóf störf í Sparisjóði Hafnarfjarðar (SPH) árið 1998 og vann þar í tæp sjö ár.  Sparisjóðurinn var þá tiltölulega lítill á landsvísu, með í kringum 3-4% markaðshlutdeild. Sjóðurinn var þó stór innan sparisjóðanna og stjórnendur þar voru framsýnir.  Það var oft á tíðum erfitt að starfa þar því í mörgum tilfellum var verið að þróa afurðir í 1-2 manna teymum sem kepptu við svipaðar afurðir sem að heilar deildir annarra banka tóku þátt í að skapa, markaðssetja og með vel skipulögð útibúanet.  Þetta krafðist þess að fáar hendur þurftu að vinna mörg verk. 

Betri reynsla er hins vegar verið vandfundin.  Ég var lánsamur að því leyti að ég leiddi eða tók virkan þátt í að skapa og þróa flestar afurðir sem tengdust verðbréfum og nýjum viðskiptaformum innan sparisjóðsins á þeim árum sem ég starfaði þar.  Má til að mynda nefna millibankaviðskipti, erlend verðbréfaviðskipti, erlend skuldabréfaviðskipti og uppsetningu verðbréfasjóðaflóru sparisjóðsins.  Það lá því beint við, þegar kom að því að þróa viðbótarlífeyrissparnað fyrir hönd SPH sem veitti viðskiptavinum þess ávöxtun tengd gengi hluta- og skuldabréfa, að það félli í mitt skaut.  Þetta var árið 2001. 

Hugmyndafræði áherslna 

Í fyrstu var talað um að bjóða einfaldlega upp á 2 leiðir, hlutabréf og skuldabréf, og að fólk gæti síðan sett saman skiptingu í samræmi við áhættuþol þeirra.  Fyrir bauð SPH uppá verðtryggðan reikning sem hefur frá upphafi veitt einstæða ávöxtun.  Fyrstu hugmyndir voru að fólk gæti sett upp skiptingu með hugsanlega 40% í verðtryggðri bók og afganginn skipt í tvo hluta á milli skuldabréfa og hlutabréfa eftir áhættuþoli.  Þeir sem væru áhættusæknir gætu einfaldlega sett allt í hlutabréf og voru rökin þau að með því að fjárfesta smám saman jöfnuðust sveiflur í gengi hlutabréfa. 

Gallinn við þessa hugmynd er að sagan hefur sýnt sig að fólk sem fylgist að öllu jöfnu ekki með mörkuðum tekur oftar en ekki óskynsamlegar ákvarðanir í slíkum efnum.  Skiptir þá engu þó að í upphafi sé talað um langtímaávöxtun.  Nýleg dæmi á þeim tíma var reynslan að fáir höfðu áhuga á því að setja sparnað sinn í vaxtaberandi bækur og settu nánast allan sinn sparnað í ávöxtunarleiðir tengdum hlutabréfum þegar að gengi hlutabréfa var sem hæst.  Fáir sýndu hlutabréfum hins vegar áhuga þegar að þau höfðu fallið um helming í virði –jafnvel þó að um langtímasparnað væri að ræða. 

Auk þess hafði ég áhyggjur af því að ávöxtun hlutabréfa næstu ár og jafnvel áratugi gæti valdið miklum vonbrigðum.  Mörg áratuga tímabil hafa átt sér stað þar sem að hlutabréf hafa veitt neikvæða ávöxtun miðað við verðlag – jafnvel án tillits til verðlags.  Að veita möguleika á því að viðskiptavinir SPH gætu sett allan sinn sparnað í hlutabréf var því í mínum huga ábyrgðarlaust.  Stjórnendur SPH voru þessu sammála. 

Því var brugðið á það ráð að veita 2 leiðir en að þær væru áherslubundnar.  Vinnuheitið hluta- og skuldabréfaáhersla, sem fékkst úr samtali við þáverandi yfirmann einstaklingsþjónustunnar, varð að endanlegu heiti fjárfestingaleiðanna. 

70/30 eða 30/70 

Ákveðið var að hlutabréfaáherslan væri með 70% í hlutabréfum og 30% í skuldabréfum.  Í skuldabréfaáherslunni var hlutfallinu snúið við. 

Litið var aðallega til 2 sjónarmiða varðandi þessa skiptingu. Sú fyrri er þumalputtaregla sem þekkist sem 100 mínus aldur fjárfestis aðferðin.  Sú aðferð gengur í stuttu máli út á það að aldur hvers fjárfestis er dregin frá tölunni 100 og er það hlutfall sem fara á í fjárfestingar hlutabréfa.  Fertugur fjárfestir ætti samkvæmt þessu að vera með 60% eignasafns síns í hlutabréfum en við 55 ára aldur ætti það hlutfall að vera komið í 45%.  Þar sem flestir í slíkum sparnaði eru á bilinu 30-70 ára á þessi skipting því vel við fyrir flesta, munurinn felst líklegast í áhættusækni hvers og eins.  Auk þess var litið til þess að lærifaðir Warren Buffett, Benjamin Graham, hefur mælt með (m.a. í bók sinni The Intelligent Investor) að fjárfestar eigi ekki meira en 75% í skuldabréfum né hlutabréfum.   

Auk þess var einfalt að skipta sparnaðnum niður í 2 jafnstórar einingar og þannig ávaxta helming í hlutabréfum og helming í skuldabréfum.  Þjónustufulltrúum var ráðlagt að setja flestum viðskiptavinum í ávöxtunarleið þar sem fjárfest væri helming í bundna bók og hinum helmingnum í 50/50 skiptingu á milli leiða.  Þannig væru flestir með 50% með verðtryggða ávöxtun, 25% í ríkistryggðum bréfum og 25% í hlutabréfum.  Sjaldan myndi slík ávöxtun sigra heiminn en nánast aldrei þyrftu þjónustufulltrúar að útskýra af hverju lífeyrir fólks veitti neikvæða ávöxtun. 

Hugsun varðandi fjárfestinga innan leiða 

Hlutföll innan leiða skiptu þó ekki síður máli.  Fjárfest var í sjóðum SPH Verðbréfa og hlutföllin voru í samræmi við fjárfestingarstefnu þeirra sjóða. 

Val við skuldabréf var einfalt; aðeins var fjárfest í ríkistryggðum bréfum.  Raunar var slík ákvörðun auðveld því eini skuldabréfasjóðurinn í flóru SPH fjárfesti einungis í slíkum bréfum.  Meira kom þó til; litið var á að óbein fjárfesting væri að eiga sér stað í fyrirtækjabréfum með því að leggja inn á bankabók en slíkt fjármagn var auðvitað að mestu leyti endurlánað til einstaklinga og smærri fyrirtæki. 

Skipting hlutabréfa var aðeins erfiðaðri.  Sjóðaflóra SPH á þeim tíma var skipt á milli atvinnugeira og síðan var einn sjóður sem fjárfesti í íslenskum hlutabréfum.  Mín ákvörðun var að tæplega 30% hlutabréfa yrði í íslenska hlutabréfasjóðnum en þar sem að sum íslensk félög voru einnig hluti af hinum sjóðunum var í raun um þriðjungur fjárfestinga hlutabréfa í íslensk félög. 

Þetta leiddi það til þess að um 2/3 allra hlutabréfafjárfestinga voru í erlendum félögum.  Það varð til þess að ekki einungis skipti gengi erlendra hlutabréfa miklu máli heldur hafði gengi krónunnar (augljóslega) mikið um ávöxtunina að segja.  Í þessu fólst ákveðin áhætta, til skemmri tíma í það minnsta.  Áhættan, ef svo mætti að orði komast, fólst í því að ef hagvöxtur hérlendis yrði um aldur og ævi betri en annars staðar í heiminum þá væri ávöxtunin af þessari stefnu töluvert slakari en ef meiri áhersla væri á íslensk hlutabréf, til dæmis 50/50 skipting á milli þeirra og erlendra verðbréfa. 

Rökin fyrir þessari skiptingu var tekin með því að líta heildrænt á mikilvægi slíks sparnaðar þegar að þörfin á því væri mest.  Þegar að allt er í blóma hérlendis hækka hlutabréf og krónan helst afar sterk.  Allir vita að þetta kom á daginn næstu árin.     

Á ögurstundum sem þessum þá er aftur á móti þörfin fyrir þessum sparnaði mest.  Margir sem hófu slíkt sparnaðarform fyrir næstu áratugi er nú að keppast við að taka út þennan sparnað.  Það er þekkt að margir Bandaríkjamenn taka út sinn viðbótarsparnað (IRA) áður en þeir ná tilsettum aldri þrátt fyrir um 10% úttektargjöld við slík þjóf stört.  Því er það svo að of mikil áhersla á innlend hlutabréf leiðir til þess að þegar að kreppa á sér stað þá rýrna ekki aðeins lífskjör heldur verður stór hluti lífeyrissparnaðar fyrir miklum áföllum – á versta tíma.   

Með meiri áherslu á erlend hlutabréf er minni samfylgni á milli aðstæðna hér og erlendis.  Auk þess er út frá áhættudreifingu einföld skynsemisjónarmið að dreifa fjárfestingum til margra landssvæða og jafnvel atvinnugeira sem ekki eru ríkjandi á Íslandi.  Síðast en ekki síst, með því að tengja hluta sparnaðar við erlenda gjaldmiðla er sannarlegri áhættudreifingu komið fyrir í slíkri stefnu, því virði innlends gjaldmiðils augljóslega minnkar þegar á móti blæs sem þýðir að virði erlendra eigna aukast í íslenskum krónum. 

Heildræn áhættudreifing 

Því var dreifingin fyrir áherslurnar eitthvað á þessa leið: 

Skuldabréfaáhersla

·        70% í ríkistryggðum skuldabréfum

·        20% í erlendum hlutabréfum

·        10% í innlendum hlutabréfum 

Hlutabréfaáhersla

·        47% í erlendum hlutabréfum

·        23% í innlendum hlutabréfum

·        30% í ríkistryggðum skuldabréfum 

Hvað gerðist næst? 

Í ársbyrjun 2005 gerist ég framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækisins Verðbréfaþjónusta Sparisjóðsins (VSP).  Ég var hugmyndasmiður ásamt samstarfsmanni mínum að fyrirtækinu og var leiðandi í stofnun þess.  Fyrirtækið þjónustaði alla verðbréfaþjónustu fyrir alla sparisjóði að SPRON undanskildu.  Forspilið að því var sú ákvörðun að viðbótarsparnaðurinn sem fyrst var einungis fyrir viðskiptavini SPH var í framhaldinu boðin viðskiptavinum allra sparisjóða (aftur, mínus SPRON). 

Skömmu síðar hætti ég þar störfum.  Þó hélt ég áfram viðskiptum við SPH og er meðal annars með viðskipti hjá S24, sem býður ávallt bestu vextina.  Er auk þess í góðu sambandi við marga af mínum fyrrum vinnufélögum.  Síðast en ekki síst þá hélt ég áfram að ávaxta fé mitt í viðbótarsparnaði í öllum 3 ávöxtunarleiðunum, það er bundna bók, hlutabréf og skuldabréf. 

Sparisjóður Hafnarfjarðar rann inn í Sparisjóð Vélstjóra árið 2005 sem í dag myndar ásamt nokkrum öðrum minni sparisjóðum fjármálafyrirtækið Byr.  Þar sem að VSP hafði lent í vandamálum sem ekki verða tíunduð hér var fyrirtækið lagt niður og er nú aftur orðin hluti af Byr undir heitinu Byr Verðbréf  (þ.e. var áður hluti af SPH sem var nafn Byrs áður). 

10.2008 

Þegar að hrunið átti sér stað í haust hafði ég litlar áhyggjur.  Uppsetning safnsins var byggð með þeim hætti að þó svo að vissulega ættu sér stað ákveðin töp í safninu þá kæmi veiking krónunnar og sterkar stoðir sem ríkistryggð skuldabréf til með að veita ákveðna vörn gegn slíkum áföllum.  Nú vissi ég að rekstrarfélag Byrs hafði byrjað með tvo aðra áhættumeiri skuldabréfasjóði svo hugsanlega hafði þeim verið bætt við, svona til að krydda safnið.  Ég ákvað að rifja upp skiptinguna og varð meira en lítt undrandi.  Enn eru áherslurnar 70/30 og 30/70.  Innihaldið er hins vegar orðið allt annað og sést það á eftirfarandi hlekkjum. 

http://byr.is/einstaklingar/sparnadur/vidbotarlifeyrissparnadur/skuldabrefaahersla/ 

http://byr.is/einstaklingar/sparnadur/vidbotarlifeyrissparnadur/hlutabrefaahersla/ 

Á morgun mun ég fara yfir hvað þessar breytingar í stuttu máli þýða fyrir flesta þá sem treystu Byr fyrir sparnaði sínum.  Á fimmtudag fer ég yfir samskipti mín sem viðskiptavinar Byrs og Byrs varðandi þetta mál og auk þess hvernig Byr hefur borið þetta fyrir sjóðfélögum sínum almennt.  Á föstudaginn mun ég síðan skrifa samantekt varðandi málið og koma fram með nokkrar spurningar og hugleiðingar hvað megi betur fara.  Allar ábendingar verða vel þegnar.  

mwm

MótByr í viðbótarsparnaði – 1. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/853104/

MótByr í viðbótarsparnaði – 2. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/854131/

MótByr í viðbótarsparnaði – 3. hluti -  http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855033/

MótByr í viðbótarsparnaði – 4. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855887/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Sæll Már og takk fyrir síðast.  Það er áhugavert að sjá hversu lítil áherslan er orðin á ríkistryggð skuldabréf.  Ætli einhverjir hafi verið komnir með græðgisglampa í augun?

Annars man ég vel eftir því þegar sölumenn séreignalífeyrissjóða komu á kaffistofuna í frystihúsinu sem ég vann í árið '99.  Það var allaveganna einn sem vildi meina að fólk ætti að setja lífeyrinn á evrureikning.  Ég man þetta svo vel því ég þrætti við greyið manninn og reyndi að sannfæra fólk um að gera það ekki.  Enda kom það í ljós sem mér betri menn höfðu spáð; að gengi evru féll um 30% gagnvart dollar.  Það borgar sig að lesa.

Hlakka til að sjá framhaldið á greinasafninu.

Axel Þór Kolbeinsson, 14.4.2009 kl. 20:25

2 Smámynd: Gunnar Axel Axelsson

Merkilegt mál. Bíð spenntur eftir framhaldinu.

Það sem er kannski alvarlegast í þessu er að menn virðast hafa verið að búa til þessa peningamarkaðssjóði utan um skuldabréf fyrirtækja sem fyrir lá að byggju við mjög mikla áhættu í sínum rekstri og þar af leiðandi raunverulega gjaldþrotaáhættu. Allavega var sú áhætta orðin flestum fagaðilum ljós snemma á árinu 2008 þegar íslensku fjármálafyrirtækin lögðu hvað mesta áherslu á að fá fólk til að færa reglulegan sparnað sinn úr ríkistryggðum innlánum yfir í þessa sjóði.

Ein rökin sem ég geri ráð fyrir að BYR hafi fært fyrir þessari samsetningarbreytingu eru væntanlega ónógt framboð ríkistryggðra skuldabréfa. Það eru hinsvegar léttvæg rök að mínu mati. Ef lagt er upp með ákveðna fjárfestingastefnu og þá væntanlega á grundvelli áhættumats, þá breyta menn ekki bara undirliggjandi eignum hjá þeim sem hafa þá og þegar hafið viðskipti á allt öðrum forsendum.

Annars eru þessi mál sem tengjast peningamarkaðssjóðunum mjög áhugaverð og ég tel víst að þar þurfi að rannsaka margt miklu betur. Það eru mál sem hljóta að rata inn á borð dómstóla fyrr eða síðar.

Gunnar Axel Axelsson, 15.4.2009 kl. 09:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband