Framtíð sparisjóða – Byr og Sparisjóður Hafnarfjarðar – MótByr í Viðbótarsparnaði I - IV

Þó svo að nær 5 ár séu síðan ég starfaði í Sparisjóð Hafnarfjarðar tifar hjarta mitt enn með þeim sparisjóði.  Eins og flestir vita rann sá sjóður inn í Sparisjóð Vélstjóra árið 2006 og myndaði nýjan sparisjóð, Byr.  Þó svo að ég hafi lengi verið þeirrar skoðunar að sameina þyrfti rekstur sparisjóða hefur þróun sameininga sparisjóða verið afleit. 

Sameina þarf alla sparisjóði á Íslandi hið fyrsta.  Rekstur þeirra af reglulegri starfsemi hefur ekki borið sig í mörg ár að örfáum sjóðum undanskildnum.  Sú þróun hefur hins vegar verið á rangri braut innan Byrs.  Sparisjóðurinn Byr hefur lítið með þá sparisjóðahugmynd sem ég tel að aðgreini sparisjóði frá öðrum fjármálafyrirtækjum.  Lít ég frekar til fyrirkomulagsins sem meðal annars er notað á Spáni þar sem sjálfstæði sparisjóða er mikið og einbeita þeir sér fyrst og fremst á að þjónusta sín heimasvæði.  Sparisjóðabankinn í Madrid er miðstöð sparisjóða þar sem að miðlæg verkefni eru höndluð.

Nú er tækifæri til að stýra þróun sparisjóða á svipaða braut.  Stofna þarf einn sparisjóð þar sem að höfuðstöðvar eru nýttar til sameiginlegs rekstrar, svipað og Samband íslenskra sparisjóða og Sparisjóðabankinn voru forðum, en sjálfstæði sparisjóða felst einungis í því að þjónusta sína heimabyggð.  Í því tilliti á að takmarka þjónustu sparisjóða við viðskiptaþjónustu og útiloka fjárfestingarstarfsemi frá rekstrinum.

Væri þá Sparisjóður Hafnarfjarðar endurreistur og aðrir sparisjóðir kenndir við sína heimabyggð.  Inn- og útlánastefna þeirra væri sjálfstæð að mestu án afskipta höfuðstöðva.  Þetta þýðir að skýr stefna þyrfti að ríkja varðandi takmarkanir útlána.  Byr sparisjóður hefur þróast vel hvað straumlínulögun kostnaðar varðar.  Þetta er frá mínum bæjardyrum séð aftur á móti sparisjóður sem skortir tengingu við heimabyggð mína í Hafnarfirði. 

Spyrja þarf, verða hagnaðarsjónarmið ráðandi eða verður frekar stefnt að ákveðinni arðsemi sem telst vera viðunandi?  Hvernig verður þeim hagnaði ráðstafað?  Fer hann einungis til hluthafa eða til eflingar ýmissa þátta í heimasvæði hvers sparisjóðs?

Í dag verður ný stjórn Byrs sparisjóðs kosin.  Ég óska henni gæfu næstu mánuði.  Eitt verðugt verkefni væri að taka á viðbótarsparnaði sparisjóðsins.  Að neðan eru hlekkir af umfjöllun minni um klúður sparisjóðsins í þeim efnum en fyrst er stuttur úrdráttur.

Helstu niðurstöður

·        Fjárfestingarstefna Lífeyrissparnaðar Sparisjóðanna (Lífsval) í hluta- og skuldabréfum var umbylt án þess að sjóðsfélögum væri tilkynnt það.

·        Vægi ríkistryggðra skuldabréfa fór úr 100% niður í 15%, hinn 85% fóru í peningamarkaðsbréf og fyrirtækjabréf

·        Vægi erlendra hlutabréfa fór úr 2/3 niður í helming á kostnað aukningar íslenskra hlutabréfa, sem nú eru nánast verðlaus.

·        Áhrifin eru að ávöxtun er um það bil 25-30% lakari en ef til engra breytinga hefði komið

·        Yfirlit nýlega send frá Lífeyrissparnaði sparisjóðanna minnast ekki einu orði um að verið sé að slíta fyrirtækjasjóðnum og virðast tölur miðast við 5.10.2008. 

·        Síðan að greinin var fyrst birt á bloggi mínu er búið að uppfæra í heimabankanum stöðu lífeyrissparnaðar miðað við dagsetninguna 16.4.2009.  Óljóst er þó hvort að búið sé að taka tillit til slits fyrirtækjasjóðsins.  

 

MótByr í viðbótarsparnaði – 1. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/853104/

MótByr í viðbótarsparnaði – 2. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/854131/

MótByr í viðbótarsparnaði – 3. hluti -  http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855033/

MótByr í viðbótarsparnaði – 4. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855887/


mbl.is Fjölmenni á aðalfundi Byrs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

En eiga ekki sparisjóðir að fá að ráða sér sjálfir eins og sveitarfélögin?

Ekkert að vera að mixa þessu saman og sízt af öllu með þvingun.

Með góðri bloggvinarkveðju,

Jón Valur Jensson, 14.5.2009 kl. 02:14

2 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Sæll bloggvinur, ætla nú ekki að fara út í mál sveitarfélaga, skorti þekkingu til að tjá mig af viti eins og er.  Flestir sparisjóðir hafa beðið um ríkisaðstoð og er kerfið í raun gjaldþrota án opinbers stuðnings.  Í bankakrísunni á norðurlöndunum í byrjun sl. tíunda áratugar voru flestar fjármálastofnanir sem þurftu á ríkisaðstoð að halda ekki sjálfráða um framhaldið.  Sparisjóðir voru sameinaðir og reynt að skapa virði úr þeim.  Aðstæður þar voru afar svipaðar núverandi aðstæðum hér, nema hvað allar tölur hérlendis eru töluvert verri.

Már Wolfgang Mixa, 14.5.2009 kl. 09:58

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér svarið, Már.

En það eru nú til sparisjóðir, sem standa sig bærilega, t.d. Sparisjóður Skagfirðinga. Og hafa menn ekki brennt sig á því að "reyna að skapa virði" úr ýmsum fyrirtækjum með sambræðslu þeirra, sem varð síðan jafnvel til að gera illt verra?

Það á að stuðla að frjálsum atvinnurekstri, ekki ríkisstýrðum; það á að örva frjálst framtak, ekki hefta það og binda, um leið og (eða af því að) fé er sett í það til bjargar. Ríkið mundi eigna sér stofnfjárhlut með því 10,4 milljarða framlagi, sem Byr ætti rétt á, og eflaust leggja klafa margra skuldbindinga á sparisjóðinn (jafvel svona kristjánsmöllerskar sameiningarkröfur), en af hverju ekki að LÁNA Byr rétt eins og gert var nýlega í dæmi annars fjármálafyrirtækis og það á 2% vöxtum?

Jón Valur Jensson, 14.5.2009 kl. 10:20

4 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Sæll aftur, góð samantekt hjá þér af fundinum í gær.

En það eru nú til sparisjóðir, sem standa sig bærilega, t.d. Sparisjóður Skagfirðinga. Rétt hjá þér.

Og hafa menn ekki brennt sig á því að "reyna að skapa virði" úr ýmsum fyrirtækjum með sambræðslu þeirra, sem varð síðan jafnvel til að gera illt verra?  Aftur rétt, menn hafa brennt sig á því en í þessu tilfelli tel ég það ekki eiga við.  Þetta var helsta lendingin á norðurlöndunum fyrir u.þ.b. 16 síðan og tókst hún vel.

Það á að stuðla að frjálsum atvinnurekstri, ekki ríkisstýrðum; það á að örva frjálst framtak, ekki hefta það og binda, um leið og (eða af því að) fé er sett í það til bjargar. Er sammála þessu, ef skilja má annað af texta mínum þá leiðrétti ég það hér með.

Ríkið mundi eigna sér stofnfjárhlut með því 10,4 milljarða framlagi, sem Byr ætti rétt á, og eflaust leggja klafa margra skuldbindinga á sparisjóðinn (jafvel svona kristjánsmöllerskar sameiningarkröfur), en af hverju ekki að LÁNA Byr rétt eins og gert var nýlega í dæmi annars fjármálafyrirtækis og það á 2% vöxtum?  Það má lána fjármálafyrirtækjum en samhliða því hljóta ákveðnar kröfur að vera settar fram.  2% vextir er auðvitað óbeinn styrkur.

Már Wolfgang Mixa, 14.5.2009 kl. 11:34

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

4% væru nú alveg ásættanleg, Már!

En ég þakka þér fyrir þessi greiðu svör.

Jón Valur Jensson, 14.5.2009 kl. 12:16

6 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

he he, 4% er nærri lagi...

Már Wolfgang Mixa, 15.5.2009 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband