Sparisjóður Svarfdæla og Exista
15.6.2009 | 10:51
Bækur sem gamlir jaxlar í fjárfestingum hafa skrifað eiga margar hverjar það sammerkt að í þeim furði þeir sig á því hversu lítil rannsóknarvinna liggur oft á bakvið stórum fjárfestingum. Fólk sem spáir í það fram og aftur hvað matvaran kosti í kaupfélaginu, hvort það eigi að fá sér dýran forrétt eða spara aðeins og fá sér aðeins salat og þannig fram eftir götunum, leggur stundum litla sem enga vinnu í fjárfestingarákvörðunum sem góðar líkur eru á að hafi mikil áhrif á líf þeirra.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér við að lesa frétt í Mogganum um helgina um vanda flestra stofnfjáreigenda Sparisjóðs Svarfdæla. Langflestir tóku erlend lán til að fjármagna stofnfjáraukningu seint á árinu 2007. Upphæðirnar eru verulegar, 500 króna milljón stofnfjáraukning deildist á 150 aðila, eða hátt í 3 og hálf milljón á mann að meðaltali. Lánin voru að mestu leyti tekin hjá Saga Capital fjárfestingarbanka, lán sem margir stofnfjáreigendur eiga í vandræðum með að standa í skilum við.
Í fréttinni er vitnað í Svein Jónsson, fyrrverandi formann stjórnar sparisjóðsins og stofnfjáreiganda, sem segir: Eldra fólk hér í byggðinni ... taldi sig vera að efla sjóðinn sem það hefur skipt við í tugi ára... og á öðrum stað bætir hann við: Það var eins og allir héldu að verðmæti eigna myndi endalaust aukast. Eigið fé sjóðsins er í dag nánast uppurið og virði sparisjóðsins því h.u.b. ekki neitt, skuldir sem í ofanálag hafa rokið upp sitja því aðeins eftir.
Þar sem að sérstaklega er tekið fram að stór hluti lántakanda sé eldra fólk þá gef ég mér það að flestir hafi talið þetta vera tiltölulega áhættulausa fjárfestingu; þetta var jú traustur sparisjóður og eldra fólk hefur lítin ávinning af því að taka áhættur í fjárfestingum, sérstaklega með lánsfé. Stutt yfirferð á útboðslýsingu sparisjóðsins við útboðið hefði aftur á móti átt að hringja einhverjum viðvörunarbjöllum - sjá http://www.spar.is/assets/spsv/lysing_spsv-heildarskjal.pdf
Efst á síðu 2 (fyrstu opnu) í samantekt stendur: Minnt er á að kaup á stofnfjárbréfum eru í eðli sínu áhættufjárfesting...
Á síðu 7 undir liðnum rekstur, fjármál og framtíðarhorfur kemur fram að stórkostleg undanfarin ávöxtun hans sé að mestu leyti til komin vegna gengishagnaðar og að 34% af eignum sjóðsins eru í veltuhlutabréfum og afkoma sjóðsins getur því sveiflast verulega. Á næstu síðu kemur þetta augljóslega fram á rekstrarreikningi sjóðsins. Í beinu framhaldi sést að eignir sjóðsins í hlutabréfum með breytilegum tekjum eru vel umfram eigið fé sjóðsins.
Í útgefandalýsingu kemur fram á síðu 5 að eignarhlutur sparisjóðsins í Kista-fjárfestingarfélag ehf. er tæplega helmingur eigin fjár sparisjóðsins. Kista er fjárfestingarfélag sem fjárfestir einungis í Exista*. Á síðu 16 kemur fram að bókfært virði þess í Icebank væri komið í u.þ.b. 400 milljónir. Eign Icebank í Exista á þeim tímapunkti var nægileg til að hægt væri að slá því á föstu að yfir helmingur eigin fjár sparisjóðsins var bundinn í Exista. Yfir helmingur eigin fjár sparisjóðsins var því bundið í einu félagi.
Hugsanlega hafa margir talið að þetta eina félag hafi verið öruggara en flest önnur fyrirtæki því það fjárfesti í öðrum fyrirtækjum, aðallega "traustum" fjármálafyrirtækjum. Það sem að fáir hugsanlega áttuðu sig á er að Exista var allt annað en traust fjárfestingarfélag, með aðeins í kringum 50% eigna fjármagnaðar með eigið fé, afgangurinn með lánsfé**. Hægt væri síðan að rökræða enn frekar hversu mikil gírun það er við að fjárfesta að mestu í fyrirtæki sem sjálf að lána út mikla meira en sitt eigið fé.
Þriðja stóra fjárfestingin var Saga Capital fjárfestingarbanki, sama stofnun og sá um flest erlendu lánin til kaupa stofnafjárbréfanna. Veitti fyrirtækið einhverja ráðgjöf?
Það sem vekur undrun er að það virðast allir sem einn tekið þátt í útboðinu þrátt fyrir að eiga ekki pening til þess. Við lestur samantektar og útgefandalýsingar ætti að vera ljóst að talsverð áhætta var bundin við afkomu sjóðsins, það stendur jú skýrum stöfum. Ef stofnfjáreigendur skildu ekki þessa áhættu, hví fengu þeir ekki kynningu á því? Eða öllu heldur, af hverju fengu þeir ekki ráðgjöf annars staðar frá? Hvernig gat það gerst að svona fáir hafi áttað sig á áhættunni? Vissi þetta engin(n) eða kaus fólk að gefa varnaðarorðum engan gaum. Var þetta kannski einfaldlega dæmi um hjarðhegðun sem myndaðist með sígildum hætti? Charles Kindleberger lýsir þessu vel í bók sinni Manias, Panics and Crashes ***.
Það er líka hugsanlegt að sparisjóðahjarta þessara aðila hafi tifað með þeim hætti að allir hafi fundist það vera skylda sín að taka þátt í gjörningnum. Dæmi hver fyrir sig.
Þetta er ekki einangrað dæmi. Ofangreint er verðugt rannsóknarefni sem ég mun skoða nánar.
*Exista er að mínu mati ein mesta bóla fjármálasögunnar (ásamt FL Group). Verðmæti beggja félaga var að mestu leyti bundið í skráðum hlutabréfum. Það þurfti því ekki heila hersveit til að komast að þeirri niðurstöðu með nokkurri vissu að virði hlutabréfa félaganna var tvöfalt raunvirði þeirra þegar að gleðin stóð sem hæst.
**Investor, stærsta fjárfestingafélag Svíþjóðar og er að stórum hluta í eigu Wallenberg fjölskyldunnar, er oftast einungis með (nettó) eigið fé bundið í fjárfestingum. Ég hef ekki séð efnahagsreikning Kistu og veit því ekki hvort að félagið hafi eingöngu varið eigið fé í fjármögnun hlutabréfa Exista.
***Fyrri hluti bókarinnar lýsir sígildu atriðum varðandi uppbyggingu á bólum í verðlagningu eigna. Aukin bjartsýni fer almennt að eiga sér stað. Það leiðir til aukins vilja til áhættufjárfestinga og sumir fara að hagnast (á pappírnum í það minnsta) um töluverðar fjárhæðir á stuttum tíma. Margir kannast við þá reynslu að heyra einhverja manneskju tala í tíma og ótíma um gróðann sem hefur skapast áreynslulaust með kaupum í hlutabréfum. Flestir, sem hafa lent í því, vita að fátt hefur jafn slæm áhrif á sálartetrið og að sjá vini sína verða ríka án þess að svitna yfir því. Því miður hefur það einnig oft neikvæð áhrif á skynsemi fólks, eða eins og Kindleberger orðar það, "monkey see, monkey do!"
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 23.6.2009 kl. 01:02 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er nú allt gott og blessað. En finnst þér ekki fáráðnlegt að ríkið sé að henda tæpum 500 milljónum inn í þennan sjóð eða nærri 13 földu eigin féi sjóðsins.
Hörður Valdimarsson, 15.6.2009 kl. 11:41
Sæll Hörður,
það er ekki hægt að fá hjá mér fullkomlega óhlutdrægt svar þar sem að sparisjóðahjarta tifar í sálu minni. Mín skoðun er að sameina þurfi hið fyrsta sparisjóði landsins með þeim hætti að nokkurs konar rekstrarmiðstöð verði fyrir þá alla en ákvarðanir um lánastarfsemi verði svæðisbundnar. Þetta er svipað uppsetningu sparisjóða áður, einfaldlega meiri hagræðing í rekstri. Það kallar á stækkun hvað einingar varðar, en meiri einbeitingu á þjónustu sem kallar á að hagur viðskiptavina sé í fyrirrúmi.
Það eru engir góðir kostir í stöðunni. Mín skoðun er að þetta sé meðal þeirra ill skástu.
mwm
Már Wolfgang Mixa, 16.6.2009 kl. 12:35
Sæll Már, stofnfjáreigendur í sparisjóðum, s.s. Sparisjóði Svarfdæla, stóðu frammi fyrir tveimur kostum og annar var vondur; annaðhvort að nýta forgangsrétt sinn í hlutafjárútboðum ellegar verða þynntir út og tapa eignum sínum. Sá sem t.a.m. tók ekki þátt í aukningunni hjá BYR í árslok 2007 hefði séð hlut sinn þynnast um 86%. Þetta var því varla val fyrir stofnfjáreigendur, sem margir hverjir höfðu verið meðal bakhjarla sparisjóða um langt skeið, en að taka þátt í útboðum og skuldsetja sig til að verja sína stöðu. Það að selja á markaði var oft varla kostur, enda voru ekki allir sparisjóðir sem starfræktu stofnfjármarkaði. Viðskipti á stofnfjármörkuðum voru einnig ógegnsæ.
Samband Existu við ákveðna sparisjóði er verðugt rannsóknarefni. Á það var bent að stærstur hluti tekna sumra sparisjóða kom beint af gengishækkun hlutabréfa í Existu. Starfsemin tók ekki mið af grunnhugsun sparisjóða - að lána til einstaklinga og lítilla fyrirtækja. Þessari gagnrýni, sem kom m.a. af minni hálfu á meðan é starfaði á Markaðnum, var svarað á þá lund að sparisjóðir myndu hvort sem er hafa verulegar vaxtatekjur af því að geyma peninga á innlánsvöxtum hjá Seðlabankanum!
Eggert Þór Aðalsteinsson, 22.6.2009 kl. 20:44
Mér finnst umræðan um ábyrgð stjórnenda síðustu ár fyrir hrun og þessa mánuði eftir hrun vera í besta falli stórkostlega heimska eða enga eins og í þessu tilfelli. Umræðan hefur semsagt gengið út á það að allir þeir sem hafa keypt stofnfjárbréf, hlutabréf, hús, bíla, í Peningamarkaðssjóðum o.s.frv. séu þessir vitlausu sem hafi keypt eitthvað fyrir orð annarra en þessir aðrir þ.e. framkvæmdarstjórar og stjórn fyrirtækja hafa hinsvegar litið á peninga viðkomandi aðila sem sína eign, skilyrðislausa og beri sjálfsögðu ekki neina ábyrgð ef illa fer.
Sem dæmi FL group, enginn sem keypti hlutabréf í FL-group hafði ímyndunarafl til að geta sér til að 6 milljarðar af "hagnaði" eða eigi fé fyrirtækisins yrðu ryksugaðar út úr fyrirtækinu af starfsmönnum með samþykki stjórnar og framkvæmdarstjóra. Stjórnendur litu semsagt ekki á það sitt hlutverk að gæta að hag hluthafanna, einhver annar átti að sjá um það ...og þá voru þeir ekki að tala um endurskoðendur........!
Stjórnendum hefur undanfarin ár verið greiddar fúlgur fjár fyrir að bera "ábyrgð". Þegar ég var í forsvari fyrir fyrirtæki leit ég á það sem mitt hlutverk að hugsa um hag hluthafanna og hag fyrirtækisins. Afskplega fáir stjórnendur helstu fyrirtækja landsins hafa haft þetta að leiðarljósi, þeir hafa haft sjálfan sig fremsta í forgrunni og litið á það sem skyldu fyrirtækjanna að moka sem mestu af gulli undir rassgatið á sér. Stjórnir fyrirtækjanna hafa um leið verið skipaðar afskaplega vitlausu og óvönduðu fólki sem hefur búið viðkomandi stjórnendum þannig umhverfi að það var sama hvað þeir gerðu, þeir voru alltaf öruggir með að ganga burt með stóran hluta af hagnaði/eigin fé fyrirtækjanna á brott, hvernig sem færi.
Eins og þú bendir á með Sparisjóð Svarfdæla þá má örugglega debate-a hversu gott þetta dæmi allt saman var en þar voru stjórnendur (sem höfðu bara eitt hlutverk, þ.e. gæta að hagsmunum stofnfjáreigenda) að tala upp sjóðinn vel vitandi að þær upplýsingar sem þeir báru á borð voru rangar. T.d. verðmæti Icebank, heldurðu að Sparisjóðsstjórinn hafi upplýst stofnfjáreigendur um þá meginbreytingu sem gerð var á Icebank, þ.e. honum var breytt í vogunarsjóð sem tók stórar stöður í endurhverfum viðskiptum. Heldurðu að ástæðan fyrir því að þeir seldu ekki Existabréfin hafi verið vegna hagsmuna annarra en stofnfjáeigenda? Hef grun um að sem æðstu stjórnendur Sparisjóðsins hafi þeir einfaldlega hugsað, við berum enga ábyrgð á einu eða neinu. Þeir sem fara hinsvegar að óskum okkar og auka við sinn hlut bera alla ábyrgð........
Svo mætti halda áfram, heldurðu að Gísli í Spsj.Mýrasýslu beri einhverja ábyrgð á ruglinu þar?
Heldurðu að Agnar í Icebank beri einhverja ábyrgð á stærsta gjaldþroti Íslandssögunnar?
Baldur Guðna í Eimskip?
Nei, meðan menn beina umræðunni alltaf í þann farveg að þeir sem leggja pening í eitthvað eigi bara að gleyma peningunum um leið og þær hafa innt greiðsluna af hendi en passa upp á að beina engri gagnrýni að stjórnendum fyrirtækjanna þá þarf ekkert að ræða það frekar að hér á Íslandi verði almenningsfyrirtæki. Þetta verða ríkisfyrirtæki og fjölskyldufyrirtæki.
Eins og þú bendir á þá fer kannski ekki nógu mikill tími hjá fólki í að spá í fjáfestingartækifærin en málið er að þegar fólk tekur ákvörðun um að kaupa verðbréf eða íbúð þá leggur það sitt traust á sölumanninn. Fólk vill bara hafa þetta einfalt, fjárfestaí einhverju til framtíðar en gerir sér grein fyrir að gengið getur sveiflast +/-20% eða svo. Stjórnendur helstu almenningsfyrirtækja hafa hinsvegar haft allt aðra sýn, þeir hafa haft +10 til -100% sem viðmið. Þ.e. þeir hafa litið á hlut hluthafa eitthvað sem þeir geta hreinsað burt án þess að blikna með heimskulegum ákvörðunum sínum. Og það er hreint út sagt alveg galin sýn en viðurkennd aðferðafræði hér á Íslandi.
Daníel (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 00:08
Ég hélt nú að það væri almenn vitneskja að Agnar hefði ekki sett Icebank á hausinn þó hann hefði stjórnað þar þegar bankinn fór á hausinn. Jahh sagan segir allavega að sá sem beri ábyrgðina hafi verið valinn til að stýra Nýja Kaupþingi, sel það ekki dýrara en ég keypti það.
Blahh (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 14:40
Afsaka sein viðbrögð, hef verið að einbeita mér að skrifum varðandi stöðu Íslands. Vitandi að smá innlit inn á síðuna breytist iðulega í pælingar í lengri tíma þá hef ég forðast að "líta við".
Eggert, ég held að samanburðurinn við Byr sé hluti af skýringunni en geti ekki staðið í sjálfu sér. Stofnfjáraðilar Sparisjóðs Svarfdæla hljóta að hafa haft meira um slík útboð að segja en minni stofnfjáraðilar Byrs. Hins vegar hefur það verið erfiðra fyrir fólk að sitja hjá þegar að ákveðin bylgja af fjárfestum hefur ákveðið að taka þátt í leiknum. Þetta og Exista eru verðug rannsóknarefni!
Daníel, er sammála flestu því sem þú segir varðandi þátt stjórnenda. Ég þykist hins vegar vita, hafandi unnið í Icebank, að sparisjóðsstjórar hafi ekki áttað sig á þeirri áhættu sem var að myndast þar. Auk þess var sú áhætta það fjarlæg í hugum flestra að hver sá sem velti því fyrir sér að 3 íslenskir bankar væru í þann mund að rúlla ekki húsum hæfur. Þetta leiðir umræðuna þó aftur á þann veg að tölur segja aðeins hálfan sannleikann, jafnvel í fjármálum. Sjálfur vanmat ég dóminó áhrifin af gjaldþroti fyrirtækja eins og FL Group og var ég þó í hópi verstu svartsýnis manna.
Már Wolfgang Mixa, 6.7.2009 kl. 11:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.