IceSave og tryggingarsjóður innstæðueigenda - spurningar

Skýrslan Tryggingarvernd innstæðueigenda og fjárfesta sem Hallgrímur Ásgeirsson skrifaði árið 2005 er áhugaverð lesning í dag.  Það sem vekur mesta eftirtekt hefst á síðu 10. í skjalinu í kaflanum Fjárhæð til greiðslu.  Þar er umræða um hvað gerist ef eignir viðkomandi deildar sjóðsins hrökkvi ekki til að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna...

Í svari til Jóhönnu Sigurðardóttur, núverandi forsætisráðherra, kemur fram að hrein eign Tryggingarsjóðs myndi hvergi nægja til að tryggja öllum innstæðueigendum og fjárfestum lágmarkstryggingarvernd ef á hana reyndi á einum og sama tíma.  Síðan segir:  Þessi niðurstaða á ekki að koma á óvart.  Hún er í samræmi við þann skilning að baki núgildandi lögum að nánast útilokað er talið að svo alvarlegt ástand skapist í fjármálakerfinu að 1% af meðaltali tryggðra innstæðna myndi ekki nægja til að standa skil á lágmarkstryggingarvernd.

Í lokaorðum stendur að sjóðnum er ekki ætlað að tryggja öllum innstæðueigendum og fjárfestum fulla vernd fyrir tjóni sem kann að hljótast af áföllum í fjármálakerfinu.  Bent er á að slíkt auki freistnivanda (moral hazard).

Flestir sem tekið hafa þátt í umræðunni um IceSave hafa komið með svör.  Ég ætla að varpa fram spurningum.

Er ofangreind grein einhverskonar staðfesting á því að okkur beri ekki að greiða IceSave skuldbindingar umfram þá upphæð sem á að vera til staðar í tryggingarsjóðnum?  Er ég að misskilja eitthvað?

Breyttu neyðarlögin hugsanlega þessum skilningi?

Geta Bretar og Hollendingar einhliða greitt hærri upphæðir en sem nemur lágmarkstryggingu til innstæðueigenda innan landamæra þeirra og fengið hluta af þeirri greiðslu úr þrotabúi Landsbankans? (Sjá umræðu hjá Pétri Richter)

Ef svarið er já við ofangreindri spurningu, er verið að vísa í laganna bókstaf þegar að slíkt hentar en tilgangur laga það sem gildir varðandi ábyrgð okkar til greiðslu á IceSave?

Því meira sem ég kynni mér þetta mál aukast efasemdir mínar um að Íslendingum beri skylda til að greiða þessar skuldir.  Með þessu er ég ekki að segja að við berum ekki ábyrgð á orðnum hlut og teldi það vera ósvífið að ábyrgðin takmarkist við það 1% sem leggja átti í tryggingarsjóð. 

Hef lítið skrifað á bloggi undanfarið því ég er að einbeita mér að skrifum á Masters ritgerð.  Lít ég t.a.m. á stöðu Íslands í framhaldi af bankahruninu.  Bráðabirgðaniðurstöður eru ekki uppörvandi.  Jafnvel þó að Ísland þurfi ekki að borga krónu, evru né pund vegna IceSave er staðan engu að síður napurleg.  Verri en ég hélt áður en ég hóf rannsóknir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi skoðun er ekkert ný af nálinni. Hún kom  fram strax í október í greinum Lárusar Blöndal hæstaréttalögmanns og Stefáns Más Stefánssonar sem hafa birst í Morgunblaðinu þar sem þeir færa lagaleg rök fyrir því að Íslendingar beri ekki ábyrgð á innistæðum Icesave umfram það sem er í Tryggingarsjóðnum.

GM (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 14:16

2 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Föstudaginn 12. júní, 2009 - Aðsent efni

Áskorun til þingmanna

Eftir Lárus Blöndal og Stefán Má Stefánsson

Stefán Már Stefánsson Lárus Blöndal VIÐ undirritaðir höfum ritað allmargar greinar þar sem við höfum fært lögfræðileg rök fyrir því að okkur sem þjóð beri ekki að endurgreiða þeim innistæðueigendum sem lögðu inn hjá íslensku bönkunum erlendis fyrir hrunið. Við höfum ekki fengið nein málefnaleg rök sem hnekkja okkar ályktunum. Ríkisábyrgð verður ekki til úr engu. Til að hún stofnist þarf afdráttarlausa lagaheimild sem ekki er til staðar í dag vegna innistæðutryggingasjóðs. Við höfum verið þátttakendur í samstarfi ríkja í Evrópu þar sem við höfum tekið upp reglur sem samdar hafa verið af Evrópusambandinu. Ekkert í þeim reglum gerir íslenska ríkið ábyrgt fyrir starfsemi íslenskra einkabanka. Þær reglur hafa hins vegar ekki staðist þær væntingar sem ESB hefur byggt upp í kringum þær. Þær reyndust gallaðar og náðu ekki markmiðum sínum. Þeir ágallar geta hins vegar ekki verið á ábyrgð íslenskrar þjóðar að okkar mati. Þeir samningar sem nú hafa verið kynntir þjóðinni eru tæpast ásættanlegir. Ekki er með góðu móti unnt að réttlæta að við tökum á okkur ábyrgð sem við höfum aldrei gengist undir eða berum ábyrgð á með öðrum hætti, hvað þá að það sé gert á þeim kjörum sem um hefur verið samið. Við köllum eftir lögfræðilegum rökstuðningi fyrir þeim samningum sem búið er að undirrita. Ákvörðunin um undirritun samninganna er stór á alla mælikvarða. Hún er m.a. stór í því ljósi að ekki liggur fyrir hve mikill hluti heildarfjárhæðarinnar, 650 milljarða króna að viðbættum háum vöxtum, kemur í hlut Íslendinga að greiða eða hvort innistæður njóti forgangs fram yfir aðrar kröfur samkvæmt neyðarlögunum. Það er engan veginn hægt að ganga út frá því að það ákvæði neyðarlaganna standist. Það liggur hins vegar fyrir að kröfuhafar allra gömlu bankanna munu láta á þetta reyna og breytir umræddur samningur þar engu um. Ef þetta forgangsákvæði laganna stenst ekki verður greiðslubyrði íslenska ríkisins margfalt meiri en ætla mætti samkvæmt kynningu á samningnum. Samninganefnd Íslands hefur skilað sínu verki. Forsendan í starfi hennar virðist hafa verið sú að okkur bæri skylda til að greiða og því ekki annað að gera en að semja um greiðslukjör. Þessi nálgun er ekki í samræmi við þá þingsályktun sem samþykkt var þann 5. desember sl. á Alþingi né þá kynningu sem fram fór á hlutverki samninganefndarinnar þegar hún var skipuð. Í þingsályktuninni ályktar Alþingi aðeins að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld á grundvelli tiltekinna viðmiða. Í þeim viðmiðunum er hins vegar ekkert að finna sem bendir til að Alþingi hafi litið svo á að íslenska ríkið væri greiðsluskylt. Í kynningu nefndarinnar á samningnum kemur ekki fram hvers vegna rökum, sem leiddu til þess að íslenska ríkinu bæri ekki að greiða, hafi verið hafnað í samningaviðræðunum. Ekki liggur heldur fyrir hvers vegna alþjóðlegir dómstólar voru ekki fengnir til að skera úr um deiluna svo sem eðlilegt hefði verið í samskiptum ríkja. Hafi þau sjónarmið ekki verið höfð að leiðarljósi í samningaviðræðunum að Ísland væri ekki greiðsluskylt var fyrirfram lítil von til þess að ná viðunandi samningum. Nú er komið að Alþingi Íslendinga að taka afstöðu til málsins. Ef til eru lögfræðileg rök fyrir þeim niðurstöðum sem samninganefndin hefur samið um, þá verður að kynna þau. Það er nauðsynlegt að um þau sé rætt og að skipst sé á skoðunum um þau. Jafnframt verður að greina frá því hvers vegna dómstólaleiðin var ekki valin. Hins vegar er ljóst að ef ekki er upplýst um röksemdir samninganefndarinnar eru þingmenn í jafnmikilli óvissu um það á hverju hún byggist og aðrir landsmenn. Á hverju eiga þeir þá að byggja sína afstöðu? Séu niðurstöður samninganna byggðar á pólitískum sjónarmiðum, t.d. vegna mögulegrar aðildarumsóknar Íslands að ESB, eða beinum eða óbeinum þvingunum, verður að upplýsa það. Síðan verða þingmenn að taka upplýsta ákvörðun um hvort þau sjónarmið réttlæti skuldsetningu þjóðarinnar sem hljóða upp á óvissar en gríðarlegar fjárhæðir þrátt fyrir að lögfræðileg rök hnígi í aðra átt. Það er algjörlega á valdi Alþingis að ákveða hvert framhald þessa máls verður óháð því hvað núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnir kunna að hafa sagt eða gert. Við skorum á þingmenn á Alþingi Íslendinga að krefjast þess að öll rök fyrir þeim samningi sem gerður hefur verið, hvort sem þau eru lögfræðileg eða pólitísk, verði kynnt þingi og þjóð og að ákvörðun verði síðan tekin í framhaldi af því. Þjóðin hlýtur að spyrja: treysta þingmenn sér til að taka ákvörðun um að skuldsetja hana um 650 milljarða kr. auk hárra vaxta, án þess að skýr og afdráttarlaus rökstuðningur liggi að baki? Lárus er hæstaréttarlögmaður. Stefán Már er prófessor.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 6.7.2009 kl. 16:05

3 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Þetta er eitt aðalatriðið varðandi Icesave þvingunarsáttmálann sem þú bendir hér á. Íslendingar eru EKKI bundnir af tryggingarinnistæðusamkomulaginu þar sem það á EKKI við kerfishrun. Sú ákvörðun breta og hollendinga að greiða einstaklingum umfram lágmarkstryggingarupphæðina og fá svo forgangskröfu í þrotabú Landsbankans hf. er lögfræðilega vafasamt (bæði er forgangsrétturinn sem settur var með neyðarlögunum síðastliðið haust vafasamt per se, en einnig forgangskröfuréttur breta og hollendinga vegna umframgreiðslnanna) þess vegna m.a. er þessum þjóðum mikið í mun að fá Íslendinga til að undirrita samkomulagið.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 6.7.2009 kl. 18:26

4 identicon

Þetta stendur á heimasíðu tryggingasjóðs.  Þess vegna ber okkur að greiða.  Það er nú líka þannig að við getum ekki farið í víking, komið með hendur fulla af peningum heim og haldið að fórnarlömbin gleymi okkur.

" Þann 6 október gaf ríkisstjórn Íslands út þá yfirlýsingu að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu. Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.

Neðangreind svör eiga við um þau lög sem gilda um Tryggingarsjóð í dag, lög nr. 98/1999. Svörunum verður breytt þegar lagabreyting um fulla tryggingu innstæðna hefur verið gerð. "

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 23:27

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þér skjátlast, Stefán, þessi yfirlýsing getur ekki búið til einhverja skuldbindingu ríkissjóðs, enda er því haldið fram af hinum fjandsamlegu ríkisstjórnum Bretlands og Hollands, að skuldbinding hans til að greiða 640 milljarðana eigi sér aðra undirstöðu: Esb-tilskipunina sem við lögleiddum hér 1999. Ríkisstjórn Íslands er ekki einræðisstjórn, heldur þingbundin stjórn og háð stjórnarskrá og lögum. Þau lög kveða á um, að ekki er unnt að stofna til neinna slíkra útgjalda ríkissjóðs nema með lögum.

Þetta er nógsamlega útlistað í greinum Stefáns Más og Lárusar og kemur afar vel fram í viðtalinu við Davíð í Sunnudags-Mogganum, en þú átt eftir að sjá fleiri rök í þessa átt, vænti ég. Lyftu upp augnlokunum og fylgztu með.

Og þakka þér, Már, fyrir pistilinn. Spurningar þínar eru góðar, og þú ert á réttri leið!

Jón Valur Jensson, 7.7.2009 kl. 00:32

6 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Ég las góða grein Stefáns og Lárusar sem vitnað er í og hefði átt að benda á hana í leiðinni.  Eitt merkilegt við grein Hallgríms er hins vegar tímasetning hennar, þ.e. að verið er að túlka lögin með skýrum hætti árið 2005.  Í mínum huga er sú túlkun óumdeilanleg þangað til að annað kemur í ljós. 

Stefán telur að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar varðandi tryggingu innstæðna breyti þessu, ef ég skil hann rétt.  Það virðist vera umdeilanlegt.  Stefán segir að við getum ekki farið í víking, komið með hendur fulla af peningum heim og haldið að fórnarlömbin gleymi okkur, því er ég sammála.  (enn ein) Spurningin er þá, hvað ætlum við að gera?  Og fyrst ég er byrjaður aftur, hver er stefnan og/eða markmiðin í málinu?  Af hverju fást ekki skýr svör?  Mér sýnist málið snúast um nokkur veigamikil atriði, er ekki hægt að búa til lista yfir helstu spurningar, svör og markmið?

Már Wolfgang Mixa, 7.7.2009 kl. 01:34

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta voru ekki OKKAR fórnarlömb, Már, heldur EINKABANKANS.

Jón Valur Jensson, 7.7.2009 kl. 02:23

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Er ofangreind grein einhverskonar staðfesting á því að okkur beri ekki að greiða IceSave skuldbindingar umfram þá upphæð sem á að vera til staðar í tryggingarsjóðnum?"

Nei

Reyndar kemur skýrt fram í skýrslunni að staðið skuli við lágmarkið alltaf.  Það er að vísu sagt að óþarfi sé að hafa mikið í sjóðnum því alvarleg staða komi alldrei upp !!

"Í lokaorðum stendur að sjóðnum er ekki ætlað að tryggja öllum innstæðueigendum og fjárfestum fulla vernd fyrir tjóni sem kann að hljótast af áföllum í fjármálakerfinu"

Þarna er hann að tala um umfram lágmarkið.

"Breyttu neyðarlögin hugsanlega þessum skilningi?"

Varðandi ábyrgð umfram lágmarkið ?  Já, hugsa að svo sé.  Allavega að einhverju leiti.  Lágmarkið stendur 100% eitt og sér og ekki bætir úr skák mismununin en það sem er umfram það - þar er viss efi í mínum huga. Þar er nefnilega óvissan sem menn eru alltaf að leita að eða tala um út um víðan völl.  Nú vilja Hollendingar sem áttu meir en 100þ evrur láta á það reyna.

Veit ekki.  Kannski hafa þeir mál í höndunum.  Leggja upp með mismunun sem grundvöll.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.7.2009 kl. 02:56

9 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Miðvikudaginn 28. janúar, 2009 - Aðsent efni

„Lagatæknileg rök“ um innistæðutryggingar

Eftir Lárus L. Blöndal og Stefán Má Stefánsson

VIÐ undirritaðir höfum ritað tvær greinar í Morgunblaðið sem tengjast ábyrgð á innlánum fjármálastofnana, annars vegar ábyrgð íslenska ríkisins og hins vegar ábyrgð Evrópusambandsins. Mánudaginn 26. janúar sl. ritaði Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur grein í Morgunblaðið undir heitinu „Eru aðrar leiðir færar?“, sem að nokkru leyti fjallar um þetta sama mál. Teljum við nauðsynlegt að fjalla um nokkur atriði sem þar koma fram. Í greininni segir Yngvi: „Innistæðutryggingar eru hluti af EES-samningnum og tilgangur þeirra er ljós, hvað sem líður hugsanlegum lagatæknilegum rökum. Tilraunir Íslands til að víkjast undan ábyrgð á innistæðutryggingum á EES-svæðinu verða túlkaðar sem vanefndir og munu um langa framtíð draga úr trúverðugleika Íslands í alþjóðlegu samstarfi og samningum.“ Þar sem Yngvi setur hér fram er að hluta til rétt þ.e. tilgangur tilskipunar um innistæðutryggingar er ljós. Því má segja að hjá innistæðueigendum hafa skapast réttmætar væntingar til þess að innistæðutryggingarkerfi virki við þær aðstæður sem þeirra er sérstaklega þörf. Hins vegar gerir Yngvi lítið úr því sem hann kallar lagatæknileg rök sem við leyfum okkur að skilja sem lögfræðileg rök. Til lögfræðilegra sjónarmiða er gripið t.d. þegar lagt er mat á skyldu aðila til að greiða fjárskuldbindingar eða hvort einhver beri ábyrgð á annarra manna gjörðum. Í réttarríki verður aðila ekki gert að greiða fjárskuldbindingar ef hann er ekki skyldur til þess að lögum. Því má segja að í samskiptum manna og eftir atvikum ríkja, skipti lögfræðileg rök miklu, jafnvel öllu máli ef ákvarða á réttindi eins og skyldur annars.

Lögfræðilegt mat

Við undirritaðir höfum í greinum okkar reynt að nálgast það sem við teljum vera lögfræðilega rétta niðurstöðu um ábyrgð á innlánum. Í stuttu máli er niðurstaða okkar sú, í fyrri greininni sem birtist 15. okt. sl., að íslenska ríkið beri ekki ábyrgð á innistæðum í viðskiptabönkum og sparisjóðum. Með lögum um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta frá árinu 1999 var sett á stofn innistæðutryggingarkerfi á grundvelli tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB um innlánatryggingarkerfi. Samkvæmt því ber Tryggingarsjóður innistæðueigenda og fjárfesta, sem er sjálfseignarstofnun, ábyrgð á innlánum. Lánastofnanirnar sjálfar bera kostnaðinn við fjármögnun sjóðsins. Í 25. málsgrein aðfararorða tilskipunarinnar kemur fram að aðildarríkin geti ekki orðið ábyrg gagnvart innistæðueigendum ef þau hafa komið upp tryggingarkerfi í samræmi við tilskipunina eins og við gerðum hér á Íslandi á árinu 1999 og óumdeilt er. Fyrir þessari niðurstöðu eru færð mörg önnur rök í grein okkar en ekki er ætlunin að rekja það frekar hér. Í seinni grein okkar, sem birtist hinn 8. janúar sl., fjölluðum við um bótaskyldu Evrópusambandsins vegna innlánatrygginga. Komumst við að þeirri niðurstöðu að á grundvelli þess að ESB hafi vakið upp þær réttmætu væntingar að innlánstryggingarkerfin sem byggðust á tilskipun ESB myndu að lágmarki tryggja 20.000 evra innistæður hjá hverjum og einum. Því væri Evrópusambandið bótaskylt í þeim tilvikum þar sem tryggingarkerfin stæðu ekki undir þeim væntingum. Síðan sýndum við fram á að Evrópusambandinu var fullkunnugt um að innlánatryggingarkerfin væru ekki í stakk búin að mæta verulegum áföllum eins og nú ríða yfir. Þá var það niðurstaða okkar að íslenska ríkið gæti öðlast sama rétt og innistæðueigendur ættu gagnvart ESB ef það greiddi þeim umfram skyldu greiðslur til að uppfylla réttmætar væntingar þeirra. Fyrir þessu eru færð marvísleg önnur rök en greinin er aðgengileg á vefslóðinni: http://www.mbl.is/media/68/1168.pdf

Eigum við að borga?

Grein Yngva er að mestu leyti málflutningur fyrir því að við eigum að borga. Þannig segir hann að þrotabú bankanna komist ekki upp með það að greiða ekki til erlendra kröfueigenda út úr þrotabúum bankanna eða mismuna þeim miðað við aðra kröfuhafa. Sú niðurstaða hans er út af fyrir sig rétt enda er hún í samræmi við gildandi lög í landinu og óumdeild eftir því sem við vitum best. Hann heldur því síðan einnig fram að íslenska ríkið eigi að greiða innistæðueigendum en það teljum við hins vegar ekki rétt. Það er enginn munur á þrotabúum bankanna og Tryggingarsjóði innistæðueigenda og fjárfesta að þessu leyti – ríkið ber í hvorugu tilvikinu ábyrgð á skuldum þeirra. Tryggingarsjóðnum ber að greiða innistæðueigendum í samræmi við lög um hann og án þess að mismuna aðilum með sama hætti og greiða skal úr þrotabúum í samræmi við lög um gjaldþrotaskipti. Okkur ber sem sagt að greiða – en aðeins það sem lög mæla fyrir um. Af framansögðu er því ljóst að við ákvörðun um það hvaða greiðslur okkur ber sem þjóð að greiða vegna bankahrunsins verður að byggja á lögfræðilegu mati. Á það við hvort heldur fjallað er um greiðslur til almennra kröfuhafa bankanna, til innistæðueigenda eða annarra sem kröfur gera. Úr grein Yngva má lesa það viðhorf að því sé haldið fram af einhverjum að ríkið eigi ekki að greiða þær skuldbindingar sem réttilega er að því beint. Við þekkjum hins vegar ekki til þess að þessu hafi verið haldið fram. Að sjálfsögðu á íslenska ríkið að greiða það sem því ber, um það á ekki að þurfa að deila. Það getur hins vegar verið ágreiningur um það hvað fellur þar undir.

Réttarríkið – dómstólar

Yngvi nefnir einnig að líklegt sé, ef íslenska ríkið hafni því að greiða til innistæðueigenda í samræmi við kröfur Bretlands og fleiri þjóða, muni þessi lönd sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Vonandi er það rétt. Það er nefnilega þannig að ef ágreiningur er um réttindi og skyldur þá leysa menn úr honum fyrir dómstólum. Þá kröfu hefur íslenska ríkið sett fram og við það eigum við að halda okkur. Það er alveg fráleitt að halda því fram að málskókn fyrir alþjóðlegum dómstólum geti dregið úr trúverðugleika. Ef ríki eða ríkjasambönd vilja hins vegar beita öðrum aðferðum við lausn ágreiningsmála sinna eins og þvingunaraðgerðum eða nauðung þá er verið að fara á svig við grundvallarreglur réttarríkja. Það er okkar skoðun að við eigum að byggja afstöðu okkar og kröfur á þeim lögum og reglum sem gilda í landinu og um þau alþjóðlegu samskipti sem við höfum samið um. Ef við teljum á rétti okkar brotið eigum við ekki að sætta okkur við það heldur að ganga óhikað eftir rétti okkar. Við erum ekki í aðstöðu til að þvinga eða neyða önnur ríki til að lúta okkar vilja. Við höfum hins vegar möguleika til að standa á rétti okkar og láta reyna á hann, jafnvel með þeim hætti að greiða undir þvingunum og sækja þá fjármuni aftur. Það er ekki ásættanlegt að nýta sér ekki þann rétt sem við höfum þegar mörg hundruð milljarðar króna eru í húfi. Það eru sem sagt aðrar leiðir færar.Lárus er hæstaréttarlögmaður. Stefán Már er prófessor.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 7.7.2009 kl. 10:08

10 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Miðvikudaginn 15. október, 2008 - Aðsent efni

Ábyrgð ríkisins á innlánum

Eftir Lárus Blöndal og Stefán Má Stefánsson

Í OPINBERRI umræðu kemur fram að íslensk stjórnvöld séu langt komin að semja við Breta og Hollendinga um mörg hundruð milljarða króna skuldbindingar vegna starfsemi útibúa Landsbanka Íslands í þeim löndum. Við undirritaðir teljum nauðsynlegt að lagagrundvöllur sé skoðaður rækilega áður en slíkir samningar verða endanlegir. Með lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta var stofnaður sérstakur sjóður, Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta, sem er sérstök sjálfseignarstofnun. Hlutverk hans er að veita lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækja. Af aðfararorðum tilskipunar EB um innlánatryggingakerfi má draga þá meginályktun að innlánseigendur eiga að njóta jafnréttis með tilliti til greiðslna úr sjóðnum án tillits til þess hvar þeir eru búsettir innan EES. Greitt er úr sjóðnum ef viðskiptabanki er ekki fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu. Lágmarkstrygging nemur nú rúmlega 20.000 ECU fyrir samanlögð innlán hvers innstæðueiganda. Segir í 7. gr. tilskipunarinnar að innlánatryggingakerfin tryggi að samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð að framangreindri fjárhæð.

A.

Ljóst er samkvæmt framangreindu að aðildarríki tilskipunarinnar hafa tekið á sig þær skuldbindingar að koma á ákveðnu tryggingarkerfi samkvæmt skilmálum hennar. Þetta var gert hér á landi með fyrrgreindum lögum. Vegna þess hvernig greiðslum í sjóðinn er háttað, þ.e. að eign hans er miðuð við innstæðu á næstliðnu ári, gat sú staða komið upp að ekki væru til fjármunir í sjóðnum sem endurspegluðu raunmagn innstæðna á hverjum tíma. Við teljum að innlánstryggingarkerfin beri ábyrgð á skuldbindingum sínum með því fjármagni sem þar finnst en öðru ekki. Þessa niðurstöðu okkar byggjum við einkum á eftirfarandi: Við teljum augljóst að hlutverk Tryggingasjóðsins er ekki að takast á við allsherjar bankahrun eins og gerst hefur hér á landi. Ef svo hefði verið hefði þurft að greiða gífurlegar fjárhæðir inn í hann sem næmi mörgum tugum prósenta af heildarinnlánum. Styðst þessi niðurstaða við lokamálslið 24. málsgreinar aðfararorða tilskipunarinnar (en málsgreinin fjallar um fjármögnun innlánatryggingakerfa) þar sem gert er ráð fyrir að fjármögnunin megi ekki stefna stöðugleika viðkomandi bankakerfis í hættu. Því má segja að það ástand sem hér um ræðir sé eins konar force majeure tilvik. Ákveðnar reglur eru um inngreiðslur í sjóðinn samkvæmt lögum nr. 98/1999. Skal heildareign innstæðudeildar sjóðsins nema að lágmarki 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. Engar reglur eru um það í viðkomandi tilskipunum hvernig fjármagna eigi sjóðina. Ganga verður út frá því að þessar reglur íslenskra laga hafi verið tilkynntar viðkomandi yfirvöldum (hér Eftirlitsstofnun EFTA) í samræmi við fyrrgreinda tilskipun og er ekki kunnugt um að neinar athugasemdir hafi komið fram. Því má leggja til grundvallar að innleiðingin hafi verið rétt að þessu leyti. Í 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar er gert ráð fyrir því að lánastofnun hafi ekki fullnægt skyldum sínum og kveðið er á um aðgerðir í því sambandi. Má þá eftir atvikum útiloka viðkomandi lánastofnun frá markaðinum með skýru samþykki lögbærra yfirvalda en þá með minnst 12 mánaða fyrirvara. Ákvæðið sýnir að jafnvel þótt eitthvað hafi verið athugavert við innlánatryggingar umræddra útibúa Landsbankans á þessu ári, t.d. að skyldubundin framlög til Tryggingasjóðs hafi ekki verið greidd, hefði ekki ennþá verið unnt að koma viðurlögum í framkvæmd. Ekkert hefur hins vegar komið fram sem bendir til að eitthvað hafi verið athugavert við innlánatryggingar Landsbankans. Ef reglur tilskipunarinnar væru túlkaðar með þeim hætti að greiða ætti framangreindar fjárhæðir að fullu til innstæðueigenda hvernig sem á stæði gæti það bakað smáum ríkjum gífurlegar fjárhagslegar skuldbindingar sem settu fullveldisrétt þeirra í hættu. Slíkt getur hvorki verið tilgangur tilskipunarinnar né leitt af henni. Ábyrgð ríkissjóðs verður því ekki á því byggð að ákvæði umræddrar tilskipunar hafi verið brotin. Ábyrgð ríkisins í tengslum við fyrrgreinda tilskipun felst einungis í því að innleiða reglur um hana og að sjá að öðru leyti um að staðið sé við skuldbindingar samkvæmt tilskipuninni. Hafi vanhöld orðið á því getur ríkið orðið skaðabótaskylt ef reglunum um bótaábyrgð er að öðru leyti fullnægt. Ábyrgð ríkisins nær hins vegar ekki lengra en þetta. Þá er og athyglisvert að hvergi er í tilskipuninni kveðið á um sérstaka ábyrgð aðildarríkjanna á skuldbindingum Tryggingasjóðsins. Má ætla að slík ábyrgð hefði komið skýrt fram ef stefnt hefði verið að henni.

B.

Með lögum um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. var gerð breyting á 10. gr. fyrrgreindra laga nr. 98/1999 og innleitt ákvæði sem segir efnislega að krafa Tryggingasjóðs njóti rétthæðar sem forgangskrafa. Svipuð breyting var gerð með fyrrgreindum lögum á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki þannig að við gjaldþrot fjármálafyrirtækis verða kröfur vegna innstæðna forgangskröfur. Líta má svo á að umrædd lagasetning eigi við um alla innlánseigendur hér á landi svo og innlánseigendur útibúa íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis. Lagasetning af þessu tagi, sem kemur í raun með afturvirkum hætti á nýrri skipan að því er varðar rétthæð krafna, veldur vandkvæðum. Hún bætir augljóslega stöðu sumra kröfuhafa á kostnað annarra. Skoða verður sérstaklega hvort hún brjóti í bága við meginreglur laga um réttaröryggi og réttmætar væntingar og hverjar séu afleiðingar ef svo er. Reglur af þessu tagi má hugsanlega réttlæta með skírskotun í neyðarrétt, þ.e. að þær séu nauðsynlegar til að forðast stórfelldan efnahagslegan vanda í íslensku þjóðfélagi.

C.

Íslenska ríkið hefur í hyggju að greiða íslenskum innlánseigendum fjárhæðir til að tryggja innstæður þeirra. Taki ríkið á sig slíkar skuldbindingar og greiði úr ríkissjóði myndu þær greiðslur vera umfram skyldur íslenska ríkisins í þeim tilgangi að tryggja að unnt væri að starfrækja innlenda innlánastarfsemi í framtíðinni og til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Slíkar greiðslur koma EES-samningnum í raun réttri aðeins óbeint við enda myndu þær ekki fara fram á gildissviði hans nema í undantekningartilvikum. Evrópskar skuldbindingar felast aðeins í þeim Tryggingasjóðum sem að framan eru nefndir og þeim reglum sem um þá gilda. Þær reglur snerta einkavædda banka og Tryggingasjóð sem er sjálfstæð stofnun en ekki íslenska ríkið. Þær ráðstafanir sem ríkið gerir til að halda uppi efnahagslegum stöðugleika í framhaldi af því eru því annars eðlis. Hefði ríkið hins vegar breytt lögum um Tryggingasjóð með þeim hætti að innlánseigendum hefði verið mismunað eftir búsetu kynni slíkt að brjóta í bága við reglur EES-samningsins.

D.

Meginniðurstöður okkar eru eftirfarandi: Ekki hvílir nein ábyrgð á ríkissjóði vegna stöðu innstæðna í Tryggingasjóðnum. Lagabreyting sem gerir ráð fyrir að innlánskröfur verði forgangskröfur getur staðist ef hana má réttlæta með skírskotun í neyðarrétt. Greiðslur sem ríkið tekur á sig að inna af hendi til innstæðueigenda hér á landi falla almennt utan gildissviðs EES-samningsins nema í undantekningartilvikum. Lárus er hæstaréttarlögmaður. Stefán Már er prófessor.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 7.7.2009 kl. 10:10

11 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Morgunblaðið þriðjudaginn 7. júlí, 2009 - Innlendar fréttir

Óvíst um ábyrgð á Icesave

*Áður óbirt álit breskrar lögmannsstofu sem unnið var fyrir utanríkisráðherra *„Mótsagnakenndar“ yfirlýsingar stjórnvalda ekki taldar hafa réttaráhrif

Eftir Pétur Blöndal

pebl@mbl.is

„Í stuttu máli þá höfum við hvorki fundið neina skriflega staðfestingu þess að Ísland hafi formlega undirgengist að ábyrgjast skuldbindingar Tryggingasjóðs innstæðueigenda, hvað varðar Icesave-innstæðurnar, né undirgengist aðrar skuldbindingar en þær sem felast í tilskipuninni eins og hún var innleidd í lögum 98/1999.“

Þetta stendur í áður óbirtu áliti sem lögmannsstofan Mischon de Reya í London skilaði Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra 29. mars sl. Þar er vegið og metið hvort Íslandi beri að ábyrgjast lágmarksinnstæður á Icesave-reikningum eða hvort nóg sé að stofna innstæðutryggingasjóð í sama tilgangi. Í greinargerð með Icesave-frumvarpinu kemur fram að samninganefndin hafi notið aðstoðar Mischon de Reya, en þar er álitsins hvorki getið, né fylgir það gögnum sem lögð voru fram.

„Að lokum, hvað sem öðru líður, þá er það okkar skilningur, af þeim íslensku lögfræðiálitum sem okkur hafa verið fengin, að slíkt samkomulag um að ábyrgjast Tryggingasjóð innstæðueigenda myndi alltaf þurfa lögformlegt samþykki Alþingis Íslendinga til að verða lagalega bindandi.“

„Fáguð“ lögfræðiálit ekki afdráttarlaus

Morgunblaðið hefur undir höndum eintak af skýrslunni, þar sem segir að þrátt fyrir að lögfræðiálit breskra og hollenskra stjórnvalda séu „fáguð“, þá liggi ekki fyrir að þau veiti „afdráttarlaust svar“ við þessari spurningu, einkum þegar litið sé til yfirlýsts markmiðs tilskipunarinnar. „Evrópskar tilskipanir eru ekki alltaf fullkomlega skýrar og þessi er engin undantekning þar á, og það eru röksemdir á báða bóga, en við höfum enn ekki fundið skýr svör sem sýna fram á að Íslandi beri skylda til að ábyrgjast greiðslur innstæðutryggingasjóðsins. Þess vegna teljum við að það sé höfuðatriði fyrir íslensk stjórnvöld að fela okkur að vinna afdráttarlaust lögfræðiálit af leiðandi málafærslumanni.“

Jafnframt segir að „ruglingslegar“ og „mótsagnakenndar“ yfirlýsingar stjórnvalda í bréfum viðskiptaráðuneytisins í fyrra „hjálpi ekki upp á sakirnar“, en þó sé ekki lagalega bindandi fyrir Ísland að ganga lengra en tilskipunin og EES-samningurinn mæli fyrir um. „Viðmiðin frá 16. nóvember eru kjarni málsins að okkar mati, sem voru einfaldlega lyktir deilunnar á þessum tíma. Þar er einungis sagt að tilskipunin eigi við um Ísland á sama hátt og önnur ESB-ríki.“ Lögmannsstofan telur að yfirlýsingar ráðherra síðan þá og viljayfirlýsing Íslands og Hollands frá því í október hafi ekki nein réttaráhrif.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 7.7.2009 kl. 11:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband