Íslenska efnahagsundrið - bókaumfjöllun; traust skiptir (aftur) öllu máli

Flóð bóka í tengslum við hrun íslenska efnahagsundursins á sér nú stað og verður ekki lát á slíkum verkum næstu mánuði og ár.  Þær bækur sem nú eru fáanlegar eru hnitmiðaðar, ólíkt því sem oft gerist þegar að bækur eru skrifaðar skömmu eftir atburði og einblína oft á ýmis smáatriði sem síðar skipta litlu máli.   

Bæði Hrunið og Íslenska efnahagsundrið -  Flugeldahagfræði fyrir byrjendurhafa verið gagnrýnd fyrir að skorta vandvirkni í prófarkalestri og nokkur meinleg mistök hafa slæðst inn (Guðni TH. Jóhannesson, höfundur Hrunsins, gerði grín að villunum á fyrirlestri í tilefni útgáfunnar).  Þetta er reyndar ekki ólíkt þeim mismun sem er á vinnubrögðum á bloggsíðum annars vegar og efnis sem birtist í blöðum hins vegar. Hvað máli skiptir er að koma upplýsingum hratt á framfæri til þess að veita mikilvægt innlegg inn í núverandi umræðu. Hvað varðar bloggsíður þá er líklega um meira umburðarlindi að ræða  hvað varðar villur heldur en með prentmiðla og útgefnar bækur (sjálfur er ég stöðugt að leiðrétta villur eftir að birting hefur átt sér stað). 

Þessar bækur sem koma út nú verða líklega lesnar upp til agna af þeim sem kaupa þær, sem verður líklega ólíkt bókunum sem koma út fyrir jólin en eins og margir þekkja er jólabókum skilað eða þær liggja ólesnar upp í hillu.  Þær bækur sem koma út nú eru, þrátt fyrir sína annmarka, rit sem skipta ekki miklu máli í framtíðinni því þær koma til með að móta þekkingu okkar og skoðanir varðandi hluti sem við höfum þó nýlega upplifað.

IE_cover

Íslenska efnahagsundrið, sem Jón Fjörnir Thoroddsen bæði skrifar og gefur út, einblínir á forsögu hrunsins varðandi fjármálagjörninga og dregur svo saman marga þætti sem ollu því að allt endaði illa.  Jón er afar opinskár í umræðu sinni varðandi marga þætti og er frásögnin beinskeytt, allt að því köld.  Hann hefur tæplegast aflað sér marga vini með útgáfu þessarar bókar og það má sérstaklega hrósa honum fyrir hugrekkið að þora að segja hlutina eins og þeir eru.  Því miður er það því svo að flest af því sem Jón ritar er satt og rétt, þó svo að deila megi um einhver atriði.  Efnistök eru víðfeðm en  Jóni tekst að skapa heildarmynd um þá þróun sem átti sér stað .  Við lestur bókarinnar er ekki annað hægt en að spyrja sjálfan sig hvernig hægt hafi verið að efast um að þetta gæti endað öðruvísi en með skelfingu.

Rétt er að það komi fram að ég þekki Jón og get t.d. sagt að hann var sá fyrsti sem ég heyrði spá um margt af því sem fór til verri vegar, til að mynda fall Eimskips og Stím hneykslisins. 

Margt af því sem fram kemur í bókinni er ekki nýtt.  Hefur þetta verið gagnrýnt en ég tel þetta vera að hluta til af því að kynning bókarinnar hefur verið aðeins misvísandi, maður hefði getað ætlað af auglýsingum að Jón kæmi fram með nýjar upplýsingar sem yllu skjálfta.  En styrkur bókarinnar liggur ekki í því heldur að draga saman það sem vitað var fyrir og draga af því ályktanir sem eru mikilvægt innlegg í þá umræðu sem er að fara fram í þjóðfélaginu núna.  Tíundi kafli, Tapið, er gott dæmi um slíkt.

Bókin dregur einnig fram atriði sem ég vissi ekki um eða hafði hreinlega gleymt.  Eitt þeirra er fjármögnun Eglu á kaupum í Búnaðarbankanum með láni frá Landsbankanum, sem var auðvitað hluti fléttunnar á yfirtöku Kaupþingsmanna á bankanum.  Jón leggur fram tilgátu um að öll kurl séu þar ekki enn komin til grafar.  Þessi lesning er enn áhugaverðari í ljósi nýrra upplýsinga um lán sem Búnaðarbankinn veitti til Björgólfsfeðga til að kaupa sinn hlut í ...Landsbankanum.  Þetta veitir vissulega skilgreininguna að búa til pening úr loftinu einu nýja merkingu.

Jón er afar gagnrýnin á fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða.  Telur hann að lífeyrissjóðir hafi brugðist illa í fjárfestingum sínum.  Nýlegar upplýsingarstaðfesta enn frekar gagnrýni hans, en LSR og LIVE virðast hafa sett um hálft prósent af eignasafni sínu í skuldabréf í Samson.  Jón furðar sig á því að ekki sé meiri áhersla á erlendar fjárfestingar og bendir máli sínu til stuðnings að norski olíusjóðurinn fjárfesti einungis erlendis.  Dregur hann í stuttu máli svipuð rök og ég bar varðandi fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða hér.

Eftirmálinn er meðal því besta sem skrifað hefur verið um íslenska efnahagsundrið og vel þess virði að lesa oftar en einu sinni.

Bækurnar Hrunið og Íslenska efnahagsundrið hafa báðar titla sem vísa í almenna umræðu um atburði síðustu ára.  Útgáfa bókanna hafa fest orðanotkunina enn frekar í sessi.  Bækurnar eru einnig eins og ákveðið tvíeyki.  Upphaflega átti Ólafur Ísleifsson að vinna með Guðna að Hruninu og bæta við fjármálalegu hliðina.  Vegna stjórnarsetu í nýja Íslandsbanka varð Ólafur að hætta við þátttöku og er sú bók því fyrst og fremst sögulegt rit.  Íslenska efnahagsundrið fyllir þá eyðu í Hruninu

Íslenska efnahagsundrið er því ekki einungis verðugt rit í sjálfu sér heldur einnig nauðsynlegur lestur samhliða Hruninu.  Bókin sjálf er glæsileg og greinilega mikið lagt í útlit hennar, en umbrot bókarinnar er aftur á móti ekki nógu gott*.  Ég mæli með báðum bókum í sumarfríinu.

*Bætt við eftir að athugasemd barst


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Var þetta eithvað skylt   Ponzi svikunum  á síðustu öld? 

A Ponzi scheme is a fraudulent investment operation that pays returns to separate investors from their own money or money paid by subsequent investors rather than from any actual profit earned. The Ponzi scheme usually offers returns that other investments cannot guarantee in order to entice new investors, in the form of short-term returns that are either abnormally high or unusually consistent. The perpetuation of the returns that a Ponzi scheme advertises and pays requires an ever-increasing flow of money from investors in order to keep the scheme going.

The system is destined to collapse because the earnings, if any, are less than the payments. Usually, the scheme is interrupted by legal authorities before it collapses because a Ponzi scheme is suspected or because the promoter is selling unregistered securities. As more investors become involved, the likelihood of the scheme coming to the attention of authorities increases.

Hörður Halldórsson (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 09:21

2 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Ég mæli eindregið með bókinni The Great Bull Market eftir Robert Sobel.  Skrifa ég umfjöllun um hana í haust.  Þar er fjallað um Ponzi.  Er hræddur um að tilvik séu til staðar þar sem slíkar aðgerðir hafi átt sér stað.

Már Wolfgang Mixa, 10.7.2009 kl. 09:27

3 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Ég er búin að lesa báðar bækurnar og er sammála þér um efnistökin. Af því að þú hrósar útliti bókarinnar Íslenska efnahagsundrið þá má ég til með að mótmæla. Bókin sú er prentuð á afleitan pappír og illa bundin. Við fyrsta lestur fór hún í sundur þ.e. það losnuðu blaðsíður. Að prenta bók á myndapappír er vandmeðfarið og algjör mistök í þessu tilfelli. Einnig er hönnun (umbroti) ábótavant því stundum flæðir texti ekki eðlilega á milli blaðsíðna og endir bókarinnar er mjög undarlegur. 

Margrét Sigurðardóttir, 10.7.2009 kl. 10:04

4 identicon

Takk fyrir sanngjarna og málefnalega umfjöllun. Vil bara halda því til haga að í erindi mínu í HÍ, sem þú minnist á, spaugaði ég aðeins með villurn í mínu eigin verki (eins og ég held að þú hafir átt við, en ég vildi bara tryggja að það fari ekki á milli mála).

Bækurnar sem hafa verið skrifaðar um hrunið eru ólíkar, og sem betur fer. Það væri slæmt ef allir væru að reyna að gera nákvæmlega það sama, og minnir mig á alþjóðlegan málshátt sem ég kann nú ekki alveg upp á tíu, en er einhvern veginn svona: Varist þann sem les aðeins eina bók.

Guðni Th. Jóhannesson (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 12:18

5 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Ég var of jákvæður varðandi útlit bókar, það sem ég vildi segja var að framsetningin væri metnaðarfull, umbrotið er hins vegar ábótavant þó svo að ég hafi ekki lent í neinu í líkingu við það sem Margrét lenti í. 

Auk þess gleymdi ég að minnast á að heimildarskrá vanti í ÍE, sem er löstur.  Bók Guðna var gagnrýnd fyrir að vitna oft á tíðum í munnlegar heimildir og blogg síður, en maður sér þó hvar slíkt er þó gert.  Ég hefði til dæmis viljað sjá hvar heimildir varðandi Moody's skýrsluna væru og auk þess sést betur hvar höfundur er að vitna beint í ákveðna þætti og hvar hann er að draga saman ályktanir.  Það er slæmt að þetta hafi gleymst hjá mér við umfjöllun bókarinnar.

Gaman að fá innlegg frá Guðna sjálfum.  Rétt, hann fjallaði um villur í sínu EIGIN verki á léttum nótum; ég sá ekki til Guðna á fyrirlestri Jóns.  Það hefði nú verið ógleymanlegt að sjá Guðna hrauna yfir mistökum Jóns!

Már Wolfgang Mixa, 11.7.2009 kl. 11:18

6 identicon

Ég var á hinum ágæta fyrirlestri Jóns Thoroddsens, fór með straumnum úr troðfullum 101 Odda yfir í þéttsetinn og miklu stærri sal á Háskólatorgi, en hvarf þar auðvitað í fjöldann eins og aðrir. Ég myndi aldrei hrauna yfir aðra og henda gaman að mistökum þeirra - slíkt færir manni bara vont karma! Heiðarleg gagnrýni er allt annað mál og þar finnst mér Már Mixa hafa staðið sig vel, en sumrir aðrir ekki. Annars eru þessar bækur barn síns tíma og eiga að vera dæmdar sem slíkar, unnar hratt í hita leiksins (þó að það megi alls ekki vera einhver allsherjar afsökun fyrir klaufaskap og mistökum, svo ég nefni mína bók sem dæmi). Og ég má til með að benda á ágætis tilvitnun í bók sem ég er að lesa akkúrat núna, æviminningar Katharine Graham, sem réð yfir Washington Post lengi vel, m.a. í Watergate-hasarnum. Hún tók við þeim bisness af manni sínum eftir að hann stytti sér aldur (átti við geðræn vandamál að stríða). En þessi maður, Phil Graham, lýsti stöðu og tengingu blaðamennsku og sagnfræði ágætlega í ræðu: "So let us (þ.e. blaðaheiminn) today trudge on about our inescapable task of providing every week a first rough draft of history that will never be completed about a world we can never really understand."

Guðni Th. Jóhannesson (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 22:15

7 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Takk Guðni fyrir hrósið, reyni að vera sanngjarn í gagnrýni, tekst oftast vel til (hef þó þurft að draga í land 2-3 sinnum). 

Smá fjármálaleg tengsl, Katharine Graham er einn af bestum vinum Warren Buffett (hann fjárfesti í Washington Post) og sjálfssagt ein af fáum manneskjum sem hafa sagt honum til syndanna.  Hún t.d. húðskammaði hann fyrir nísku sína gagnvart dóttur sinni sem átti ekki sjónvarp, WB kippti því í liðinn 1,2&3 eftir reiðilestur hennar.

Már Wolfgang Mixa, 15.7.2009 kl. 01:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband