1929 - 22. október og orðræða tímabilsins
22.10.2009 | 10:09
Þriðjudaginn, 22. október 1929, hækkaði gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum töluvert. Daganna áður hafði gengi margra hlutabréfa hrapað, sérstaklega hlutabréf fyrirtækja sem flokkuðust undir áhættusömum fjárfestingum. Viðsnúningur í lok mánudagsins og yfirlýsingar manna um að kauptækifæri hefðu myndast ollu hækkuninni.
Charles E. Mitchell, bankastjóri National City Bank, lýsti því yfir að fallið væri þá þegar orðið of mikið. Mitchell var reyndar sjálfur á kafi í hlutabréfamarkaðinum og var því vart með óháða skoðun í þeim efnum, en slíkt vissu fáir á þeim tímapunkti. Hann bætti því við að stoðir efnahagsins væru sterkar (fundamentally sound); það eru reyndar orð sem allir ættu að sperra eyrun við því slíkar yfirlýsingar eru oft heyrðar þegar að undirstöðurnar eru einmitt í ólagi (ef einhver man eftir yfirlýsingum okkar ráðamanna í undanfara hrunsins þá væri gaman að rifja þær upp í athugasemdadálknum).
Hinn virti hagfræðingur Irving Fisher sagði að virði hlutabréfa hafi ekki enn náð að endurspegla raunvirði þeirra, sem hafði hækkað meðal annars vegna þess að bandaríski vinnumaðurinn væri áreiðanlegri og með meiri framleiðni en áður vegna áfengisbannsins sem þá réði ríkjum. Bjartsýni Fisher á þessum tímapunkti hefur skyggt á orðspor allrar hans vinnu enda hafa flestar bækur um hrun fjármálamarkaða orðrétt eftir honum yfirlýsingu sem hann gaf frá sér nokkrum vikum áður að stock prices have reached what looks like a permanently high plateau eða lauslega þýtt að virði hlutabréfa hefði náð varanlega háum hæðum. Það er hins vegar kannski ekki alveg sanngjarnt að tefla Fisher fram með svo áþreifanlegum hætti; bjartsýnar yfirlýsingar komu frá Harvard, Yale, Michigan, Ohio State og Princeton, eða eiginlega öllum helstu virtu stofnunum landsins rétt eins og íslenskrar greiningardeildir í undanfara hrunsins.
Þeir örfáu sem þorðu að lýsa yfir efasemdum um innstæðu almennrar bjartsýni var sjaldan hlíft. Þegar að Paul Warburg, einn af reyndustu bankamönnum samtímans, sagði vorið 1929 að gengi hlutabréfa væri of hátt og að lán til hlutabréfakaupa og samhliða því spákaupmennska væri komið úr böndum var hann sakaður um að kæfa velmegun Bandaríkjanna (sandbagging American prosperity). Jafnvel þegar að forsetinn, Hoover, bað ritstjóra helstu fjölmiðla að vara lesendur sína við gengi hlutabréfa voru viðbrögðin nánast engin.
Í bókinni The Great Crash dregur Galbraith (1997) saman stemmninguna með því að segja að þó svo að svartsýni væri kannski ekki lögð að jöfnu við að eyðileggja líf Bandaríkjamanna þá voru samlíkingar til staðar, sem þýddi það að þeir sem gerðu slíkt sögðu það með varförnum hætti.
Sjá hér 21. október, 1929
Minni á að ég verð með fyrirlestur í fyrirlestraröð Þjóðarspegilsins þann 30. október sem nefnist Once in Khaki Suits, sem er tilvísun í lagið Brother, Can You Spare a Dime? Fjallað verður um samanburð um eigindlega þætti þess tímabils sem gjarnan er nefnt the Roaring Twenties sem var undanfari hrunsins í Bandaríkjunum og þess tíma mikillar bjartsýni sem við Íslendingar byrjuðum að upplifa árið 2003 og stóð fram að hausti 2008.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Sæll Már
Hvar verður þessi fyrirlestur 30.október?
Pétur Pétursson (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 10:20
Sæll Már,
Góðar greinar hjá þér. Hlakka til að sjá restina.
Langar til að benda á þessa grein sem viðbótarlesningu, en höfundur hennar er að bera saman núverandi stöðu hlutabréfamarkaðsins í US við kreppuna 1929. Fyrir þá sem pæla í tæknilegri trading, þá er línuritið athyglisvert sem sýnir Fibonacci Retracement samanburð fyrir kreppuna 1929 og núverandi kreppu. Eins og höfundurinn segir: "the parallels between the two declines and subsequent rallies are certainly too close for comfort."
http://www.etfguide.com/research/222/8/1929-And-Today-Sobering-Parallels-Abound/
Birgir Gislason (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 17:10
Pétur - þetta verður í Háskóla Íslands, ég veitti nákvæmari upplýsingar í næstu viku.
Birgir - frábær samantekt sem er komin í stock crashes favorites möppu mína. Er sammála flestu því sem fram kemur, hef t.d. áhyggjur af því hversu öruggur Buffett er, en samkvæmt mínum mælingum eru hlutabréf samt í dag ekki ofmetin, raunar ekki það vanmetin lengur eftir síðustu hækkun. V/h hlutföll eru í dag ekki marktæk frekar en fyrri daginn, um tíma var hagnaður allt of hátt hlutfall af þjóðarframleiðslu, nú er hagnaður langt fyrir neðan meðaltal. En hvað veit ég?
Már Wolfgang Mixa, 23.10.2009 kl. 11:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.