1929 – 23. október og þversögnin í að kalla “úlfur úlfur”

Eftir töluverða hækkun á gengi hlutabréfa daginn áður þá hófst fallið á nýjan leik miðvikudaginn, 23. október 1929.  Við opnun markaða var lítil hreyfing en smám saman fóru viðskipti að aukast og var söluþunginn mikill.  Á síðasta klukkutímanum var mikill handagangur í öskjunni; 2,6 milljón hlutabréfa skiptu hendur en til samanburðar voru rúm 6 milljón viðskipti á mánudeginum áður sem var 3 veltumesti dagur sögunnar fram að því.

Hlutabréfavísitölur voru nú skyndilega komnar á svipað stig og þær voru í enda júní mánaðar.  Niðursveiflur höfðu átt sér stað á undanförnum árum en þessi niðursveifla var orðin verri en allar hinar.  Þar sem að margir nýir þátttakendur höfðu í millitíðinni keypt hlutabréf með lánum á töluvert hærra gengi þá fór þeim að fjölga hratt sem þurftu annaðhvort að selja bréf sín til að standa í skilum eða leggja fram meira fé til tryggingar.  Margir höfðu engra kosta völ.

Margir fræðimenn höfðu á undanförnum árum oft kallað úlfur úlfur og talið sig loks hafa haft rétt fyrir sér þegar að einhver niðursveifla átti sér stað.  Þess í stað náðu vísitölur ekki aðeins fyrri hæðum heldur gott betur.  Seðlabankinn hafði (með varförnum hætti) lýst yfir áhyggjum yfir því að verðbólga væri handan hornsins sem hefði neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækja.  Þvílík vitleysa, fyrirtæki voru stöðugt nálægt hámarks afkastagetu.  Hillur voru aldrei fullar, eftirspurnin var ávallt til staðar enda atvinnuleysi vart til staðar.  Allir höfðu það gott, ef bændur voru undanskildir.  Því fór fólk almennt að trúa því sem þeir bjartsýnu héldu fram, að þetta væri nýtt tímabil (‘new era’) þar sem velmegun væri órjúfanlegur hluti af framtíðinni.  Þessi uppgangur hafði lent í áföllum en náð að vinna sig úr þeim, hví ætti hann ekki að viðhaldast í langan tíma í viðbót?

Því má segja að viðvaranir hafi haft öfug áhrif.  Kindleberger lýsir þessu vel í bókinni Manias, Panics, and Crashes með samlíkingu um strákinn sem kallaði úlfur úlfur.  Jafnvel þó að hagfræðingar viti að markaðir séu að fara út af sporinu er engin leið að tímasetja hvenær bólan springi.  Eftir því sem að tímabil spákaupmennskunnar lengist og bólan verði því alvarlegri, verða viðvaranir stöðugt minna marktækar.  Þeir sem leiddu þær hjá sér í uppganginum höfðu skapað sannfæringu um ágæti fjárfestingastefnu sína. 

Úlfurinn kom með enn meiri látum daginn eftir.

Sjá hér:

22. október, 1929 

21. október, 1929  

 

Minni á að ég verð með fyrirlestur á árlegri ráðstefnu Þjóðarspegilsins þann 30. október í Háskóla Íslands sem nefnist Once in Khaki Suits; titillinn er tilvísun í lagið Brother, Can You Spare a Dime?  Fjallað verður um samanburð um eigindlega þætti þess tímabils sem gjarnan er nefnt the Roaring Twenties sem var undanfari hrunsins í Bandaríkjunum og þess tíma mikillar bjartsýni sem við Íslendingar byrjuðum að upplifa árið 2003 og stóð fram að hausti 2008. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband