Hlutabréf eða skuldabréf - EBITDA
11.11.2009 | 13:27
Bankastjóri hafði samband við mig fyrir nokkrum árum síðan og bað um álit mitt á skuldabréfaútboði sem þá var í gangi. Fyrirtækið er vel þekkt, hlutabréf voru skráð í Kauphöll Íslands og reksturinn gekk vel. Án þess að hafa rannsakað rekstur fyrirtækisins náið, enda að einblína á stjórnunarstörf á þeim tímapunkti, gat ég þó sagt með vissu að ekkert vit væri að fjárfesta í skuldabréfum fyrirtækisins.
Ástæðan fyrir þessu var einföld. Efnahagsreikningur félagsins var að mestu leyti holur, þ.e. um 2/3 eigna voru skráðar sem viðskiptavild. Með öðrum orðum, ef fyrirtækið lenti í miklum áföllum þá ætti það litlar eignir til að selja til að greiða kröfuhöfum. Það var augljóslega líka afar skuldsett sem þýddi að það væri nánast gefið að afföll yrðu á kröfum ef fyrirtækið lenti í þrot.
Eigendur skuldabréfa hefðu því lítið meira upp úr krafsinu en eigendur hlutabréfa ef allt færi á versta veg. Rekstur fyrirtækisins var einnig af þeim toga að ekki þurfti að mínu mati mikið til að hann lenti í áföllum, ólíkt t.d. fyrirtækjum eins og Heinz og Proctor & Gamble. Skuldabréfin voru því, burtséð frá uppsetningu efnahagsreiknings, áhættumikil (ekkert lánshæfismat var fengið fyrir þau). Mín ráðgjöf var því að ef fjárfest yrði í rekstri fyrirtækisins væri eina vitið að kaupa hlutabréfin; hluthafar nytu góðs af áframhaldandi velgegni í rekstri en kröfuhafar skuldabréfa fengu einungis pening sinn til baka auk vaxta.
Það kom mér því mjög á óvart að umframeftirspurn var eftir skuldabréfunum, þrátt fyrir ávöxtunarkröfu sem var (ef ég man rétt) rétt rúmlega 2% yfir ávöxtunarkröfu íbúðabréfa á þeim tíma.
Rekstur fyrirtækisins gekk vel næstu árin og margfölduðust virði hlutabréfanna á því tímabili. Í dag er fyrirtækið hins vegar gjaldþrota, hlutabréfin orðin nánast verðlaus og hið sama má segja um virði skuldabréfanna.
Eitt annað, að lokum, er vert að nefna í þessu sambandi. Stjórnendur fyrirtækisins settu EBITDA niðurstöðuna ávallt á oddinn þegar fjallað var um reksturinn. Á mínum ferli hafa öll þau fyrirtæki sem sýnt hafa þessa stærð sem mælikvarða á rekstri fyrirtækisins átt eitt sameiginlegt: Þau hafa við minnsta bakslag farið á hausinn.
Sjá hér skoðun mína varðandi EBITDA - http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=654554
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Vel skrifað og rétt.
Þetta Ebitda hlutfall segir mjög takmarkað til um rekstur fyrirtækis, er líklega fundið upp af bönkum til að geta séð í fljótu bragði, hversu mikla vexti fyrirtækið getur greitt (bönkunum aðallega). Segir ekkert hversu mikið fyrirtækið getur greitt hluthöfum. Ofnotað hlutfall, sem margur hefur farið flatt á að einblína á.
Sem sagt takk fyrir, sannarlega orð í tíma töluð.
Agnar Friðriksson (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 22:27
EBIDTA er eingöngu mælikvarði á söluframlegð.Ég nota hana alltaf sem fyrsta 'indicator'. Sé EDITBA í ólagi er öll sölumaskínan vitlaust stillt eða fyrirtækið með ómögulega viðskiptaáætlun (einkum markaðshluta).
Í uppsveiflunni fóru menn að einblína á efnahagsreikninginn og setja hann sem aðalatriði ótengdum rekstri. Ekki að furða að öll þannig rekin fyrirtæki hrundu til grunna á augabragði og við erum að sjá sama mynstur vera að birtast á nýjan leik í gegnum yfirtöku bankanna á fyrirtækjum. Ég spái öðru hruni vegna þess að aðilar með rangan bakgrunn og skort á sérþekkingu á rekstrarsviði eru komnir með puttana í rekstur fyrirtækjanna.
Snorri Hrafn Guðmundsson, 13.11.2009 kl. 10:26
Rétt hjá ykkur báðum, ofnotað fyrirbæri. Snorri bendir á að það sé ekki gagnslaust. Þetta er t.d. góður mælikvarði ef maður kafar dýpra í reksturinn, athugar t.d. hver séu eðlileg afskriftarhlutföll (nauðsynlegur tækjakostur) og hvað megi áætla í vaxtakostnað. Erlend lán gerðu það að verkum að þessi stærð var bjöguð í uppsveiflunni því með styrkingu krónu voru jafnvel vaxtatekjur hjá skuldsettum fyrirtækjum. Í niðursveiflunni snérist efnahagsreikningur margra slíkra fyrirtækja við á augabragði og eigið fé hvarf og gott betur.
Már Wolfgang Mixa, 19.11.2009 kl. 10:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.