Eru stýrivextir úrelt fyrirbæri sem heldur vaxtalækkunum í skefjum? Skoðanakönnun og póstlisti
25.5.2009 | 23:37
Almennt hafa stýrivextir á Íslandi verið viðmið fyrir innlánsvexti hjá fjármálastofnunum. Þegar að þeir voru t.d. lækkaðir niður í 13,0% um daginn þá voru innlánsvextir í S24 lækkaðir í 12,7%. Ríkisbankarnir lækkuðu þá hins vegar innlánsvexti töluvert meira. Þeir létu þó ekki staðar numið, í síðustu viku lækkaði Kaupþing innlánsvexti enn meira (í átt að vaxtastig hinna ríkisbankanna). Auk þess lækkuðu MP og Sparisjóðirnir, sem eru með hæstu innlánsvextina, einnig innláns- og útlánsvexti sína.
Þegar að ég leit á yfirlit mitt áðan í heimabanka mínum í Landsbankanum sá ég að innlánsvextir af krónum mínum þar eru 6,70% og útlánavextir 14,65% færi ég í yfirdrátt. Fæ ég því ekki betur séð en að stýrivextir Seðlabanka Íslands séu botninn í lækkun vaxtastigs, nema ef vaxtarmunur inn- og útlána væri aukin enn frekar. Í dag talaði Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, um að ríkisbankarnir geti sjálfir ákveðið að lækka vexti í 5%.
Stýrivextir virðast því ekki þjóna hlutverki sínu í dag. Slíkt er e.t.v. ekki furða því fyrirkomulag þeirra sem nokkurs konar heildsöluverð til banka hefur að stórum hluta til brostið. Skýringin felst í skilgreiningu þeirra að neðan sem er tekin beint af heimasíðu SÍ.
Lán gegn veði - stýrivextir Seðlabanka Íslands
Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru þeir vextir sem ætlað er að hafa áhrif á aðra vexti í landinu. Stýrivextir eru vextir á lánum gegn veði á milli Seðlabankans og lánastofnana. (Áður gekk þetta undir nafninu endurhverf verðbréfakaup - víða kallað REPO, sem er dregið af enska heitinu repurchase agreement. ) Lán gegn veði eru nú til 7 daga í senn. Hvati viðskiptanna er að lánastofnanir þurfa stundum laust fé í takmarkaðan tíma og geta fengið frá Seðlabankanum gegn veði í verðbréfum. Lánastofnanir geta þannig tryggt lausafjárstöðu sína, en um leið hefur Seðlabankinn áhrif á vaxtastigið í landinu með því að ákveða vextina í þessum viðskiptum, því að lánastofnanirnar þurfa að fá jafnháa eða hærri vexti af fjármagninu (með því að lána féð áfram til viðskiptavina) til að tapa ekki á viðskiptunum við Seðlabankann.
Er líklegt að íslenskir bankar verði í framtíðinni á kafi í endurhverfum endurkaupum? Eftir allar þær afskriftir sem hafa átt sér stað vegna þeirra við hrun bankakerfisins tel ég að slíkir gjörningar verði í lágmarki.
Auk þess hefur aukin gagnrýni beinst gegn stýrivöxtum almennt verið að eiga sér stað. Ljóst er að í Bandaríkjunum og öðrum mörkuðum voru þeir stöðugt lækkaðir þó svo að sparnaður væri stöðugt að minnka. Eðlilegar hefði verið að örva sparnað með hækkun vaxta. Á Íslandi voru þeir hins vegar bitlausir vegna aðhaldsleysi stjórnvalda í peningamálum. Því er eðlilegt að spyrja, hvaða hlutverki þjóna stýrivextir? Væri ekki einfaldlega nær að framboð og eftirspurn fjármagns ráði ríkjum og umræða um hvar stýrivextir eigi að vera heyri sögunni til?
Ég er með skoðanakönnun (efst á síðu, til hægri) um hvar stýrivextir eigi að vera. Með ofangreindum rökum ætti spurningin e.t.v. að vera hvar líklegt sé að jafnvægisvextir séu, það hvar jafnvægi næst í sparnaði og útlánum. Bið alla að taka þátt í þessari könnun og helst skrifa skoðanir sínar af hverju vextir eigi að vera á ákveðnu bili og bæta við athugasemdum varðandi skrif mín í leiðinni.
Að lokum: Ég skrifa 1-2 færslu í hverri viku. Þeir sem vilja geta sent mér skeyti á marmixa@yahoo.com og beðið um að vera á póstlista. Í hvert sinn sem ég skrifa nýja færslu sendi ég stutt skilaboð. Þeir sem nú þegar eru á listanum ættu að fá meldingu, ef ekki, vinsamlegast látið mig vita.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 27.5.2009 kl. 10:50 | Facebook
Athugasemdir
Ég er þeirrar skoðunar Már, að ekki aðeins eigi að leggja niður stýrivexti heldur einnig seðlabanka. Vextir eiga að ráðast af framboði og eftirspurn eftir fjármagni og það skeður einungis með peningakerfi myntráðs og reglu-bundinni peningastefnu.
Seðlabankar eru gamaldags ríkisstofnanir sem ekki bara hafa einokun á peningaútgáfu, heldur eru einnig með sífelld inngrip í peningamarkaðinn. Á endanum gera þeir alltaf dýrkeypt mistök, sem almenningur fær að blæða fyrir. Að auki er stórkostleg hætta á að þeir komist undir stjórn glæpamanna sem notfæra sér aðstöðuna til að sópa til sín fjármunum.
Kveðja.
Loftur Altice Þorsteinsson, 26.5.2009 kl. 00:12
Sæll Már,
Þetta er góð samantekt hjá þér og mjög áhugaverð umræða. Eins og þú veist að þá hef ég búið erlendis sl 14 ár og því horft á íslenska "efnahagsundrið" utan frá, oft með undrun, stundum með skelfingu en því miður sjalda með aðdáun - en það er annað mál. Ég vil horfa á þessa umræðu út frá einstaklingum en ekki fyrirtækjum því fyrirtæki hafa mismunandi möguleika á að fjármagna starfsemi sína sem einstaklingar hafa ekki.
Sú ákvörðun íslenskra stjórnvald að fela Seðlabanka Íslands umsjón með vaxtastigi í landinu var án efa rétt svo langt sem það náði og kannski nauðsynleg í alþjóðlegu samhengi til að sýna umheiminum að vaxtamál þjóðarinnar væri ekki í höndum stjórnmálamanna.
Hinsvegar tel eg að það sé grundvallar hugsanavilla í þessari stefnu hvað Ísland varðar. Ein helsta notkun á stýrivöxtum erlendis (UK og US sem ég þekki best til) er að auka eða draga úr neyslu og þennslu í þjóðfélaginu á hverjum tíma og þar með hafa bein áhrif á þróun verðbólgu. Þetta virkar svona:
A. Hækkun á stýrivöxtum. Einstaklingar með lán hefur minni pening aflögu til annarrar neyslu í hverjum mánuði og aðrir einstaklingar auka sparnað sinn. Neysla dregst saman, sparnaður eykst, og þrýstingur á verðbólgu minnkar.
B. Lækka stýrivexti. Einstaklingar með lán hafa meira til aflögu og eyðsla þeirra eykst, einstaklingar með sparnað minnka sparnað sinn og auka eyðslu. Neysla eykst og þrýstingur á verðbólgu vex.
Það má gagnrýna hversu vel Seðlabönkum erlendis hefur tekist þetta verkefni, en það er annað mál. Það sem skiptir mestu máli er að þetta stjórntæki svín virkar í löndum þar sem öll lán og innlán til einstaklinga eru háð stýrivöxtum Seðlabanka viðkomandi lands eins er hér í Bretlandi. Áhrif af vaxtabreytingum skila sér mjög fljótt út í efnahagskerfið.
Á Íslandi eru (voru) öll helstu lán til einstaklinga verðtryggð (húsnæðislán og önnur lengri lán). Stýrivextir Seðlabanka hafa engin áhrif á vaxtastig þessara lána, því kostnaður við þau eru fyrst og fremst háð verðbólgunni í landinu. Þegar draga þurfti úr þennslu á Íslandi fyrir nokkrum árum og Seðlabankinn fór að hækka stýrivexti í landinum, þá hafði það engin áhrif á neyslu einstaklinga því mánaðarlegar afborganir af húsnæðislánum þeirra breyttist lítið sem ekkert. Verðbólguþáttur lánanna er nefnilega endurlánaður að stórum hluta til lántakandans skv. skilmálum lánsins. Jafnframt sú ákvörðun stjórnvalda að heimila íslensku bönkunum að lána einstaklingum langtímalán með gengistryggingu var síðan viðbótar þennsla sem stýrivextir Seðlabanka Íslands höfðu engin áhrif á. Það eina sem stýrivextir höfðu áhrif á var að auka "carry trade" til Íslands þegar þörf á henni var það síðasta sem Ísland þurfti.
Á meðan öll lán til einstaklinga eru bundin verðtryggingu annarsvegar og erlendum gjaldmiðlum hinsvegar, þá hafa stýrivextir Seðlabankans mjög takmörkuð/lítil áhrif hvað varðar efnahagstjórnun landsins til að hafa áhrif á þróun verðbólgu. Í þeim skilningi hafa stýrivextir engin áhrif.
Þetta er í raun og veru spurning um hvort menn vilji hafa stýrivexti eða verðtryggingu. Grunnvandi íslenskts efnhagslífs er verðtryggingin og erlend lán einstaklinga en ekki stýrivaxta stefna Seðlabankans.
Það sem þarf að gerast á Íslandi núna er þetta:
1. Afnema verðtryggingu án tafar og binda öll lán miðað við stýrivexti Seðlabanka + ákveðið % álag (t.d. 1-1.5%).
2. Skuldbreyta öllum gengistryggðum lánum einstaklinga yfir í krónulán með sama hætti og 1.
3. Afskrifa hluta höfuðstóls húsnæðislána hjá einstaklingum sem ekki geta staðið undir núverandi greiðslubyrði þeirra í samræmi við ákveðna hlutfallslega greiðslubyrði (í US er greiðslubyrgðin miðað við max ca. 30% af ráðstöfunartekjum, í Bretlandi 3.5 - 4.0 sinnum heildarárslaun fyrir 25 ára lán). Í þeim tilfellum þar sem það er ekki fýsilegt, þarf viðkomandi einstaklingur að lýsa sig gjaldþrota.
4. Skuldbinda lífeyrissjóði landsins til að flytja erlent fjármagn sitt til Íslands (gjaldeyrir heim) og styðja þannig við uppbyggingu á íslensku atvinnulífi (en ekki erlendu atvinnulífi).
Bestu kveðjur,
Birgir
Ps. Afsakið hversu löng þessi athugasemd er, en þetta er stórt mál hinsvegar og þarf að skoðast í víðu samhengi.
Birgir Gislason (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 11:57
Mín skoðun er að umsvifalaust eigi að keyra stýrivexti niður í 3-4% og síðan að fella þá alveg niður innan árs
Ísleifur Gíslason, 26.5.2009 kl. 14:20
Birgir. Gríðalega góð grein hjá þér. En við þetta má bæta að stírivextirnir voru hækkaðir allt of seint. Krónubréfaútgáfa bankanna án nokkurra hafta. Og lágir vextir (japan og sviss) og því kjörið tækifæri á að selja jen fyrir krónur þ.e. carry trade. Svo má líka velta því fyrir sér hvort virkjunar menn hafi ekki viljað halda krónunni sterkri.
Hörður Valdimarsson, 26.5.2009 kl. 14:24
Sæll Már og takk fyrir greiningarnar (er ekki búinn að lesa þær allar, bara rétt líta yfir þær, en mun lesa þær betur í framhaldinu. Hvet ég fólk til að gera það líka).
Þú spyrð hvort stýrivextir séu nú úrelt fyrirbæri hérlendis sem standi í vegi fyrir vaxtalækkunum hér.
Í stuttu máli gæti svarið falist í eftirfarandi einfaldaða dæmi: EF framboð af sparnaði og eftirspurn eftir lánsfé væru látin ráða vaxtastigi, innlendur lánsfjármarkaður væri lokaður (eins og nú er með gjaldeyrishöftum) og gengisáhætta vegna erlendra lána þar með ekki með í dæminu, þá reynir ekki mikið á stýrivexti Seðlabankans.
Málið snýst um hvort opið sé fyrir lánsfé inn í hagkerfið til banka og almennings, eða ekki. Ef hagkerfið (og lánsfjármarkaðurinn) er lokað og magn útlána banka þá alfarið háð innlánum eða sparnaði sparifjáreigenda og fyrirtækja, og vaxtastig látið ráðast af framboði sparifjár og eftirspurn eftir lánsfé þá spila stýrivextir Seðlabankans ekki stórt hlutverk. Í eðlilegum rekstri undir þeim forsendum myndu bankarnir þá ekki þurfa að notfæra sér lán í Seðlabankanum nema til að hlaupa undir bagga tímabundið hverju sinni með lausafé. Vaxtakostnaður banka vegna slíkra skyndilána í Seðlabankanum myndu þá ekki vega þungt í kostnaði þeirra. Þar liggur hundurinn (lánabólu)grafinn.
Dæmi um svona aðstæður að nokkru leyti er sparisjóður úti á landi sem var í sjónvarpsfréttum rúv s.l. vetur, sem ekki varð fyrir barðinu á bankahruninu vegna þess að hann hagaði sér eins og ábyrgur og varfærinn sparisjóður á sínu svæði: tók á móti sparnaði viðskiptavina og ávaxtaði hann með varfærinni útlánastefnu á starfssvæði sínu sem tók mið af arðsemi fjárfestingarvalkosta og greiðsluhæfi lántakenda.
Að öðru leyti vísa ég til ítarlegri útskýringar á þessu með dæmi á bloggsíðu minni, til að lengja ekki málið úr hófi hér.
Kristinn Snævar Jónsson, 26.5.2009 kl. 17:52
Ég þakka góð innlegg í umræðuna. Ætla ekki að svara þeim efnislega hér en fæ að vitna í þessi orð á næstunni.
Már Wolfgang Mixa, 27.5.2009 kl. 10:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.