Vilt þú ávaxta fé þitt betur... án þess að auka áhættu?

Margir sem eiga pening inn á bankabók gætu ávaxtað fé sitt miklu betur í dag með einföldum hætti.  Eftirfarandi tilkynning frá Íslandsbanka gefur vísbendingu af hverju:   Íslandsbanki hefur ákveðið að lækka útláns- og innlánsvexti bankans frá og með 11. maí nk. Þetta hefur í för með sér að vextir á óverðtryggðum inn- og útlánum lækka um 1,0 - 6,4 prósentustig og vextir á verðtryggðum inn- og útlánum lækka einnig um 0,95 - 1,00 prósentustig. 

Það sem ekki kemur fram er að;

  • vextir útlána lækka lítið
  • vextir óverðtryggðra innlána lækka mikið, líklegast allt að 6,4%! 

Þetta er langt umfram þeirri stýrivaxtalækkun sem nýlega átti sér stað.  Það gefur einnig auga leið að þetta eykur vaxtamun gífurlega og sýnist mér í fljótu bragði hann vera kominn á svipaðar slóðir og hann var í kringum 1995.

Flestar aðrar íslenskar fjármálastofnanir hafa lækkað innlánsvexti á svipuðum nótum.  Miðað við að þú eigir inn á bók 5 milljónir og eina krónu (með engan eða stuttan binditíma) færð þú eftirfarandi vexti* á peninga þína:

Byr                      10,90% (PM) til 11,48% (Net12)

Landsbanki         9,55% (Vaxtareikningur)

Kaupþing             9,00% (Markaðsreikningur)

Íslandsbanki       7,90% (Vaxtaþrep)

Mismunurinn er töluverður, t.d. 3% á milli PM reiknings Byrs og Vaxtaþrep Íslandsbanka.  Hann er þó lítill samanborið við netbanka Byrs, S24.  Þar færð þú, miðað við ofangreindar forsendur, á Sparnaðarreikningi 12,70% í vexti!  Mismunur á ávöxtun fjármagns í S24 og Íslandsbanka er 4,8% á ári.  Miðað við að 5 milljónir séu inn á reikningi fær sá sem geymir fjármagnið hjá S24 240 þúsund krónur á ári (fyrir fjármagnsgjöld) meira en sá sem geymir fjármagn sitt hjá Íslandsbanka.  Í ljósi þess að nú er ríkistrygging á öllum innstæðum íslenskra fjármálastofnanna fæst þessi mismunur í ávöxtun með sömu áhættu.

Þessi mismunur og þróun vaxtamunar er efni í aðra grein.  Fjalla ég um málið síðar í vikunni en það er skylt leiðaragrein minni sem birtist í helgarblaði Fréttablaðsins á laugardaginn.

Rétt er að taka fram að ofangreint flokkast ekki sem fjármálaráðgjöf og einnig að ég hef ekki hagsmuna að gæta við þessi skrif.

*Vaxtatöflur voru uppfærðar hjá öllum þessum fjármálastofnunum 11.5.2009

Viðbót:  MP banki - vextir samkvæmt ofangreindum forsendum eru 12,5%.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Samkvæmt þessu er nokkuð augljóst hver er besti kosturinn fyrir vörslu sparifjár. Einhverntíma hefði 12,5% þótt afbragðs góð ávöxtun á ríkistryggðum fjármunum, hvað þá með stuttum eða engum binditíma.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.5.2009 kl. 08:54

2 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Rétt, spurningin er hversu lengi slíkt varir.  Vextir þurfa að lækka en aðalvandi flestra eru erlend lán og hækkun verðtryggingar.  Fjalla nánar um þetta seinna, mwm

Már Wolfgang Mixa, 19.5.2009 kl. 09:14

3 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Sæll Már,

Ekki veit ég hvað þú átt við með skrifum þínum í fréttablaðið þar sem þú mærir hávaxtastefnuna og hvetur til sparnaðar og aðhalds. Einkaneysla landsmanna er líklega að dragast saman um 45%, fjárfesting er engin og ásókn í útlán hverfandi. Bankarnir vita að engin rekstur borgar til lengdar þá vexti sem nú eru og leggja innlán landsmanna inn í Seðlabanka Íslands. Ríkið getur svo borgað vextina með skatttekjum eða skuldabréfaútgáfu. Þar sem flestum er ljóst að skatttekjum hefur verið ráðstafað stendur skuldabréfaútgáfan eftir. Getur þú sett þetta í vitrænt samhengi ?

Arnar Sigurðsson, 19.5.2009 kl. 15:19

4 Smámynd: Liberal

a) bankar sem bjóða 12.5% ávöxtun á innlán, en fá sjálfir 9.5% innlánsvexti hjá Seðlabanka Íslands eru að borga með innlánum 300 punkta á ári.  Fyrir hverja milljón sem slíkur banki tekur í innlán, þá TAPAR hann því 30þ á ári í hreinan vaxtamun.  Ég veit ekki með þig, en ég væri lítið til í að setja sparnaðinn minn til fyrirtækis þar sem þetta er viðskiptamódelið, hvað sem líður ríkistryggingu.

b) ríkistrygging innlána er ekki bundin í lög, við búum enn við hámarks innistæðutryggingu upp á 3 milljónir.  Allt umfram það er bara "tryggt" með orðum stjórnvalda.  Ef banki tekur við innlánum og fer á hausinn, þ.e.a.s. glatar peningum þeim sem hann hefur fengið frá sparifjáreigendum, er líklegt að ríkið komi til bjargar, en sá kostnaður fellur á alla.  Viltu ekki frekar setja fjármagnið á sem öruggastan stað hverju sinni?  Allsherjar ríkistrygging myndi setja landið á hausinn.

c) Sparifé er miklu kvikara fjármagn en skuldir, þeir sem eiga innlán geta fært þau á milli reikninga tiltölulega auðveldlega (á milli óbundinna reikninga), en þeir sem eru með útlán geta ekki fært þau á milli útlánaforma að öllu jöfnu.  Vaxtalækkun á útlánum hefur því meiri jákvæð áhrif út í samfélagið en vaxtalækkun innlána hefur slæm áhrif.

d) Þessi mikli munur á milli innlánskjara er líklegast tímabundinn, spurning um einhverja daga eða vikur þangað til allir markaðsaðilar bjóða svipuð kjör, þannig að hagur sparifjáreigenda að færa sig á milli er lítill miðað við mögulegt umstang.  Ef hins vegar einhver sker sig úr hefur sá hinn sami fundið upp eilífðarvél peningaframleiðslu eða er að stunda viljandi taprekstur í von um að ríkið bjargi sér þegar allt hrynur. 

Liberal, 19.5.2009 kl. 16:37

5 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Það er verst hversu seint síðustu 2 athugasemdir komu, flestir búnir að lesa þessa færslu og nenna því vart aftur.  Stundum hef ég rangt fyrir mér í ræðu, riti og viti, og vil því heyra gagnrýnisraddir þó svo að ég hafi ekkert á móti "góð grein" athugasemdum.  Megin tilgangur þessa greinar var að benda á misræmi í vöxtum á bankainnstæðum og hefði ég hugsanlega betur beðið með skírskotanir án þess að klára söguna.

Arnar - Ég er ekki að mæra háa stýrivexti en bendi á að stjórnvöld hafi haft peningastefnu sem dró úr áhrifum sífellt hærri stýrivaxta.  Ég kíkti á heimasíðu þína og þar segir þú.  ...Allir ættu að geta séð að háir stýrivextir hafa engin áhrif á þessa þætti og því ætti að lækka vexti hér mikið og hratt.  Við erum (því líklegast) sammála um að stýrivextir hafi verið bitlausir og tekur Kaarlo Jannari undir þau sjónarmið í skýrslu sinni um íslenskt fjármálakerfi, sjá síðu 14.  Ég sjálfur tel að stýrivextir eigi að lækka hraðar, eina skýring mín á því að þeir hafi ekki gert það er að SÍ hefur í gegnum tíðina beðið eftir að hagtölur séu á blaði áður en gripið er til aðgerða. 

Að lækka stýrivexti í 2-3% í árslok sem veitir hugsanlega neikvæða vexti er aftur á móti heldur ekki heilbrigt að mínu mati, ekki nema að verðbólga sé nánast komin niður í núllið.  Þá er ríkið einungis enn á ný (hugsanlega) að skekkja myndina.

Það liggur nánast í hlutarins eðli að SÍ borgi lægri vexti en bankar.  Það er einn sparisjóður sem hefur komist í fréttirnar við að fá svo mikið fjármagn inn til sín að hann veit ekki hvað hann eigi við fjármagnið að gera - svo það fer til SÍ, ekki góð viðskipti.  Það kæmi mér hins vegar verulega á óvart ef íslenskir bankar syndi nánast í seðlum og hafi ekkert annað að gera við þá en að leggja þá inn til SÍ.

Bendi á þessa grein með von um þetta nálgist frekar vitrænu samhengi (plássið í Fréttablaðinu er takmarkað) - http://andriki.is/default.asp?art=07052009 - lágir stýrivextir, eða öllu heldur aðhaldslaus peningastefna, er til lengri tíma slæm stefna.

Liberal - liður a, sjá að ofan.  Liður b, skrifaði nú er á undan því í raun getur það breyst 1,2 og 3.  Ef einn banki hins vegar fer á hausinn og ríkið dregur til baka orð sín þá er kerfið í heild hvort er eð hrunið (það er, hrunið á nýjan leik).  Þú hefur mikið til þíns máls í liðum c & d, kem ég væntanlega/vonandi eitthvað inn á það í frekari umfjöllun.  Þetta með eilífðarvél peningaframleiðslu er snilld. 

Már Wolfgang Mixa, 19.5.2009 kl. 22:05

6 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Sæll Már,

Gott að þú ert ekki sáttur við hávaxta og jöklabréfastefnuna en það er talsverður munur á 2-3% vöxtum og 13%. Að tala um að slík vaxtalækkun væri óráð "ekki nema að verðbólga sé nánast komin niður í núllið"

Þarna fellur þú í sömu gryfju og margir að tala um 12 mánaða verðbólgu afturvirkt. Stýrivöxtum er ætlað að hafa áhrif til framtíðar en ekki afturvirkt og því skiptir 12 mánaða verðbólga engu máli. Annað sem þarf að hafa í huga er vaxtamunur sem nú er 13 faldur samanborið við Evru og 26 faldur á við Svíþjóð og Bretland! Það var jú vaxtamunurinn öðru fremur sem var undirstaða jöklabréfastefnu seðlabankans og rústaði gjaldmiðlinum.

Ítreka að ég er þér gersamlega ósammála með að "Í dag þarf að draga úr neyslu og ætti áherslan í þjóðfélaginu að vera á að minnka skuldir og fara jafnvel að spara á nýjan leik."

Við þurfum miklu frekar á hvetjandi peningastefnu að halda rétt eins og allar aðrar þjóðir!

Arnar Sigurðsson, 20.5.2009 kl. 11:48

7 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Sæll Arnar, ég er að tala um verðbólgu frekar á nokkrum mánuðum, ekki ári.  Verðbólga getur ekki tekið mið af spám en 12 mánaða afturvirk verðbólga er að mínu mati vel í lagt, sérstaklega núna.  Við verðum ósammála um peningastefnu að sinni í það minnsta.  Már

Már Wolfgang Mixa, 20.5.2009 kl. 12:11

8 Smámynd: Snjalli Geir

Ef það var horft á verðbólguna í baksýnisspeglinum þegar hún var að hætta og ekki mátti tala um 36% verðbólgu í mars 2008 þá skulum við bara halda okkur við baksýsnispegillin. Þjóðin er orðin full södd á að láta mata sig endalaust og það verður að koma með hlutina upp á borðið. 

Ég var vitni að kreppunni í Asíu 1997.  Í dag er verðbólgan í Thailandi á fullri ferð (opinber mæling er ca 5 til 6%) en í raun er hún miklu meiri.  Innlánsvextir eru 0,75% til 3% (með nokkura ára bindingu).  Engin verðtrygging.  Um það bil helmingur innlána er á 0,75% vöxtum.  Það sama er að gerast hér. Útlánsvextirnir eru allt að 12 til 15% takk fyrir.

Stýrivextir sem eru lægri en verðbólgan eru bara peningagjöf til bankanna frá Seðlabankanum.  Erlendir seðlabanka geta reddað þessu með seðlaprentun en við höfum því miður ekki efni á því.  

Spariféið verður lagt á verðbólgubálið til þess að bjarga bönkunum.  Við höfum upplifað það áður og sagan mun endurtaka sig.

Það er nú þegar byrjað að svindla á verðbólgumælingunni og það er búið að hafa 0,2% af verðtryggðum innlánum nú þegar.  Meira svindl er á leiðinni.

Spurningin er hvort að íslenskir sparifjáreigndur láta bjóða sér?

Snjalli Geir, 22.5.2009 kl. 09:04

9 Smámynd: Snjalli Geir

Smá leiðrétting.

"Þegar hún var að hækka"

og "ekki mátti ala um 26% verðbólgu" 

Snjalli Geir, 22.5.2009 kl. 09:10

10 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Geir, hefði einhver labbað í banka árin 2006-2007 og beðið um óverðtryggt húsnæðislán þá hefði uppgefin vaxtaprósenta verið það há að bankastarfsmaðurinn hefði hugsanlega/líklega lent í svívirðingum. Því var bent á verðtryggð lán eða erlend lán, enda ekki nokkur leið að vita hvenær fall krónunnar ætti sér að lokum stað.  Raunverulegir vextir voru því orðnir miklu hærri en hátt innlánavaxtastig gaf til kynna.  Því er það rétt hjá þér, það verður að koma með hlutina upp á borðið.

Við náum tökum á efnahagslífinu með því að fjárfesta og lána rétt.  Sigurjón orðar þetta betur en ég geri hérna.

Már Wolfgang Mixa, 22.5.2009 kl. 10:04

11 identicon

Sýnist MP vera búinn að lækka niður í 10,10%

Tómas (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 14:07

12 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Vaxtasamanburðurinn í þessari grein varð ótrúlega fljótt úreltur!

Már Wolfgang Mixa, 24.5.2009 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband