Hvað er?

Titillinn á þessum pistli var eina spurningin sem lögð var fyrir nemendum á lokaprófi í einum heimspekibekknum í háskólanum í Arizona á námsárum mínum þar.  Spurningin virðist vera út í bláinn en er í fjármálum spurning sem of sjaldan er spurð.  Í þeim heimi er of oft gert ráð fyrir að reynsla gærdagsins endurspegli raunveruleika morgundagsins.  Grein mín sem birtist í laugardagsblaði Morgunblaðsins, Viðskiptafræði á rangri braut?, fjallar um einsleitni og skort á gagnrýnni hugsun sem hefur skotið rótum í heimi fjármála síðustu áratugi.  Slíkt á ekki einungis við um bankamenn, heldur einnig alla sem tengjast fjármálum með einum eða öðrum hætti, s.s. eftirlitsaðila og löggjöfina.  Þessi hugsun hefur áhrif á allt þjóðfélagið og í tilfelli Íslands endaði slíkt með hræðilegum afleiðingum, algengasta dæmið meðal einstaklinga er erlendar lántökur.   

Erlend lán

Í greininni kemur fram að algengustu rökin með erlendum lántökum hefðu verið að sérfræðingar vitnuðu í gröf sem gáfu til kynna stöðugleika krónunnar og að allir ráðgjafar og sérfræðingar mæltu með slíkum lánum.  Prósenta sem oft heyrðist sem hámark þess sem einstaklingar gætu til skemmri tapað væri 30%.  Það er sú prósenta sem krónan hafði veikst mest á stuttu tímabili síðustu tíu árin.  Því lengur sem slík þróun á sér stað í hringiðu hárra vaxta og sterkri krónu, þeim mun fleiri fara að trúa því að krónan veikist ekki nema að ákveðnu marki.  Varnaðarorð Warren Buffett um að vera hrædd(ur) þegar að allir aðrir eru bjartsýn(ir) hefðu mátt vera háværari. 

Fortíð – framtíð?

Þetta tengist hugtakinu Value at Risk (VaR) sem reiknar samkvæmt gögnum fortíðarinnar líkur á ákveðnu tapi í eignasafni innan ákveðins tímabils.  Gallinn við VaR er skemmtilega lýst í bók Roger Lowenstein When Genius Failed: The Rise and Fall of Long-Term Capital Management sem fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um sögu vogunarsjóðsins sem byggði velgegni sína á sögulegum líkönum.  Slíkt gekk vel á meðan að markaðir hegðuðu sér eins og þeir gera vanalega.  Þegar að fjárfestar fóru að hegða sér í ósamræmi við markaði hrundu forsendur líkanna þeirra og hófst atburðarrás sem endaði með hruni sjóðsins og litlu munaði að sjóðurinn tæki fjármálakerfi heimsins með sér í fallinu.  Samkvæmt líkönum sjóðsins voru líkurnar á slíku hruni vera svo litlar að lengra tímabil en tilvist jarðarinnar þyrfti til.  Lowenstein líkti VaR nálgun sem tól til að meta áhættu við ljósvita sem veiti skipum stöðugt öryggi, nema hvað að það slokknaði alltaf á honum þegar að óveður skullu á.*

Slíkt óveður skall á síðasta haust.  Þeir sem mesta ábyrgð bera á hruninu hafa stöðugt verið að benda á að sögulegt hrun hafi átt sér stað.  Þó að slík rök hafi eitthvað til síns máls þá er þetta ekki alveg rétt.  Vísitölur hlutabréfa í Bandaríkjunum hrundu með svipuðum hætti árin 2000-2003 og nú nýlega.  Gengi hlutabréfa í tæknigeiranum féllu miklu meira eða um 80%.  Sá maður sem er líklegast þekktastur fyrir að vara við því hruni, Robert Shiller, gaf út skyldulesninguna Irrational Excuberance um miðjan mars árið 2000, þegar að bólan náði hæstu hæðum.  Hann varaði nokkrum árum síðar við því að fasteignabólan sem væri að myndast hefði jafnvel enn verri afleiðingar.  Slíkt sást ekki með tölfræðinni einni saman, fleiri vísbendingar þurfti til.

Spurningar til að nýta þekkingu

 

Í grein minni segi ég að “ef réttar spurningar eru ekki til staðar um vitræna stefnu eru litlar líkur á því að góð tölfræðileg þekking sé að nokkru gagni”.  Þetta þýðir vitaskuld ekki að tölfræði sé óþörf heldur að notkunargildi hennar sé illa nýtt, jafnvel til vansa.  Dæmi um tölfræði notaða með röngum hætti eru vafningar undirmálslána sem þóttu vera tryggir fjárfestingarkostir og fengu gæðavottun hjá öllum matsfyrirtækjum.  Á svipuðum nótum hafa viðskiptafræðideildir í gegnum tíðina lagt mikla áherslu á kennslu fræða sem ekki einungis nýttast illa í hinum raunverulega heimi heldur afvegaleiðir hugsun margra um að fjármálamarkaðir hafi einhverskonar minni um fortíðina, sem þeir hafa ekki.  Það er ekki þar með sagt að ekki sé fjallað um mál með heildrænum hætti í kennslu, þar sem að margir prófessorar hafa misjafna skoðun á gildi sumra fræða sem kennd eru.  Til að uppfylla, hinsvegar, ákveðna (stundum meingallaða) staðla fer of mikil umræða í æfingar sem gera ráð fyrir að fjármálamarkaðir hegði sér samkvæmt bjöllulöguðum líkönum.  Í þessu felst ákveðin þversögn, til að vera samkeppnishæf deild í viðskiptafræðum þarf að kenna ákveðin fræði sem flestir prófessor hafa litla trú á, sé þeim kippt af námskrá er áhætta tekin um viðhorf til gildi námsins.

Svarið

Ég er feginn að hafa ekki tekið prófið í þessum heimsspekibekk því ég hefði svarað eins og langflestir, skrifað heilmikið um allt og ekkert.  Aðeins ein manneskja fékk 10 í einkunn.  Svarið (aðeins 2 orð) sem gaf fullt hús stiga var það sem að allir ættu að spyrja sig stöðugt varðandi fjármál, þ.e., hver veit?

 

*

Nassim Taleb kom nýlega með nokkur rök gegn notkun VaR.  Þau eru:

1. Litið er framhjá reynslu sem byggst hefur upp síðustu 2.500 árin og þess í stað notast við líkön byggð af mönnum sem hafa litla þekkingu í fjárfestingum.

2. Er sýndarmennska því slík aðferðarfræði gefur til kynna að hægt sé að áætla áhættu af sjaldgæfum viðburðum, sem er ómögulegt.

3. Veitir falskt öryggi.

4. Er misnotað af skammtímafjárfestum.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fyrir grein þína í laugardagsmogganum. Hún var mjög athyglisverð.

Sér í lagi fannst mér áhugavert - kannski af því að það staðfesti eigin grunsemdir - að stór hluti viðskiptafræðinga/viðskiptafólks virðist vanmenntað. Það kanná bókina, en ekki meir. Kunnátta í hag- og viðskiptasögu er ábótavant, heimspekileg nálgun að daglegum viðfangsefnum s.s. lánafyrirgreiðslu virðist í molum. Ráðleggingar um lántökur ofl. eru of oft gefnar gagnrýnislaust og vitneskja um eðli þeirra aðeins byggð á upplýsingum fengnum úr herbúðum lánveitanda/vinnuveitanda.

Það er greinilega víða pottur brotinn í þessum efnum og því þakkarvert að fá útleggingar á mannamáli eins og þú kemur oft fram með.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 21:40

2 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Takk Guðmundur, það eru ráðleggingar sem áttu sér stað skömmu fyrir hrun sem eru áhugaverðastar.  Hringt var í fólk til að flytja fé sitt í peningamarkaðssjóði og taka erlend lán, þetta verður (ekki)kennslubókar dæmi í framtíðinni. 

Már Wolfgang Mixa, 4.9.2009 kl. 15:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband