Mótbyr í séreignarsparnaði

Í upphafi árs lýstu Sjálfstæðismenn því yfir að tillögur um að einstaklingar gætu notað séreignarsparnað sinn til greiðslu á veðskuldum væru í farvatninu.  Nánar tiltekið - Árni M. Mathiesen verður fyrsti flutningsmaður frumvarps um greiðslu séreignasparnaðar, sem var að hans sögn fullsamið og tilbúið í fjármálaráðuneytinu í síðustu viku. Samkvæmt því verður heimilt að greiða út séreignarsparnað verði eftir því óskað til greiðslu veðskulda sem annarra skulda. Húsnæðis- og veðskuldabréf hafa þar forgang. Vörsluaðili sjái um greiðslu, haldi eftir tekjuskattsgreiðslum og sjái um að standa skil á þeim við ríkissjóð. „Þetta var eitt af þeim málum sem fyrrverandi ríkisstjórn hafði hugsað sér að leggja fyrir í lok janúar,“ sagði Árni. Sjá frétt í heild sinni hérna.

Lítið hefur bólað á þessari tillögu; fram komu mótbárur um að fjármálakerfið þoldi illa slíkan gjörning og neyddist jafnvel til að selja bréf á brunaútsölu, tillögur sem ég reyndar tel vera máttlausar (sjá að neðan).  Því var brugðið á það ráð að veita einstaklingum möguleika á því að fá smáskammta mánaðarlega.  Reynslan sýnir reyndar að aðsókn í slíkar útborganir eru minni en gert var ráð fyrir.

Nú gerist það að sömu aðilar og lýstu þessu yfir í upphafi árs vilja nú skattleggja séreignarsparnað fólks.  Í fyrstu hélt ég að verið væri að ræða um nýjar greiðslur í slíkan sparnað, sem er skiljanleg stefna.  Nei, það á að skattleggja alla inneignina (þetta er dregið vel saman hér).  Meðfylgjandi frumvarpinu er lausn varðandi útborgun sem í stuttu máli felur í sér að vörsluaðilar gefi út skuldabréf fyrir upphæðinni sem greiða skal ríkissjóði.

Það eru nokkur atriði við þetta sem ég er ósáttur með.

Forsendubrestur - forsendur margra við að leggja sparnað til hliðar í slíkan sparnað eru brostnar, skatthagræðing er ekki lengur til staðar.  Raunar lenda margir í því að þurfa nú að borga almennan skatt af ávöxtun sinni í stað fjármagnstekjuskatts.  Fyrir hverjar 100 krónur sem ávaxtast t.d. í ár þarf að greiða yfir 40% í skatt í stað 10-18%.  Þetta væri ásættanlegt fyrir langtímafjárfesta (lífeyrissparnaður er í eðli sínu í flestum tilvikum langtímasparnaður) því þeir hafa notið skattahagræðis af ávöxtun sinni í mörg ár.  Að tekjufæra ávöxtun sparnaðar með þessum hætti núna breytir þá forsendu. 

Skilaboð - enn einu sinni eru skilaboðin þau að hinir skuldugu munu landið erfa:  Sparnaður borgar sig ekki.  Verið er að flytja sparifé fólks yfir til málaflokka s.s. vaxtabóta sem hvetja til skuldasöfnunnar.  Var vandamálið að fólk væri að spara of mikið?  Var það ekki öfugt? 

Hver greiðir fyrir endurreisn Íslands - þetta tengist liðunum að ofan; svarið er ekki þeir skuldugu heldur þeir sem lagt hafa pening til hliðar í viðbótarsparnað.

Óskandi væri að meiri áhersla væri lögð á að eigendur séreignarsparnaðar gætu notað hann til greiðslu veðskulda.  Með því væri upphæðin skattlögð samkvæmt þeirra eigin vilja sem þýðir að um 40% upphæðarinnar til greiðslu veðskulda færi í til ríkisins.  Eigendur veðskulda væru í flestum tilfellum sömu aðilar og vörsluaðilar séreignarsparnaðarins, einföld nettun væri því að eiga sér stað.

Hér er grein sem birtist í Viðskiptablaðinu í febrúar á þessu ári þar sem ég kem fram með rök um að útborgun séreignarsparnaðar ætti ekki að vera vandamál - http://www.slideshare.net/marmixa/sreignarsparnaur-fjtrum

Sjá hér greinina Hinir skuldugu munu landið erfa þar sem ég gagnrýni vaxtabótakerfið (tel þar að áherslan eigi að vera á þá hópa sem mest þurfa á aðstoð að halda, ekki að hvetja eigi til skuldasöfnunnar) - http://www.slideshare.net/marmixa/hinir-skuldugu-munu-landi-erfa

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband