LIBOR & peningaþvætti
24.8.2012 | 00:12
Tvær fréttir hafa verið mest áberandi í sumar varðandi bankastarfsemi. Önnur fjallaði um LIBOR svindl og vakti töluverða athygli og nú nýlega önnur frétt varðandi peningaþvætti. Ég er undrandi á því hversu mikla athygli LIBOR fréttin fékk á meðan að frétt um peningaþvætti virðist vera minna áberandi.
LIBOR
LIBOR fréttin gekk í stuttu máli út á það að bankar svindluðu á því hvaða kjör þeir voru að fá í millibankaviðskiptum í hamaganginum þegar að fjármálakerfi heimsins hrundi, næstum því endanlega fyrir marga stóra banka, haustið 2008. Skilja má af fréttaflutningi að margir starfsmenn bankastofnanna hafi vísvitandi veitt rangar upplýsingar um kjör bankanna til að hagnast á ástandinu sem ríkti á þeim tíma. Þessi nálgun er þó ekki í samræmi við einhvern raunveruleika.
LIBOR vextir eru ekki ákvarðaðir miðað við viðskiptakjör banka heldur frekar hvað bankar telja að kjör sín verði. Meðaltal nokkurra banka í London er fengið af slíkum kjörum miðað við mismunandi myntir og tímalengdir. Þetta kerfi gengur snuðrulaust hér um bil alltaf. Kerfið hrynur hins vegar örugglega án undantekninga þegar að mikil hræðsla gengur yfir á fjármálamörkuðum. Bankamenn sem veita upplýsingar um vænt kjör sem eru hærri en aðrir bankar veita gefa höggstað á sér.
Í ástandi eins og ríkti haustið 2008 hefði nær örugglega frést fljótlega innan bankageirans ef einhver banki gerði ráð fyrir hærri vaxtakjör heldur en flestir aðrir bankar gerðu ráð fyrir. Ástandið var þannig að flestir bankar hreinlega lánuðu ekki peninga sín á milli og því vart annað en ágiskanir hvort er eð hvaða kjör hefðu ríkt (íslensk millibankaviðskipti höfðu verið óvirk svo mánuðum skipti fyrir hrun). Slíkar upplýsingar hefðu getað fljótlega undið uppá sig og leitt til fjárskorts á afar stuttum tíma. Það hafði raunar gerst aðeins nokkrum mánuðum áður þegar að Merrill Lynch varð gjaldþrota á aðeins nokkrum dögum vegna orðróms um slaka lausafjárstöðu (því hefur verið haldið fram að einhverjir fjárfestar með skortstöðu í hlutabréfum fyrirtækisins hafi komið orðróminum af stað). Því var eðlileg tilhneiging hjá bankamönnum að veita lægri tölu en raunin var (ef menn vissu yfir höfuð hver raunin væri); kerfið eins og það er sett upp hreinlega býður uppá slíkt.
Nú er ég ekki að mæla með því að verið sé að veita rangar upplýsingar. Ef kostirnir eru hins vegar að veita nákvæmar upplýsingar (eða ágiskanir um slíkt) sem leiða hugsanlega til falls banka (meðal annars vegna þess að aðrir veita ekki nákvæmar upplýsingar og bjarga þannig þeim bönkum) eða koma með tölur sem fela í sér óeðlilega bjartsýni miðað við ástandið (aftur, eða ágiskun um bjartsýna tölu) en leiða hugsanlega til falls banka (sem gæti þó verið almennt í góðum málum), þá hlýtur að vera hægt að setja spurningarmerki við hvað flestir í slíkri stöðu gerðu.
Því skil ég ekki af hverju fréttaflutningurinn af þessu máli varð jafn heiftugur og raun bar vitni. Ef það reynist rétt að einhverjir starfsmenn hafi persónulega hagnast á slíku þá er það auðvitað glæpsamlegt. Enn sem komið er hef ég ekki rekið augun í slíkan fréttaflutning. Það þarf aftur á móti að miða við viðskipti á milli aðila við að ákveða kjör sem hafa jafn gríðarleg áhrif og LIBOR vextir. Að hringja í aðila og spyrja hvað þeir telji að kjörin séu er forneskjuleg aðferð og mun alltaf veita bjagaða mynd þegar að fjármálaheimurinn lendir í lausafjárkrísu.
Peningaþvætti
Hin fréttin fjallar um peningaþvætti; fyrst var Standard Chartered Bank var sakað um að hafi staðið að peningaþvætti í starfsemi sinni og síðan hafa aðrir bankar bæst í hópinn. Standard í fyrstu harðneitaði slíkum ásökunum bandarískra stjórnvalda og lýsti meira að segja borgarstjóri Lundúna því yfir að Bandaríkin væru að ráðast á fjármálamarkaði borgarinnar með slíkum ásökunum. Ekki liðu þó margir dagar þangað til að Standard greiddi sekt fyrir athæfið án þess að viðurkenna sök.
Sektin er ekki afgangsstærð, heldur $430. Það eru í rúmlega 50 milljarða króna, sem samsvarar byggingarkostnaði Hörpunnar og margra ára tapi við rekstur hennar. Getur verið að stór hluti af bankastarfsemi jafnvel stærstu banka Evrópu hafi tengst peningaþvætti? Þetta hlýtur hreinlega að vera frétt ársins í bankageiranum, en virðist einhvern vegin vanta persónugervingu til að ná athygli almennings.
MWM
Ég var í viðtali í Speglinum á þriðjudaginn vegna íslensku krónuna í umhverfi gjaldeyrishafta. Hægt er að nálgast upptöku af viðtalinu hér - http://www.ruv.is/sarpurinn/spegillinn/20082012/gengi-kronunnar-og-hvad-styrir-thvi
OR bjöllur farnar að heyrast
29.3.2011 | 20:58
"Heildartekjur OR voru ekki nema 26 milljarðar á síðasta ári. Tekjur sem hlutfall af eignum eru því í besta falli tæp 11%. Skuldir OR eru um 230 milljarðar, miðað við lánshæfismat fyrirtækisins fer líklegur framtíðar vaxtakostnaður OR hátt í sömu upphæð og heildartekjur þess eru í dag."
Þetta skrifaði ég í grein hér fyrir tæpu ári síðan. Þarna er auðvitað sagt að rekstur OR gæti með engum hætti staðið undir skuldabyrði fyrirtækisins. Í dag var þetta loksins tilkynnt með áþreifanlegum hætti.
Því miður eru skuldirnar svo gríðarlegar að líklegt verður að telja að fleira þurfi til en það sem kynnt var í dag til að bjarga þessari skútu. Þessi björgunaraðgerð er rétt að byrja.
Hér að neðan er greinin.
Bjölluhljómar OR
30.4.2010 | 12:09
Eitt af því áhugaverða við útlánabólu áranna 2003-2007 var hversu mikið sveitafélög og opinberar stofnanir juku skuldsetningu sína. Þetta gerðist á sama tíma og Seðlabanki Íslands hækkaði stöðugt stýrivexti - sígild skilaboð um að of mikil þensla væri að eiga sér stað í hagkerfinu.
Orkuveita Reykjavíkur (OR) er eitt dæmi. Í samantekt sem Ívar Páll Jónsson birti í Morgunblaðinu 19. nóvember 2009 sést að heildarfjárfestingar fyrirtækisins í varanlegum rekstrarfjármunum tímabilið 2002 til haustsins 2009 voru rúmlega 120 milljarðar. Á sama tímabili jókst hlutfallsleg aukning erlendra lána á milli ára gífurlega; erlendar lántökur OR voru um 165 milljarðar á tímabilinu miðað við gengi krónunnar 16. nóvember 2009. Efnahagsreikningur OR hefur meira en þrefaldast á aðeins 4 árum.
Stefna eða stefnuleysi
Í Viðskiptablaðinu birtist athyglisvert viðtal við Guðlaug Sverrisson, núverandi stjórnarmann OR, 7. janúar á þessu ári titlað 'Loksins ljóst hvert OR á að stefna'. Blaðamaður spyr hvort það hafi ekki verið ábyrgðarleysi af hálfu stjórnar að koma sér ekki saman um heildarstefnu fyrr en nú (augljóslega undrandi á því að hún hafi ekki legið fyrir þegar að ráðist var í allar fjárfestingar af hálfu félagsins). Guðlaugar skautar framhjá spurningunni og einblínir á hversu jákvætt það sé að búið sé að mynda stefnu (rétt er að geta þess að hann gerðist ekki stjórnarmaður fyrr en 2008).
Forstjóri OR, Hjörleifur Kvaran, tekur undir þau orð og bætir við að vilji hafi ríkt lengi meðal stjórnenda OR að fá skýra stefnu frá stjórn fyrirtækisins. Af þessu að dæma var ráðist í fjárfestingar á tímabilinu 2002-2009 sem nema tæplega 10% af vergri þjóðarframleiðslu Íslands án þess að skýr stefna lægi fyrir.
Klukkur hringja ding-a-ling
Í viðtalinu við Viðskiptablaðið er Guðlaugur spurður að því hvort að viðvörunarbjöllur hefðu ekki átt að klingja innan OR vegna fasteignaverkefna. Guðlaugur svarar því til að vissulega hafi þær verið klingjandi alls staðar, þetta var hins vegar bjölluhljómur sem enginn fór eftir.
Síðar bætir hann því við að það hafi verið hárrétt ákvörðun að taka erlend lán þrátt fyrir að 80% tekna fyrirtækisins væru í íslenskum krónum, "lánin í erlendri mynt höfðu þann skýra kost að vera miklu ódýrari en krónulánin". Hér er Guðlaugur ekki að vísa í vaxtaálag heldur einungis vaxtastig á milli landa. Hann hefur líklegast verið annars hugar þegar að hann nam hagfræði 101 því eitt af undirstöðuatriðum í sambandi við gjaldmiðla og vaxtastigs er að gjaldmiðlar eiga að styrkjast eða veikjast í samræmi við misvægi vaxta á milli landa. Það sem er hugsanlega ekki kennt en allir með reynslu á gjaldeyrismörkuðum (eiga að) vita er að slík þróun gerist almennt ekki með reglubundnum hætti, heldur frekar með skörpum sveiflum.
Lánshæfismat OR hefur á aðeins 3 árum fallið úr Aa2 niður í Ba1. Á venjulegu máli þýðir það að skuldabréf fyrirtækisins hafa fallið úr lánshæfisflokki sem aðeins stöndugustu fyrirtæki heims fá í ruslflokk þar sem líkur á greiðslufalli eru töluverðar. OR er orkufyrirtæki, efnahagslegt hrun Íslands skýrir ekki þessa þróun.
Buffett fræði
Warren Buffett leggur áherslu á að gera ráð fyrir 'eðlilegu' sjóðsstreymi framtíðar þegar hann vegur og metur fjárfestingar. Samkvæmt því hefði hann tekið íslenskan vaxtakostnað við áætlanir, ekki erlendar vaxtatölur í þeirri von að íslenska krónan héldist sterk, þó svo að slíkt væri í andstöðu við hagfræði 101 kenningar. Síðan gerir hann ráð fyrir eðlilegan endurnýjunarkostnað tækja og tóla (í stuttu máli, afskriftir). Samkvæmt tölum OR virðist reksturinn vart ná endum saman sé horft til þessara þátta. Hagnaður er svo slakur að það virðist vera sama hvaða hlutföll sé litið á, þau eru öll skelfileg. Hið sama á við um efnahagsreikninginn.
Nokkur atriði finnst mér þó athyglisverðust. Varanlegir rekstrarfjármunir eru 241 milljarðar. Það segir hins vegar ekki alla söguna því heildarverðmæti slíkra eigna er 384 milljarðar - búið er að afskrifa 143 milljarða. Heildartekjur OR voru ekki nema 26 milljarðar á síðasta ári. Tekjur sem hlutfall af eignum eru því í besta falli tæp 11%. Skuldir OR eru um 230 milljarðar, miðað við lánshæfismat fyrirtækisins fer líklegur framtíðar vaxtakostnaður OR hátt í sömu upphæð og heildartekjur þess eru í dag.
3 önnur atriði er vert að nefna. Eigið fé OR var í árslok 2005 48 milljarðar en er komið niður í 40 milljarða í dag. Eiginfjárhlutfall hefur á sama tíma farið úr því að vera vel yfir 50% yfir í að fara undir 15%. Það má ekki miklu muna núna að eigið fé fari niður fyrir núllið hjá fyrirtæki með einokunaraðstöðu í orkugeiranum. Tap síðasta árs var um 2,5 milljarðar, engu að síður leggur stjórn OR til að 800 milljónir verði greiddar í arð.
Enn meiri skuldsetning
Nýlega ákvað OR að skuldsetja sig enn frekar með skuldabréfaútboði upp á 10 milljarða króna. Það er umhugsunarefni að sjóðsstreymi frá öllum fyrri fjárfestingum dugi ekki til fyrir frekari fjárfestingar. Maður setur einnig spurningarmerki við enn frekari fjárfestingum eftir það sem á undan hefur gengið.
Lífeyrissjóðurinn Gildi ákvað að fjárfesta ekki í bréfunum, eða með öðrum orðum að lána OR frekari pening. Viðbrögð Guðlaugs voru að senda út tilkynningu þar sem m.a. kemur fram að það komi verulega á óvart að sá lífeyrissjóður, sem er undir forystu framkvæmdastjóra atvinnulífsins, skyldi ekki taka þátt í skuldabréfaútboði OR. Með því vinnur hann gegn hagsmunum félaga sinna og þjóðarinnar í heild.
Í ljósi afkomu og skuldsetningu OR undanfarinna ára væri áhugavert að sjá stefnu fyrirtækisins. Hugsanlega er hún á vef OR en þá er hún það vel grafin að ég finn hana ekki. Stefnan er m.ö.o. ekki sýnileg raunverulegum eigendum OR (íbúar Reykjavíkur, borgin á u.þ.b. 93% í félaginu) og getur því enn ekki talist vera skýr.
Kannski heyrðu stjórnarmenn OR ekki klingjandi viðvörunarbjöllur, og af þessu dæma hafa ekki gert það enn, en fjárfestingarstjórar lífeyrissjóðsins virðast þó gera það. Væri ég sjóðsfélagi væri ég ánægður með þeirra afstöðu.
Saga um skulduga þjóð
27.11.2010 | 12:49
Sagan sýnir að viðhorf fólks til ýmissa þátta breytist miklu meira en flestir gera sér grein fyrir. George Freidman dregur skemmtilega fram í bók sinni The Next 100 Years hversu framtíðarsýn fólks breytist ört. Í upphafi síðustu aldar var því haldið fram að stríð væri óhugsandi, viðskiptahagsmunir hreinlega leyfðu það ekki og friðsöm Evrópu myndi stýra heiminum. Aðeins tuttugu árum síðar var Evrópa í rústum eftir hrikaleg stríðsátök og Bandaríkinn og Japan fóru að vera aðeins meira en vaxandi þjóðir. Aðeins eitt þótti vera víst; Stríð yrði aldrei aftur leyft að eiga sér stað. Árið 1940 var Evrópa enn aftur í viðjum stríðsátaka og Þýskaland yrði ráðandi afl í framhaldinu. Tuttugu árum síðar réði Evrópa litlu, álfan var klufin í tvennt af Bandaríkjamönnum og Sovétríkjum; kalt stríð var hafið. Það kalda stríð réði enn ríkjum árið 1980 og þótti eitthvað eins og niðurrif járntjaldsins vera óhugsandi. Það var þó staðreyndin um næstu aldamót og stríð þótti á nýjan leik vera óhugsandi. Hverjum datt 9/11 þá í hug?
Ofangreindir þættir eru umhugsunarefni varðandi eftirfarandi sögu. Einu sinni var ríki sem hafði öðlast sjálfsstæði nokkrum áratugum áður. Þjóðin samanstóð af 280 þúsund einstaklingum sem byggði afkomu sína fyrst og fremst af fiskveiðum. Farið var hins vegar í dýrar framkvæmdir sem kostuðu sitt. Þegar að mikill samdráttur átti sér stað á heimsvísu drógust tekjur saman, fjárlagahallinn fór yfir 10% af þjóðartekjunum og skuldir þjóðarinnar borið saman við tekjur þess voru orðnar meira en tífaldar. Stjórnmálamenn voru rúnir öllu trausti og þurftu ráðherrar jafnvel vernd gegn fjöldanum sem vildi ganga í skrokk þeirra.
(Næstum því) nýja Ísland
Þetta var Nýfundnaland árið 1933. Samdrátturinn var Kreppan mikla. Niðurstaða þessarar fjármálakreppu landsins var að þjóðin samþykkti að fórna sjálfsstæði sínu og Bretar fengu sínu fram við að innlima hana við Kanada. Nýfundnaland er tekið sérstaklega sem dæmi í nýútgefinni bók Reinhart og Rogoff sem nefnist This Time Is Different sem fjallar um megindlegar stærðir í tengslum við fjármálabólur. Skuldir þjóðarinnar voru yfirteknar af kanadísku ríkisstjórninni til að koma í veg fyrir að dóminó áhrif færu yfir landamærin til þeirra banka (bankakrísa í einu landi getur auðveldlega breiðst yfir til annars lands þegar að skuldunautar fara að svipast eftir líkum einkennum á svæðinu þar sem krísan á upptök sín).
Nýfundnaland lenti tæknilega aldrei í gjaldþroti, það einfaldlega blasti við. Sagan er auk þess full af dæmum þar sem að þjóðir, jafnvel heimsveldi, hafa ekki staðið í skilum við skuldbindingar sínar. Rússland er nýlegt dæmi en viðhorfið á þeim tíma, fyrir rúmum áratug, var ekki að ráðast á landið og taka til dæmis listaverk þjóðarinnar upp í skuldir (það er auðvitað ekki hægt gegn þjóð sem getur varið sig með þeim hætti). Það eru hins vegar dæmi um slíkt í Suður Ameríku á fyrri hluta síðustu aldar, þegar að Bandaríkjamenn yfirtóku tollstöðvar þjóða til að innheimta skuldir og hernámu jafnvel Dominíska lýðveldið árið 1916.
Höfundar benda á að aðkoma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) hafi jafnvel komið í veg fyrir slíkum aðgerðum síðar. Það þýðir þó ekki að þær aðgerðir hafi skilað góðum árangri, hann er raunar frekar slakur hjá skuldugum þjóðum. Reynslan sýnir að skuldugar þjóðir nái sjaldan að vinna sér úr þeim vandamálum með auknum vexti tekna, einhverjar afskriftir séu nauðsynlegar. Höfundar velta einnig fyrir sér menningarleg sjónarmið ríkja í þeim efnum; hafa þau burði til að ávinna sér á ný lánshæfnistraust?
Lærdómur
Þó svo að hrunið hafi valdið gífurlegum búsifjum á Íslandi þá mátti litlu muna að ekki færi jafnvel enn verr. Aðkoma AGS hafur sett spurningarmerki um hvort að stýring fjármála þjóðarinnar sé í raun í hennar höndum.
Íslendingar verða að skilgreina sig sem þjóð sem leggur áherslu á aðhaldi í fjármálum. Alþingismenn, lög og reglugerðir duga skammt. Þetta þarf að vera hluti af almennri hugsun samfélagsins. Það er ekki einungis hluti af því að fá aftur traust erlendra aðila, heldur lykill að því að viðhalda aðra grunn þætti þjóðarinnar, til dæmis velferðasamfélagi. Ég tel að slíkt þurfi að koma fram í stjórnarskrá Íslands.
Að tryggja sjálfstæði Íslands
21.11.2010 | 21:49
Margir hafa sett spurningarmerki varðandi sjálfstæði íslensku þjóðarinnar í kjölfar hrunsins. Grunnstoðir samfélagsins eru í uppnámi með sífellt lengri röðum fólks að biðja um mat og fjöldauppsagnir þykkja vart fréttnæmar lengur.
Í 76. grein stjórnarskrár Íslands stendur að tryggja eigi öllum, öldnum sem ungum, rétt til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og almennrar menntunar. Til að slíkt megi tryggja þurfa grunnstoðir samfélagsins að vera á föstum grunni. Hvort sem fólki líkar betur eða verr er þjóðfélaginu nauðsynlegt að hafa traust fjármálakerfi þar sem að hægt er að beina fjármagni sparifjáreigenda með skilvirkum hætti í verkefni sem skapa tekjur til að uppfylla markmiðum 76. greinarinnar.
Til þess þarf að tryggja að fyrirtæki (t.d. orkufyrirtæki, vatnsveitu og viðskiptabankar) sinni sínu hlutverki í þágu samfélagsins með heilbrigð arðsemisjónarmið að leiðarljósi, án þess að stefna í hættu innviðum þess. Búið er t.d. að skuldsetja orkufyrirtæki hérlendis langt umfram því sem nauðsynlegt er fyrir almenningsþjónustu. Aðskilja þarf fjárfestingarstarfsemi banka frá viðskiptabankastarfsemi þannig að innstæðutryggingar séu ekki notaðar við áhættusamar fjárfestingar.
Í 40. grein stjórnarskrárinnar stendur að ekki megi taka skuldbindandi lán né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Þessa grein þarf að skerpa betur til að tryggja auðlindir þjóðarinnar nýtist þjóðinni sjálfri, en eru ekki skuldsetar í botn til að ná hámarks gróða fyrir örfáa einstaklinga.
Heilstæð stefna varðandi fjármál þjóðarinnar þarf að koma fram í stjórnarskrá þar sem að tryggt er aðhaldi í fjármálum þjóðarinnar og að heilbrigt fjármálakerfi sé við lýði.
Birtist í Morgunblaðinu 18.11.2010 og er aðgengileg á þessari slóð - http://www.mbl.is/mm/mogginn/blad_dagsins/netgrein.html?art_id=110667
mwm, 4041
4041 - Áhersla fjármála á stjórnlagaþingi
1.11.2010 | 17:41
Ég hef starfað við fjármál í tæp 15 ár á Íslandi. Allan minn starfsferil hef ég lagt mikinn metnað í að veita einstaklingum og fyrirtækjum góða ráðgjöf sem miðaði af því að það gæti tekið upplýsta ákvörðun um þá áhættu sem það var tilbúið að taka.
Því miður hafa menn með takmarkaða siðferðiskennd ráðið ferðinni í samfélaginu og misnotuðu þeir glufur í regluverki fjármála og brotalama í stjórnsýslu landsins. Það er alkunna að þjóðin var leidd í skuldafen og má benda á margt sem úrskeiðis fór í þeim efnum en þó var þetta ekkert nýtt, hvorki nýverið á alþjóðavísu né sögulega séð. Þessi þróun sýnir að grunnatriði varðandi uppsetningu stjórnkerfis Íslands er ábótavant.
Í 76. grein stjórnarskrár Íslands stendur að tryggja eigi öllum, öldnum sem ungum, réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og almennrar menntunar. Hér skal með öðrum orðum ríkja velferðarkerfi.
Til þess að slíkt kerfi sé starfhæft þarf fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar að vera tryggt. Undanfarnar fjármálalegar hamfarir sýna að nú þegar er farið að skerða slíka velferð og hugsanlega eru fleiri skerðingar gagnvart þeim sem síst mega við þeim í aðsigi.
Í 40. grein stjórnarskrárinnar kemur fram að ekki megi taka skuldbindandi lán né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Þetta tel ég vera veik vörn gegn því að sjálfsstæði Íslands sé sett í uppnám ef að verðmæti þjóðarinnar og framtíðartekjur séu færð úr landi.
Þessu vil ég breyta með framboði til setu á stjórnlagaþingi á næsta ári. Mitt framlag við stjórnlagaþingi væri að tryggja að heilstæð stefna tengd fjármálum væri við lýði. Sú stefna á að tryggja rétt þegna til aðhalds í fjármálum þjóðarinnar og að fjármálakerfi landsins vinni með fólkinu, ekki á móti því. Þannig er stuðlað að því að stoðum velferðakerfis þjóðarinnar sé ekki teflt í tvísýnu og auki lífskjör okkar og afkomenda.
Ég hvorki er né hef verið flokksbundinn og ég hef starfa ekki fyrir hagsmunasamtök. Ekki gleyma að skrá 4041 á kjörseðilinn 27. þessa mánaðar.
mwm
Kvennafrí - Í tilefni dagsins
25.10.2010 | 10:32
Að tengja verðtryggingu húsnæðislána við vísitölu íbúðaverðs
8.10.2010 | 08:16
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Verðtrygging fjárskuldbindinga - verðtryggðir eða óverðtryggðir vextir?
30.9.2010 | 08:47
Óverðtryggð lán
29.9.2010 | 15:43
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Enron - The Smartest Guys in the Room
16.9.2010 | 21:31
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lög ungra verðbréfagutta og Hrunsins
14.9.2010 | 16:50
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
HS Orka – Verð og kaupverð
28.7.2010 | 10:30
Raunvextir sem eru óraunhæfir
26.5.2010 | 11:38
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fjárfestingar ömmu minnar
20.5.2010 | 14:38
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Viðskipti og fjármál | Breytt 7.5.2010 kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bjölluhljómar OR
30.4.2010 | 12:09
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fjárfestingastefna lífeyrissjóða
23.4.2010 | 01:15
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Klikkuð húsnæðislán - dæmi sem gat aldrei gengið upp
14.4.2010 | 07:33
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útlánabólan - í upphafi skal endinn skoða
12.4.2010 | 21:11