Auglýsingar og fjárfestingar - Eru ríkistryggð skuldabréf virkilega besti kosturinn?

deCODE, OZ, hlutabréf í tæknifyrirtækjum, hlutabréf, valréttir, og síðast en ekki síst erlend lán: Allt eru þetta fjárfestingarákvarðanir sem margir hafa tapað miklum fjárhæðum á.  Þær eiga það allar sameiginlegt að hafa verið mikið í umræðunni á sínum tíma. 

Eitt einfalt viðvörunarmerki um hvað eigi ekki að fjárfesta í (eða form á láni sem maður eigi að taka) eru fjármálaafurðir sem fjallað er um með glaðbeittum hætti í fjölskylduboðum.  Hver kannast ekki við að hlusta endalaust á aðila fjalla um auðfenginn gróða á fjárfestingum eða erlendum lánum sem lengi vel lækkuðu í virði vegna styrkingar krónu (Kindleberger lýsir þessu svona: There is nothing so disturbing to one's well-being and judgement as to see a friend get rich).  Margar fjárfestingarákvarðanir hafa verið teknar í framhaldi af slíkum samtölum án mikillar yfirlegu varðandi áhættu.

Mon(k)ey see, Mon(k)ey do

Annað viðvörunarmerki sem er jafnvel enn betra eru fjárfestingar sem mikið eru auglýstar. Nýleg dæmi eru erlend lán (man einhver eftir sjónvarpsauglýsingum þar sem Frjálsi Fjárfestingarbankinn hvatti fólk til að umbreyta lánum sínum í erlend lán þar sem að teningar með ISK breyttust í merki erlendra mynta?), peningamarkaðssjóðir og hlutabréfasjóðir.  Íslenskar fjármálastofnanir höfðu hins vegar takmarkaðan áhuga á því að auglýsa íslensk ríkistryggð skuldabréf árin 2007 og 2008.

Nú, hins vegar, þegar að þau bréf hafa hækkað mikið í virði hamast íslenskar fjármálastofnanir við að auglýsa kosti slíkra bréfa.  Bent er til dæmis á að ávöxtunarkrafa þeirra er hærri en vextir sem fást á bankareikningum.  Þetta eru svipuð rök og notuð voru mánuðina áður en peningamarkaðssjóðir fóru á hliðina.  Nú ættu þó allir að vita að góðar líkur eru á því að íslenska ríkið geti ekki á einhverjum tímapunkti staðið við allar þær skuldbindingar og því verði einhver afföll af bréfunum.  Það er því eðlileg ástæða fyrir því að ávöxtunarkrafan er hærri en sú sem fæst á bankainnstæðum.

Því ætti fólk í það minnsta ekki setja öll egg sín í körfu ríkisskuldabréfa.  Fortíðin gefur til kynna að sú ávöxtunarleið eigi eftir að valda vonbrigðum.

Hægt er að lesa nánar um Sjónvarp og auglýsingar hér: Hægt er að stækka gluggann neðst í horninu vinstra megin.


IceSave - aðskilnaður banka og ruðningsáhrif vegna greiðsluþrots

Þeim fjölgar ört sem telja að aðskilja eigi starfsemi banka til þess horfs sem það var áratugum saman í kjölfar Kreppunnar miklu, það er að fjárfestingarbanka- og viðskiptabankastarfsemi sé aðskilin.  Meðal þeirra er hagfræðingurinn Michael Hudson sem er orðinn Íslendingum vel kunnur.  Hef ég fjallað töluvert um þetta og hægt er að sjá þau skrif vinstra megin á blogg síðu minni undir tenglinum Endurreisn bankanna, sjá meðal annars Aðskilnaður fjármálaþjónustu.  Einhverra hluta vegna virðist takmarkaður áhugi ríkja hérlendis um slíka skiptingu.  Í drögum um endurreisn banka fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir slíkri skiptingu eins mikið og auðið er, sem er einfaldlega umorðun um að dregið verði úr fjárfestingargleði banka sem ætti að vera augljóst mál.

Nú, þegar að viðhorf erlendra aðila er (loks) að snúast á sveif með Íslendingum varðandi Icesave, ætti ákveðið skref í þeim efnum að undirstrika gagnvart umheiminum að Íslendingar séu að einhverju leyti að takast á við fortíðina.  Þetta er góð tímasetning til að aðskilja rekstur fjárfestinga og þjónustu til einstaklinga og smárra fyrirtækja; ríkisábyrgð yrði þá takmörkuð við viðskiptabankaþjónustu.  Skilaboðin á alþjóðlegum vettvangi væru þau að Íslendingar væru nú þegar farnir að taka skref til að koma í veg fyrir annað fjármálahrun vegna áhættusækni í fjárfestingum (skref varðandi aukið regluverk bera sögulega lítinn árangur, sígild spurning er til dæmis hverjir sinna regluverki á störfum þeirra sem starfa innan fjármálaeftirlita eða 'who regulates the regulators').  Skilaboðin væru ótvíræð: Ísland er að læra af reynslunni.  Erfiðra er að beita hörku í samningaviðræðum á alþjóða vettvangi gagnvart slíkri þjóð.

Það er auk þess að koma æ betur í ljós að staða okkar skiptir máli á erlendum vettvangi.  Nýleg grein í The Economist bendir á að lendi einhver þjóð innan evrusvæðisins í greiðsluþroti gæti það sett evruna í tilvistarkreppu.  Spurt er hvort að önnur ríki kæmu slíku ríki til aðstoðar.  Greiðsluþrot eins ríkis gæti hæglega leitt til aukinna vandræða og jafnvel orðið til þess að stórt ríki lendi í svipaðri stöðu.  Aukin skuldaaukning ríkja undanfarin ár hefur opnað möguleikann á slíkri þróun.  Því má bæta við að aðstoð stærri ríkja gæti leitt til þess að önnur færu að reiða sig á að slíka aðstoð og hefðu því minni ástæðu til aðhalds í útgjöldum.  Vandamál þjóða í vandræðum gæti ekki verið leyst með veikingu gjaldmiðils þar sem þau væru tengd evrunni og þegar þau eru eitt sinn orðin hluti af ESB er nánast ógerlegt að snúa til baka.  Þetta eru í fyrsta lagi rök gegn aðild Ísland að ESB.  Í öðru lagi gefur þetta til kynna að hagur flestra þjóða í Evrópu ætti að vera að koma í veg fyrir að skuldbindingar Íslendingar verði það miklar að greiðsluþrot væri raunverulegur möguleiki.


Ódýrt heilræði

„Í hvert sinn sem hlutabréfaæði á sér stað og allir vilja græða á hlutabréfum, seldu öll þín hlutabréf.  Taktu fjármunina af þeirri sölu og keyptu traust skuldabréf.  Það er enginn vafi á því að bréfin sem þú seldir eigi eftir að hækka í virði.  Veittu því enga athygli – bíddu einungis eftir kreppunni sem kemur fyrr eða síðar.  

 

 

Þegar að kreppan – eða taugastríðið – hefur náð varanlegri fótfestu út um víðan völl, seldu þá skuldabréfin (jafnvel með tapi) og keyptu til baka hlutabréfin.  Það er enginn vafi á því að hlutabréfin eiga eftir að fara enn neðar.  Aftur, ekki veita því neina athygli.  Bíddu eftir næsta hlutabréfaæði.  Endurtaktu þessa aðferð svo lengi sem þú lifir og þú hefur þá ánægju að deyja í efnum.”  

 

 

Fred Schwed, Jr. – Where Are the Customers’ Yachts?  Sjá dóm um bókina hér: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=672033

Þetta ódýra heilræði virðist vera sáraeinfalt en þó fylgja því fáir.  Skýringin felst að miklum hluta til í félagslegum og sálfræðilegum atriðum.  Í dag vilja flestir kaupa ríkisskuldabréf í stað annarra fjárfestingakosta, þó svo að slík kaup hafi líklegast ekki verið jafn slök í fjölda mörg ár. 

Bendi á að ég skrifaði ritdóm um nýju bók Niall Ferguson, The Ascent of Money, í íslenskri þýðingu á eyjan.is nýlega.  Sjá má dóminn hér: http://bokaormurinn.eyjan.is/2009/12/07/verdug-lesning-um-fjarmalasogu/  Bókin er að mestu leyti sagnfræðileg og svarar aðallega "hvernig" spurningum varðandi peninga.  Önnur nýleg bók sem þýdd hefur verið á íslensku er Aftur til kreppuhagfræðieftir Paul Krugman.  Hún leitast meira við að svara "af hverju" spurningum.  Ég mæli með báðum bókum en Krugman bókin er heilsteyptari, flæði í bók Ferguson er ábótavant og sumar skoðanir sem fram koma í bókinni tel ég vera byggðar á veikum grunni. 


1929 - The Great Crash & The Great Bull Market

Í ljósi þess hversu mikil umfjöllun hefur verið í gegnum tíðina varðandi Hrunið árið 1929 og Kreppuna miklu árin 1930-1932 þá er merkilegt hversu fáar bækur hafi verið skrifaðar um þessi tímabil. Oftast þegar fjallað er um heimildir frá þessum atburðum, bæði undanfara og árin á eftir er oftast vitnað í örfá verk.  Only Yesterday (ár útgáfu gefur vísbendingu um nafngift bókarinnar, 1931) eftir Frederick Lewis Allen þykir veita bestu lýsingarnar á þeim tíðaranda sem ríkti undanfarin áratug. 

Þekktasta bókin um Hrunið heitir The Great Crash 1929 (útgefin 1955) eftir John Kenneth Galbraith og auk þess þykir The Great Bull Market (útgefin 1968) eftir Robert Sobel vera verðug lesning.  Þessar tvær bækur eru þau tvö verk sem oftast er vitnað í við lýsingar á þeirri þróun sem átti sér stað á áratugnum sem leiddi til hinna gríðarlegu hækkun sem varð á gengi hlutabréfa síðari hluta áratugarins, hið mikla fall verðbréfa haustið 1929 og sumpart hvaða áhrif sú þróun hafði á Kreppuna miklu áratuginn sem fylgdi á eftir.  

 

The Great Crash var upphaflega útgefin árið 1955.  Olli útgáfa hennar svolitlu fjaðrafoki enda var Dow Jones hlutabréfavísitalan að ná (loksins) sömu hæðum og hún var í 26 árum áður þegar að hið mikla fall hennar hófst (hún féll um næstum því 90% næstu 3 árin).  Tímasetning Galbraith var góð hvað markaðssetningu varðar, hann var kallaður í vitnaleiðslu hjá þinginu varðandi verðlagningu bandarískra hlutabréfa.  Vakti það mikla athygli og skaut sumum skelk í bringu.  Sagan segir að jafnvel Benjamin Graham, lærifaðir Warren Buffett, hafi ekki litist á blikuna.  Gengi hlutabréfa féll og kenndu sumir Galbraith um það; ávöxtun hlutabréfa næsta áratuginn var hins vegar meira en vel viðundandi. 

Hér er örlítil samanburðargreining á þessum bókum sem snýr að goðsögnum sem einkenna þessi tímabil og tengingu þeirra.

Goðsögnin    

 

Það mætti segja að ýmsar mótsagnir, sem Sobel gerir góð skil í inngangi bókar sinnar, séu til staðar í vitund flestra varðandi hrunið mikla 1929 (hér eftir oft einfaldlega vitnað í sem hrunið) og Kreppuna miklu sem fylgdi í kjölfarið.  Oftast er sögulega einblínt á þætti sem eru aðdragandi að einhverjum hápunkti sem verður hluti af almennri þekkingu fólks af sögunni.  Þetta á við um þriðja áratuginn í Bandaríkjunum sem hefur verið gerð ágætis skil enda eitt af helstu umbreytingarskeiðum hins vestræna heims.  Þetta á þó ekki við um hrunið mikla 1929.  Goðsögn um þá atburði hefur í tímans rás myndast og er í dag í hugum margra ekki litið á sem sögulegt atvik með aðdraganda heldur meira sem endi eins tímabils sem var uppfullt af ljóma og (óraunhæfs) bjartsýni og upphaf annars yfirfullt af örvæntingu og eymdar.  Þetta hljómar allt að því ljóðrænt, að eitt 10 ára tímabil í blóma sé undanfari annars í skugga örbyggðar, eins og samlíking við margar af þeim biblíusögum sem flest okkar lærum. 

 

Til að öðlast betri sýn að þeim veruleika sem þá blasti við þarf að ýta til hliðar slíkum goðsögnum (fordómum) og rannsaka allt tímabilið í samhengi við bandarískt samfélag, umheiminn, félagslega þróun og hvernig slík tengsl stuðluðu að efnahagslegum aðstæðum og ákvörðunum tengdum þeim og loks hvernig framangreindir þættir skópu þróun verðbréfamarkaða.  Sú þróun hófst á grunni endalok annars skeiðs, fyrri heimsstyrjaldarinnar, og er álitin af sumum stór ástæða þeirrar kreppu sem hófst 1930 og er jafnvel samofin upphaf þeirrar síðari og hvernig Bandaríkin náðu loks að rífa sig upp úr efnahagslegu lægð sinni.  Umfjöllun um þessa atburði er hefur verið furðu lítil og byggist sumpart á misskilningi sem rekja má að hluta til bókar Allen, sem tengdi endalok góðærisins við hrunið 1929 og hefur að mati sumra átt stóran þátt í móta goðsöguna um samband þess og Kreppuna miklu.      

 

Að mati Sobel voru fjárfestar í Bandaríkjunum ekki ofurbjartsýnir miðað við þær aðstæður sem þá ríktu í efnahagslífinu.  Hann bendir á að út frá kennitölum hlutabréfa varðandi markaðsvirði fyrirtækja, arðgreiðslur og hagnað hafi gengi hlutabréfa oft verið hærra en í undanfara hrunsins 1929 – miklar hækkanir hafi átt sér stað til að mynda frá árinu 1921 þegar að gengi hlutabréfa var afar lágt eftir slaka ávöxtun árin áður sem tengdist að stórum hluta atburðum tengdum fyrri heimsstyrjöldinni.  Þess ber að geta að Galbraith er ekki sammála þessu og telur að ofurbjartsýni fjárfesta hafi verið stór þáttur hrunsins.  Sobel kemur fram með áhugaverðar staðreyndir máli sínu til stuðnings.  Miðað við þær röksemdafærslur hafa órökrænni bjartsýnisköst oft átt sér stað síðar meir án sömu hrikalegu afleiðinga.  Sobel telur að hrunið hafi öllu heldur stafað af veikleikum í innviðum ríkisins og á Wall Street auk orsakasamfléttu viðskipta og spákaupmennsku, sér í lagi spákaupmennsku fjármagnaða með mikilli lántöku hjá fjármálastofnunum (svipuð saga rúmum 70 árum síðar á hápunkti netbólunnar og örfáum árum síðar í enn stæra mæli) – þessu er Galbraith að sumu leyti sammála en telur sálræna þáttinn eiga meiri þátt í hvernig fór.     

 

Hrunið 1929 skóp í sjálfu sér, að mati Sobel og margra fleiri fræðimanna, ekki hinn mikla skaða og gjarnan er haldið fram.  Hlutabréfamarkaðir hækkuðu mikið næstu sex mánuði í kjölfarið og margt sem var aflaga fyrir hrunið var á því tímabili lagfært að einhverjum hluta.  Sú sterka ímynd af fólki endandi tilveru sinni með því að stökkva út um gluggum er því goðsögn ein (tíðni sjálfsmorða var vel undir meðallagi árið 1929) og ótti um tilvonandi kreppu orðum aukinn í það minnsta.  Bandaríkjamenn voru vel meðvitaðir um snöggar dýfur niður á við á hlutabréfamörkuðum á þeim tíma – það er aftur á móti lítt vitað um hrunin árin 1873 og 1907 sem voru enn verri (1920 varð einnig mikið fall), enda brögguðust markaðir fljótlega aftur og efnahagur í heild og tengdust þau því ekki tímamótum í sögu Bandaríkjanna sem hrunið 1929 er gjarnan kennt við.  Það var því ekki fyrr en töluvert eftir á sem hrunið fór að verða táknrænt í hugum fólks sem undanfari Kreppunnar miklu.  

 

 

Þess má geta að RÚV sýnir í kvöld, mánudag, þátt sem heitir 1929 - The Great Crash.  Nú veit ég ekki hvort verið sé að vísa í titil bókar Galbraith.

Dómur minn um Only Yesterday - sjá hér: http://www.slideshare.net/marmixa/20020718-only-yesterday

Hér eru 5 atriði sem John Kenneth Galbraith nefnir að hafi gert efnahaginn veikan fyrir í The Great Crash (sjá í færslu minni  http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/972289/ ).  Þau eru:

  1. Ójöfn skipting tekna - 5% þjóðarinnar skiptu á milli sín þriðjungi tekna þjóðarinnar.  Hlutfall tekna vegna fjármagnstekna í ýmsum formum hafði tvöfaldast síðustu 10 árin.
  2. Slæm uppsetning fyrirtækja - Galbraith vísar hér fyrst og fremst til gírugra fjárfestingafélaga.
  3. Veikt bankakerfi - Lán sem virtust vera í góðu lagi í uppganginum litu flónskulega út þegar að niðursveiflan hófst. 
  4. Viðskiptajöfnuður í ójafnvægi
  5. Vanþekking í efnahagsmálum - Eins og Stiglitz þá telur Galbraith að áhersla í aðhaldi fjármála ('Balanced budget') hafa verið stórkostleg mistök þegar að fjárlagahalli hefði verið nauðsynlegur til að glæða atvinnulífið á nýjan leik.  Stjórnendur AGS eru líklegast litlir 'Galbraith' aðdáendur.

Vert er að benda á að Árni Árnason tók saman afar góða samlíkingu á síðasta ári um þetta efni, sjá hér: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1255245 (læst áskrift, aðeins fyrir Moggaáskrifendur)

Sjá aðrar færslur um hrunið 1929 hér...

Once In Khaki Suits fyrirlestur - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/974229/ 

Black Monday & Black Tuesday - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/972289/

25. & 26. okt. 1929 : S T E A D Y - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/970434/

Black Thursday - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/969788/

23. okt : Úlfur Úlfur - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/969371/

22. okt : Orðræða tímabilsins - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/968726/

1929 Endalok the Roaring 20s - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/968161/

Brother Can You Spare a Dime? - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/964637/


Mótbyr í séreignarsparnaði

Í upphafi árs lýstu Sjálfstæðismenn því yfir að tillögur um að einstaklingar gætu notað séreignarsparnað sinn til greiðslu á veðskuldum væru í farvatninu.  Nánar tiltekið - Árni M. Mathiesen verður fyrsti flutningsmaður frumvarps um greiðslu séreignasparnaðar, sem var að hans sögn fullsamið og tilbúið í fjármálaráðuneytinu í síðustu viku. Samkvæmt því verður heimilt að greiða út séreignarsparnað verði eftir því óskað til greiðslu veðskulda sem annarra skulda. Húsnæðis- og veðskuldabréf hafa þar forgang. Vörsluaðili sjái um greiðslu, haldi eftir tekjuskattsgreiðslum og sjái um að standa skil á þeim við ríkissjóð. „Þetta var eitt af þeim málum sem fyrrverandi ríkisstjórn hafði hugsað sér að leggja fyrir í lok janúar,“ sagði Árni. Sjá frétt í heild sinni hérna.

Lítið hefur bólað á þessari tillögu; fram komu mótbárur um að fjármálakerfið þoldi illa slíkan gjörning og neyddist jafnvel til að selja bréf á brunaútsölu, tillögur sem ég reyndar tel vera máttlausar (sjá að neðan).  Því var brugðið á það ráð að veita einstaklingum möguleika á því að fá smáskammta mánaðarlega.  Reynslan sýnir reyndar að aðsókn í slíkar útborganir eru minni en gert var ráð fyrir.

Nú gerist það að sömu aðilar og lýstu þessu yfir í upphafi árs vilja nú skattleggja séreignarsparnað fólks.  Í fyrstu hélt ég að verið væri að ræða um nýjar greiðslur í slíkan sparnað, sem er skiljanleg stefna.  Nei, það á að skattleggja alla inneignina (þetta er dregið vel saman hér).  Meðfylgjandi frumvarpinu er lausn varðandi útborgun sem í stuttu máli felur í sér að vörsluaðilar gefi út skuldabréf fyrir upphæðinni sem greiða skal ríkissjóði.

Það eru nokkur atriði við þetta sem ég er ósáttur með.

Forsendubrestur - forsendur margra við að leggja sparnað til hliðar í slíkan sparnað eru brostnar, skatthagræðing er ekki lengur til staðar.  Raunar lenda margir í því að þurfa nú að borga almennan skatt af ávöxtun sinni í stað fjármagnstekjuskatts.  Fyrir hverjar 100 krónur sem ávaxtast t.d. í ár þarf að greiða yfir 40% í skatt í stað 10-18%.  Þetta væri ásættanlegt fyrir langtímafjárfesta (lífeyrissparnaður er í eðli sínu í flestum tilvikum langtímasparnaður) því þeir hafa notið skattahagræðis af ávöxtun sinni í mörg ár.  Að tekjufæra ávöxtun sparnaðar með þessum hætti núna breytir þá forsendu. 

Skilaboð - enn einu sinni eru skilaboðin þau að hinir skuldugu munu landið erfa:  Sparnaður borgar sig ekki.  Verið er að flytja sparifé fólks yfir til málaflokka s.s. vaxtabóta sem hvetja til skuldasöfnunnar.  Var vandamálið að fólk væri að spara of mikið?  Var það ekki öfugt? 

Hver greiðir fyrir endurreisn Íslands - þetta tengist liðunum að ofan; svarið er ekki þeir skuldugu heldur þeir sem lagt hafa pening til hliðar í viðbótarsparnað.

Óskandi væri að meiri áhersla væri lögð á að eigendur séreignarsparnaðar gætu notað hann til greiðslu veðskulda.  Með því væri upphæðin skattlögð samkvæmt þeirra eigin vilja sem þýðir að um 40% upphæðarinnar til greiðslu veðskulda færi í til ríkisins.  Eigendur veðskulda væru í flestum tilfellum sömu aðilar og vörsluaðilar séreignarsparnaðarins, einföld nettun væri því að eiga sér stað.

Hér er grein sem birtist í Viðskiptablaðinu í febrúar á þessu ári þar sem ég kem fram með rök um að útborgun séreignarsparnaðar ætti ekki að vera vandamál - http://www.slideshare.net/marmixa/sreignarsparnaur-fjtrum

Sjá hér greinina Hinir skuldugu munu landið erfa þar sem ég gagnrýni vaxtabótakerfið (tel þar að áherslan eigi að vera á þá hópa sem mest þurfa á aðstoð að halda, ekki að hvetja eigi til skuldasöfnunnar) - http://www.slideshare.net/marmixa/hinir-skuldugu-munu-landi-erfa

 


Hlutabréf eða skuldabréf - EBITDA

Bankastjóri hafði samband við mig fyrir nokkrum árum síðan og bað um álit mitt á skuldabréfaútboði sem þá var í gangi. Fyrirtækið er vel þekkt, hlutabréf voru skráð í Kauphöll Íslands og reksturinn gekk vel. Án þess að hafa rannsakað rekstur...

Greinin "Once in Khaki Suits" - umfjöllun og lærdómur

Titillinn er fenginn úr laginu Brother, Can You Spare a Dime ?, lag sem er nokkurs tákngervingur fyrir Kreppuna miklu sem hófst árið 1930, samhliða verstu lækkun hlutabréfa í sögu Bandaríkjanna. Eitt sinn vorum við Íslendingar útrásarvíkingar, nú biðjum...

1929 - Black Monday & Black Tuesday - 28. & 29. október

Vikuna fyrir hrunið mikla hafði gengi hlutabréfa lækkað töluvert í gífurlega miklum viðskiptum. Eftir að kerfisbundinn stuðningur banka við gengi hlutabréfa hófst með dramatískum hætti fimmtudaginn áður glæddust vonir um að mesta fallið væri afstaðið....

Vilt þú borga húsnæði nágranna þíns?

Vilt þú borga húsnæði nágranna þíns? Svar mitt er að sjálfssögðu nei . Ég hef ekki áhuga á því að greiða niður lán sem aðrir hafa tekið, sérstaklega bílalán, lán til hlutabréfakaupa (trúi því vart að ég hafi skilið konu rétt í viðtalsþætti s.l. sunnudag...

1929 - 25. & 26. okt. - S T E A D Y & Organized Support

Föstudaginn 25. október og laugardaginn 26. október voru tíðindalitlir dagar hvað verðsveiflur varðar en magn viðskipta var gífurlegt. Ákveðið reiptog var í gangi á milli tveggja fylkinga á kaup- og söluhliðum. Á söluhliðinni voru sumir sem þóttust...

1929 - 24. október - Black Thursday

Það er almennt talað um 4 svarta daga í falli hlutabréfa síðari hluta október mánaðar 1929. Fallið hélt þó áfram í byrjun nóvember (einn svartur dagur þá) áður en hlutabréfavísitölur fóru aftur upp á nýjan leik og hækkaði gengi þeirra næstu 6 mánuði um...

1929 – 23. október og þversögnin í að kalla “úlfur úlfur”

Eftir töluverða hækkun á gengi hlutabréfa daginn áður þá hófst fallið á nýjan leik miðvikudaginn, 23. október 1929. Við opnun markaða var lítil hreyfing en smám saman fóru viðskipti að aukast og var söluþunginn mikill. Á síðasta klukkutímanum var mikill...

1929 - 22. október og orðræða tímabilsins

Þriðjudaginn, 22. október 1929, hækkaði gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum töluvert. Daganna áður hafði gengi margra hlutabréfa hrapað, sérstaklega hlutabréf fyrirtækja sem flokkuðust undir áhættusömum fjárfestingum. Viðsnúningur í lok mánudagsins og...

1929 - Endalok the Roaring Twenties og upphaf hrunsins fyrir 80 árum síðan

Í dag, 21. október, eru 80 ár síðan að hrunið mikla hófst fyrir alvöru í Bandaríkjunum. Ólíkt hruninu árið 1987 þegar að Dow Jones hlutabréfavísitalan fell um rúm 22% á einum degi, þá var lækkunin 1929 dreifð yfir nokkra daga, aðallega í október en...

1929 - Brother, Can You Spare a Dime?

Í næstu viku eru 80 ár síðan að hrunið mikla á verðbréfamörkuðum í Bandaríkjunum átti sér stað. Gengi hlutabréfa féll stöðugt með ógnarhraða í nokkra daga og féll hlutabréfavísitalan um helming á fáum vikum. Það var þó aðeins undanfari hinna miklu...

Verðbréfasjóðir - það sem lögin gerðu ekki ráð fyrir

Í dag birti Mogginn leiðréttingu á www.mbl.is varðandi frétt blaðsins í morgun um fjárfestingaheimildir sjóða samkvæmt lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði - http://www.althingi.is/dba-bin/prentaloguti.pl?lnr=2003030&utg=137&pdf=PDF - sjá lögin...

Iceland's Manic Millennium

Ári eftir að hrunið átti sér stað er enn verið að spyrja: Hvernig gat þetta gerst? Bent hefur verið á slaka peningamálastefnu, s.s. vaxtastefnu og óheftu fjárflæði á milli landa, slöku regluverki, skort á aðhaldi hjá fjármálaeftirlitinu og of auðvelds...

Ráðgjöf varðandi Junk Bonds Íslands

Það var fyrir jól 2007 sem ég heyrði fyrst að mörg fyrirtæki væru í raun komin í greiðsluþrot. Skuldabréf margra þeirra voru stór hluti eignasafns peningamarkaðssjóða. Sumir í bankaheiminum fóru að leggja saman 2 & 2; víxlar voru stöðugt framlengdir í...

2Q 2008 Glitnir

Bankinn sýndi hagnað uppá 17 milljarða. Af því voru 15 vegna uppreiknaðs virði eigna. Þetta var eitthvað réttlæt með veikingu krónu. Aftur á móti var þvílík verðlækkun í gíruðum eignasöfnum að eiga sér stað að þetta gat hreinlega ekki staðist. Líklegast...

Vilt þú borga jeppa nágranna þíns?

Ég er ósáttur með að þurfa að greiða fyrir neyslu annarra. Auk þess er það með ólíkindum hve stjórnvöld virðast kerfisbundið aðstoða þeim sem skuldsetja sig sem mest. Nýjasta dæmis eru aðgerðir vegna greiðslubyrði. Það er í sjálfu sér eðlilegt að fólk...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband