Vextir, stýrivextir og tvíhöfða vaxtastefna

Ef ekki væri til einhverskonar seðlabanki eða annað vald sem stýrði stýrivexti, hvernig væri vaxtastig ákvarðað? 

Slíkt byggðist í raun, eins og með aðrar vörur, einfaldlega eftir framboði og eftirspurn.  Stundum eykst framboð á fjármagni og stundum dregst það saman og á slíkt einnig við um eftirspurn eftir því. Vaxtastig sveiflast að sama skapi í takti við samspil þessara tveggja þátta.  Ef fólk vill auka sparnað eða bankar verða viljugri til að lána þá fer vaxtastig niður og lántakendur þurfa því að greiða lægri vexti.  Ef fólk vill aftur á móti spara minna (og auka lántökur) eða aðgengi að fjármagni gufar upp hækka vextir og lántakendur þurfa að greiða meira fyrir fjármagnið (rétt eins og hvað varðar framboð og eftirspurn eftir vörum).

Vaxtastefna

Það er alkunna að undanfarin ár hefur eftirspurn á Íslandi eftir fjármangi verið gífurleg.  Því er það furðulegt í dag hversu neikvæð skoðun almennings er á vaxtastefnu Seðlabanka Íslands (SÍ) á sama tímabili.  Í raun gerði bankinn ekkert annað en að stýra vöxtum í sömu átt og eðlilegt væri án utanaðkomandi áhrifa.  Hefðu stýrivextirnir haft tilætlað bit hefði eftirspurn eftir sparnaði aukist og áhugi á langtímaframkvæmdum (lesist; aðallega byggingarframkvæmdum) minnkað.

Framboð og eftirspurn fjármagns

Hinir svokölluðu Austurrísku hagfræðingar skýra þetta þannig að á frjálsum markaði stýrir ofangreint samband framvindu efnahags.  Þegar að fólk fer að safna meiru er áhugi þess fyrir neyslu á þeim tímapunkti tiltölulega lítill og frekar verið að horfa til lengri vegar, það er að fjárfesta síðar.  Með auknu framboði fjármagns lækkar vaxtastig og fyrirtæki fara að sjá meiri hag í því að taka lán til framkvæmda.  Slíkt á sérstaklega við langtímaframkvæmdir sem í háu vaxtastigi gætu raunhæft vart orðið arðbærar.  Er þá verið að fjárfesta fyrir framtíðina en síður neyslu nútímans.  Framkvæmdir sem krefjast mikils vélarkostnaðar eru dæmi um slíkar framkvæmdir og eru byggingarframkvæmdir gott dæmi.

Ef, aftur á móti, einstaklingar vilja frekar auka neyslu í dag frekar en morgundaginn þá sparar það minna (og eftirspurn eftir lánsfé eykst) sem minnkar framboð fjármagns og vaxtastig hækkar.  Slík þróun gerir fyrirtækjum erfiðra að fara í langtímaframkvæmdir þar sem að vaxtakostnaður gerir þær síður raunhæfar.

Þetta samspil gerir það að verkum að án utanaðkomandi áhrifa minnkar atvinnuvegir langtímaframkvæmdir þegar að eftirspurn eftir neyslu í núinu eykst og bregst við þegar að sparnaður eykst sem gefur til kynna eftirspurn eftir neyslu sem kemur til með að eiga sér stað í framtíðinni.

Stjórnvöld

Því miður hafa stýrivextir SÍ bitlausir undanfarin ár.  Helsta ástæða þess er að íslensk stjórnvöld stýrðu beint og óbeint vaxtastefnuna í allt aðra átt (áttu þá við að þeir unnu á móti sinni eigin vaxtastefnu?) sem nú hefur endað í skipbroti.  Ég hef fjallað áður um helstu ástæður þess og fer því hér hratt yfir sögu.

90% lán - Það er óumdeilanlegt að þetta var stór þáttur í að koma lánaskriðunni af stað. 

Vaxtabætur - Þrátt fyrir að ríkissjóður hafi aukið aðkomu sína enn frekar að (niðurgreiddum) lánamarkaði þá var ekki áhugi á því að draga úr vaxtabótum.  Á sama tíma var þó verið að veita sérstök lán til þeirra sem áttu í einstökum erfiðleikum með að fá lán - frekari áhersla hefði átt að beinast að þeim sem mest þurftu á aðstoð að halda.

Bankar - Aðkoma bankanna haustið 2004 var eins og hella olíu á eld útlánaþenslunnar.  Það voru ákveðin rök fyrir innkomu þeirra á þennan markað.  Tekjur þeirra vegna yfirdráttar viðskiptavina voru að dragast hratt saman vegna þess að fólk var í umvörpum að umbreyta neyslulánum sínum í húsnæðislán, það er að lán var tekið með húsnæðisveði sem var notað til niðurgreiðslna dráttarvaxta og kaupa á neysluvörum (lesist; neyslu í núinu).  Reyndar náði upphæð yfirdráttarlána svipuðum hæðum innan við 2 árum eftir að ofangreind skriða hófst - skýr þenslumerki.

Því má segja að á Íslandi hafi ríkt tvíhöfða vaxtastefna.  SÍ hækkaði stýrivexti en aðgangur að fjármagni jókst engu að síður.  Erlend lán juku enn frekar á vandann.

Erlend vaxtastefna

Stýrivextir í helstu viðskiptalöndum Íslands náði á sama tíma nýjum lægðum.  Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, var sagður fylgja frekar það sem að Wall Street vildi heldur en hvað nauðsynlegt væri.  Því urðu stýrivextir síðustu ár hans í embætti þeir lægstu í marga áratugi.

Þessi stefna var í algjöru ósamræmi við þau skilaboð sem bandarískur almenningur var að senda varðandi sparnað.  Á sama tímabili og stýrivextir voru sífellt að lækka var sparnaðar hlutfall af tekjum Bandaríkjamanna stöðugt að minnka og er samkvæmt nýjustu tölum jafnvel orðið neikvætt.  Í raun hefði þróun stýrivaxta átt að vera í hinna áttina til að aðlaga sig að minni áhuga á sparnaði og meiri áhuga á neyslu í núinu.

Þetta gerði aðgang að fé auðveldara.  Þróunin barst til Evrópu þar sem að stýrivextir þróuðust með svipuðum hætti þó svo að vextir hafi ekki farið jafn mikið niður.  Nærtækasta afleiðing þessa missamræmis í skilaboðum markaðarins um vexti og ákvörðunum á stýrivöxtum er húsnæðisbólan sem í dag er að hjaðna með hræðilegum afleiðingum.  Skilaboðin sem send voru til framkvæmdaaðila voru að góður tími væri nú til að hefja langtímaframkvæmdir.  Þau skilaboð voru röng, því vaxtastig og vilji almennings til sparnaðar voru á öndverðum meiði.

Erlendir vextir - áhrif á Íslandi

Með hækkandi vaxtastigi hérlendis fór athygli manna að beinast að erlendum lántökum vegna lágs vaxtastigs.  Það er efni í sögubækur fjármálafræðinnar að hvorki fjármálastofnanir né stjórnvöld hafi skilið þá áhættu sem fylgir því að taka og veita lán í erlendum myntum.  Slíkt er reyndar eitt af helstu merkjum um hættulega ofþenslu í bankakerfinu eins og sést í þessu skjali þar sem fjallað er um ástæðu bankakreppunnar á Norðurlöndunum í byrjun tíunda áratugarins, sjá meðal annars ofarlega á síðu 15.  (Það er athyglisvert hversu hættumerkin er svipuð því sem átti sér stað hérlendis örfáum árum síðar.)

Því voru enn frekari misvísandi skilaboð send til fólks og fyrirtækja.  Á sama tíma og neikvæður sparnaður var ríkjandi hjá almenningi sem hefði átt að þýða enn hærra vaxtastig var ekki aðeins boðið upp á auðveldara aðgengi að fjármagni í gegnum húsnæðislán heldur einnig ódýr erlend lán.  Lítil umræða átti sér stað um gengisáhættu tengdum slíkum lánum og eiga stjórnvöld, eftirlitsstofnanir og fjármálastofnanir öll sök á því. 

Hvar eiga vextir að vera?

Samspil ofangreindra þátta leiddi til þeirrar pattstöðu sem við glímum við í dag.  Án gjaldeyrishafta er vart hægt að lækka vexti án þess að krónan veikist enn frekar og verðbólga fari á enn frekara flug.  Ljóst er þó að almenningur hefur lítinn áhuga á neyslu í núinu og er áherslan á að minnka skuldir og fara jafnvel að spara á nýjan leik.

Því er mikil lækkun stýrivaxta í dag (hefði mátt vera ívið meiri) vonandi aðeins fyrsta skrefið í ferli vaxtalækkana.  Er lækkunin í samræmi við þau skilaboð sem almenningur og fyrirtæki senda frá sér. 

Núverandi stjórnvöld segjast aftur á móti vonast til að sjá stýrivexti í kringum 2-3% í lok árs.  Ég spyr hins vegar:  Er hugsanlegt að enn einu sé verið að senda röng skilaboð með slíku?  Það er ekki of mikill sparnaður heldur neysla sem er stór partur af þeim vanda sem við glímum við í dag.  Jafn mikilvægt sem það er að koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur, sem verður væntanlega gert með áframhaldandi gjaldeyrishöftum, þá verður að varast það að senda á nýjan leik röng skilaboð til fólks um að sparnaður borgi sig ekki og til fyrirtækja að rétt sé að fara í langtímaframkvæmdir. 

Stýrivextir eiga að endurspegla raunveruleika aðstæðna - ekki, eins og orðið felur í sér, að myndast við að stýra honum.      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Ég var aðeins að fikta og fínpússa og eyddi upprunalegu færsluna með athugasemdum.  Hér er þetta komið aftur og læt þær fylgja hér með aftur og lofa jafnframt að læra betur á þetta áður en ég fer að föndra aftur við eigin færslur.  mwm

Höfundur: Ragnar Thorarensen (http://rth.blog.is/)

Athugasemd:


Sæll Már,

góður pistill hjá þér. Þessi knýjandi þörf hjá atvinnulífinu fyrir
vaxtalækkun segir það ekki bara að atvinnulífið hér hafi verið illa rekið,
m.ö.o.  alltof skuldsett!? Hvenær munu Íslendingar læra að spara!? En ein
spurning; Það hefur verið talað um að nú sé engin verðbólga (nánast engin),
hvers vegna er alltaf verið að miða verðbólguna við síðustu 12 mánuði. Nú
er allt stopp en samt erum við með 13,5%  stýrivexti! Er þessi litla lækkun
hjá SÍ eitthvað tengd jöklabréfunum sem útlendingar eiga hér í stórum stíl?

Svar mitt er að verðbólga í fortíð hefur einfaldlega alltaf verið mælistika SÍ.  Seðlabankinn er einfaldlega að fylgja sömu stefnu og áður sem er ágætt í sjálfu sér en ég sjálfur tel að lækka mætti stýrivexti hraðar en vona að hérlendir hagfræðingar lendi ekki í sömu lágvaxtagryfju og flest önnur vesturlönd.

Höfundur: Mama G (http://softone.blog.is/)

Athugasemd:
Loksins einhver með viti hérna að tjá sig um þetta mál.

 TAKK

Höfundur: Gunnar Kristinn Þórðarson

Netfang:

Vefslóð: http://landsvarnarflokkurinn.blogcentral.is

Athugasemd:


Ég er alveg sammála þessu.  Þessi viðbrögð fólks og SA sýnist mér
einkennast af mikilli afneitun á því hvað sé í farvatninu í íslensku
efnahags og atvinnulífi.  Okkar efnahagur mun að mestu leiti stýrast af
eftirspurn eftir útfllutningi okkar, og eru því miður blikur á lofti í
allri hrávöruframleiðslu og fæðuverði. 

Þú bendir réttilega á að sparnaður er meiri dygði en eyðslusemi.  Þessar
áherslur kristallast í deilum Breta og Bandaríkjamanna við Þjóðverja. 
Hinir fyrrnefndu telja að eyðsla almennings muni leiða hagkerfin út úr
þessu, jafnvel þótt hann sé verðsettur upp í topp og atvinnulaus í stórum
stíl.... þetta eru ævintýralegar ranghugmyndir!  Þjóðverjar og Frakkar
vilja fara sparnaðarleiðina, enda löng hefð fyrir skynsömum fjármálarekstri
þar á bæ.  Staðreyndin blasir við, og er talið að þrátt fyrir allar þessar
Keynesísku aðgerðir Obama og Brown muni einkaeyðsla minnka í USA um 2%
þetta árið skv. The Economist í dag.  Það er í raun gríðarleg tala ef tekið
er tillit til þess að USA á 40% af allri eyðslu í heiminum.  

Stjórnmálamenn gleyma því að fólk er viti borið, einkum þegar þrengir að. 
Þá dregur það saman og safnar fjármunum.  Nú eru Bandaríkjamenn að slá
heimsmet í sparnaði, sem minnir á margt á viðbrögð Japana á Týnda
áratuginum.  Þá prentuðu þeir seðla og tóku lán eins og enginn væri
morgundagurinn til að forðast verðhjöðnun, en fólkið lagði bara peningin
inn á bók og  verðhjöðnunin hélt áfram.  Þetta erað gerast í
Vesturveldunum. 

Mér sýndist Bernanke nánast viðurkenna í erindi sínu í vikunni að
verðhjöðnun myndi hrjá Kanan í tvö ár.  Hvað þýðir það?  Það þýðir að það
verður enginn bati fyrr en eftir dúk og disk!  Þetta var
bara"OK"klisjuþvaður í kananum í vikunni.  Hlutabréf eru að fara upp vegna
væntinga til Kínverja, en ekki til Bandaríkjamanna.  Óvíst er að Kínverjar
standi undir þeim væntingum, því einkaeyðsla þar er einnig að dragast saman
og eru þeir einnig háðir útfluttningi.  Talið er að 60% af tekjum Kínverja
fari í íbúðarskuldir.

Reyndar held ég að stýrivextir verði afnumdir hér í haust þegar
ársverðbólga fer niður fyrir 0%, en á meðan svo er ekki er ég sammála að
fara varlega í stýrivaxtalækkunum, því það er skammt öfgana á milli og
hætta á annarri óðaverðbólgu ef ekki er farið rétt með.

Eins og ávallt, góðar athugasemdir hjá þér.  Bernanke er sérfræðingur í bandarískum kreppum og hefur sjálfssagt verið að reyna að koma USA úr þeirri lágvaxtastefnu þegar að allt fór til fj......

Már Wolfgang Mixa, 7.5.2009 kl. 20:26

2 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll.  Már greinagóð samantekt hjá þér.

Kv. úr  Hafnarfirði ,  Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 7.5.2009 kl. 21:25

3 Smámynd: Valan

Takk fyrir góðar greinar og góða, lærða og skynsamlega útskýringu á undirstöðum vandans sem við glímum við í dag. Ég er sjálf á þeirri skoðun að vaxtastigið eigi (eins og annað vöruverð) að vera ákvarðað af markaðnum, framboði og eftirspurn - eða í þessu tilfelli hlutfalli sparnaðar og eftirspurn eftir lánsfé. Vöxtum á alls ekki að vera "stýrt" af ríkinu neitt frekar en að verð á gúmmístígvélum eða naglalakki á að vera ákveðið af ríkinu.

Mér finnst líka mikilvægt að það komi fram að þar sem það ætti að vera orðið ljóst að "falskir vextir" eða "stýri"vextir eru eitt af því sem ákafast kyndir undir þenslu-kreppu vítahringnum er mikilvægt að þeim sé ekki "stýrt" heldur sé leyft að finna sitt eðlilega stig á frjálsum markaði. Þannig verður markaðurinn náttúrulega stöðugur og bæði þenslu- og kreppulaus. Með því væri líka gripið fyrir freistingu atvinnulífsins að þrýsta á stjórnmálamenn að beita sér fyrir þensluhvetjandi vaxtalækkunum.

En þó verða markaðsvextir til lítils ef ríkið kyndir undir lánamarkaði með afskiptum sínum eins og þú bendir réttilega og skilmerkilega á í greininni. Hið opinbera er hvorki hæfur né trúverðugur aðili á þessum markaði og ætti að halda sig utan við hann.

Annars vildi ég líka bæta því við að ég get ekki verið sammála því að Bernanke sé sérfræðingur í kreppum, nema þá í því að búa þær til. Hann virðist a.m.k. ekki skilja þenslu-kreppu vítahringinn (e. Boom-Bust cycle) og hlutverk vaxtanna sem hann sjálfur stýrir í gegnum Seðlabanka Bandaríkjanna. Enginn annar banki eða stofnun er nógu stór til þess að framkalla álíka þenslu og þarf í álíka landlæga kreppu og er núna í Bandaríkjunum. Sök seðlabankans gæti ekki verið augljósari því án hans hefði hvorki þenslan né kreppan sem henni fylgdi verið möguleg.

Takk annars kærlega fyrir mig, ég mun heimsækja þessa síðu reglulega.

Valan, 8.5.2009 kl. 05:07

4 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Takk fyrir pistilinn Már, góð og fróðleg samantekt hjá þér eins og svo oft áður, vonandi að stjórnmálafólkið gefi sér tíma til að lesa þetta. Takk.

Ingimundur Bergmann, 8.5.2009 kl. 16:38

5 identicon

Góð grein Már,

En er ekki málið eins og ávallt áður?...Sérðu framtíðina?..það gerir enginn og í alþjóðavæðingu fjármála heimsins sem enginn sá eða hugsaði fyrir eru allir börn og bíða eftir næsta kerfi til að læsa huga sinn í:)

itg (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 20:35

6 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Takk öll fyrir hlý orð.

Vala - ég fæ kannski að vitna beint í þessa setningu þína síðar "Með því væri líka gripið fyrir freistingu atvinnulífsins að þrýsta á stjórnmálamenn að beita sér fyrir þensluhvetjandi vaxtalækkunum" því hún er lýsandi fyrir hluta þeirrar orðræðu sem nú ríkir.  Bernanke, ég sagði að hann væri sérfræðingur í bandarískum kreppum en hefði betur sagt að hann hefði mikla þekkingu í þeim (hefur m.a. ritstýrt bók um efnið, sjá http://www.amazon.com/Essays-Great-Depression-Ben-Bernanke/dp/0691118205/ref=sr_1_1?ie=UTF8&s=books&qid=1241871887&sr=8-1 ).  Ég hef einfaldlega ekki myndað mér skoðun á hans verkum sem seðlabankastjóri hingað til.

Ingimundur - ég er einmitt að vona að stjórnmálafólk lesi þetta en held að það sé óskhyggja frekar en annað.

itg (skemmtilegra er að fá fullt nafn) - ég sé ekki framtíðina frekar en aðrir og bjóst ekki við að ástandið yrði þetta slæmt.  Get hins vegar sagt að ég hafi verið í all svartsýnasta hópnum og varaði vini og vandamenn eins mikið og ég taldi vera mögulegt um að gæta sín (átti mörg einkasamtöl).  Held auk þess að ég hafi verið eini, og þá meina ég sá eini, úr fjármálageiranum sem hafi varað á opinberum vettvangi við erlendum lántökum.  Þurfti að milda upprunulegu útgáfu mína til að halda einhverjum trúverðugleika - þetta sést í pdf skjölum á síðu minni (varað við erlendum skuldum) en það er leiðinlegt að nálgast skjölin.  Samantekt er hér -http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/831443/ - vona að þetta útiloki mig ekki frá barnahópnum, múgurinn hefur oftar en ekki rétt fyrir sér.

Már Wolfgang Mixa, 9.5.2009 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband