Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Skoðanakönnun - Stýrivextir

Bið þá sem ekki hafa tekið þátt í skoðanakönnun minni að gera það, hún er á hægri hönd efst á bloggsíðu minni.  Gaman væri að fá athugasemdir þar sem að rök fyrir vali eru greind.  mwm
mbl.is Vextir lækkaðir í 12%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhættulausir vextir - ríkistryggð skuldabréf eða bankainnstæður?

Eitt af undirstöðuatriðum verðmata er hugtakið áhættulausir vextir.  Þeir eru nokkurs konar grunnur á ávöxtunarkröfu sem gerð er til verkefna eða ávöxtun fyrirtækja.  Séu áhættulausir vextir 5% er ávöxtunarkrafa til skuldabréfa stöndugra fyrirtækja almennt í kringum 6-7% og hækkar síðan í samræmi við áhættu í rekstri og líftíma skuldabréfa.  Meira álag er lagt á hlutabréf og verkefni, enda meiri óvissa tengd arðsemi þeirra.  Séu áhættulausir vextir hins vegar hærri, eins og t.d. 15%, ætti ávöxtunarkrafa á skuldabréfum stöndugra fyrirtækja að vera í kringum 16-17% og síðan koll af kolli.*

Skilgreiningin á áhættulausum vöxtum er aftur á móti stundum örlítið snúin.  Oftast nær er miðað við skuldabréf tryggð af ríkinu en ávöxtunarkrafan getur verið afar mismunandi eftir líftíma þeirra (sem fram kemur í vaxtakúrfu).   Þegar ekki er verið að bera saman skuldabréf með svipuðum líftíma vandast málið örlítið því þá er það í raun einungis matsatriði hvort líta eigi til skammtíma- eða langtímavaxtastigs. 

Slíkar ákvörðunartökur eru þó aðeins handavinna samanborið við vandamál sem nú hrannast upp.  Nú fækkar óðfluga sá hluti skuldabréfa sem í mörg ár hefur verið talin vera allt að því áhættulaus fjárfesting.  Rétt rúmlega 2 ár eru síðan að íslensku bankarnir fengu AAA einkunn hjá Moody's lánshæfismatsfyrirtækinu, sem þýðir að líkur á því að nokkur skerðing verði á endurgreiðslu lán og vaxta eru allt að því engar. 

Nú er landslagið breytt, skuldabréf tryggð af íslenska ríkinu eru aðeins með BBB+ einkunn (langtímaskuldbindingar í innlendri mynt) hjá lánshæfismatsfyrirtækinu Standard & Poor's (sjá góða samantekt Seðlabanka Íslands hér).  Þetta mat er orðið rúmlega hálfs árs gamalt og með neikvæðum horfum; því má gera ráð fyrir að það sé orðið í raun lægra í dag.  Líkur á því að ekki verði að fullu staðið við skuldbindingar ríkistryggðra skuldabréfa einhvern tíma á næstu árum eru því orðnar töluverðar (sjá samantekt Standard & Poor's, mynd 24 og tafla 14). 

Því ber ég fram þá spurningu, eru ríkistryggð bréf áhættulausir vextir?  Margir eru sjálfssagt ósammála mér en eins og staðan er í dag tel ég að bankainnstæður séu nær því að vera í þeim flokki.  Verði afdráttarlaus ábyrgð ríkis af bankainnstæðum afnumin er hætta á því að áhlaup verði á bankainnstæðum og að fjármálakerfi Íslands lamist varanlega (hér má deila um hversu lamað það er nú þegar).  Verði að grípa til neyðarúrræða á einhverjum tímapunkti tel ég líklegra að það verði með afföllum á ríkistryggðum bréfum.  Lífeyrir landsmanna hlyti skaða en stór hluti skaðans væri borin af erlendum fjárfestum (góð rök fyrir því að hærri prósenta lífeyris landsmanna væri erlendis).  Slíkt fæli ekki nauðsynlega í sér kerfishrun og ákveðinn skaði hefur þegar átt sér stað.

Hverjir eru þá áhættulausir vextir?  Ef fólk er mér ósammála þá eru þeir á bilinu 5,65-7,30% (sjá www.lanasysla.is).  Ef bankainnstæður eru viðmiðið þá eru þeir**:

MP Banki             10,10% (Sparireikningur) - 12,50%

Byr                      9,55% (PM) - 9,90 - 10,90%

Landsbanki         9,55% (Vaxtareikningur) - 9,55%

S24                     9,50% (Sparnaðarreikningur) - 12,70%

Íslandsbanki       7,90% (Vaxtaþrep) - 7,90%

Kaupþing            7,00% (Markaðsreikningur) - 9,00%

Hér miða ég við sömu reikninga og forsendur sem ég fjallaði um daginn, sjá slóð hérna

Samanburður á forsíðu Morgunblaðsins í morgun er þegar úreltur, Byr lækkaði vexti í dag þannig að PM reikningur hefur lækkað 2 sinnum síðan að greinin var birt, fyrst niður í 9,9% og nú í sömu prósentu og Landsbankinn býður.  Mismunur á ávöxtun hefur breyst mikið, sérstaklega í ljósi þess að vextir á innstæðum S24 lækkuðu um 3,2%.  Held ég að þetta sé í fyrsta sinn sem hærri vextir fáist á PM reikningi en sparnaðarreikningi S24.  Vaxtatafla MP Banka var uppfærð í dag og breytust vextir ekki miðað við gefnar forsendur.

* Þetta er skrifað eingöngu eftir minni: Í ársbyrjun 2007 var áhættuálag stuttra skuldabréfa fyrirtækja eins og FL Group aðeins 1-2%.  Skuldabréf FL Group voru ekki með viðurkennt lánshæfismat og með einföldum Excel útreikningum var hægt að sjá að hlutabréf félagsins voru að seljast á 1,7 til 1,8 fyrir hverja krónu (hver 100 kall eigin fjár var metin á 170-180 krónur) þó svo að langstærsti hluti safnsins væri í skráðum hlutafélögum.  Auk þess var efnahagsreikningurinn það gíraður að ljóst var að 50% lækkun á safni þess kæmi til með að þurrka út allar eignir félagsins, slíkt gerðist síðast árin 2000-2003 og því hefði slík lækkun ekki átt að koma neinum á óvart.

**Miðað við að þú eigir inn á bók 5 milljónir og eina krónu (með engan eða stuttan binditíma).  Rétt er að taka fram að ofangreind umfjöllun flokkast ekki sem fjármálaráðgjöf og einnig að ég hef ekki hagsmuna að gæta við þessi skrif.


Viðhorf og grúsk - Vextir og verðtrygging BEG

Það hljómar eins og þversögn en oft sér maður hlutina skýrar úr fjarska.  Því er forvitnilegt að fá skoðanir manna sem fylgst hafa náið með framvindu efnahagsmála hérlendis en eru búsettir erlendis.  Einn slíkur er Birgir Ernst Gíslason.  Hann hefur lengi búið og starfað erlendis og fylgist auk þess náið með verðbréfamörkuðum, alþjóðlegum og íslenskum.  Hann og kona hans vörðu heilu ári í heimsreisu fyrir nokkrum árum síðan og voru aðallega á tiltölulega ótroðnum slóðum.  Hann hefur því öðlast sýn á hlutum sem ég get líklegast aðeins leyft mér að dreyma um á minni lífsleið.  Oft þegar ég hitti hann fæ ég nýja sýn á stóru myndinni. 

Því var það mikill fengur að fá heila grein frá honum í athugasemdadálki um daginn þar sem hann kemur fram með skoðanir sínar.  Sumt af því hef ég áður fjallað um, en hann orðar stundum með skýrari hætti.  Með leyfi hans endurbirti ég hér greinina að neðan með örlitlum tilfæringum og vona að þurr titill (sem ég á „heiður“ af) fæli fáa.

Vextir og verðtrygging

Ég hef búið erlendis sl. 14 ár og því horft á íslenska "efnahagsundrið" utan frá, oft með undrun, stundum með skelfingu en því miður sjaldan með aðdáun - en það er annað mál.  Ég vil horfa á þessa umræðu út frá einstaklingum en ekki fyrirtækjum því fyrirtæki hafa mismunandi möguleika á að fjármagna starfsemi sína sem einstaklingar hafa ekki.

Sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að fela Seðlabanka Íslands umsjón með vaxtastigi í landinu var án efa rétt svo langt sem það náði og kannski nauðsynleg í alþjóðlegu samhengi til að sýna umheiminum að vaxtamál þjóðarinnar væri ekki í höndum stjórnmálamanna.  

Hins vegar tel ég að það sé grundvallar hugsanavilla í þessari stefnu hvað Ísland varðar.  Ein helsta notkun á stýrivöxtum erlendis (UK og US sem ég þekki best til) er að auka eða draga úr neyslu og þenslu í þjóðfélaginu á hverjum tíma og þar með hafa bein áhrif á þróun verðbólgu.  Þetta virkar svona:

A. Hækkun stýrivaxta - Einstaklingar með lán hafa minni pening aflögu til annarrar neyslu og aðrir einstaklingar auka sparnað sinn.  Neysla dregst saman, sparnaður eykst og þrýstingur á verðbólgu minnkar.

B. Lækkun stýrivaxta - Einstaklingar með lán hafa meira til aflögu og eyðsla þeirra eykst, einstaklingar með sparnað minnka sparnað sinn og auka eyðslu.  Neysla eykst, sparnaður dregst saman og þrýstingur á verðbólgu vex.

Það má gagnrýna hversu vel Seðlabönkum erlendis hefur tekist þetta verkefni, en það er annað mál.  Það sem skiptir mestu máli er að þetta stjórntæki svínvirkar í löndum þar sem öll lán og innlán til einstaklinga eru háð stýrivöxtum Seðlabanka viðkomandi lands, t.d. hér í Bretlandi.  Áhrif af vaxtabreytingum skila sér mjög fljótt út í efnahagskerfið.

Á Íslandi eru (voru) öll helstu lán til einstaklinga verðtryggð (húsnæðislán og önnur lengri lán).  Stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa engin áhrif á vaxtastig þessara lána, því kostnaður við þau er fyrst og fremst háð verðbólgunni í landinu.  Þegar draga þurfti úr þenslu á Íslandi fyrir nokkrum árum og Seðlabankinn fór að hækka stýrivexti þá hafði það engin áhrif á neyslu einstaklinga því mánaðarlegar afborganir af húsnæðislánum þeirra breyttist lítið sem ekkert.  Verðbólguþáttur lánanna er nefnilega endurlánaður að stórum hluta til lántakandans skv. skilmálum lánsins.  Jafnframt var sú ákvörðun stjórnvalda að heimila íslensku bönkunum að lána einstaklingum langtímalán með gengistryggingu síðan viðbótar þensla sem stýrivextir Seðlabanka Íslands höfðu engin áhrif á. Það eina sem stýrivextir höfðu áhrif á var að auka "carry trade" til Íslands þegar það var það síðasta sem Ísland þurfti. 

Á meðan öll lán til einstaklinga eru bundin verðtryggingu annars vegar og erlendum gjaldmiðlum hins vegar, hafa stýrivextir Seðlabankans mjög takmörkuð/lítil áhrif hvað varðar efnahagstýringu landsins til að hafa áhrif á þróun verðbólgu.  Í þeim skilningi hafa stýrivextir engin áhrif. 

Þetta er í raun og veru spurning um hvort menn vilji hafa stýrivexti eða verðtryggingu.  Grunnvandi  íslensks efnahagslífs er verðtryggingin og erlend lán einstaklinga en ekki stefna stýrivaxta Seðlabankans.

Það sem þarf að gerast á Íslandi núna er þetta:

1. Afnema verðtryggingu án tafar og binda öll lán miðað við stýrivexti Seðlabanka + ákveðið % álag (t.d. 1-1.5%).

2. Skuldbreyta öllum gengistryggðum lánum einstaklinga yfir í krónulán með sama hætti og í lið 1.

3. Afskrifa hluta höfuðstóls húsnæðislána hjá einstaklingum sem ekki geta staðið undir núverandi greiðslubyrði þeirra í samræmi við ákveðna hlutfallslega greiðslubyrði (í US er greiðslubyrðin miðað við max ca. 30% af ráðstöfunartekjum, í Bretlandi 3.5 - 4.0 sinnum heildarárslaun fyrir 25 ára lán).  Í þeim tilfellum þar sem það er ekki fýsilegt, þarf viðkomandi einstaklingur að lýsa sig gjaldþrota.

4. Skuldbinda lífeyrissjóði landsins til að flytja erlent fjármagn sitt til Íslands (gjaldeyrir heim) og styðja þannig við uppbyggingu á íslensku atvinnulífi (en ekki erlendu).

Birgir Ernst Gíslason

Sjálfur er ég sammála flestu af því sem Birgir skrifar.  Liður 3. er nokkurs konar LÍN tillaga sem fram hefur komið áður á öðrum vettvangi. 

Hvað skuldbindingu lífeyrissjóði má deila endalaust um hvort flytja eigi fjármagn til Íslands.  Það hefði örugglega jákvæð áhrif nú en á móti væri verið að auka innlenda áhættu lífeyrisþega og ef slíkar fjárfestingar skiluðu slakri arðsemi þá væri lífeyrir fólks ofan á allt einnig kominn í uppnám.  Þetta leiðir umræðuna að því að hvort hámark erlendra fjárfestinga eigi að vera 50%.  Hefði slíkt hámark ekki verið til staðar og t.d. ¾ fjárfestinga lífeyrissjóða tengd erlendum myntum þá væri auðveldara að réttlæta 4. lið tillagna Birgis; í raun erfitt að réttlæta nokkuð annað. 

Það er von mín að geta birt í framtíðinni öðru hverju greinar sem mér berast eins og nú.  Verða slíkar greinar flokkaðar sem Viðhorf og grúsk.  Auk þess mun ég senda öðru hvoru hlekki tengdum áhugaverðum greinum til þeirra sem eru á póstlista mínum (beiðni sendist til marmixa@yahoo.com). Bendi auk þess á aðra áhugaverða grein sem Kristinn Snævar Jónsson sendi og hægt er að lesa hér þar sem fjallað er ítarlega um vexti. 

Minni að lokum á skoðanakönnun sem er efst hægra megin á síðunni – þeir sem hafa ekki tekið þátt, svarið núna!  mwm

 

Eru stýrivextir úrelt fyrirbæri sem heldur vaxtalækkunum í skefjum? Skoðanakönnun og póstlisti

Almennt hafa stýrivextir á Íslandi verið viðmið fyrir innlánsvexti hjá fjármálastofnunum.  Þegar að þeir voru t.d. lækkaðir niður í 13,0% um daginn þá voru innlánsvextir í S24 lækkaðir í 12,7%.  Ríkisbankarnir lækkuðu þá hins vegar innlánsvexti töluvert meira.  Þeir létu þó ekki staðar numið, í síðustu viku lækkaði Kaupþing innlánsvexti enn meira (í átt að vaxtastig hinna ríkisbankanna).  Auk þess lækkuðu MP og Sparisjóðirnir, sem eru með hæstu innlánsvextina, einnig innláns- og útlánsvexti sína.

Þegar að ég leit á yfirlit mitt áðan í heimabanka mínum í Landsbankanum sá ég að innlánsvextir af krónum mínum þar eru 6,70% og útlánavextir 14,65% færi ég í yfirdrátt.  Fæ ég því ekki betur séð en að stýrivextir Seðlabanka Íslands séu botninn í lækkun vaxtastigs, nema ef vaxtarmunur inn- og útlána væri aukin enn frekar.  Í dag talaði Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, um að ríkisbankarnir geti sjálfir ákveðið að lækka vexti í 5%.

Stýrivextir virðast því ekki þjóna hlutverki sínu í dag.  Slíkt er e.t.v. ekki furða því fyrirkomulag þeirra sem nokkurs konar heildsöluverð til banka hefur að stórum hluta til brostið.  Skýringin felst í skilgreiningu þeirra að neðan sem er tekin beint af heimasíðu SÍ.

Lán gegn veði - stýrivextir Seðlabanka Íslands
Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru þeir vextir sem ætlað er að hafa áhrif á aðra vexti í landinu. Stýrivextir eru vextir á lánum gegn veði á milli Seðlabankans og lánastofnana.  (Áður gekk þetta undir nafninu endurhverf verðbréfakaup - víða kallað REPO, sem er dregið af enska heitinu „repurchase agreement“. ) Lán gegn veði eru nú til 7 daga í senn. Hvati viðskiptanna er að lánastofnanir þurfa stundum laust fé í takmarkaðan tíma og geta fengið frá Seðlabankanum gegn veði í verðbréfum. Lánastofnanir geta þannig tryggt lausafjárstöðu sína, en um leið hefur Seðlabankinn áhrif á vaxtastigið í landinu með því að ákveða vextina í þessum viðskiptum, því að lánastofnanirnar þurfa að fá jafnháa eða hærri vexti af fjármagninu (með því að lána féð áfram til viðskiptavina) til að tapa ekki á viðskiptunum við Seðlabankann.

Er líklegt að íslenskir bankar verði í framtíðinni á kafi í endurhverfum endurkaupum?  Eftir allar þær afskriftir sem hafa átt sér stað vegna þeirra við hrun bankakerfisins tel ég að slíkir gjörningar verði í lágmarki. 

Auk þess hefur aukin gagnrýni beinst gegn stýrivöxtum almennt verið að eiga sér stað.  Ljóst er að í Bandaríkjunum og öðrum mörkuðum voru þeir stöðugt lækkaðir þó svo að sparnaður væri stöðugt að minnka.  Eðlilegar hefði verið að örva sparnað með hækkun vaxta.  Á Íslandi voru þeir hins vegar bitlausir vegna aðhaldsleysi stjórnvalda í peningamálum.  Því er eðlilegt að spyrja, hvaða hlutverki þjóna stýrivextir?  Væri ekki einfaldlega nær að framboð og eftirspurn fjármagns ráði ríkjum og umræða um hvar stýrivextir eigi að vera heyri sögunni til?

Ég er með skoðanakönnun (efst á síðu, til hægri) um hvar stýrivextir eigi að vera.  Með ofangreindum rökum ætti spurningin e.t.v. að vera hvar líklegt sé að jafnvægisvextir séu, það hvar jafnvægi næst í sparnaði og útlánum.  Bið alla að taka þátt í þessari könnun og helst skrifa skoðanir sínar af hverju vextir eigi að vera á ákveðnu bili og bæta við athugasemdum varðandi skrif mín í leiðinni.

Að lokum: Ég skrifa 1-2 færslu í hverri viku.  Þeir sem vilja geta sent mér skeyti á marmixa@yahoo.com og beðið um að vera á póstlista.  Í hvert sinn sem ég skrifa nýja færslu sendi ég stutt skilaboð.  Þeir sem nú þegar eru á listanum ættu að fá meldingu, ef ekki, vinsamlegast látið mig vita. 

 

 


Fjárfestingar, neysla og vaxtastig

Umræðan um að auka neyslu á nýjan leik í þjóðfélaginu er á rangri braut.  Af hverju hafa kjör okkar verið að batna jafnt og þétt síðustu áratugi?  Vart er það vegna þess að neyslan hefur aukist.  Svarið hlýtur að liggja í því að við framleiðum meira í gegnum aukinni framleiðni.  Neyslan kemur í framhaldi af því að við höfum efni á því.

Þessi skoðun mín held ég sé á öndverðum meiði við almenna hugsun í þjóðfélaginu.  Ein af helstu rökum á lækkun vaxta og leiðréttingu skulda er að þá sé meira fé afgangs til neyslu sem skili sig til þjóðfélagsins (þetta er vel að merkja ekki umræða um meðferð skulda).  Þessi rök hafa vart verið gagnrýnd en eru að mínu mati rugluð saman við þann skilning að þjóðarframleiðsla sé fjármagn í umferð og hversu oft það skiptir um hendur.  Slíkt kemur hins vegar einfaldlega (aftur) í kjölfar sköpunar í þjóðfélaginu, en leiðir ekki af sér sköpun.

Því þarf að einblína á fjárfestingar til virðissköpunar á Íslandi til að þjóðin nái að vinna sig úr þeim (gríðarlega) vanda sem við erum í.  Einblína þarf á fjárfestingar sem skapa virði "á morgun" en ekki neyslu í dag, sem draga þarf saman.  Búið er að fjalla ítarlega um möguleika á þeim sviðum en orka (endurnýjanleg og rafmagnsbílar) og tækniúrlausnir (s.s. aðfangastjórnun RFID) eru svið sem veita framtíðarlausnir nauðsynlegar á alþjóðavísu.

Ofangreint leiðir sumpart að þeirri skoðun minni að stýrivextir eigi ekki að fara á sömu mið og þeir eru erlendis (þetta tel ég að flestir séu mér einnig ósammála).  Lágt vaxtastig erlendis og lítið aðhald í peningastefnu stjórnvalda (sem hérlendis vó meira en hátt vaxtastig) hefur ekki gert neitt annað en leitt til bólu í neyslu, sérstaklega hvað húsnæði varðar.  Lágt vaxtastig erlendis er jafn bitlaust og hátt vaxtastig hefur verið hérlendis. 

Því tel ég að stýrivextir hér eigi ekki að lækka neðar en 5%.  Hvati verður að vera til staðar til sparnaðar - og að sá sparnaður verður nýttur í skynsamar fjárfestingar.  Að sama skapi tel ég að Seðlabanki Íslands eigi að lækka stýrivexti hraðar því verðbólgumælingar og spár gefa ekki tilefni til núverandi vaxtastigs (rök um trúverðugleika eiga ekki við í dag og auðvelt væri að lækka vexti niður í 6-7% án þess að slíkt veiti röng skilaboð - hægt væri að taka fram að ekki væri gert ráð fyrir frekari lækkunum).

Í færslu minni sl. mánudag kom fram að munur á innlánsvöxtum á milli fjármálastofnanna væri mikill.  Síðan þá hafa þær fjármálastofnanir sem voru með hæstu vextina tilkynnt að þær ætli að lækka vexti.  Fjalla ég um þetta í næstu viku í stað þessarar eins og til stóð; færslan þyrfti að vera h.u.b. í beinni útsendingu...  Auk þess verð ég með skoðanakönnun áður en ég klára færsluna og verða niðurstöður hennar kynntar samhliða henni.

Að lokum: Ég skrifa 1-2 færslu í hverri viku.  Þeir sem vilja geta sent mér skeyti á marmixa@yahoo.com og beðið um að vera á póstlista.  Í hvert sinn sem ég skrifa nýja færslu sendi ég stutt skilaboð.  Annað; ég bið um fleiri athugasemdir - fleiri birtast nánast undantekningarlaust þegar að skrif mín birtast á öðrum vettvangi.  Athugasemdir veita fleiri hliðar á málum (sérstaklega þær sem eru á öndverðum meiði) og fá mig stundum til að endurmeta fyrri skrif mín.  mwm


mbl.is Ríkisbankarnir reknir með tapi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öryggi í lífeyri okkar

Það er í sjálfu sér góð tímasetning nú að lífeyrissjóðir láni til framkvæmda innanlands.  Það er hins vegar varasamt að lífeyrissjóðir setji mikið fjármagn í innlendar framkvæmdir.  Þessar framkvæmdir eru auk þess af þeim toga sem búið að gera of mikið af undanfarin ár.  Áherslan ætti að vera í fjárfestingum í atvinnulífinu og er orka (t.d. þróun rafmagnsbíla) ákjósanlegur vettvangur.

Hefði meira fjármagn verið fyrir í erlendum fjárfestingum væri meira vit í þessari stefnu.  Ef þessar fjárfestingar skila slökum arði versnar staða okkar einfaldlega enn meira.  Sjá umfjöllun um málefnið hér.


mbl.is Lífeyrissjóðir láni borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilt þú ávaxta fé þitt betur... án þess að auka áhættu?

Margir sem eiga pening inn á bankabók gætu ávaxtað fé sitt miklu betur í dag með einföldum hætti.  Eftirfarandi tilkynning frá Íslandsbanka gefur vísbendingu af hverju:   Íslandsbanki hefur ákveðið að lækka útláns- og innlánsvexti bankans frá og með 11. maí nk. Þetta hefur í för með sér að vextir á óverðtryggðum inn- og útlánum lækka um 1,0 - 6,4 prósentustig og vextir á verðtryggðum inn- og útlánum lækka einnig um 0,95 - 1,00 prósentustig. 

Það sem ekki kemur fram er að;

  • vextir útlána lækka lítið
  • vextir óverðtryggðra innlána lækka mikið, líklegast allt að 6,4%! 

Þetta er langt umfram þeirri stýrivaxtalækkun sem nýlega átti sér stað.  Það gefur einnig auga leið að þetta eykur vaxtamun gífurlega og sýnist mér í fljótu bragði hann vera kominn á svipaðar slóðir og hann var í kringum 1995.

Flestar aðrar íslenskar fjármálastofnanir hafa lækkað innlánsvexti á svipuðum nótum.  Miðað við að þú eigir inn á bók 5 milljónir og eina krónu (með engan eða stuttan binditíma) færð þú eftirfarandi vexti* á peninga þína:

Byr                      10,90% (PM) til 11,48% (Net12)

Landsbanki         9,55% (Vaxtareikningur)

Kaupþing             9,00% (Markaðsreikningur)

Íslandsbanki       7,90% (Vaxtaþrep)

Mismunurinn er töluverður, t.d. 3% á milli PM reiknings Byrs og Vaxtaþrep Íslandsbanka.  Hann er þó lítill samanborið við netbanka Byrs, S24.  Þar færð þú, miðað við ofangreindar forsendur, á Sparnaðarreikningi 12,70% í vexti!  Mismunur á ávöxtun fjármagns í S24 og Íslandsbanka er 4,8% á ári.  Miðað við að 5 milljónir séu inn á reikningi fær sá sem geymir fjármagnið hjá S24 240 þúsund krónur á ári (fyrir fjármagnsgjöld) meira en sá sem geymir fjármagn sitt hjá Íslandsbanka.  Í ljósi þess að nú er ríkistrygging á öllum innstæðum íslenskra fjármálastofnanna fæst þessi mismunur í ávöxtun með sömu áhættu.

Þessi mismunur og þróun vaxtamunar er efni í aðra grein.  Fjalla ég um málið síðar í vikunni en það er skylt leiðaragrein minni sem birtist í helgarblaði Fréttablaðsins á laugardaginn.

Rétt er að taka fram að ofangreint flokkast ekki sem fjármálaráðgjöf og einnig að ég hef ekki hagsmuna að gæta við þessi skrif.

*Vaxtatöflur voru uppfærðar hjá öllum þessum fjármálastofnunum 11.5.2009

Viðbót:  MP banki - vextir samkvæmt ofangreindum forsendum eru 12,5%.


Fjárfestingarstefna lífeyrissjóða - Lágmark 50% í erlendum eignum, ekki hámark

 

Það má segja að hrun efnahagslífsins hérlendis hafi í sjálfu sér verið næganlega stórt högg til að koma Ísland á forsíður blaða um allan heim.  Því miður er það svo að ekki einungis versnaði staða okkar til skemmri tíma heldur hafa horfur á afkomu landsins beðið mikinn hnekk vegna gífurlegra afskrifta á eignum í lífeyrissjóðakerfinu; afskriftir sem vel að merkja fáum óraði fyrir.  Þetta er atriði sem koma hefði mátt að hluta til koma í veg fyrir og hlýtur að kalla á endurskoðun á fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða almennt.

Takmarkanir á eignum í erlendum gjaldmiðlum

Í 36. gr. í VII kafla laga um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða (1997 nr. 129) eru ákvæði með það fyrir augum að lágmarka áhættu.  Þar kemur meðal annars fram að lífeyrissjóðir skuli takmarka áhættu í erlendum gjaldmiðlum í heild við 50% af hreinni eign sjóðsins.  Þessi tala var reyndar sett í 40% árið 1997 en hækkuð í núverandi stærð árið 2000. 

Nokkur ágætis rök hafa verið fyrir þessu á sínum tíma.  Þetta ákvæði hefur sjálfssagt haft eitthvað að gera með reynsluleysi með fjárfestingar á erlendum mörkuðum.  Raunar höfðu fjárfestingar á erlendri grundu vart þekkst fram að byrjun tíunda áratugarins og því var litið á þessar takmarkanir frekar vera aukning heimilda á erlendum fjárfestingum frekar en að verið væri að takmarka þær.  Á sama tímabili var mikil áhersla lögð á að fjárfesta í íslenskum verðbréfum til að skapa hér skipulagðan markað með auknu viðskiptaflæði samhliða því  að lagt verði i fjárfestingar án ríkisafskipta.  Má með öðrum orðum segja að það hafi verið eðlilegt ástand að fjárfesta í íslenskum eignum og hafið yfir flestri gagnrýni.

Einnig er hægt að benda á að fjárfestingar tengdar erlendum gjaldmiðlum leiða óhjákvæmilega til þess að sveiflur í íslensku krónunni vega þungt á ávöxtun erlendra fjárfestinga, til styttri tíma í það minnsta, nema að farið sé út í gengisvarnir með framvirka gjaldeyrissamninga.

Þetta voru því gild rök lengi framan af en vægi þeirra hefur hins vegar minnkað án þess að ofangreind lagasetning hafi hugsanlega tekið næganlegt tillit til breytra aðstæðna.

Þó svo að slík stefna geti veitt framúrskarandi ávöxtun í ákveðin tíma er það svo að á ögurstundum, þegar að mesta þörfin er fyrir því að baklandið sé tryggt, er skynsamlegt að eiga mikið af fjárfestingum tengdum erlendum verðbréfum.   Mætti í því sambandi líta á fjárfestingakosti lífeyrissjóða sem öll verðbréf í alþjóðlegu ljósi, þar sem að íslenskar fjárfestingar eru aðeins brot af heildarflórunni.  Þrátt fyrir að ákveðnum hluta fjárfestinga sé haldið innanlands ætti meginþungi fjárfestinga að vera á svæðum sem eru óháðari árferði efnahags Íslendinga. 

Atvinnugreinar

Slík dreifing á áhættu ætti ekki einungis að takmarkast við landssvæði heldur einnig atvinnugreinar.  Líta þarf heildrænt á áhættustýringu vegna þeirra.   Þær atvinnugreinar sem eru uppistaða íslensks atvinnulífs ættu að vera undirvegnar í lífeyrissparnaði landsins frá því sjónarmiði að í þeim alþjóðavettvangi sem við þrífumst í er líklegt að mikil samfylgni sé á afkomu einstakra atvinnugreina hérlendis og erlendis.  Skynsamlegt hefði til að mynda að undirvega erlendar fjárfestingar í fjármálastofnunum þar sem sú atvinnugrein var hérlendis orðin það umfangsmikil.  Með hruni fjármálafyrirtækja væri það högg á lífeyrissparnaði landsmanna orðið minna, ekki aðeins vegna lækkandi gengis á hlutabréfum heldur einnig vegna neikvæðra áhrifa á heildarafkomu landsins. 

Að sjálfssögðu er það rétt stefna að á öllum tímum sé einblínt á að dreifa áhættu, framangreint hefði komið af sjálfu sér ef til dæmis að stefnan væri að ákveðin prósenta  af hlutabréfum væri í fjármálafyrirtækjum án tillits til landsvæðis.  Sú prósenta ætti þó að hafa verin undirvegin þar sem að þjóðarbúskapurinn hafði óbeint fjárfest það mikið í atvinnugeiranum með öðrum hætti.

Í raun er áhættudreifing með þessu ekki lengur takmörkuð við það sem kennt er almennt í kennslubókum og skoðað er í Excel skjölum, heldur er einnig tekið mið að undirstöðum íslensk samfélags og út frá því sjónarmiði er fjárfestingum dreift í aðrar áttir.  Líkja mætti þessu við þá stöðu sem starfsmenn fyrirtækja eins og Enron og Lehman Brothers lenti margir í; margir hverjir höfðu fjárfest ævisparnaðinn nánast eingöngu í fyrirtækinu sem þeir unnu hjá.  Þegar að fyrirtækin fóru á hausin þá varð höggið tvöfalt.  Bæði urðu þeir atvinnulausir og lífeyrissparnaðurinn gufaði í sumum tilfellum gjörsamlega upp.  Þetta eru ágætis rök fyrir því að fjárfesta engu í þeim atvinnugeira sem maður persónulega vinnur í.  Því ætti að breyta þessari löggjöf með þeim hætti að takmörk séu á innlendri fjárfestingu, ekki erlendri.  Ekki væri óeðlilegt að af heildarfjárfestingum, að húsnæðislánum undanskildum, væru erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða á bilinu 70-80% af fjárfestingarsafni þeirra.  Viðmið á dreifingu safna varðandi atvinnugeira tæki tillit til óbeinna fjárfestinga þjóðarinnar í geiranum.

Fjárfesting í erlendum gjaldeyri

Með þyngra vægi erlendra fjárfestinga í eignasöfnum landsmanna er óhjákvæmilegt að lífeyrissjóðir auki gjaldeyrisvarnir sínar.  Skuldbindingar lífeyrissjóða, sem eru í íslenskum krónum, eru góð rök fyrir 100% gjaldeyrisvarnir, en gengisvarnirnar hafa verið undanfarið í umræðunni.  Þær getspár að lífeyrissjóðir hafi tekið stöðu með krónunni eða verið í einhverri spákaupmennsku eru því ekki réttar.

Þegar að hlutir hérlendis eru í blóma, eða virðist í það minnsta vera það, er krónan sterk og innlendir markaðir skila afar góðri ávöxtun.  Á slíkum löngum tímabilum veita slíkar gjaldeyrisvarnir jákvæða ávöxtun, enda styrkist íslenska krónan gagnvart erlendum myntum sem gerir þær verðminni hérlendis. 

Nýleg reynsla hlýtur þó að sýna fram á að það er skynsamlegrar umræðu virði að meta kosti og galla við að hafa ekki gjaldeyrisvarnir á öllum hluta fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum.  Sveiflur á gjaldmiðlum, sérstaklega minni gjaldmiðlum, verða meiri og hraðari en flestum órar fyrir.  Því veita fortíðargröf litla vísbendingu um framtíðina í þeim efnum.  Með veikingu krónunnar væri ákveðið mótvægi í hluta af eignum lífeyrissjóða án gjaldeyrisvarna fyrir hendi því með hækkun á erlendum gjaldeyri hækkar eignavirði erlendra eigna í krónum talið. 

Þetta hefur sína ókosti því sveiflur í virði fjárfestinga aukast og mætti því líta svo á að aukin áhætta sé tekin með slíkri óbeinni fjárfestingu í erlendum gjaldmiðlum.  Kosturinn við að hafa hluta safnsins í erlendri mynt óvarðan gagnvart gengissveiflum er sá að almennt á veiking krónu sér stað þegar að innlend starfsemi gengur illa.

Erlendar fjárfestingar

Í framhaldi af þeirri holskeflu gjaldþrota sem nú á sér stað hefur heyrst að nú eigi að fara að kaupa erlend trygg skuldabréf.  Hefur þessi umræða held ég aldrei náð neinu flugi fyrr en nú.  Í raun hef ég oft furðað mig á því hversu litla athygli erlend ríkisskuldabréf hafa fengið hjá innlendum fjárfestum.

Að fara nú þó að hefja slík kaup kalla ég að kaupa köttinn í sekknum.  Gott dæmi er ávöxtunarkrafa bandarískra skuldabréfa.  Eins og meðfylgjandi graf sýnir þá er sú ávöxtun sem þau nú gefa í algjörru lágmarki, jafnvel þó að litið sé til síðustu 40 ára.  Sjálfssagt er að beina einhverju að erlendum tryggðum bréfum, sérstaklega þeirra sem eru með verðtryggingu.  Ég spyr aftur á móti: Er þetta virkilega augnablikið til að hefja fjárfestingar af krafti í tryggum erlendum skuldabréfum?

Aftur á móti hugnast nú fáum að fjárfesta í erlendum hlutabréfum, heimurinn er jú að í heild sinni að fara norður og niður, það er í skilningi fjárfestinga.  Það er áhugavert að bjartsýni fólks gagnvart hlutabréfum hefur verið í öfugu hlutfalli við kauptækifæri.  Árið 2000 var umtalið helst á þeim nótum að lífeyrissjóðir ættu að fá rýmri heimildir til hlutabréfakaupa þegar að netbólan, sem og gengi hlutabréfa, var í hæstu hæðum.  Rúmum tveimur árum síðar, þegar að hlutabréfavísitölur höfðu hrapað, flykktist fólk í öruggari fjárfestingar.  Loks, þegar að hlutabréfaverð hafði aftur náð svipuðum hæðum, var áhættusæknin meiri en nokkru sinni fyrr.  Ég vitna í orð Warren Buffett: „Vertu gráðugur fjárfestir þegar að aðrir eru hræddir og vertu mjög hræddir þegar að aðrir eru gráðugir“.

Það er athyglisvert að gengi hlutabréfa er lægra en það var fyrir 10 árum síðan.  Þetta á sér stað á tímabili þar sem að umræða um hlutabréf hefur aldrei verið jafn mikil í sögu Íslands.  Stundum er sagt að bestu kauptækifærin séu til staðar þegar að umræðan um þau er í lágmarki. 

Reyndar má því við bæta að hlutabréf með tilliti til ávöxtunarkrafna skuldabréfa hafa hlutabréf ekki verið jafn ódýr í áraraðir.  Neðangreint graf hef ég notað með góðum árangri í gegnum tíðina, sérstaklega við að byggja upp kalt mat á fjárfestingum.  Sé línan fyrir ofan núllið eru hlutabréf ofmetin gagnvart fjárfestingum í skuldabréfum, sé hún aftur á móti fyrir neðan núllinu eru hlutabréf gagnvart skuldabréfum vanmetin.  Grafið sýnir að hlutabréf gagnvart skuldabréfum hafa sjaldan verið jafn hagstætt verðlögð í áraraðir.  Þó ber að líta til þess að ávöxtunarkrafa skuldabréfa, eins og fram kemur að ofan, er í sögulegu lágmarki og því varasamt að leggja of mikið traust á þessar forsendur. 

Því má við bæta að V/H hlutföll að teknu tilliti til jafns vaxtar hagnaðar í Bandaríkjunum eru nú lægri en þau hafa verið í langan tíma.  Lág V/H hlutföll eru nánast undantekningarlaust forsenda fyrir góða langtímaávöxtun hlutabréfa. 

Aðrar fjárfestingar

Ekki er því þar með sagt að rétt sé að setja öll erlend fjárfestingaregg í hlutabréf þó að góðar líkur séu á því að þau séu ódýrt verðlögð.  Augljós ástæða er að það sem getur virst vera ódýrt í dag gæti enn hrapað í virði.  Nærtækasta dæmið er hrun hlutabréfa árin 1930-1932.  Oft hefur verið sagt að fyrst hafi viðvaningarnir og áhættufíklarnir tapað fjárhæðum, næstu árin hafi síðan vitru fjárfestarnir farið sömu leið.

Önnur rök eru þau að þrátt fyrir að ávöxtunarkrafa skuldabréfa sé afar lág í sögulegu samhengi þá er ávöxtunarkrafa hlutabréfa ekkert sérstaklega lág (lít hér á V/H hlutföll hlutabréfavísitalna út frá meðalhagnaði síðustu tíu ára).  Ávöxtunarkrafan gæti hæglega hækkað ef að ávöxtunarkrafa skuldabréfa hækkar á nýjan leik.  Mikil samfylgni hefur verið á milli ávöxtunarkrafna hlutabréfa og skuldabréfa í gegnum tíðina og er nær öruggt að sú fylgni haldist í framtíðinni.

Í því ljósi er skynsamlegt að dreifa hluta fjárfestinga í óhefðbundnar fjárfestingar sem væru ekki jafn næmar fyrir þróun vaxtamála.   Auk þess er áhættuálag á skuldabréfum án ríkisábyrgða nú í hæstu hæðum eftir að hafa nánast horfið í nokkur ár og því vert að skoða sem fjárfestingarkost. 

Niðurlag

Ávöxtun lífeyrissjóða hefði ekki nauðsynlega verið betri samkvæmt ofangreindum ávöxtunarleiðum.  Lauslegur útreikningur á ávöxtun þeirra í ár, þegar að þörfin er mest, hefði hins vegar verið jákvæðari hefðu fjárfestingar þeirra verið á ofangreindum nótum.  Því er rétt að staldra við og endurskoða fjárfestingarstefnur lífeyrissjóða með langtímasjónarmið í huga, þar sem að áhætta við vali á fjárfestingarkostum er borin saman við stöðu þjóðarskútunnar og litið sé til varna á fjárfestingum þegar að neikvæð efnahagsleg þróun á sér stað hérlendis.

Viðbót - Athugasemd Metamorphosis veitir enn betri sýn í sögulega nálgun á þessari umræðu og hvernig fortíðin hefur áhrif á nútíðina.


Framtíð sparisjóða – Byr og Sparisjóður Hafnarfjarðar – MótByr í Viðbótarsparnaði I - IV

Þó svo að nær 5 ár séu síðan ég starfaði í Sparisjóð Hafnarfjarðar tifar hjarta mitt enn með þeim sparisjóði.  Eins og flestir vita rann sá sjóður inn í Sparisjóð Vélstjóra árið 2006 og myndaði nýjan sparisjóð, Byr.  Þó svo að ég hafi lengi verið þeirrar skoðunar að sameina þyrfti rekstur sparisjóða hefur þróun sameininga sparisjóða verið afleit. 

Sameina þarf alla sparisjóði á Íslandi hið fyrsta.  Rekstur þeirra af reglulegri starfsemi hefur ekki borið sig í mörg ár að örfáum sjóðum undanskildnum.  Sú þróun hefur hins vegar verið á rangri braut innan Byrs.  Sparisjóðurinn Byr hefur lítið með þá sparisjóðahugmynd sem ég tel að aðgreini sparisjóði frá öðrum fjármálafyrirtækjum.  Lít ég frekar til fyrirkomulagsins sem meðal annars er notað á Spáni þar sem sjálfstæði sparisjóða er mikið og einbeita þeir sér fyrst og fremst á að þjónusta sín heimasvæði.  Sparisjóðabankinn í Madrid er miðstöð sparisjóða þar sem að miðlæg verkefni eru höndluð.

Nú er tækifæri til að stýra þróun sparisjóða á svipaða braut.  Stofna þarf einn sparisjóð þar sem að höfuðstöðvar eru nýttar til sameiginlegs rekstrar, svipað og Samband íslenskra sparisjóða og Sparisjóðabankinn voru forðum, en sjálfstæði sparisjóða felst einungis í því að þjónusta sína heimabyggð.  Í því tilliti á að takmarka þjónustu sparisjóða við viðskiptaþjónustu og útiloka fjárfestingarstarfsemi frá rekstrinum.

Væri þá Sparisjóður Hafnarfjarðar endurreistur og aðrir sparisjóðir kenndir við sína heimabyggð.  Inn- og útlánastefna þeirra væri sjálfstæð að mestu án afskipta höfuðstöðva.  Þetta þýðir að skýr stefna þyrfti að ríkja varðandi takmarkanir útlána.  Byr sparisjóður hefur þróast vel hvað straumlínulögun kostnaðar varðar.  Þetta er frá mínum bæjardyrum séð aftur á móti sparisjóður sem skortir tengingu við heimabyggð mína í Hafnarfirði. 

Spyrja þarf, verða hagnaðarsjónarmið ráðandi eða verður frekar stefnt að ákveðinni arðsemi sem telst vera viðunandi?  Hvernig verður þeim hagnaði ráðstafað?  Fer hann einungis til hluthafa eða til eflingar ýmissa þátta í heimasvæði hvers sparisjóðs?

Í dag verður ný stjórn Byrs sparisjóðs kosin.  Ég óska henni gæfu næstu mánuði.  Eitt verðugt verkefni væri að taka á viðbótarsparnaði sparisjóðsins.  Að neðan eru hlekkir af umfjöllun minni um klúður sparisjóðsins í þeim efnum en fyrst er stuttur úrdráttur.

Helstu niðurstöður

·        Fjárfestingarstefna Lífeyrissparnaðar Sparisjóðanna (Lífsval) í hluta- og skuldabréfum var umbylt án þess að sjóðsfélögum væri tilkynnt það.

·        Vægi ríkistryggðra skuldabréfa fór úr 100% niður í 15%, hinn 85% fóru í peningamarkaðsbréf og fyrirtækjabréf

·        Vægi erlendra hlutabréfa fór úr 2/3 niður í helming á kostnað aukningar íslenskra hlutabréfa, sem nú eru nánast verðlaus.

·        Áhrifin eru að ávöxtun er um það bil 25-30% lakari en ef til engra breytinga hefði komið

·        Yfirlit nýlega send frá Lífeyrissparnaði sparisjóðanna minnast ekki einu orði um að verið sé að slíta fyrirtækjasjóðnum og virðast tölur miðast við 5.10.2008. 

·        Síðan að greinin var fyrst birt á bloggi mínu er búið að uppfæra í heimabankanum stöðu lífeyrissparnaðar miðað við dagsetninguna 16.4.2009.  Óljóst er þó hvort að búið sé að taka tillit til slits fyrirtækjasjóðsins.  

 

MótByr í viðbótarsparnaði – 1. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/853104/

MótByr í viðbótarsparnaði – 2. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/854131/

MótByr í viðbótarsparnaði – 3. hluti -  http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855033/

MótByr í viðbótarsparnaði – 4. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855887/


mbl.is Fjölmenni á aðalfundi Byrs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimurinn í augum Black

Fyrirlestur William Black í gær var afar áhugaverður.  Hann telur að bókhaldskúnstir sé helsta tól fjárglæframanna við að koma fjármagni kerfisbundið frá almenningi til örfárra manna.  Aðferðin er í stuttu máli þessi:

  • Veita fólki lán sem ólíklegt er að geti greitt þau til baka
  • Slík lán fylgja almennt há gjöld sem bókfærast strax sem hagnaður
  • Gíra starfsemina eins mikið og unnt er þannig að hver króna skapi enn meiri hagnað
  • Viðhalda örum vexti á meðan að hagvöxtur er jákvæður
  • Þetta leiðir til mikils hagnaðar og hárra bónusgreiðslna svo lengi sem veislan varir

Til að koma ofangreindu í verk þarf að skapa landslag sem gerir það að verkum að fáir fetti fingri út í vafasamar ákvarðanir.  Slíkt miðar fyrst og fremst að því að draga úr eftirliti og óþægilegum spurningum.  Helstu verkfærin eru:

  • Board of Directors - Veita stjórnum lán til kaupa bréfa í eigin fyrirtækjum - þannig eru hagsmunir þeirra orðnar beintengdar hagsmunum stjórnenda á bónustengdum launum sem miða að skammtímahagnaði og aðfinnslur á ákvörðunum ólíklegri
  • Inside Controls - Borga helstu aðilum stjórnendateymisins háar greiðslur með svipuðum hætti og áhrifum og gert er við stjórnarmeðlimi
  • External Controls - Greiða endurskoðendum veglega til að draga einnig úr þeirra gagnrýni á ársreikningum
  • Softly Softly - Vinna stöðugt í því að eiga góð samskipti við aðila sem stunda regluverk þannig að þeir taki síður föst tök á nauðsynlegum málum

Black telur að sterkir persónuleikar sem nánast drottna yfir fyrirtækjum sé sterkt viðvörunarmerki um ofangreinda stjórnunarhætti.  Í umræðum kom fram að Black gefur lítið fyrir Stress Test í sjálfu sér, en FME hefur verið gagnrýnt fyrir jákvætt mat á slíku rétt fyrir bankahrun.  Slík próf eru í raun gagnslaus án rökvísrar greiningar.

Hann tók fram að hann hefði ekki kynnt sér málefni Íslands til hlítar en sýnist við fyrstu sýn að munstrið varðandi stýrð fjársvik samsvari því munstri sem hann hefur áður séð annars staðar.  Helsti lærdómurinn sé að koma auga á ofangreindar upptalningar og halda þróun þeirra í skefjum.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband