Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Vextir, stýrivextir og tvíhöfða vaxtastefna

Ef ekki væri til einhverskonar seðlabanki eða annað vald sem stýrði stýrivexti, hvernig væri vaxtastig ákvarðað? 

Slíkt byggðist í raun, eins og með aðrar vörur, einfaldlega eftir framboði og eftirspurn.  Stundum eykst framboð á fjármagni og stundum dregst það saman og á slíkt einnig við um eftirspurn eftir því. Vaxtastig sveiflast að sama skapi í takti við samspil þessara tveggja þátta.  Ef fólk vill auka sparnað eða bankar verða viljugri til að lána þá fer vaxtastig niður og lántakendur þurfa því að greiða lægri vexti.  Ef fólk vill aftur á móti spara minna (og auka lántökur) eða aðgengi að fjármagni gufar upp hækka vextir og lántakendur þurfa að greiða meira fyrir fjármagnið (rétt eins og hvað varðar framboð og eftirspurn eftir vörum).

Vaxtastefna

Það er alkunna að undanfarin ár hefur eftirspurn á Íslandi eftir fjármangi verið gífurleg.  Því er það furðulegt í dag hversu neikvæð skoðun almennings er á vaxtastefnu Seðlabanka Íslands (SÍ) á sama tímabili.  Í raun gerði bankinn ekkert annað en að stýra vöxtum í sömu átt og eðlilegt væri án utanaðkomandi áhrifa.  Hefðu stýrivextirnir haft tilætlað bit hefði eftirspurn eftir sparnaði aukist og áhugi á langtímaframkvæmdum (lesist; aðallega byggingarframkvæmdum) minnkað.

Framboð og eftirspurn fjármagns

Hinir svokölluðu Austurrísku hagfræðingar skýra þetta þannig að á frjálsum markaði stýrir ofangreint samband framvindu efnahags.  Þegar að fólk fer að safna meiru er áhugi þess fyrir neyslu á þeim tímapunkti tiltölulega lítill og frekar verið að horfa til lengri vegar, það er að fjárfesta síðar.  Með auknu framboði fjármagns lækkar vaxtastig og fyrirtæki fara að sjá meiri hag í því að taka lán til framkvæmda.  Slíkt á sérstaklega við langtímaframkvæmdir sem í háu vaxtastigi gætu raunhæft vart orðið arðbærar.  Er þá verið að fjárfesta fyrir framtíðina en síður neyslu nútímans.  Framkvæmdir sem krefjast mikils vélarkostnaðar eru dæmi um slíkar framkvæmdir og eru byggingarframkvæmdir gott dæmi.

Ef, aftur á móti, einstaklingar vilja frekar auka neyslu í dag frekar en morgundaginn þá sparar það minna (og eftirspurn eftir lánsfé eykst) sem minnkar framboð fjármagns og vaxtastig hækkar.  Slík þróun gerir fyrirtækjum erfiðra að fara í langtímaframkvæmdir þar sem að vaxtakostnaður gerir þær síður raunhæfar.

Þetta samspil gerir það að verkum að án utanaðkomandi áhrifa minnkar atvinnuvegir langtímaframkvæmdir þegar að eftirspurn eftir neyslu í núinu eykst og bregst við þegar að sparnaður eykst sem gefur til kynna eftirspurn eftir neyslu sem kemur til með að eiga sér stað í framtíðinni.

Stjórnvöld

Því miður hafa stýrivextir SÍ bitlausir undanfarin ár.  Helsta ástæða þess er að íslensk stjórnvöld stýrðu beint og óbeint vaxtastefnuna í allt aðra átt (áttu þá við að þeir unnu á móti sinni eigin vaxtastefnu?) sem nú hefur endað í skipbroti.  Ég hef fjallað áður um helstu ástæður þess og fer því hér hratt yfir sögu.

90% lán - Það er óumdeilanlegt að þetta var stór þáttur í að koma lánaskriðunni af stað. 

Vaxtabætur - Þrátt fyrir að ríkissjóður hafi aukið aðkomu sína enn frekar að (niðurgreiddum) lánamarkaði þá var ekki áhugi á því að draga úr vaxtabótum.  Á sama tíma var þó verið að veita sérstök lán til þeirra sem áttu í einstökum erfiðleikum með að fá lán - frekari áhersla hefði átt að beinast að þeim sem mest þurftu á aðstoð að halda.

Bankar - Aðkoma bankanna haustið 2004 var eins og hella olíu á eld útlánaþenslunnar.  Það voru ákveðin rök fyrir innkomu þeirra á þennan markað.  Tekjur þeirra vegna yfirdráttar viðskiptavina voru að dragast hratt saman vegna þess að fólk var í umvörpum að umbreyta neyslulánum sínum í húsnæðislán, það er að lán var tekið með húsnæðisveði sem var notað til niðurgreiðslna dráttarvaxta og kaupa á neysluvörum (lesist; neyslu í núinu).  Reyndar náði upphæð yfirdráttarlána svipuðum hæðum innan við 2 árum eftir að ofangreind skriða hófst - skýr þenslumerki.

Því má segja að á Íslandi hafi ríkt tvíhöfða vaxtastefna.  SÍ hækkaði stýrivexti en aðgangur að fjármagni jókst engu að síður.  Erlend lán juku enn frekar á vandann.

Erlend vaxtastefna

Stýrivextir í helstu viðskiptalöndum Íslands náði á sama tíma nýjum lægðum.  Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, var sagður fylgja frekar það sem að Wall Street vildi heldur en hvað nauðsynlegt væri.  Því urðu stýrivextir síðustu ár hans í embætti þeir lægstu í marga áratugi.

Þessi stefna var í algjöru ósamræmi við þau skilaboð sem bandarískur almenningur var að senda varðandi sparnað.  Á sama tímabili og stýrivextir voru sífellt að lækka var sparnaðar hlutfall af tekjum Bandaríkjamanna stöðugt að minnka og er samkvæmt nýjustu tölum jafnvel orðið neikvætt.  Í raun hefði þróun stýrivaxta átt að vera í hinna áttina til að aðlaga sig að minni áhuga á sparnaði og meiri áhuga á neyslu í núinu.

Þetta gerði aðgang að fé auðveldara.  Þróunin barst til Evrópu þar sem að stýrivextir þróuðust með svipuðum hætti þó svo að vextir hafi ekki farið jafn mikið niður.  Nærtækasta afleiðing þessa missamræmis í skilaboðum markaðarins um vexti og ákvörðunum á stýrivöxtum er húsnæðisbólan sem í dag er að hjaðna með hræðilegum afleiðingum.  Skilaboðin sem send voru til framkvæmdaaðila voru að góður tími væri nú til að hefja langtímaframkvæmdir.  Þau skilaboð voru röng, því vaxtastig og vilji almennings til sparnaðar voru á öndverðum meiði.

Erlendir vextir - áhrif á Íslandi

Með hækkandi vaxtastigi hérlendis fór athygli manna að beinast að erlendum lántökum vegna lágs vaxtastigs.  Það er efni í sögubækur fjármálafræðinnar að hvorki fjármálastofnanir né stjórnvöld hafi skilið þá áhættu sem fylgir því að taka og veita lán í erlendum myntum.  Slíkt er reyndar eitt af helstu merkjum um hættulega ofþenslu í bankakerfinu eins og sést í þessu skjali þar sem fjallað er um ástæðu bankakreppunnar á Norðurlöndunum í byrjun tíunda áratugarins, sjá meðal annars ofarlega á síðu 15.  (Það er athyglisvert hversu hættumerkin er svipuð því sem átti sér stað hérlendis örfáum árum síðar.)

Því voru enn frekari misvísandi skilaboð send til fólks og fyrirtækja.  Á sama tíma og neikvæður sparnaður var ríkjandi hjá almenningi sem hefði átt að þýða enn hærra vaxtastig var ekki aðeins boðið upp á auðveldara aðgengi að fjármagni í gegnum húsnæðislán heldur einnig ódýr erlend lán.  Lítil umræða átti sér stað um gengisáhættu tengdum slíkum lánum og eiga stjórnvöld, eftirlitsstofnanir og fjármálastofnanir öll sök á því. 

Hvar eiga vextir að vera?

Samspil ofangreindra þátta leiddi til þeirrar pattstöðu sem við glímum við í dag.  Án gjaldeyrishafta er vart hægt að lækka vexti án þess að krónan veikist enn frekar og verðbólga fari á enn frekara flug.  Ljóst er þó að almenningur hefur lítinn áhuga á neyslu í núinu og er áherslan á að minnka skuldir og fara jafnvel að spara á nýjan leik.

Því er mikil lækkun stýrivaxta í dag (hefði mátt vera ívið meiri) vonandi aðeins fyrsta skrefið í ferli vaxtalækkana.  Er lækkunin í samræmi við þau skilaboð sem almenningur og fyrirtæki senda frá sér. 

Núverandi stjórnvöld segjast aftur á móti vonast til að sjá stýrivexti í kringum 2-3% í lok árs.  Ég spyr hins vegar:  Er hugsanlegt að enn einu sé verið að senda röng skilaboð með slíku?  Það er ekki of mikill sparnaður heldur neysla sem er stór partur af þeim vanda sem við glímum við í dag.  Jafn mikilvægt sem það er að koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur, sem verður væntanlega gert með áframhaldandi gjaldeyrishöftum, þá verður að varast það að senda á nýjan leik röng skilaboð til fólks um að sparnaður borgi sig ekki og til fyrirtækja að rétt sé að fara í langtímaframkvæmdir. 

Stýrivextir eiga að endurspegla raunveruleika aðstæðna - ekki, eins og orðið felur í sér, að myndast við að stýra honum.      


Mikil lækkun stýrivaxta framundan?

Frétt á RÚV í gær um að vinna við að finna leiðir til að létta þrýstingi af íslensku krónunni væri á lokastigi er afar athyglisverð.  Fram kemur að áætlun til að fá þá fjárfesta sem eiga krónueignir upp á mörg hundruð milljarða til að fjárfesta innanlands í gjaldeyrisskapandi fyrirtækjum til langs tíma væri á lokastigi.  Nú spyr maður sjálfan sig, hví ættu erlendir fjárfestar að setja fjármagn í innlendar áhættufjárfestingar þegar að þeim stendur til boða "áhættulaus" ávöxtun í ríkisvíxlum sem bera 13-14% vexti?

 

Svarið hlýtur að liggja í því að mikil lækkun stýrivaxta sé framundan.   Með því að lækka stýrivexti lækkar ávöxtunarkrafa ríkisvíxla mikið og erlendir fjárfestar sem brunnið hafa inni með sína fjárfestingu í vaxtaskiptasamningum á Íslandi hafa minni ástæðu til að geyma fé sitt þar áfram og líta því hugsanlega til verkefna sem bera meiri ávöxtun.  Í framhaldi af því er hægt að minnka gjaldeyrishöft enda verður vaxtamunur hér og erlendis væntanlega orðinn töluvert minni.

 

Skuldabréfamarkaðurinn virðist hafa verðlagt þessa þróun nú þegar.  Gengi ríkisbréfa á gjalddaga 2019 hækkaði mikið síðasta föstudag, sem þýðir að ávöxtunarkrafan lækkaði mikið.  Slíkt á sér stað þegar að óvissa um greiðslustöðu skuldara breytist mikið, eins og átti sér stað mánuðina eftir bankahrunið, og þegar að væntingar um þróun vaxta taka umskiptum.  Slíkar vaxtavæntingar eru nú að koma fram í ávöxtunarkröfunni.  Fyrstu viðskipti í morgun gefa enn frekar til kynna að fjárfestar vilji "læsa" vexti sína til lengri tíma því kaupþrýstingur á löng ríkisbréf er mikill í fyrstu viðskiptum dagsins.

 


Lífeyrir

Inga Jessen spurði nýlega hvort ríkið tryggði séreignarsparnað fólks.  Hún segir orðrétt:  Þegar ríkið gerir að lögum að vinnuveitendum sé skylt að greiða 2% mótframlag í séreignasparnað og ýtir þess vegna undir að fólk nýti sér það, ætti séreignasparnaðurinn þá ekki að vera tryggður eins og innistæður?

 

Svarið við spurningunni er nei.   Slíkt hafa aðeins ríkistryggð bréf borið og í haust hlutu innstæður í íslenskum bönkum sömu vernd.

 

Því má spyrja hvort að þær stefnur sem hafa verið viðloðandi í viðbótarlífeyrissparnaði hafi verið nægjanlega vel ígrundaðar.  Þó svo að þær eigi að heita langtímaávöxtun þá er staðreyndin sú að fjárfestingartímabil fólks eru oft töluvert styttri en það gerir ráð fyrir í upphafi sparnaðar.

 

Besta/skynsamasta leiðin í dag virðist vera einfaldlega sú að kaupa einungis ríkistryggð bréf og er það mikið auglýst (sjá grein að neðan) þessa daganna.  Þessi aðferð uppfyllir öll þau skilyrði sem Inga ber upp, þ.e. að inneign sé tryggð af ríkissjóði.  Þetta er þó ekki svo einfalt.  Ríkið gæti einn daginn lent í þeirri stöðu að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar.  Núverandi lánshæfismat gefur til kynna að slíkt sé alls ekki óraunhæft næstu 12 mánuði, hvað þá næstu 20 ár.

 

Því er nauðsynlegt að dreifa fjárfestingum í erlend verðbréf.  Með því að hafa slíkar fjárfestingar óvarðar hvað gjaldeyri varðar þá felst óbein vörn í því að þegar að hér fari allt á hliðina þá veikist krónan og erlendar eignir (í krónum talið) aukast í virði.

 

Því má segja að besta "tryggingin" í sparnaði sé að mestu leyti sambland af ríkistryggðum bréfum og traustum erlendum eignum.  Þetta á ekki aðeins við um séreignasparnað heldur einnig lífeyrissparnað.  Heilsíðugrein varðandi þau sjónarmið mín er í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.

 

Því má við bæta að einnig kemur fram í Morgunblaðinu í dag sú hugmynd að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði.  Nú ætti að vera augljóst að stór hluti af núverandi vanda hefur verið sú stefna að umbuna skuldsetningar og letja fólk til sparnaðar.  Á virkilega að taka á vandanum með því að draga enn frekar úr hvata sparnaðar? 

 

Að lokum - að neðan er grein sem ég upphaflega birti 2.5.2007.  Í henni er varað við að fylgja fjárfestingarstefnum sem hverju sinni virðast vera skynsamar og réttar. 

 

Umfjöllun um fjárfestingar
Sjónvarp, auglýsingar og verðbréf 
Oft er það svo að verðbréfin sem mest er fjallað um í samfélaginu eru þau sem hafa veitt bestu ávöxtun síðustu mánuði og ár.  Það merkilega við slíkar umræður er að þegar umræðan nær hámarki þá er það oftar en ekki merki um að hámarkinu í gengi þeirra sé í þann mund að nást. Mörgum er sjálfssagt enn minnisstætt þegar að Kastljós fékk í upphafi ársins 2000 sérfræðinga til sín vikulega til að velta fyrir sér bestu kaupin á markaði hverju sinni.  Umræðan í þjóðfélaginu snérist um verðbréf og skjótfenginn gróða.  deCODE genetics og OZ  voru meðal félaga sem fjallað var mest um.  Fyrra félagið hefur enn ekki sýnt hagnað og hitt er fyrir löngu gjaldþrota.  Margar hlutabréfavísitölur eru enn lægri en þær voru á þessu tímabili, meira en 7 árum síðar. 
Auglýsingar
Jafnan er samhengi á milli þess hvað mest er fjallað um hverju sinni og hverskonar verðbréfaafurðir eru auglýstar hverju sinni. (aðeins óljóst hvað þú átt við)  Það er staðreynd að í verðbréfageiranum er það ávöxtun síðustu mánaða sem selur best og því einblína flestar auglýsingar á  þær afurðir sem veitt hafa bestu ávöxtun síðustu 6 til 12 mánuði, þrátt fyrir að í raun og veru sé velgengni fortíðarinnar ekki alltaf besti mælikvarðin á framtíðar velgengi (hérlendis leyfa sum fjármálafyrirtæki sér meira að segja að uppreikna 1 mánaðar ávöxtun í heilt ár til að ná athygli fjárfesta).  Eftirfarandi dæmi sýna að oft hefur það reynst vera léleg fjárfestingarstefna að fylgja því sem fjármálafyrirtæki auglýsa mest í fjölmiðlum hverju sinni.  
Erlendir valréttir
Rétt fyrir aldamót, þegar að erlendar hlutabréfavísitölur hækkuðu nær látlaust, voru erlendir valréttir auglýstir svo mikið að það kom fyrir að 3 fjármálafyrirtæki auglýstu þá í sama Morgunblaðinu.  Ég minnist þess ekki að hafa séð slíka auglýsingu nú í mörg ár en þær hefðu verið frábærar fjárfestingar árin 2002 og 2003 þegar að umræðan um hlutabréf var sem neikvæðust. 
Tæknisjóðir
Slíkir sjóðir voru mikið auglýstir, meðal annars í sjónvarpinu, í kringum aldamótin.  Þarf að fara mörgum orðum um ávöxtun þeirra? 
Íslensk skuldabréf
Eftir að hlutabréf bæði hér og erlendis höfðu tekið mikla dýfu niður á við höfðu skuldabréf aftur á móti veitt góða ávöxtun árin 2001 til 2005.  Í framhaldi af því fóru verðbréfafyrirtæki smám saman að einblína á að auglýsa skuldabréfasjóði sem virtust  vera álitlegri kostur en verið höfðu í fjölda mörg ár.  Sjálfur stóð ég við gerð einnar herferðar og hringdi fólk í framhaldi af því og spurði um væntingar mínar um árið sem var framundan.  Þó svo að þær væru hæfilegar bjartsýnar þá varð ávöxtun næstu 12 mánuði miklu betri.  Þá fyrst dundi auglýsingaherferðir skuldabréfasjóða yfir.  Þó svo að ávöxtun þeirra geti ekki verið lýst sem hræðilegri frá þeim tímapunkti þá er aftur á móti hægt að fullyrða að hún hafi verið dræm. 
Íslensk hlutabréf
Hlutabréfasjóðir sem fjárfesta í íslenskum hlutabréfum voru mikið auglýstir fyrstu mánuði síðasta árs enda höfðu íslensk hlutabréf veitt einstaka ávöxtun síðustu tvö ár (svo einstök var ávöxtunin að bandarísk hlutabréf veittu aldrei á tveggja ára tímabili jafn góða ávöxtun á síðustu öld).  Eftir að hlutabréf höfðu aftur á móti fallið mikið sáust slíkar auglýsingar hins vegar ekki lengur.


 

Hvað er mest auglýst í dag?

Það er eðlilegt að velta því fyrir sér hvað sé mest auglýst í dag?  Samkvæmt ofangreindu eru það fjármálaafurðir sem fólk ætti í það minnsta að hugsa sig vandlega um áður en það setur mörg egg í þær körfur. 

Íslenskir valréttir

Það er forvitnilegt að sjá valrétti auglýsta á nýjan leik.  Nú eru þeir tengdir við íslensk hlutabréf,  sem hafa hækkað aftur í sögulegar hæðir.  Höfuðstóllinn tapast ekki en þegar að hægt er að fá í kringum 13-14% ávöxtun inn á bankabók í dag þá er ljóst að raunveruleg eign í lok samningstímabils valréttar getur hjaðnað verulega. 

Erlend lán (aðallega húsnæðislán)

Rétt er að gera örlítinn formála á þessu.  Hér er ekki um almenn verðbréf að ræða en engu að síður fjármálaafurð.  Kannanir gerðar um aldamótin gáfu sterklega til kynna að flestir töldu hlutabréf vera bestu langtímaávöxtunina.  Enda var það svo að flestir á Íslandi sem tóku þátt í reglubundnum sparnaði, til að mynda séreignalífeyri, settu mestan pening sinn í hlutabréf.  Ekki liðu meira en tvö ár áður en að viðhorf til hlutabréfa höfðu snúist nánast um 180 gráður.  Það voru jafnvel dæmi um að fólk flutti fjármagn sitt úr hlutabréfum, þegar að þau voru miklu verðminni en áður, yfir í tryggari fjárfestingakosti en þó ekki nauðsynlega betri kosti.  Þetta mótaðist að stórum hluta af því að margir höfðu um nokkurt skeið ávaxtað sitt pund vel í hlutabréfum og fleiri vildu taka þátt í leiknum, oft með vanmat á áhættu tengdum hlutabréfafjárfestingum.   

Mér finnst óþægilega lík þróun vera farin að myndast varðandi húsnæðislán í erlendum myntum.  Í fjöldamörg ár hafa sumir hagnast gríðarlega á því að skuldsetja sig í erlendri mynt.  Þetta tímabil hefur nú varað það lengi að varnaðarorð um gengisáhættu eru farin að verða sífellt veikari.  Bæði eru þeir sem hafa haldið aftur af fólki orðnir þreyttir á því að sjá ráðgjöf sína skila litlu og þeir sem hafa hlustað á varnarorð eru farnir að efast um réttmæti þeirra, erlendar lántökur hafa jú verið hagstæð í samfelld 5 ár.  Það að erlendar skuldir heimila hafa aukist um rúmlega 150% síðustu 12 mánuði er vísbending um að margir hafi ákveðið að tími sé kominn til að taka þátt í þessum leik. 

Nýlega sá ég sjónvarpsauglýsingu þar sem verið var að bjóða uppá erlend lán til íbúðakaupa.  Hjá sumum eru aðstæður þannig að slík lán, jafnvel með gengisáhættu, eru ekki óskynsamleg vegna þess að ef vel gengur getur ávinningur orðið talsverður.  Það er aftur á móti forvitnilegt að vita hvernig afstaða fólks í raun verður ef íslenska krónan veikist skyndilega mikið, sem eykur höfuðstól lánanna. Tökum dæmi hjón sem kaupa 20 milljóna króna hús og taka 90% lán, fjármagnað í erlendri mynt.  Eigið fé fólksins í húsinu eru 2 milljónir.  Nú gerist hið óvænta að aðeins 12 mánuðum eftir að lánið var tekið hefur íslenska krónan veikst um 20% og höfuðstóll lánsins hækkað samsvarandi mikið.  Þetta gæti virst vera óhugsandi en ætti þó ekki nauðsynlega að koma á óvænt; veiking krónunnar sem átti sér stað á tímabilinu 2000 til 2001 var t.d. meira en þetta.  Í stað þess að eiga 2 milljónir í húsnæðinu þá skulda þau svipaða upphæð 12 mánuðum síðar. 

Í slíkri aðstöðu er líklegt að margir, burtséð frá skynsemi slíkra ákvarðana, umbreyti erlendum lánum sínum í íslensk lán til að forða sér frá enn frekari skuldasöfnun.  Viðhorfið gagnvart áhættu tengdum erlendum lántökum gæti umbylst með svipuðum hætti og átti sér stað varðandi hlutabréf fyrir nokkrum árum síðan.  Slík viðhorfsbreyting getur í raun stigmagnað áhrifin því ef fólk fer að greiða upp erlend lán veikist íslenska krónan enn frekar. 

Hvað skal gera?

Því miður hef ég ekki áreiðanlega kristalskúlu á borði mínu.  Hugsanlega eiga íslensk hlutabréf eftir að hækka enn meira og valréttarsamningar sem nú eru sem mest auglýstir skili viðunandi ávöxtun.  Varðandi húsnæðislánin þá hafa margir virtir sérfræðingar spáð fyrir um veikingu krónunnar lengi vel án þess að slíkt hafi gengið eftir.  Þó að slíkir spádómar hafi ekki ræst hingað til er ekki þar með sagt að þeir rætist ekki í framtíðinni.  Reyndar gerist það oft að loksins þegar að þeir rætast þá gerist það með meiri hvelli en flestum grunar.  Því er rétt að minna á söguna um strákinn sem stöðugt kallaði úlfur, úlfur.  Úlfurinn kemur að lokum og étur þá sem eru síðastur í röðinni.

 

 


Farsælast að stunda hefðbundna bankastarfsemi

Margeir Pétursson sagði nýverið í viðtali að tæki MP Banki yfir þjónustu SPRON yrði viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi aðskilin.  Hann er sjálfum sér samkvæmur í þessum efnum því þetta sagði hann fyrir rúmum 6 árum síðan og fannst mörgum hann þá væntanlega vera leiðinlegur og gamaldags.  Sjá hlekk að neðan.

 

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2003/11/15/farsaelast_ad_stunda_hefdbundna_bankastarfsemi/

 

Þessi skoðun Margeirs er í takti við það sem ég tel vera nauðsynlegt í dag.  Það þarf að aðskilja rekstur viðskiptabanka og fjárfestingabanka.  Viðskiptabankar njóta ríkisábyrgðar, þ.e. innstæður fólks í slíkum stofnunum, en fjárfestingarbankar fjármagna sig hjá stærri fjárfestum.  Þetta er útlistað hjá mér ítarlega hérna.

Margeir telur að ekki þurfi að setja lög varðandi slíkan aðskilnað.  Að mínu mati á þetta ekki að vera sjálfsstað ákvörðun en hann hefur mikið til síns máls um að upplýstur markaður geti vegið það og metið hvort hann treysti banka sem einblínir á viðskiptaþjónustu eða er einnig í fjárfestingum.  Margir hafa aftur á móti ekki forsendur til að vega og meta slíkt.  Í öðru lagi gleymist áhætta í fjárfestingum miklu hraðar en flestir ávallt halda.  Auk þess tel ég að vart sé hægt að veita ríkisábyrgð á innstæðum þegar að fjárfestingarstarfsemi er hluti af starfseminni.

 

Í allri umræðu varðandi kosningar virðist endurskipulagning fjármálakerfisins fallið á milli þilja.  Umræðan ætti ekki að snúast í kringum það hvort að við sækjum um ESB aðild eða ekki.  Hvort veginn sem sú umræða þróast þá skiptir mestu nú að endurskipuleggja fjármálakerfið og hindra frekara atvinnuleysi.  Slíkt mál virðist því miður ekki vera á forgangslista stjórnmálaflokka í dag.


Mótbyr í viðbótarlífeyrissparnaði IV

Eftirfarandi línur bárust mér varðandi 3. hluta þessara skrifa og birti ég þær orðrétt.

Miðað við það að engar tilkynningar bárust þegar fjárfestingarstefnunni var breytt 2006, þá spyr maður sig hvort lögin þurfi ekki að vera strangari og knýja á um að upplýsingagjöfin sé miklu meiri en hún virðist vera í dag.

Þetta er sá punktur sem mér finnst vera mikilvægastur og það sem ég sjálfur er mest ósáttur með varðandi samskipti mín við Byr.  Af þeim sparnaði mínum sem er í skuldabréfum og hlutabréfum (með 50/50 skiptingu á milli hluta- og skuldabréfaáherslu) taldi ég að sparnaður minn væri fjárfestur á þessum nótum:

·        50% ríkistryggð bréf

·        33% erlend hlutabréf

·        17% íslensk hlutabréf

Vægið var hins vegar:

·        42% peningamarkaðs- og fyrirtækjabréf

·        8% ríkistryggð bréf

·        25% erlend hlutabréf 

·        25% íslensk hlutabréf

Þetta þýðir að ég var að fjárfesta, án þess að vita af því, töluverðar upphæðir í peningamarkaðsbréfum, fyrirtækjabréfum og íslenskum hlutabréfum en þessi bréf var ég einmitt að forðast.  Ég var svo sannfærður um að slæm tíðindi væru í aðsigi að ég varaði ítrekað við slíkum fjárfestingum í töluverðan tíma áður en hrunið átti sér stað síðastliðinn október.

Að sama skapi átti ég minna í þeim fjárfestingum sem ég taldi vera skynsamlegar.  Með vitneskju af nýrri samsetningu á viðbótarlífeyrissparnaði mínum hefði ég verið búinn að færa hann annað.

Ég hef orðið af töluverðu fjárhagslegu tjóni vegna þessa.  Þar sem að stærsta hlutfall endurgreiðslu af peningamarkaðssjóðum (hví var það hlutfall svo hátt?) hérlendis hafi verið hjá Byr þá er skaðinn ekki skelfilegur.  Hann er þó enn óljós vegna óvissu um endurgreiðslu í fyrirtækjasjóðnum.  Forvitnilegt væri að vita hver staðan sé á þeim sjóði.  Helmingi meira vægi í íslenskum hlutabréfum, á kostnað erlendra bréfa sem hækkað hafa í íslenskum krónum talið, laga vart stöðuna.  Þetta snýst þó augljóslega ekki bara um þær fjárhæðir sem ég tel mig hafa tapað heldur um rétt á upplýsingum og trausti til fjármálastofnanna.

Bréf frá Byr sent sjóðsfélögum 28.10.2008 gefur í skyn að verið sé að veita nýjar upplýsingar um fjárfestingastefnu leiðanna en í raun og veru var búið að breyta henni áður.  Fjárfestingastefna viðbótarlífeyrissparnaðar var þannig umbylt án þess að sjóðsfélögum væri tilkynnt um það.  Nánast ekkert tap hefði átt sér stað með gömlu fjárfestingastefnunni, ávöxtunin hefði jafnvel verið jákvæð.

Nýleg yfirlit frá Lífsvali, það er Lífeyrissparnaði sparisjóðanna, er í besta falli villandi og líklegast rangt.  Fólk sem er þessa daganna að taka út séreignarsparnað sinn er nú að átta sig á þeirri stöðu.

Því spyr áhugasamur sjóðsfélagi:

·        Veita yfirlit sem nýlega voru send rétta stöðu um eignir síðustu áramót í viðbótarlífeyrssparnaði?

·        Hvenær verður ný fjárfestingastefna birt?

·        Fá sjóðsfélagar Lífsvals upplýsingar um breytingar á fjárfestingarstefnu í framtíðinni?

·        Telur Byr að upplýsingagjöf til sjóðsfélaga sinna hafi verið í lagi?

·        Hver ber ábyrgð á tapi sem hlotist hefur vegna slakrar upplýsingagjafar?

mwm

MótByr í viðbótarsparnaði – 1. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/853104/

MótByr í viðbótarsparnaði – 2. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/854131/

MótByr í viðbótarsparnaði – 3. hluti -  http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855033/

MótByr í viðbótarsparnaði – 4. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855887/


Mótbyr í viðbótarlífeyrissparnaði III

Í gær fjallaði ég um áhrif breytinga á fjárfestingastefnu hlutabréfa- og skuldabréfaáherslu, sem eru tvær af þremur leiðum í Lífsvali, viðbótarlífeyrissparnaði Byrs.  Hér í þriðja hluta verður fjallað nánar um hvað hafi legið til grundvallar  og samskiptasögu Byrs vegna breytinganna.

Afhverju breytingar?

Miðað við þá neikvæðu umræðu sem átt hefur sér stað varðandi peningamarkaðssjóði má draga þá ályktun að ákvörðunin um að auka vægi peningamarkaðssjóðs í skuldabréfum hafi verið annarleg.  Slík umræða hefur riðið yfir íslensku þjóðina undanfarna sex mánuði og er ekki ástæða til að fjalla nánar um það hér.

Ég tel að það sé aftur á móti nánast óhugsandi að slíkt hafi átt við í þessu tilfelli.  Held ég að skýringin liggi frekar í því að utanaðkomandi þrýstingur hafi  valdið þessu.  Starfsmenn verðbréfafyrirtækja þurfa reglulega að svara símtölum og útskýra af hverju ávöxtun verðbréfa og sjóða hafi ekki verið betri en einhverjir aðrir mælikvarðar.  Oftar en ekki eru þeir mælikvarðar þau verðbréf eða verðbréfaflokkar sem veitt hafa bestu ávöxtun síðustu vikur og mánuði – stundum ár. 

Eftir ákveðinn tíma leiðir slíkur “þrýstingur” til þess að tilhneiging myndast til að auka fjárfestingar í slíkum bréfum.  Það er þekkt að fólk í eignastýringu glímir við meiri andlega streitu í vinnunni þegar ákveðnir verðbréfaflokkar snarhækka í virði með þeim hætti að slíkt vekur athygli.  Raunar eykur slík tilhneiging til frekari hækkana, til skemmri tíma í það minnsta, sem sannfærir fjárfesta um að þeir hafi gert rétt með því að “taka þátt í veislunni”. (Innskot – það eru oftast aðeins þeir sem leggja mest undir eða eru síðastir að taka þátt í slíkum keðjubréfaleik sem skaðast verulega).

Ofangreindur þrýstingur kemur iðulega upp í samtölum um sjóði.  Þar sem peningamarkaðssjóðir og fyrirtækjasjóðir höfðu veitt töluvert betri ávöxtun en ríkistryggð bréf í töluverðan tíma er líklegt að slíkt hafi haft leiðandi áhrif á stefnubreytinguna.  Það má ekki heldur gleyma því að slíkir sjóðir töldust hafa litla áhættu.

Að sama skapi hefur svipaður þrýstingur haft sitt að segja um að vægið var aukið í íslenskum hlutabréfum, enda var ávöxtun þeirra meiri á árunum 2002 til 2007 en nánast öll önnur tímabil í sögu hlutabréfa, alls staðar í heiminum!

Ofangreint veit ég ekki.  Ég einfaldlega tel að þetta hafi gerst.  Á sama tíma má spyrja hvort viðskiptavinir eigi þó ekki að geta treyst því að þeim fjárfestingaleiðum sem eru í boði sé ekki breytt eftir athugasemdum slíkra símtala.  Hér hlýtur sérþekking á fjármálasveiflum að vera mikilvæg. 

Ávöxtunin

Eins og fram kemur að ofan þá veittu þessar breytingar innan áherslna tímabundið góða ávöxtun.  Þar sem peningamarkaðssjóðurinn hafði veitt afar góða ávöxtun og um 95% fékkst endurgreitt þá er ekki ólíklegt að sjóðurinn hafi í raun skilað jafn góðri ávöxtun og jafnvel betri til fjárfesta en ef fjárfest hefði verið í ríkistryggðum bréfum.  Eins og fram kom í gær er óvissa hins vegar varðandi fyrirtækjasjóðinn, það er hversu mikið fæst endurgreitt úr þeim sjóði.

Klárlega hefur ávöxtunin rýrnað í hlutabréfahlutanum vegna aukins vægis í íslenskum hlutabréfum. 

Bréf frá Byr

Í lok síðastliðins október kom bréf til mín frá Byr dagsett þann 28.10.2008.  Í bréfinu kemur eftirfarandi fram orðrétt.

Verið er að yfirfara fjárfestingarstefnu Lífsvals með hliðsjón af þeim gerbreyttu aðstæðum sem upp eru komnar og verður ný stefna kynnt öllum sjóðsfélögum um leið og hún liggur fyrir.

Þetta fannst mér undarlegt því ég minntist þess ekki að ég hefði fengið bréf um að búið væri að breyta stefnunni, sem samkvæmt vefsíðu Byrs var svo sannarlega búið að gera.  Ég sendi Byr því eftirfarandi línur nokkrum dögum síðar.

Fram kemur í bréfi sem nýlega var sent að verið sé að breyta stefnum Lífsvals í ljósi gjörbreyttra aðstæðna.  Nú vil ég gjarnan vita hvenær tilkynning var send síðast varðandi breytta stefnu innan hluta- og skuldabréfaáherslum Lífsvals?

Tveim vikum síðar barst mér þetta svar sem er skeytað beint úr tölvupósti mínum á marmixa@yahoo.com. 

Sæll Már, Fjárfestingarstefnum Hlutabréfa- og Skuldabréfaáherslu Lífsvalsins var síðast breytt þann 20.10.2006. Eftirfarandi breytingar voru gerðar:
 Hlutabréfaáhersla 
 Eldri stefnaNý stefna, 20.6.06Breyting
Alþjóða virðissjóðurinn30%25%-5%
Alþjóða vaxtarsjóðurinn15%10%-5%
Úrvalssjóðurinn25%35%10%
Skuldabréfasjóðurinn17%4%-13%
Fyrirtækjasjóðurinn13%6%-7%
Peningamarkaðssjóðurinn0%20%20%
 100%100% 
    
    
 Skuldabréfaáhersla 
 Eldri stefnaNý stefna, 20.6.06Breyting
Alþjóða virðissjóðurinn13%11%-2%
Alþjóða vaxtarsjóðurinn6%4%-2%
Úrvalssjóðurinn11%15%4%
Skuldabréfasjóðurinn40%10%-30%
Fyrirtækjasjóðurinn30%15%-15%
Peningamarkaðssjóðurinn0%45%45%
 100%100% 

  

Hlutföll hlutabréfa og skuldabréfa héldust óbreytt, þ.e. 70% hlutabréf og 30% skuldabréf í Hlutabréfaáherslunni og 30% hlutabréf og 70% skuldabréf í SkuldabréfaáherslunniInnbyrgðis hlutföllum sjóðanna var hins vegar breytt og m.a. aukið vægi innlendra hlutabréfa á kostnað erlendra. 

Breytingar á fjárfestingarstefnum innan hvorrar áherslu fyrir sig voru ekki tilkynntar sérstaklega, enda verður það að vera á valdi stjórnar Lífsvalsins hverju sinni að bregðast við og breyta, til þess að ná sem bestri ávöxtun.  Áhugasömum sjóðsfélögum hafa þó ætíð staðið til boða aðgengilegar upplýsingar um fjárfestingarstefnuna hverju sinni. 

Að mínu mati er í lagi að breyta fjárfestingarstefnu.  Ofangreindar breytingar  kalla ég hins vegar umbyltingu á fjárfestingarstefnu.  Nú veit ég ekki hvaða gögn eru  lögð til grundvallar þegar stjórn Lífsvals bregst við og breytir, til að ná sem bestri ávöxtun, en augljóslega var lítill sómi í þeim viðbrögðum árið 2006.  Hverju var verið að breyta? Að mínu mati engu, einfaldlega var verið að hrífast með straumnum.

Nú er ég áhugasamur um minn séreignarsparnað, en er það í verkahring mínum að fylgjast reglulega með hvort að búið sé að umbylta fjárfestingarstefnu viðbótarlífeyrissparnaðar míns?  Samkvæmt þessu svari Byrs er það svo.  Í Lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða frá 1997 kemur hins vegar eftirfarandi fram í 34. grein. 

Lífeyrissjóður skal enn fremur láta útbúa skriflegt kynningarefni þar sem gerð er grein fyrir kostum og göllum einstakra valkosta miðað við mismunandi forsendur.

Minni skylda gildir (enn) varðandi starfsemi félaga sem sjá um ávöxtun og vörslu viðbótarlífeyrissparnaðar en almenns lífeyris.  Það afsakar ekki að viðhorf Byrs í tengslum við upplýsingaskyldu sé langt frá því að vera í anda þessa laga.  Ég auglýsi hér með sérstaklega eftir athugasemdum varðandi þessi atriði.

Bréf frá Lífsvali

Í bréfinu dagsett 28.10.2008 er talað um að ný fjárfestingarstefna sé í mótun.  Tæpum sex mánuðum síðar hefur enn ekki sést til hennar.

Í síðustu viku barst aftur á móti bréf varðandi viðbótarlífeyrissparnað frá Lífeyrissparnaði sparisjóðanna.  Ekki er minnst einu orði á þá staðreynd að hluti af eignum sjóðsfélaga sé í uppnámi vegna slits fyrirtækjasjóðsins. 

Sjálfur átta ég mig ekki á eign minni.  Samkvæmt heimabanka mínum hefur fjöldi eininga í þessum tveimur áherslum aukist örlítið þrátt fyrir að, samkvæmt bréfinu dagsett 28.10.2008, allur minn sparnaður ætti tímabundið að fara inn á verðtryggðan reikning. 

Gengið á hlutabréfa- og skuldabréfaáherslunni er auk þess það sama og það var skráð 5.10.2008.  Getur verið að nýleg yfirlit (sjá þennan hlekk) sýni ekki rétta stöðu?   Þetta spyr áhugasamur sjóðsfélagi.

Samantekt

Á morgun dreg ég saman hugleiðingar um viðbótarlífeyrissparnað.  Ráðgjöf, sparnaðarleiðir og upplýsingagjöf eru þar ofarlega á baugi.  Einnig fjalla ég stuttlega um þær leiðir sem krefjast þess að fólk visti sparnað sinn hjá sömu stofnun um aldur og ævi án þess að lenda í töluverðu fjárhagslegu tjóni.

mwm

MótByr í viðbótarsparnaði – 1. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/853104/

MótByr í viðbótarsparnaði – 2. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/854131/

MótByr í viðbótarsparnaði – 3. hluti -  http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855033/

MótByr í viðbótarsparnaði – 4. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855887/


Mótbyr í viðbótarlífeyrissparnaði II

Í gær fjallaði ég um ávöxtunarleiðir sem voru í boði í því sem kallast Lífsval sparisjóða. Þær eru þrjár, verðtryggður reikningur, hlutabréfaáhersla og skuldabréfaáhersla. Fram kom að þótt hlutföll í hlutabréfa- og skuldabréfaáherslu hafi ekki breyst er potturinn í heild þó nú orðinn allt öðruvísi. Verður hér aðeins fjallað um hlutabréfa- og skuldabréfaáhersluna.

Hlutabréfaáherslan er með 70% í hlutabréfum og 30% í skuldabréfum. Í skuldabréfaáherslunni er hlutfallinu snúið við. Dreifingin fyrir breytingu var svona:

Skuldabréfaáhersla

  • 70% í ríkistryggðum skuldabréfum
  • 20% í erlendum hlutabréfum
  • 10% í innlendum hlutabréfum

Hlutabréfaáhersla

  • 47% í erlendum hlutabréfum
  • 23% í innlendum hlutabréfum
  • 30% í ríkistryggðum skuldabréfum

Eftir að breytingar áttu sér stað var dreifingin orðin svona:

Skuldabréfaáhersla

  • 10% í ríkistryggðum skuldabréfum
  • 15% í fyrirtækjasjóði (fyrirtækjasjóðir eru skuldabréf)
  • 45% í peningamarkaðssjóði (einnig skuldabréf/víxlar)
  • 15% í erlendum hlutabréfum
  • 15% í innlendum hlutabréfum

Hlutabréfaáhersla

  • 35% í erlendum hlutabréfum
  • 35% í innlendum hlutabréfum
  • 4% í ríkistryggðum skuldabréfum
  • 6% í fyrirtækjasjóði
  • 20% í peningamarkaðssjóði

Fyrst lýsi ég þeim breytingum sem gerðar voru við samsetningu hlutabréfa og skuldabréfa innan þessara áherslna. Síðan fer ég yfir áhrif þeirra breytinga og áætla tjón vegna þeirra innan sitt hvorrar áherslunnar.

Hvað þýða þessar breytingar?

Skuldabréf

Eins og fram kom í gær var einungis fjárfest í ríkistryggðum skuldabréfum . Nú er öldin sannarlega önnur. Tæplega 15% skuldabréfa eru nú ríkistryggð. Rúm 21% skuldabréfa í safninu eru í fyrirtækjasjóðnum og afgangurinn, eða um 64%, eru í peningamarkaðssjóðnum. Með öðrum orðum er búið að breyta safni með nálægt 100% eigna í ríkistryggðum bréfum (ávallt er laust fé í slíkum sjóðum svo safnið er í raun aldrei alveg 100% ríkistryggt) yfir í safn þar sem vægi þeirra er nánast orðin afgangsstærð.

Hlutabréf

Breytingarnar í hlutabréfaáherslunni eru ekki jafn róttækar en þó þess virði að fjalla um. Í stað þess að íslensk hlutabréf myndi um þriðjung safnsins er búið að hækka vægi þeirra upp í 50%.  Það þýðir auðvitað að vægi erlendra hlutabréfa hefur lækkað úr 2/3 í 50%.

Áhrif breytinganna

Skuldabréf

Hefði safn skuldabréfa verið óbreytt, það er einungis ríkistryggð bréf, hefði ávöxtunin jafnvel verið jákvæð frá því að hrunið átti sér stað síðastliðinn október. Reyndar hefur skuldabréfasjóður Byrs skilað neikvæðri ávöxtun á tímabilinu sem ég hef ekki skýringar á.

Peningamarkaðssjóðurinn lækkaði hins vegar í virði. Þó fékkst um 95% endurgreiðsla úr sjóðnum sem verður að teljast afar vel sloppið. Það gæti aftur á móti verið önnur saga með fyrirtækjasjóðinn, sem myndaði rúmlega fimmtung af skuldabréfasafninu. Þessi texti er tekinn orðrétt af heimasíðu Byrs:

Stjórn Rekstrarfélags Byrs samþykkti nýverið nýjar reglur fyrir Fyrirtækjasjóðinn, sem fela í sér að sjóðnum verði slitið. Slit sjóðsins fara fram með þeim hætti, að sjóðsfélögum verður greitt í samræmi við hlutfallslega eign þeirra á þriggja mánaða fresti, eftir því sem eignir sjóðsins fást greiddar. Þegar engar eignir eru eftir í sjóðnum verður honum slitið.

Þetta þýðir að áhrif breytinga varðandi breytta stefnu í skuldabréfum er óljós. Miðað við þær prósentur sem eru að fást til baka af fyrirtækjaskuldabréfum í dag er hætt við að mikið tap sé í aðsigi.

Hlutabréf

Erlendar fjárfestingar í viðbótarsparnaðinum eru í gegnum alþjóðlega sjóði Byrs. Þeir hafa skilað jákvæðri ávöxtun síðustu 6 og 12 mánuði. Skýrist það væntanlega af því að þeir hafa verið með varkára stefnu í fjárfestingum og veiking íslensku krónunnar hefur haft meira vægi í eignasafninu en fall erlendra hlutabréfamarkaða.

Ljóst er að mikið tap hefur átt sér stað vegna aukins vægis í íslenskum hlutabréfum. Því má áætla að tapast hafi í kringum 45% af safninu. Óbreytt safn, það er með um 2/3 í erlendum bréfum, hefði líka orðið fyrir verulegu tjóni. Tapið af slíku tjóni væri hins vegar tæplega 30%.

Niðurstaða

Skuldabréfaáhersla

Miðað við óbreytta stefnu næmi tap sjóðfélaga í kringum 10%. Raunar tel ég að tapið hefði verið minna. Hið raunverulega tap vegna þessarar miklu stefnubreytingar er líklegast á bilinu 17-30%, allt eftir því hvað fæst úr fyrirtækjasjóðnum.

Hlutabréfaáhersla

Óbreytt stefna hefði skilað í kringum 20% tapi. Áætlað tap verður þó líklega á bilinu 35-40%.

Er þetta eðlilegt?

Hér munar miklu og því eðlilegt að spurt sé hvað lá til grundvallar slíkum stefnubreytingum. Þær eru kannski ekki óeðlilegar en margt fleira kemur til.  Á morgun mun ég fjalla um þau atriði og samskipti mín sem viðskiptavinar Byrs varðandi þessa stefnubreytingu. Einnig verður fjallað um afstöðu fyrirtækisins gagnvart sínum viðskiptavinum.

mwm

MótByr í viðbótarsparnaði – 1. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/853104/

MótByr í viðbótarsparnaði – 2. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/854131/

MótByr í viðbótarsparnaði – 3. hluti -  http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855033/

MótByr í viðbótarsparnaði – 4. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855887/


Mótbyr í viðbótarlífeyrissparnaði

Eftirfarandi er fyrsti hluti af fjórum þar sem fjallað er um svokallaðan viðbótarlífeyrissparnað.  Þó svo að aðeins séu rúm tíu ár síðan að slíkt sparnaðarform hóf göngu sína á Íslandi eru fjárhæðirnar sem safnast hafa gífurlegar, að því marki að útborgun af hluta slíks sparnaðar hefur valdið titringi meðal lífeyrissjóða. 

Mikið tap hefur átt sér stað undanfarið.  Umræða hefur verið um fjárfestavernd varðandi slíkan sparnað og sitt sýnist hverjum.  Skrif mín nú fjalla meðal annars um fjárfestingarstefnur varðandi slíkan sparnað, ráðgjöf, kynningar, upplýsingagjöf og hvað séu raunhæfar væntingar varðandi slíkan sparnað.  Sjónarmið mín endurspeglast fyrst og fremst í  skrifum mínum sem viðskiptavinur, en ég og kona mín höfum lagt háar fjárhæðir í slíkan sparnað: Ég er þó einnig einstaklingur sem hefur faglega komið að uppsetningu slíks sparnaðar og hefjast þessi skrif út frá þeirri reynslu.  Hér læt ég vel að merkja eingöngu koma fram upplýsingar sem voru opinberar um samsetningu slíkra sjóða en ekki gögn sem tengjast trúnaðarstörfum mínum við bankann. 

  1. hluti

 Ég hóf störf í Sparisjóði Hafnarfjarðar (SPH) árið 1998 og vann þar í tæp sjö ár.  Sparisjóðurinn var þá tiltölulega lítill á landsvísu, með í kringum 3-4% markaðshlutdeild. Sjóðurinn var þó stór innan sparisjóðanna og stjórnendur þar voru framsýnir.  Það var oft á tíðum erfitt að starfa þar því í mörgum tilfellum var verið að þróa afurðir í 1-2 manna teymum sem kepptu við svipaðar afurðir sem að heilar deildir annarra banka tóku þátt í að skapa, markaðssetja og með vel skipulögð útibúanet.  Þetta krafðist þess að fáar hendur þurftu að vinna mörg verk. 

Betri reynsla er hins vegar verið vandfundin.  Ég var lánsamur að því leyti að ég leiddi eða tók virkan þátt í að skapa og þróa flestar afurðir sem tengdust verðbréfum og nýjum viðskiptaformum innan sparisjóðsins á þeim árum sem ég starfaði þar.  Má til að mynda nefna millibankaviðskipti, erlend verðbréfaviðskipti, erlend skuldabréfaviðskipti og uppsetningu verðbréfasjóðaflóru sparisjóðsins.  Það lá því beint við, þegar kom að því að þróa viðbótarlífeyrissparnað fyrir hönd SPH sem veitti viðskiptavinum þess ávöxtun tengd gengi hluta- og skuldabréfa, að það félli í mitt skaut.  Þetta var árið 2001. 

Hugmyndafræði áherslna 

Í fyrstu var talað um að bjóða einfaldlega upp á 2 leiðir, hlutabréf og skuldabréf, og að fólk gæti síðan sett saman skiptingu í samræmi við áhættuþol þeirra.  Fyrir bauð SPH uppá verðtryggðan reikning sem hefur frá upphafi veitt einstæða ávöxtun.  Fyrstu hugmyndir voru að fólk gæti sett upp skiptingu með hugsanlega 40% í verðtryggðri bók og afganginn skipt í tvo hluta á milli skuldabréfa og hlutabréfa eftir áhættuþoli.  Þeir sem væru áhættusæknir gætu einfaldlega sett allt í hlutabréf og voru rökin þau að með því að fjárfesta smám saman jöfnuðust sveiflur í gengi hlutabréfa. 

Gallinn við þessa hugmynd er að sagan hefur sýnt sig að fólk sem fylgist að öllu jöfnu ekki með mörkuðum tekur oftar en ekki óskynsamlegar ákvarðanir í slíkum efnum.  Skiptir þá engu þó að í upphafi sé talað um langtímaávöxtun.  Nýleg dæmi á þeim tíma var reynslan að fáir höfðu áhuga á því að setja sparnað sinn í vaxtaberandi bækur og settu nánast allan sinn sparnað í ávöxtunarleiðir tengdum hlutabréfum þegar að gengi hlutabréfa var sem hæst.  Fáir sýndu hlutabréfum hins vegar áhuga þegar að þau höfðu fallið um helming í virði –jafnvel þó að um langtímasparnað væri að ræða. 

Auk þess hafði ég áhyggjur af því að ávöxtun hlutabréfa næstu ár og jafnvel áratugi gæti valdið miklum vonbrigðum.  Mörg áratuga tímabil hafa átt sér stað þar sem að hlutabréf hafa veitt neikvæða ávöxtun miðað við verðlag – jafnvel án tillits til verðlags.  Að veita möguleika á því að viðskiptavinir SPH gætu sett allan sinn sparnað í hlutabréf var því í mínum huga ábyrgðarlaust.  Stjórnendur SPH voru þessu sammála. 

Því var brugðið á það ráð að veita 2 leiðir en að þær væru áherslubundnar.  Vinnuheitið hluta- og skuldabréfaáhersla, sem fékkst úr samtali við þáverandi yfirmann einstaklingsþjónustunnar, varð að endanlegu heiti fjárfestingaleiðanna. 

70/30 eða 30/70 

Ákveðið var að hlutabréfaáherslan væri með 70% í hlutabréfum og 30% í skuldabréfum.  Í skuldabréfaáherslunni var hlutfallinu snúið við. 

Litið var aðallega til 2 sjónarmiða varðandi þessa skiptingu. Sú fyrri er þumalputtaregla sem þekkist sem 100 mínus aldur fjárfestis aðferðin.  Sú aðferð gengur í stuttu máli út á það að aldur hvers fjárfestis er dregin frá tölunni 100 og er það hlutfall sem fara á í fjárfestingar hlutabréfa.  Fertugur fjárfestir ætti samkvæmt þessu að vera með 60% eignasafns síns í hlutabréfum en við 55 ára aldur ætti það hlutfall að vera komið í 45%.  Þar sem flestir í slíkum sparnaði eru á bilinu 30-70 ára á þessi skipting því vel við fyrir flesta, munurinn felst líklegast í áhættusækni hvers og eins.  Auk þess var litið til þess að lærifaðir Warren Buffett, Benjamin Graham, hefur mælt með (m.a. í bók sinni The Intelligent Investor) að fjárfestar eigi ekki meira en 75% í skuldabréfum né hlutabréfum.   

Auk þess var einfalt að skipta sparnaðnum niður í 2 jafnstórar einingar og þannig ávaxta helming í hlutabréfum og helming í skuldabréfum.  Þjónustufulltrúum var ráðlagt að setja flestum viðskiptavinum í ávöxtunarleið þar sem fjárfest væri helming í bundna bók og hinum helmingnum í 50/50 skiptingu á milli leiða.  Þannig væru flestir með 50% með verðtryggða ávöxtun, 25% í ríkistryggðum bréfum og 25% í hlutabréfum.  Sjaldan myndi slík ávöxtun sigra heiminn en nánast aldrei þyrftu þjónustufulltrúar að útskýra af hverju lífeyrir fólks veitti neikvæða ávöxtun. 

Hugsun varðandi fjárfestinga innan leiða 

Hlutföll innan leiða skiptu þó ekki síður máli.  Fjárfest var í sjóðum SPH Verðbréfa og hlutföllin voru í samræmi við fjárfestingarstefnu þeirra sjóða. 

Val við skuldabréf var einfalt; aðeins var fjárfest í ríkistryggðum bréfum.  Raunar var slík ákvörðun auðveld því eini skuldabréfasjóðurinn í flóru SPH fjárfesti einungis í slíkum bréfum.  Meira kom þó til; litið var á að óbein fjárfesting væri að eiga sér stað í fyrirtækjabréfum með því að leggja inn á bankabók en slíkt fjármagn var auðvitað að mestu leyti endurlánað til einstaklinga og smærri fyrirtæki. 

Skipting hlutabréfa var aðeins erfiðaðri.  Sjóðaflóra SPH á þeim tíma var skipt á milli atvinnugeira og síðan var einn sjóður sem fjárfesti í íslenskum hlutabréfum.  Mín ákvörðun var að tæplega 30% hlutabréfa yrði í íslenska hlutabréfasjóðnum en þar sem að sum íslensk félög voru einnig hluti af hinum sjóðunum var í raun um þriðjungur fjárfestinga hlutabréfa í íslensk félög. 

Þetta leiddi það til þess að um 2/3 allra hlutabréfafjárfestinga voru í erlendum félögum.  Það varð til þess að ekki einungis skipti gengi erlendra hlutabréfa miklu máli heldur hafði gengi krónunnar (augljóslega) mikið um ávöxtunina að segja.  Í þessu fólst ákveðin áhætta, til skemmri tíma í það minnsta.  Áhættan, ef svo mætti að orði komast, fólst í því að ef hagvöxtur hérlendis yrði um aldur og ævi betri en annars staðar í heiminum þá væri ávöxtunin af þessari stefnu töluvert slakari en ef meiri áhersla væri á íslensk hlutabréf, til dæmis 50/50 skipting á milli þeirra og erlendra verðbréfa. 

Rökin fyrir þessari skiptingu var tekin með því að líta heildrænt á mikilvægi slíks sparnaðar þegar að þörfin á því væri mest.  Þegar að allt er í blóma hérlendis hækka hlutabréf og krónan helst afar sterk.  Allir vita að þetta kom á daginn næstu árin.     

Á ögurstundum sem þessum þá er aftur á móti þörfin fyrir þessum sparnaði mest.  Margir sem hófu slíkt sparnaðarform fyrir næstu áratugi er nú að keppast við að taka út þennan sparnað.  Það er þekkt að margir Bandaríkjamenn taka út sinn viðbótarsparnað (IRA) áður en þeir ná tilsettum aldri þrátt fyrir um 10% úttektargjöld við slík þjóf stört.  Því er það svo að of mikil áhersla á innlend hlutabréf leiðir til þess að þegar að kreppa á sér stað þá rýrna ekki aðeins lífskjör heldur verður stór hluti lífeyrissparnaðar fyrir miklum áföllum – á versta tíma.   

Með meiri áherslu á erlend hlutabréf er minni samfylgni á milli aðstæðna hér og erlendis.  Auk þess er út frá áhættudreifingu einföld skynsemisjónarmið að dreifa fjárfestingum til margra landssvæða og jafnvel atvinnugeira sem ekki eru ríkjandi á Íslandi.  Síðast en ekki síst, með því að tengja hluta sparnaðar við erlenda gjaldmiðla er sannarlegri áhættudreifingu komið fyrir í slíkri stefnu, því virði innlends gjaldmiðils augljóslega minnkar þegar á móti blæs sem þýðir að virði erlendra eigna aukast í íslenskum krónum. 

Heildræn áhættudreifing 

Því var dreifingin fyrir áherslurnar eitthvað á þessa leið: 

Skuldabréfaáhersla

·        70% í ríkistryggðum skuldabréfum

·        20% í erlendum hlutabréfum

·        10% í innlendum hlutabréfum 

Hlutabréfaáhersla

·        47% í erlendum hlutabréfum

·        23% í innlendum hlutabréfum

·        30% í ríkistryggðum skuldabréfum 

Hvað gerðist næst? 

Í ársbyrjun 2005 gerist ég framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækisins Verðbréfaþjónusta Sparisjóðsins (VSP).  Ég var hugmyndasmiður ásamt samstarfsmanni mínum að fyrirtækinu og var leiðandi í stofnun þess.  Fyrirtækið þjónustaði alla verðbréfaþjónustu fyrir alla sparisjóði að SPRON undanskildu.  Forspilið að því var sú ákvörðun að viðbótarsparnaðurinn sem fyrst var einungis fyrir viðskiptavini SPH var í framhaldinu boðin viðskiptavinum allra sparisjóða (aftur, mínus SPRON). 

Skömmu síðar hætti ég þar störfum.  Þó hélt ég áfram viðskiptum við SPH og er meðal annars með viðskipti hjá S24, sem býður ávallt bestu vextina.  Er auk þess í góðu sambandi við marga af mínum fyrrum vinnufélögum.  Síðast en ekki síst þá hélt ég áfram að ávaxta fé mitt í viðbótarsparnaði í öllum 3 ávöxtunarleiðunum, það er bundna bók, hlutabréf og skuldabréf. 

Sparisjóður Hafnarfjarðar rann inn í Sparisjóð Vélstjóra árið 2005 sem í dag myndar ásamt nokkrum öðrum minni sparisjóðum fjármálafyrirtækið Byr.  Þar sem að VSP hafði lent í vandamálum sem ekki verða tíunduð hér var fyrirtækið lagt niður og er nú aftur orðin hluti af Byr undir heitinu Byr Verðbréf  (þ.e. var áður hluti af SPH sem var nafn Byrs áður). 

10.2008 

Þegar að hrunið átti sér stað í haust hafði ég litlar áhyggjur.  Uppsetning safnsins var byggð með þeim hætti að þó svo að vissulega ættu sér stað ákveðin töp í safninu þá kæmi veiking krónunnar og sterkar stoðir sem ríkistryggð skuldabréf til með að veita ákveðna vörn gegn slíkum áföllum.  Nú vissi ég að rekstrarfélag Byrs hafði byrjað með tvo aðra áhættumeiri skuldabréfasjóði svo hugsanlega hafði þeim verið bætt við, svona til að krydda safnið.  Ég ákvað að rifja upp skiptinguna og varð meira en lítt undrandi.  Enn eru áherslurnar 70/30 og 30/70.  Innihaldið er hins vegar orðið allt annað og sést það á eftirfarandi hlekkjum. 

http://byr.is/einstaklingar/sparnadur/vidbotarlifeyrissparnadur/skuldabrefaahersla/ 

http://byr.is/einstaklingar/sparnadur/vidbotarlifeyrissparnadur/hlutabrefaahersla/ 

Á morgun mun ég fara yfir hvað þessar breytingar í stuttu máli þýða fyrir flesta þá sem treystu Byr fyrir sparnaði sínum.  Á fimmtudag fer ég yfir samskipti mín sem viðskiptavinar Byrs og Byrs varðandi þetta mál og auk þess hvernig Byr hefur borið þetta fyrir sjóðfélögum sínum almennt.  Á föstudaginn mun ég síðan skrifa samantekt varðandi málið og koma fram með nokkrar spurningar og hugleiðingar hvað megi betur fara.  Allar ábendingar verða vel þegnar.  

mwm

MótByr í viðbótarsparnaði – 1. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/853104/

MótByr í viðbótarsparnaði – 2. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/854131/

MótByr í viðbótarsparnaði – 3. hluti -  http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855033/

MótByr í viðbótarsparnaði – 4. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855887/


Áhugi á aðskilnað fjármálaþjónustu

Undanfarnar 2 vikur hefur könnun verið í gangi á bloggsíðu minni þar sem spurt er hvernig bankakerfi hins nýja Íslands eigi að líta út.  Þátttaka hefur verið afar góð og svöruðu 239 einstaklingar, kærar þakkir.  Þó svo að þessi könnun uppfyllir augljóslega ekki fræðilegar kröfur þá eru viðbrögðin forvitnileg. 

Yfir helmingur þátttakenda vilja aðskilja fjármálaþjónustu og mynda fyrirtækjabanka.  Þessi hugmynd er róttæk og því hefði verið rökrétt að álykta áður að tillagan fengi minni hljómgrunn.  Margir Íslendingar virðast hins vegar tilbúnir til að endurstokka bankakerfið með meiri hraði en erlend stjórnvöld virðast treysta sig til.   

Það voru þó einnig margir tilbúnir til að fylgja tillögum Mats Josefsson eða rúmlega 20%.  Þó svo að sú leið sé ekki eins róttæk og aðskilnað fjármálaþjónustu þá felst í henni engu að síður bylting í íslensku fjármálalífi. 

Það að tæplega ¾ þeirra sem svöruðu vilja mikla uppstokkun í fjármálalífi Íslands veitir vísbendingu um að eitt af helstu verkefnum tilvonandi ríkisstjórnar er að endurskipuleggja bankakerfi landsins nánast frá grunni.   

Það hefur gleymst í umræðunni undanfarna mánuði að Ísland er með bestu innviði fjármálakerfa í heimi og það löngu áður en útrásarævintýrin hófust.  Það þarf að vinna sem best úr málum til að glata ekki þeim auðæfum.  Á sama tíma þarf að vinna úr þeim vandamálum sem nú blasa við.  

Spurt var:  Hvernig á bankakerfi hins nýja Íslands að líta út?

Niðurstöður

Breyta engu - vinnum úr þessu eins og það er 15.9%

Förum Josefsson leiðina og höldum bankakerfinu eins, fækkum kannski bönkum 21.3%  

Aðskiljum fjármálaþjónustu, myndum fyrirtækjabanka og leyfum fleirum að þróast 53.6%  

Ríkisvæðum alla banka, skiptir þá engu hvernig þjónustu er skipt 7.5%  

Aðrar tillögur 1.7%  

Könnunin verður nú núllstillt og einni tillögu verður bætt við.

mwm

 

Kallaði engin(n) Úlfur Úlfur?

Hví stöðvaði þetta engin(n)?  Augljóst var að aukin skuldtaka var í tísku.  Hér er ekki einungis hægt að benda á einhverja útrásarvíkinga, stjórnvöld hefðu átt að taka í taumanna á þessu máli löngu fyrr.

Hægt er að sjá viðvaranir mínar sem fram komu vorið 2007 í forsíðugrein 24 Stunda í 2 pörtum, í Varað við erlendum skuldum undir dálknum Skuldasöfnun.  Það er svolítil fjallabanksleið að nálgast skjölin og því læt ég hluta þess fylgja hér að neðan.  Þegar að greinin birtist á sínum tíma bjóst ég við viðbrögðum.  Þau voru, því miður, engin.  mwm

Erlend lán (aðallega húsnæðislán)

Rétt er að gera örlítinn formála á þessu.  Hér er ekki um almenn verðbréf að ræða en engu að síður fjármálaafurð.  Kannanir gerðar um aldamótin gáfu sterklega til kynna að flestir töldu hlutabréf vera bestu langtímaávöxtunina.  Enda var það svo að flestir á Íslandi sem tóku þátt í reglubundnum sparnaði, til að mynda séreignalífeyri, settu mestan pening sinn í hlutabréf.  Ekki liðu meira en tvö ár áður en að viðhorf til hlutabréfa höfðu snúist nánast um 180 gráður.  Það voru jafnvel dæmi um að fólk flutti fjármagn sitt úr hlutabréfum, þegar að þau voru miklu verðminni en áður, yfir í tryggari fjárfestingakosti en þó ekki nauðsynlega betri kosti.  Þetta mótaðist að stórum hluta af því að margir höfðu um nokkurt skeið ávaxtað sitt pund vel í hlutabréfum og fleiri vildu taka þátt í leiknum, oft með vanmat á áhættu tengdum hlutabréfafjárfestingum.   

Mér finnst óþægilega lík þróun vera farin að myndast varðandi húsnæðislán í erlendum myntum.  Í fjöldamörg ár hafa sumir hagnast gríðarlega á því að skuldsetja sig í erlendri mynt.  Þetta tímabil hefur nú varað það lengi að varnaðarorð um gengisáhættu eru farin að verða sífellt veikari.  Bæði eru þeir sem hafa haldið aftur af fólki orðnir þreyttir á því að sjá ráðgjöf sína skila litlu og þeir sem hafa hlustað á varnarorð eru farnir að efast um réttmæti þeirra, erlendar lántökur hafa jú verið hagstæð í samfelld 5 ár.  Það að erlendar skuldir heimila hafa aukist um rúmlega 150% síðustu 12 mánuði er vísbending um að margir hafi ákveðið að tími sé kominn til að taka þátt í þessum leik. 

Nýlega sá ég sjónvarpsauglýsingu þar sem verið var að bjóða uppá erlend lán til íbúðakaupa.  Hjá sumum eru aðstæður þannig að slík lán, jafnvel með gengisáhættu, eru ekki óskynsamleg vegna þess að ef vel gengur getur ávinningur orðið talsverður.  Það er aftur á móti forvitnilegt að vita hvernig afstaða fólks í raun verður ef íslenska krónan veikist skyndilega mikið, sem eykur höfuðstól lánanna. Tökum dæmi hjón sem kaupa 20 milljóna króna hús og taka 90% lán, fjármagnað í erlendri mynt.  Eigið fé fólksins í húsinu eru 2 milljónir. 

Nú gerist hið óvænta að aðeins 12 mánuðum eftir að lánið var tekið hefur íslenska krónan veikst um 20% og höfuðstóll lánsins hækkað samsvarandi mikið.  Þetta gæti virst vera óhugsandi en ætti þó ekki nauðsynlega að koma á óvart; veiking krónunnar sem átti sér stað á tímabilinu 2000 til 2001 var t.d. meira en þetta.  Í stað þess að eiga 2 milljónir í húsnæðinu þá skulda þau svipaða upphæð 12 mánuðum síðar.  Í slíkri aðstöðu er líklegt að margir, burtséð frá skynsemi slíkra ákvarðana, umbreyti erlendum lánum sínum í íslensk lán til að forða sér frá enn frekari skuldasöfnun.  Viðhorfið gagnvart áhættu tengdum erlendum lántökum gæti umbylst með svipuðum hætti og átti sér stað varðandi hlutabréf fyrir nokkrum árum síðan.  Slík viðhorfsbreyting getur í raun stigmagnað áhrifin því ef fólk fer að greiða upp erlend lán veikist íslenska krónan enn frekar. 

Hvað skal gera?

Því miður hef ég ekki áreiðanlega kristalskúlu á borði mínu.  Hugsanlega eiga íslensk hlutabréf eftir að hækka enn meira og valréttarsamningar sem nú eru sem mest auglýstir skili viðunandi ávöxtun.  Varðandi húsnæðislánin þá hafa margir virtir sérfræðingar spáð fyrir um veikingu krónunnar lengi vel án þess að slíkt hafi gengið eftir.  Þó að slíkir spádómar hafi ekki ræst hingað til er ekki þar með sagt að þeir rætist ekki í framtíðinni.  Reyndar gerist það oft að loksins þegar að þeir rætast þá gerist það með meiri hvelli en flestum grunar.  Því er rétt að minna á söguna um strákinn sem stöðugt kallaði úlfur, úlfur.  Úlfurinn kemur að lokum og þá er ekki gott að vera með þeim seinustu í röðinni.


mbl.is 15.685 milljarða skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband