Vilt þú borga jeppa nágranna þíns?

 

Vilt þú borga jeppa nágranna þíns?

Már Wolfgang Mixa

 

Undanfarið hefur verið fjallað um að margir þeirra sem fengið hafa vaxtabætur missa þær í ár. Eins og flestir vita er ákveðið hámark á vaxtabótum, þannig að þeir sem eiga mikið í húsnæði sínu, þ.e. skulda lítið, geta verið fyrir neðan þau viðmið sem ákvarða hvort vaxtabætur fáist. Með hækkun fasteignaverðs hefur eignahlutfall fólks aukist í húsnæði sínu samkvæmt fasteignamati og því hefur þeim fjölgað sem fallið hafa utan viðmiðunarmarka, sem áður voru innan þeirra.

Þetta finnst sumum afleitt og telja að ríkið skuldi þessu fólki bætur. Heyrst hafa þær raddir að ríkið eigi að greiða dráttarvexti fyrir að hafa ekki staðið sig nógu vel í að rétta hlut þeirra sem voru óheppnir með undanfarna þróun fasteignaverðs. Vilja þessir aðilar auka vaxtabætur á nýjan leik með hækkun viðmiðunarmarka. Þessa umræðu þarf hins vegar að skoða í víðara samhengi.

Auðvelt aðgengi lánsfjár

Aukið aðgengi að lánsfé á betri kjörum er meginástæða þess að fasteignaverð hefur hækkað eins mikið og raun ber vitni undanfarin ár. Þetta kallast á ensku "easy money" og er ein helsta skýring á myndun fjármálabóla, hvort sem um er að ræða verðbréf eða fasteignir. Lánakjörin eru reyndar svo hagstæð að miðað við íslenskan markað eru þau beint og óbeint niðurgreidd. Það má því segja að með hækkuðum lánshlutföllum, úr 65% í 90%, hafi þá þegar verið aukin niðurgreiðsla á húsnæðislánum, ekki í formi vaxtabóta heldur aukið aðgengi að niðurgreiddum lánum.

Margir nýttu sér þessa þróun til hins ýtrasta. Niðurgreiðslur á yfirdráttarlánum jukust afar mikið samhliða auknum lánshlutföllum. Fólk tók einfaldlega húsnæðislán til að greiða niður yfirdrátt sinn (það leið reyndar ekki nema um ár þangað til að yfirdráttarskuldir landans urðu jafnmiklar og áður) og fjármögnuðu þannig neyslu á betri lánskjörum en áður með því að veðsetja hús sín í meira mæli. Þeir sem voru í húsnæðishugleiðingum áttu skyndilega auðveldari aðgang að fjármagni og því skipti verð á húsnæði minna máli, því hægt var að dreifa afborgunum yfir lengra tímabil. Kaup á margskonar neysluvörum, t.a.m. jeppum, jukust í framhaldi af auknu aðgengi að ódýru (og niðurgreiddu) lánsfé.

Má því segja að þeir sem hafi ekki ákveðið að taka þátt í þessum darraðardansi hafi með aðgerðarleysi sínu að vissu leyti tapað. Þeir einstaklingar urðu ekki aðeins af niðurgreiddu lánsfé, þeir greiða nú með sköttum sínum frekari vaxtabætur til handa þeim sem voru duglegastir að taka lán í skjóli húsnæðiskaupa. Sá hópur sem sýndi skynsemi (eða er það óskynsemi í núverandi stöðu?), með því að lágmarka skuldir í stað þess að keppast við að skuldsetja sig allt að 100% af kaupverði húsnæðis, lendir m.ö.o. í þeirri stöðu að fjármagna að hluta til skuldasöfnun hinna.

Jeppinn í flotta húsinu

Það væri áhugavert að gera könnun á því hversu margir séu virkilega fylgjandi vaxtabótastefnu sem stöðugt gerir skuldasöfnun eftirsóknarverðari. Spurningin gæti verið eitthvað á þessa leið:

Ert þú reiðubúin(n) til að fjármagna kaup á jeppa nágranna þíns?

Sjálfsagt myndu fæstir svara þessu játandi, jafnvel þeir sem nú þiggja vaxtabætur. Þó er þetta einmitt það sem vaxtabótakerfið hefur undanfarið stuðlað að. Önnur spurning gæti verið hvort fólk kjósi að kynda undir enn frekari verðbólgu; myndu margir svara því játandi? Auknar vaxtabætur gera einmitt slíkt sem er óneitanlega í andstöðu við sífellt hækkandi vaxtastig. Forvitnilegt væri að heyra álit alþjóðlegra sérfræðinga hjá lánshæfisfyrirtækjum um þessa þróun; tæplegast eykur hún líkur á styrkingu á lánshæfismati ríkis (sem lækkar vaxtastig fyrir okkur öll til lengri tíma) sem boðar aðhald í einu orðinu en hvetur til skuldsetningar í hinu.

Hvað er til ráða?

Spyrja má hvort vaxtabótakerfið sé ekki barn síns tíma sem nú er liðinn, sérstaklega í ljósi þess að flestallir geta nú þegar fengið stærstan hluta húsnæðislána á vildarkjörum. Hugsanleg ástæða langlífis vaxtabóta er líklega vegna þess að flestir hugsa ekki um að vaxtabætur fara úr sameiginlegum sjóði okkar allra (peninga sem mætti nota í annað), þær hvetja til skuldasöfnunar en refsa fyrir sparnað og stuðla að aukinni verðbólgu.

 

Réttast væri því að afnema vaxtabætur í áföngum (sem undanfarnar hækkanir fasteignaverðs stefndu óbeint að) og hækka skattleysismörk. Hækkun skattleysismarka myndi t.a.m. hjálpa mest þeim sem nú eru að koma undir sig fótunum, þ.e. ungu fólki. Slíkt væri hvatning til vinnu en ekki aukinna lántaka. Hafi einstaklingar áhuga á því að kaupa dýrara húsnæði með þeim aukapeningi sem fæst með hækkun skattleysismarka er það þeirra val. Þeir sem kjósa að verja hamingju sinni minna í steypu þurfa hins vegar ekki að fjármagna jeppakaup nágranna síns.

 

Birtist í Morgunblaðinu, 7.september, 2006


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband