Stofna nýja banka – Af hverju, hvernig og kostir

Í dag, 9.2.2009, birtist á leiðarasíðu Fréttablaðsins grein eftir mig sem fjallar um nauðsynleg skref til að koma íslensku fjármálalífi á réttan kjöl.  Vegna takmarkaðs pláss koma aðeins helstu atriðin fram í grein minni á leiðarasíðunni en greinina í heild má lesa á eftirfarandi vefslóð:

http://visir.is/article/20090209/SKODANIR03/590833332

Greinin tekur sögulegt mið af núverandi stöðu og fjallar síðan nokkuð ítarlega um hugmynd mína varðandi fyrirtækjabanka.  Eftirfarandi er frekari útlistun á því af hverju nauðsynlegt er grípa til róttækra ráða nú þegar.  Síðan fjalla ég um hvernig útfæra eigi hugmyndina um að skilgreina betur rekstur íslenskra fjármálastofnanna með það fyrir augum að endurreisa trúverðugleika þeirra, sem er grunnforsenda þess að hér þrífist á nýjan leik atvinnusköpun.

Af hverju það þarf að stofna nýja banka

Nýjustu tölur varðandi afskriftir eru hrikalegar.  Áhyggjur fólks um að nýju bankarnir séu einnig að fara á hausinn eru vaxandi.  Hvort sem þær eru réttmættar eða ekki þá vantar mikið upp á til að traust til íslenskra banka aukist.  Raunar er mín tilfinning sú að það sé að þverra á nýjan leik.  Haldi traust almennings til banka áfram að minnka er hætta á að fólk fari að taka fjármagn úr bönkum á nýjan leik (fyrsta umferð var í byrjun október) og fer þá vaxtastig að skipta æ minna máli.

Þetta þarf að gerast fljótt og með þeim hætti að ekki fari á milli mála að innstæður fólks séu ekki í hættu.  Í núverandi óvissu er lækkun vaxta eins og leikur að eldinum.  Eitt af lögmálum fjármálamarkaða er að áhættuálag eykst við aukningu óvissu.  Hátt vaxtastig er eitt af því fáa fyrir utan höft sem heldur fjármagni enn hér innanlands.  Lækki vextir án þess að styrkja aðrar stoðir á Íslandi þá er það næsta víst að gengi krónunnar einfaldlega veikist enn frekar sem íþyngir lánabyrði margra fyrirtækja og heimila sem skuldsett eru í erlendum myntum. 

Til að vaxtalækkun geti átt sér stað á Íslandi án neikvæðra afleiðinga þarf því að minnka óvissu um efnahagsstöðu landsins sem fyrst.  Eitt af undirstöðum aukins hagvaxtar er gegnsæi í bókhaldi.  Telji fjárfestar að bókhald og ársreikningar veiti ágæta mynd af stöðu fyrirtækja þá eru þeir frekar tilbúnir til að fjárfesta í þeim.  Þetta er meðal annars eitt af þeim grunnatriðum þegar að umhverfi sem fyrirtæki starfa innan er skoðað með PEST greiningu (Political, Economical, Social, Techonological).  Að sama hætti þarf að aðskilja fjármálafyrirtæki í smærri einingar til að hægt sé að veita skýrari sýn á stöðu fjármálafyrirtækja.

Aukið gegnsæi í nýjum bönkum

Með stofnun nýrra banka er hægt að einfalda ferla og veita skýra mynd miðað við hlutverk þeirra.  Sé einn ríkisbanki og sparisjóðir að einblína á einstaklinga og smærri fyrirtæki þá eykst einfaldleikinn til muna við að koma fram með efnahagsreikninga sem fela í sér litla óvissa, í það minnsta samanborið við núverandi stöðu.

Slíkar stofnanir veita bankaþjónustu í einfaldri mynd.  Sú mynd verður ekki ólík þeirri þjónustu sem að flestir sparisjóðir hafa veitt í gegnum tíðina.  Þó svo að viðbúið sé að slíkar stofnanir lendi í miklum afskriftum á næstu árum þá er óvissan um stærðir í þeim efnum orðin miklu minni.  Minni áhætta verður því að eiga innstæður í slíkum stofnunum og með minnkandi óvissu gæti slíkt stuðlað að rými til lækkun stýrivaxta án þess að neikvæð áhrif slíkra aðgerða dragi um of úr jákvæðu áhrifin.

Stofna nýja banka í verki

Greinin sem birtist í morgun var send til Fréttablaðsins sl. fimmtudag og aðeins 2 dögum síðar birti sama blað forsíðufrétt þar sem birt eru drög að skýrslu Mats Josefsson, sænsk bankasérfræðings, um að setja vandræðafyrirtæki í sérstakt félag.  Tillögur hans er svipaðar mínum og er ég þeim því innilega sammála. 

Ég tel aftur á móti að stíga eigi skrefið til fulls og aðskilja lán til stórra fyrirtækja frá almennum bankarekstri. 

Í fyrsta lagi hefur það loðað við fjármálaþjónustu að mynda fórnarkostnað til að þjónusta stór fyrirtæki í þeirri von að slíkur kostnaður ávinnist til baka með öðrum leiðum.  Slíkt gerist sjaldan.  Þýskir bankar könnuðu í upphafi þessa áratugar hvar hagnaður myndaðist hjá þeim.  Í ljós kom að um helmingur þess fjármagns í útlánaþjónustu þeirra skilaði neikvæðri afkomu.  Því er nauðsynlegt að aðgreina þjónustu til fyrirtækja og einstaklinga til að koma í veg fyrir slík vinnubrögð.

Í öðru lagi skapar slík uppsetning skilvirkari markmið, aukna þekkingu og hvatningu sem snýst meira út að það að stýra lána- og eignasafni vel og minna í kringum að vinna sér bitlinga innan skipurits fjármálastofnunnar.  Með því að hólfa teymi niður í atvinnugreinar myndast meiri þekking á þeim sviðum sem gerir starfsmenn innan slíkra sviða betri í að fylgjast með lánveitingum og fjárfestingum í þeirra umsjá.

Nýja banka strax

Ísland lenti ekki fyrst í þeirra bankakrísu sem nú ríkir, hún gerði fyrst vart við sig í Bandaríkjunum.  Ísland hefur þó hugsanlega bestu tækifærin til að vinna sig úr núverandi vandræðum.  Látum það tækifæri ekki renna okkur úr greipum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglisvert. Þú þarft að komast í Spegilinn og Kastljós og Silfur Egils og öll þessi stöff.

katrín (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 12:16

2 identicon

Eru menn ekki að gleyma einu atriði?  Atvinnuleysinu.
Er þetta örugglega besti tíminn til að fækka bönkunum, skera niður útibúanetið og skutla nokkrum hundruðum vel menntaðra bankastarfsmanna í viðbót út í það sem stefnir í íslandsmet í atvinnuleysi?  Nýtist það fólk ekki betur inni í bönkunum m.a. til að styðja við atvinnuþróun þannig að þegar bönkunum væri fækkað (t.d. eftir 1-2 ár) þá væru einhver störf í boði fyrir þetta fólk?  Það er ekki nóg að bera saman launatölur bankanna og samsvarandi kostnað við atvinnuleysisbætur fyrir þennan hóp til að reikna dæmið upp á krónur og aura - atvinnumissir hefur áhrif langt út fyrir einstaklinginn sem missir vinnuna og dregur úr allri neyslu og þar með veltu í hagkerfinu.  Verkefni númer 1,2og3 í dag er að halda (og koma) sem flestum í vinnu, jafnvel þó það komi fram sem tímabundið óhagræði í fyrirtækjum og stofnunum.

Jens (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 12:41

3 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Sæll Jens, jú, ég gleymdi þessu atriði en það kemur fram bæði í svari við annarri athugasemd og öðrum skrifum. 

Það má lesa það úr þessum skrifum mínum að sameining leiði strax til fækkunar fólks.  Ég tel aftur á móti að best væri að sameina 3 banka til að auka skilvirkni - ekki til að fækka starfsfólki 1,2&3 heldur til að þjónusta betur.  Ég er því sammála þér. 

Már Wolfgang Mixa, 13.2.2009 kl. 12:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband