Viðskiptafræði á rangri braut
7.9.2009 | 23:20
Á nýlegum fyrirlestri fjármálaprófessora spurði ræðumaður hversu margir kenndu kenninguna um skilvirkan markað. 200 réttu upp hönd. Þá spurði hann hversu margir höfðu trú á þessum kenningum. Aðeins 2 héldu hendinni uppi. Þetta þýðir að hér um bil allir sem útskrifast með háskólagráðu læra að nota þessa kenningu, sem gerir ráð fyrir að verðbréf séu það rétt verðlögð að vinna við að reyna að gera betur en markaðurinn sé tímasóun. Það er með öðrum orðum er einfaldast að fjárfesta í samræmi við markaðinn, gagnrýnin hugsun skilar litlu.
Kenningin gerir ráð fyrir fjármálahörmungum á margra tuga ára fresti, en þau eru í raun að eiga sér stað á 3-4 ára fresti. Hvernig er t.d. hægt að skýra að Dow Jones hlutabréfavísitalan hafi á einum degi, 19. október 1987, lækkað um rúm 22% án teljandi nýrra frétta? Hví hélst markaðsvirði íslenskra hlutabréfa svo lengi uppi þegar að öllum fræðimönnum hefði átt að vera ljóst að markaðsvirði þeirra endurspeglaði vart raunvirðinu? Áleitin spurning er því af hverju sé verið að kenna slíka gagnslausar hugmyndir sem sárafáir fræðimenn hafa trú á? Ef þetta hefur verið staðlaður hluta í viðskiptafræðideildum síðustu áratugi getur það vart talist vera undarlegt að staða fjármálakerfisins sé í því kalda koli sem það er nú í?
Skortur á gagnrýnni hugsun
Vegna þess að gert er ráð fyrir að gagnrýnin hugsun sé óþarfi hugsa flestir á einsleitan hátt, sem byggir á nálgun um að fortíðin endurspegli framtíðina, nokkurs konar ofurtrú á stærðfræðilegum göldrum. Það á ekki einungis við um aðila sem vinna í bönkum, fjármálastjórn og ráðgjöf, heldur einnig þeirra sem vinna að eftirliti og löggjöf fjármála. Í nýlegri skýrslu The Institute of Economic Affairs kemur fram að áhættustýringardeildir beina sjónum sínum fyrst og fremst að tölfræðilegum staðreyndum, sem er það sem eftirlitsaðilar vilja fyrst og fremst fá. Slík áhættulíkön eru almennt svipuð uppsett og notast við söguleg gögn. Séu forsendur þeirra rangar varðandi framtíðina þá verða líkönin gagnslaus, ekki bara fyrir einn banka heldur allt kerfið í heild sinni. Þetta er allt of þekkt staðreynd á Íslandi í dag.
Ég hef oft furðað mig á því í starfi mínu hversu margir sérfræðingar hafa lítið skynbragð á undirstöðuhugsun í fjárfestingum og fylgt þess í stað tískuhugsun hvers tíma. Nýlegt dæmi (fyrir hrun þó) um slíka einsleitni voru fyrirhuguð kaup í banka sem ég var beðinn um að renna yfir. Helstu rökin voru að geirinn sem bankinn sérhæfði sig í og markaðssvæði þess væru spennandi og að eitt tölfræðilegt hlutfall, innra virði á móti markaðsvirði (Price/Book) væri lágt. Geirinn er fasteignageirinn, svæðið var Flórída (sem kom einna verst út í fasteignakreppunni) og í dag er bankinn gjaldþrota.
Kröfur um afskriftir vegna vanþekkingar
Þessi vanþekking hefur ollið þjóðarbúinu og sérstaklega sumum einstaklingum hræðilegan skaða. Sorglegasta dæmið er erlend lántaka. Þeir sem vöruðu við of mikillar skuldsetningar í erlendri mynt fengu rök gegn slíkum viðvörunum á eiginlega alltaf sömu nótum, þ.e. að sveiflur hefðu verið svo litlar í fortíðinni (og því væri þetta nánast áhættulaus lántaka), og að ráðgjafar í bönkum mæltu með slíkum lántökum. Sú ráðgjöf hlýtur að hafa sprottið í innri kynningu banka frá sérfræðingum þeirra.
Sú meingallaða ráðgjöf er að mínu mati helsta ástæða þess að fólk með erlend lán á bakinu eigi kröfu á að fjármálafyrirtæki afskrifi hluta höfuðstólsins. Forsendubrestur hefur ekki átt sér stað á lánum því ákveðin gjaldeyrisáhætta ætti að hafa verið öllum með lágmarksþekkingu í fjármálum ljós, heldur frekar brestur á þekkingu og kynningu þjónustufulltrúa varðandi áhættu sem fylgir erlendum lántökum.
Víðsýn viska varðandi fjármál er ekki einungis reist á grunni þekkingar á excel forritum og afleiðum, heldur einnig fræða eins og sálfræði, félagsfræði og ekki síst fjármálaleg sagnfræði. Raunar hefði ekki þurft að fara langt aftur í tímann né langt út fyrir landsteinanna því að bankakrísan á norðurlöndunum í byrjun tíunda áratugarins var að stærstum hluta bóla í fasteignaverði og aukningu erlendra lántaka til slíkra kaupa.
Á sömu nótum má spyrja af hverju voru allar íslenskar fjármálastofnanir á svipaðri bylgjulengd varðandi fjárfestingar, s.s fasteignir og smásölu.
Stefna í kennslu
Flestar bækur varðandi fjárfestingar, bæði hvað varðar vali á einstökum bréfum og samsetningu, hafa þann samhljóm að fjárfestingar séu ekki vísindi heldur einnig ákveðin listgrein (not a science but art). Því er eðlilegt að setja spurningarmerki við þá stefnu háskóla að leggja áherslu á fræði sem nýtast lítið sem ekkert í hinum raunverulega heimi. Ef réttar spurningar eru ekki til staðar um vitræna stefnu eru litlar líkur á því að góð tölfræðileg þekking sé að nokkru gagni. Því er þörf á stefnubreytingu í kennslu fjármála þar sem að meiri athygli er beint á þætti sem móta umhverfi fjárfestinga. Annars lærir næsta kynslóð lítið af mistökum þessarar kynslóðar.
Birtist upphaflega í Morgunblaðinu 29.ágúst, 2009
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 8.9.2009 kl. 07:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.