HRUNIÐ - Bókaumfjöllun; Traust skiptir öllu máli
5.6.2009 | 09:42
Það gerast nokkrir atburðir hjá hverri kynslóð sem eru þess eðlis að allir muna hvar þeir voru þegar að merkileg tíðindi fréttust. Flestir af minni kynslóð muna t.d. hvar þeir voru þegar að fréttist af láti John Lennon, Díönu prinsessu og árásanna 9/11. Fyrir flesta Íslendinga er fall Glitnis einn þeirra atburða. Sjálfur var ég heima að búa mig undir útför móður minnar sem var jörðuð síðar þann dag. Annað slíkt augnablik var 6. október (9/11 íslensk efnahagslífs) þegar að Geir Haarde flutti sína frægu sjónvarpsræðu, en engu líkara en að verið væri að tilkynna vænta jarðarför heillar þjóðar. Fyrir flesta Íslendinga voru næstu dagar nokkurs konar rússíbani vonar og ótta þar sem að flókin atburðarrás gerði það að verkum að margt er nú þegar orðið þokukennt í minningunni.
Þeirri atburðarrás, sem fór að stigmagnast af miklum þunga 15. september 2008, er lýst í bókinni Hrunið: Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar eftir Guðna TH. Jóhannesson. Endar frásögn bókarinnar við stjórnarslitin 26. janúar 2009 en þessi umfjöllun einblínir á tímabilið til 9. október þegar að íslensku bankarnir féllu í ríkiseigu.
Við lestur Hrunsins var mér hugsað til bókarinnar Frásögn um margboðað morðeftir Gabriel García Márquez. Þrátt fyrir að maður viti hvernig sagan endar, og reyndar í þessu tilviki m.a.s. flest atriðin, þá er lestur bókarinnar spennuþrungin.
Frásögnin hefst á þeim tímapunkti þegar að óveðurský íslensks fjármálakerfis fá aukin byr við hrun fjárfestingarbankans Lehman Brothers. Það kemur reyndar ekki fram í bókinni en vaxtaálag á erlendum fjármálamörkuðum hækkaði verulega við þessar fréttir og erlend skuldabréf íslensku bankanna kolféllu. Guðni lýsir hins vegar hversu mikið áhættuálag íslensku bankanna jókst við þessar fréttir, enda fór öryggi og traust að skipta meira máli í samskiptum banka en nokkru sinni fyrr. Þó svo að FME hafi gert lítið úr tapi íslensku bankanna má bæta því við að margir þeirra voru í viðskiptum við Lehman Brothers, svokölluðum Prime Brokerage, sem olli miklu tapi.
Aukin hræðsla kom þó fram í gengi krónunnar, sem stöðugt veiktist þannig að viðvörunarbjöllur voru vissulega farnar að heyrast úr einni átt. Nú voru lánalínur til Íslands óðum að lokast og segja má að í stað þess að áhlaup hafi verið gert á einstakan banka hafi í raun sá einstæði atburður að áhlaup var hafið að fjármálakerfi heillar þjóðar.
Sú saga sem síðan er rakin rifjast upp við lestur bókarinnar. Það sem mér fannst sérstaklega áhugavert voru samtöl íslenskra ráðamanna við erlend stjórnvöld, aðallega bresku, og neikvæð viðbrögð erlendra bankamanna við svokölluðu WaMu leiðinni sem fólst í neyðarlögunum. Athyglisvert er hversu meiri áhyggjur Bretar virtust hafa af stöðu mála en íslenskir aðilar áður en allt fór í fokking fokk.
Áhyggjur af ástandinu voru þó til staðar hina örlagaríku helgi 4. & 5. október. Er þetta í fyrsta sinn eftir því sem ég best veit sem greinargóð lýsing á því hvað virkilega gerðist þá 48 tíma hafi komið fram opinberlega. Sú lesning sýnir vel hversu fljótt hlutirnir voru farnir að þróast og undantekningarlaust til verri vegar. Það er rannsóknarverkefni út af fyrir sig að hversu lengi Landsbankamenn voru að prútta um verð varðandi sameiningu við Glitni þrátt fyrir að vera skrefinu frá gjaldþroti sjálfir. Auk þess er merkilegt hversu margir gerðu ráð fyrir auknum stuðningi frá Seðlabankanum, (t.d. þrátt fyrir að hann hefði nýverið aukið kröfur til endurhverfra viðskipta).
Það sem sló mig mest við lestur bókarinnar er hversu mikið af ákvörðunum voru teknar á hlaupum, og voru aðallega teknar til að bregðast við stöðugt nýjum aðstæðum (ad hoc) í stað þess að vinna eftir ákveðinni stefnu. Það er e.t.v. kaldhæðið en lesturinn minnti á myndina Der Untergang þar sem að allar áætlanir voru brostnar, samskipti voru í lamasessi og óstjórnin nánast algjör. Í ljósi þess að skipbrot af einhverju tagi væri líklegt er í raun ótrúlegt að ekki hafi verið búið að undirbúa aðgerðaráætlanir m.v. mismunandi sviðsmyndir. Þótt að aldrei verði hægt að slá því á föstu þá er hugsanlegt að hægt hefði verið að lágmarka tapið og jafnvel koma í veg fyrir allsherjar hruni banka hefði stefna stjórnvalda verið skýrari (skilaboð voru á tíðum misvísandi) og samskiptin betri við Breta.
Frásögnin fær mann einnig til að meta á nýjan leik þátt Breta í hruninu og hvort að Íslendingar eigi einir að bera þann skaða sem Bretar ollu. B.F. Winkelman sagði árið 1932, þegar að kreppan var í hámarki, að á fjármálamörkuðum væri sýnd minni vægð og meiri harka, enda er auðveldara í stríði að greina á milli vina og óvina. Samtal Árna M. Mathiesen við Paul Myners, aðstoðarráðherra í breska fjármálaráðuneytinu er gott dæmi um óskýr skil vina og óvina, en Myners var kurteisin uppmáluð en var í raun að tilkynna harkalegar aðgerðir Breta, sem samkvæmt bókinni bíða enn almennilegrar réttlætingar.
Ég minnist þess þegar ég vann í Búnaðarbanka Íslands hversu vel slagorðið Traustur banki höfðaði til fólks. Þetta einfalda slagorð lýsir þó grunninn að bankastarfsemi. Án trausts myndast ekki nauðsynlegt ferli til að bankar séu trúverðugir. Því er áhugavert að sjá í frásögn Guðna hversu mikil tortryggni ríkti á þessum örlagaríku dögum. Eiginlega er sama hvert litið var, innlendir stjórnmálamenn, bankamenn og erlendir aðilar; allir vantreystu hvor öðrum. Þetta var að stóru leyti ástæðan fyrir því sem fór - það var engin innstæða á trausti.
Auk þess lýsir Guðni því vel hversu lítið mátti muna að fjármálakerfi Íslands hefði hreinlega hætt að virka. Þetta þekki ég af eigin reynslu, daginn eftir jarðarför móður minnar var ég mættur í vinnu og hélt um tíma að kerfið hryndi. Það er hægt að gagnrýna margt varðandi fall bankanna en það þurfti Grettistak til að bjarga því sem bjargað var.
Bókin minnir á Enron bókina Smartest Guys in the Room að því leytinu til að gríðarlegu magni upplýsinga er komið fyrir með læsilegum hætti á atburði sem nýlega hafa átt sér stað. Einnig er vert að benda á Devil Take the Hindmost en hún fjallar um fjármálabólur, hvernig þær hjaðna og lærdóm sem hægt er að draga af þeim.
Hrunið er afar skemmtilega uppbyggð* og lýsir vel þá atburði sem gerðust hina örlagaríku daga þegar að íslenskt fjármálalíf hrundi. Samhliða frásögn af þróunina dag frá degi eru stuttir "litið um öxl" kaflar þar sem að aukin dýpt er veitt í kringum umræðuna. Það er aðdáunarvert hversu Guðni hefur náð að koma mikið af upplýsingum að (mikill fjöldi tilvitnanna) á skömmum tíma án þess að hún virki eins og samtíningur. Hrunið á fyllilegt erindi á alþjóðlegan markað og kæmi það mér á óvart ef þýðing er ekki nú þegar í farvatninu. Þessi bók er í raun skyldulesning fyrir alla Íslendinga, Hrunið lýsir atburðum sem þessi kynslóð mun aldrei gleyma.
*Vonandi verður Endurreisnin líka skemmtilega uppbyggð.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 6.6.2009 kl. 09:10 | Facebook
Athugasemdir
Frábær umsögn! Skemmtilegt hvernig þú vitnar í kvikmyndir, bækur, og hvernig þín eigin reynsla (t.d. í Búnaðarbankanum) verður vakin upp við lestur bókarinnar. Ég man einmitt líka eftir því hvar ég var við Lennon, Díönu, 9/11, og Glitnis fréttir.
Good work, bro. :)
Halla
Halla Guðrún Mixa (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 10:12
Já, maður verður að kíkja í hana þessa við fyrsta tækifæri.
Mama G, 5.6.2009 kl. 10:26
Flott umfjöllun :o)
Jónína Dögg (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 12:32
Þetta er ein af fáum löngum bloggfærslum sem maður nennir að lesa alveg til enda. Flott færsla sem vekur áhuga á bókinni.
Haraldur Hansson, 5.6.2009 kl. 13:16
Flott bókmenntaumfjöllun sem vekur spennu! Ekki spurning að ég kemst ekki yfir spennuna sem hún veldur fyrr en ég hef lesið bókina
Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.6.2009 kl. 13:41
Hraða mér að kaupa bókina.
Benedikt Sigurðarson, 5.6.2009 kl. 14:10
Mér leikur forvitni á að vita hvort þú hefur lesið bók leikmannsins Ólafs Arnarsonar, Sofandi að feigðarósi, og hvernig hún kemur út í ljósi skrifa hins lærða Guðna? Ber lýsingum þeirra og ályktunum saman?
Oddný H. (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 21:21
Ég hef ekki lesið Sofandi að feigðarósi en Páll Baldvin Baldvinsson fjallar um báðar bækurnar auk bókar Þorkels Sigurlaugssonar, Ný framtíðarsýn. Mat Páls er að Hrunið beri af og hef ég heyrt svipaða umsögn frá öðrum manni sem lesið hefur öll 3 verkin.
Már Wolfgang Mixa, 6.6.2009 kl. 09:19
Úps, umsögn Páls er í Fréttablaðinu í dag, Mogginn birtir brot af þessari færslu einnig í dag.
Már Wolfgang Mixa, 6.6.2009 kl. 09:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.