Það sem Gylfi er að hugsa

Í vikunni voru haldnir 2 áhugaverðir fyrirlestrar.  Gylfi Zoega hélt fyrirlestur sem bar yfirskriftina Hvað er Seðlabankinn að hugsa?  Veitti fyrirlesturinn áhugaverð svör við því og ekki síður hvað Gylfi sjálfur er að hugsa.  Það er að vissu leyti einstætt að vita það því hann er í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands og fyrirlesturinn segir því hugsanlega meira en fram kemur á formlegum fundum með fjölmiðlum og fréttatilkynningum þar sem að passa þarf sérstaklega hvað sagt er.

Gylfi renndi yfir nokkra þætti fortíðarinnar sem flestir kannast við.  Á nokkrum árum nífaldaðist stærð íslensku bankanna, krónan styrktist, skuldir/eignir jukust og viðskiptahallinn var gífurlegur.  Eignabóla myndaðist, hlutabréfavísitalan nífaldaðist (innskot; svipað og stækkun efnahags bankanna) og raunvirði fasteigna tvöfaldaðist.  Fyrirtæki skuldsettu sig samhliða þessu í botn, mikið í erlendum gjaldeyri.  Þetta skapaði veika stöðu gagnvart mótbyr og því hefur fall eignaverða myndað á Íslandi bæði gjaldeyris- og fjármálakreppu.  Þjóðhagslegur samdráttur er gífurlegur með banvænum kokteil af verðbólgu, atvinnuleysi og minni kaupmætti.

Ísland er sér á báti varðandi skuldir fyrirtækja, skuldastaða heimila er svipuð og hjá (mörgum) öðrum nágrannaþjóðum (innskot; ef einhver getur grafið upp efnahagsspá Landsbanka Íslands haustið 2007 þá sést þar að fasteignaverð hækkaði svipað á Íslandi og hjá öðrum nágrannaþjóðum, því ættu þessar upplýsingar ekki að koma á óvart en merkilegt er hversu margir voru lengi andvaralausir þrátt fyrir að húsnæðiskreppan í USA væri umtöluð mörgum mánuðum áður en hún skall á annars staðar).  Helsti vandinn er fjármögnun fyrirtækja í erlendum myntum.

Í samvinnu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (AGS) hefur verið mynduð peningamálastefna sem er með bæði skammtíma- og langtímastefnu.  Skammtímastefnan er að skapa frið til að leysa mál þeirra fjöldamörgu fyrirtækja sem eru í kröggum.  Höft og há vaxtastefna skapar þann frið að mati nefndarinnar.  Þegar að búið er að ganga frá endurskipulagningu banka, sem felur m.a. í sér að greiða úr nægilegan fjölda af vandamálum fyrirtækja, hafa myndast aðstæður til að lækka vexti og afnema höft.  Lækki vextir enn frekar gæti slíkt eflt aflandsmarkað á íslenskum krónum.  Gylfi bendir á að dæmi séu um að slíkt hafi gerst í fortíðinni og vilji manna sé að slíkt eigi sér síður stað nú. 

Samhliða aðhaldi til skamms tíma verður fjármálastefnu fylgt sem miðar að miklum halla til skamms tíma, skattahækkunum og lækkun útgjalda.  Hærri skattar minnka neyslu, minni viðskiptahalli á sér stað og meiri trúverðugleiki myndast á nýjan leik.

Gylfi benti einnig á að vaxtastig banka hefði lækkað töluvert meira en stýrivextir.  Það ætti ekki að koma neinum á óvart að ríkið beindi þeim fyrirmælum til fjármálastofnanna (millibankavextir eru einnig vísbending um að meira laust fjármagn sé í kerfinu og því er lækkandi vaxtastig í raun í samræmi við framboð og eftirspurn fjármagns).  Stýrivextir ráða því ekki för varðandi innlenda vaxtastefnu.  Því furðar Gylfi sig á þeim yfirlýsingum sem heyrast úr ýmsum áttum að lækkun stýrivaxta sé forsenda fyrir því að menn "fari ekki í sumarfrí" varðandi kjaraviðræður. 

Gylfi telur það vera af og frá að AGS sé að stýra vaxtastefnu Íslands.  Nauðsynlegt sé að viðhalda háu vaxtastigi þangað til að búið sé að ganga frá endurskipulagningu banka.  Þetta er sjálfstæð skoðun peningastefnunefndar.  Ef fólk í bönkum er að slóra í vinnunni er það líklegast dýrasta slór Íslandssögunnar.  Aukavaxtakostnaðar á meðan endurskipulagning á sér stað er gífurlegur. 

Þeir sem skulda í erlendri mynt fóru tæplegast glaðir í bragði frá fyrirlestrinum.  Gylfi er á því að veik króna sé jákvæð í fyrir land og þjóð á meðan að verið sé að vinna okkur úr mestu vandræðunum.  Útflutningur afurða er lykillinn og því lítil ástæða fyrir því að halda við gengi hennar.  Inngrip Seðlabankans hafa minnkað frá því í febrúar sem hefur leitt til veikingar hennar.  Þetta gæti virst vera þversögn, því verið er að koma í veg fyrir útstreymi gjaldeyris svo að krónan veikist ekki enn meira.  Mín tilfinning er að núverandi gengi krónunnar er nálægt þeim slóðum sem efnahagssérfræðingar ríkisstjórnar telji vera ásættanlegt.  Þeir vilji ekki frekari veikingu né að þurfa að halda genginu við.  Styrking muni aftur á móti ekki eiga sér stað nema ef markaðsöfl myndi þau, með meiri erlendri eftirspurn á innlendum vörum samhliða minnkandi eftirspurn innanlands.

Einn fundarmanna lýsti óánægju sinni með hárri vaxtastefnu Seðlabankans, bæði nú og síðustu ár, sem hafi pínt fólk til erlendra lántaka.  Gylfi sagði að enginn aðili hafi verið píndur til að taka erlend lán.  Tók hann dæmi um vinahópinn þar sem að allir áttu flottan jeppa nema háskólaprófessorinn.  Hann hefði getað tekið áhættuna á því að taka erlent lán til að vera með eða haldið áfram, eins og Gylfi gerir, að keyra um á sínum eldgamla Citroen.  Gylfi benti einnig á að aðeins lítill hluti lána fyrirtækja væru yfirdráttarlán, meginþorri þeirra lána eru erlend eða verðtryggð og því ætti frekar að huga að trúverðugleika við að halda stöðugleika, þ.m.t. gengis, í stað þess að gera hrikalega stöðu hugsanlega enn verri.

Sjálfur spurði ég hvort að AGS ynni einnig með nefndum varðandi endurreisnarsjóðinn sem Mats Josefsson er að missa þolinmæðina á og hvort að hann hefði skoðun á því hvort að stofna ætti 1-2 sjóði eins og gert var með glans í Svíþjóð í bankakreppunni fyrir tæpum 20 árum síðan eða halda áfram á sömu braut og nú er gert, það er að klára hvert mál innan bankanna.  Ég taldi þetta vera eðlileg spurning þar sem þetta væri grundvallarforsenda samkvæmt fyrirlestrinum fyrir lækkun stýrivaxta og afnám hafta.  Hversu vel þetta er útfært skiptir að mínu mati miklu máli.  Svar Gylfa var að hann tjáði sig ekki um það en játaði þó að AGS tæki þátt í þessu máli.  No Comment svar hans sagði þó meira en minna, greinilegt er í mínum huga að samstaðan í þessu máli er ekki til staðar og ekki er það góðs viti. 

Mín túlkun af fyrirlestrinum er sú að hér verða háir stýrivextir næstu mánuði en að hugsanlega lækki vaxtastig banka eitthvað áfram.  Allt tal um að styrkja krónuna er út í hött; henni verður ekki haldið við, sem ætti að örva útflutningsgeira og að skaðinn af óhóflegum erlendum lántökum er nú þegar skeður.

Stýrivextir:  Ég hef verið með óvísindalega könnun á síðu minni þar sem spurt er: Stýrivextir í lok árs eiga að vera?  Yfir 400 manns hafa svarað og er niðurstaðan sú að flestir vilja töluvert lægri vexti en þeir eru nú.  Innan við 20% töldu að þeir ættu að vera 7% eða hærri.  Tiltölulega jöfn skipting er á milli 1-2%, 3-4% og 5-6% en flestir svara þó 3-4%.  Til gamans má nefna að 1 árs millibankavextir (1 Y REIBOR) eru 6,25%.

Hrunið:  Hinn fyrirlesturinn var fyrirlestur Guðna TH. Jónssonar varðandi nýju bók sína, Hrunið.  Samanburður hans á skrifum sagnfræðinga og hagfræðinga var skemmtilegur, hvernig hagfræðingar leitast við að benda á tölur til að sanna mál sitt á meðan að sagnfræðingar hafa meiri tilhneigingu til að skrifa söguna, sérstaklega þá sem nýlega hefur átt sér stað.  Fyrir þá sem vilja lesa meira í ætt við Hruninu ættu að lesa bókina Only Yesterday eftir Frederick L. Allen sem skrifuð var mitt í kreppunni í Bandaríkjunum (sjá umfjöllun mína hér).

IceSave:  Ein spurning í lokin, hvernig fékkst talan 650 milljarðar sem skuld okkar í IceSave málinu?  Tryggðum við að meðaltali u.þ.b. 90% af hámarksupphæð allra reikninga?  Ég verð að játa, því meira sem ég kynni mér þetta mál, þeim mun verr skil ég það.  Eru öll púsl á borðinu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Héðinn Björnsson

90% af hámarksupphæð reikninganna passar nokkurnveginn miðað við að ekki hafi allir verið með yfir 20 þúsund € á sínum reikning. Eða er ég að misskilja?

Héðinn Björnsson, 12.6.2009 kl. 11:24

2 identicon

Icesave:  Ég myndi telja að þetta sé circa rétt. Þegar Northern Rock bankinn fór á hausinn í sept 2007, upphófst mikil umræða í Bretlandi um innistæðu tryggingar.  Almenningur var hvattur til að dreifa áhættu sinni milli banka ef þeir áttu meira en 35,000 pund í sparnaði (sem þá var max tryggingarupphæðin í Bretlandi - síðar hækkuð reyndar í 50,000 pund). Þetta gerðu mjög margir og stofnuðu reikninga í öðrum bönkum en heldu max tryggingar upphæð í bönkum sem gáfu besta ávöxtum, sbr. Icesave og Kaupthing Edge reikningana. Icesave var fyrst og fremst sparnaðar reikningar, en ekki Current Accounts (tékkareikningar) sem almenningur geymir almennt minni pening inn á (nánast engvir vextir af þeim).

Endurreisnarsjóður:  Hvaða völd í landinu eru að koma í veg fyrir þá hugmynd Mats um að stofna endurreisnarsjóð um vandræða fyrirtæki landsins? Hvaða hagsmuni eru menn að vernda bak við tjöldin?  Þessi hugmynd er algjört common sense, tried and tested i Sviðþjóð. Vandamálið við common sense er því miður - það er ekki alltaf common!  Í Bretlandi og US ákváðu stjórnvöld að taka dodgy lán út úr bókum bankanna og/eða tryggja þau sérstaklega svo bankarnir geti einbeitt sér að lánveitingu til atvinnulífsins.  Aðgerð í sama tilgangi en með annarri aðferðarfræði. 

Birgir Gislason (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 14:30

3 identicon

600 milljarðar króna deilt niður á 300 þús manns (grófur fjöldi Icesave innlánsreikninga) eru tvær milljónir, eða um 10 þús pund. Þannig að við erum líklegast að borga neðstu mörkin.

EJ (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 16:05

4 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Það er rannsóknarefni; hvað voru menn að hugsa eiginlega. Gaman að lesa grein þína frá 2002, einkum lokaorð hennar.  

Ólafur Eiríksson, 12.6.2009 kl. 19:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband