Mótbyr í viðbótarlífeyrissparnaði II

Í gær fjallaði ég um ávöxtunarleiðir sem voru í boði í því sem kallast Lífsval sparisjóða. Þær eru þrjár, verðtryggður reikningur, hlutabréfaáhersla og skuldabréfaáhersla. Fram kom að þótt hlutföll í hlutabréfa- og skuldabréfaáherslu hafi ekki breyst er potturinn í heild þó nú orðinn allt öðruvísi. Verður hér aðeins fjallað um hlutabréfa- og skuldabréfaáhersluna.

Hlutabréfaáherslan er með 70% í hlutabréfum og 30% í skuldabréfum. Í skuldabréfaáherslunni er hlutfallinu snúið við. Dreifingin fyrir breytingu var svona:

Skuldabréfaáhersla

  • 70% í ríkistryggðum skuldabréfum
  • 20% í erlendum hlutabréfum
  • 10% í innlendum hlutabréfum

Hlutabréfaáhersla

  • 47% í erlendum hlutabréfum
  • 23% í innlendum hlutabréfum
  • 30% í ríkistryggðum skuldabréfum

Eftir að breytingar áttu sér stað var dreifingin orðin svona:

Skuldabréfaáhersla

  • 10% í ríkistryggðum skuldabréfum
  • 15% í fyrirtækjasjóði (fyrirtækjasjóðir eru skuldabréf)
  • 45% í peningamarkaðssjóði (einnig skuldabréf/víxlar)
  • 15% í erlendum hlutabréfum
  • 15% í innlendum hlutabréfum

Hlutabréfaáhersla

  • 35% í erlendum hlutabréfum
  • 35% í innlendum hlutabréfum
  • 4% í ríkistryggðum skuldabréfum
  • 6% í fyrirtækjasjóði
  • 20% í peningamarkaðssjóði

Fyrst lýsi ég þeim breytingum sem gerðar voru við samsetningu hlutabréfa og skuldabréfa innan þessara áherslna. Síðan fer ég yfir áhrif þeirra breytinga og áætla tjón vegna þeirra innan sitt hvorrar áherslunnar.

Hvað þýða þessar breytingar?

Skuldabréf

Eins og fram kom í gær var einungis fjárfest í ríkistryggðum skuldabréfum . Nú er öldin sannarlega önnur. Tæplega 15% skuldabréfa eru nú ríkistryggð. Rúm 21% skuldabréfa í safninu eru í fyrirtækjasjóðnum og afgangurinn, eða um 64%, eru í peningamarkaðssjóðnum. Með öðrum orðum er búið að breyta safni með nálægt 100% eigna í ríkistryggðum bréfum (ávallt er laust fé í slíkum sjóðum svo safnið er í raun aldrei alveg 100% ríkistryggt) yfir í safn þar sem vægi þeirra er nánast orðin afgangsstærð.

Hlutabréf

Breytingarnar í hlutabréfaáherslunni eru ekki jafn róttækar en þó þess virði að fjalla um. Í stað þess að íslensk hlutabréf myndi um þriðjung safnsins er búið að hækka vægi þeirra upp í 50%.  Það þýðir auðvitað að vægi erlendra hlutabréfa hefur lækkað úr 2/3 í 50%.

Áhrif breytinganna

Skuldabréf

Hefði safn skuldabréfa verið óbreytt, það er einungis ríkistryggð bréf, hefði ávöxtunin jafnvel verið jákvæð frá því að hrunið átti sér stað síðastliðinn október. Reyndar hefur skuldabréfasjóður Byrs skilað neikvæðri ávöxtun á tímabilinu sem ég hef ekki skýringar á.

Peningamarkaðssjóðurinn lækkaði hins vegar í virði. Þó fékkst um 95% endurgreiðsla úr sjóðnum sem verður að teljast afar vel sloppið. Það gæti aftur á móti verið önnur saga með fyrirtækjasjóðinn, sem myndaði rúmlega fimmtung af skuldabréfasafninu. Þessi texti er tekinn orðrétt af heimasíðu Byrs:

Stjórn Rekstrarfélags Byrs samþykkti nýverið nýjar reglur fyrir Fyrirtækjasjóðinn, sem fela í sér að sjóðnum verði slitið. Slit sjóðsins fara fram með þeim hætti, að sjóðsfélögum verður greitt í samræmi við hlutfallslega eign þeirra á þriggja mánaða fresti, eftir því sem eignir sjóðsins fást greiddar. Þegar engar eignir eru eftir í sjóðnum verður honum slitið.

Þetta þýðir að áhrif breytinga varðandi breytta stefnu í skuldabréfum er óljós. Miðað við þær prósentur sem eru að fást til baka af fyrirtækjaskuldabréfum í dag er hætt við að mikið tap sé í aðsigi.

Hlutabréf

Erlendar fjárfestingar í viðbótarsparnaðinum eru í gegnum alþjóðlega sjóði Byrs. Þeir hafa skilað jákvæðri ávöxtun síðustu 6 og 12 mánuði. Skýrist það væntanlega af því að þeir hafa verið með varkára stefnu í fjárfestingum og veiking íslensku krónunnar hefur haft meira vægi í eignasafninu en fall erlendra hlutabréfamarkaða.

Ljóst er að mikið tap hefur átt sér stað vegna aukins vægis í íslenskum hlutabréfum. Því má áætla að tapast hafi í kringum 45% af safninu. Óbreytt safn, það er með um 2/3 í erlendum bréfum, hefði líka orðið fyrir verulegu tjóni. Tapið af slíku tjóni væri hins vegar tæplega 30%.

Niðurstaða

Skuldabréfaáhersla

Miðað við óbreytta stefnu næmi tap sjóðfélaga í kringum 10%. Raunar tel ég að tapið hefði verið minna. Hið raunverulega tap vegna þessarar miklu stefnubreytingar er líklegast á bilinu 17-30%, allt eftir því hvað fæst úr fyrirtækjasjóðnum.

Hlutabréfaáhersla

Óbreytt stefna hefði skilað í kringum 20% tapi. Áætlað tap verður þó líklega á bilinu 35-40%.

Er þetta eðlilegt?

Hér munar miklu og því eðlilegt að spurt sé hvað lá til grundvallar slíkum stefnubreytingum. Þær eru kannski ekki óeðlilegar en margt fleira kemur til.  Á morgun mun ég fjalla um þau atriði og samskipti mín sem viðskiptavinar Byrs varðandi þessa stefnubreytingu. Einnig verður fjallað um afstöðu fyrirtækisins gagnvart sínum viðskiptavinum.

mwm

MótByr í viðbótarsparnaði – 1. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/853104/

MótByr í viðbótarsparnaði – 2. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/854131/

MótByr í viðbótarsparnaði – 3. hluti -  http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855033/

MótByr í viðbótarsparnaði – 4. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855887/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Axel Axelsson

Veistu hvernig menn fengu út 95 prósentin í peningamarkaðssjóði BYR?

Held það væri áhugaverð stúdía útaf fyrir sig að skoða það en það er eitthvað sem segir mér að 100% aukning innlána og 36 milljarða afskriftir útlána á árinu 2008 tengist því sjónarspili á einhvern hátt.

Gunnar Axel Axelsson, 15.4.2009 kl. 14:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband