Mótbyr í viðbótarlífeyrissparnaði IV

Eftirfarandi línur bárust mér varðandi 3. hluta þessara skrifa og birti ég þær orðrétt.

Miðað við það að engar tilkynningar bárust þegar fjárfestingarstefnunni var breytt 2006, þá spyr maður sig hvort lögin þurfi ekki að vera strangari og knýja á um að upplýsingagjöfin sé miklu meiri en hún virðist vera í dag.

Þetta er sá punktur sem mér finnst vera mikilvægastur og það sem ég sjálfur er mest ósáttur með varðandi samskipti mín við Byr.  Af þeim sparnaði mínum sem er í skuldabréfum og hlutabréfum (með 50/50 skiptingu á milli hluta- og skuldabréfaáherslu) taldi ég að sparnaður minn væri fjárfestur á þessum nótum:

·        50% ríkistryggð bréf

·        33% erlend hlutabréf

·        17% íslensk hlutabréf

Vægið var hins vegar:

·        42% peningamarkaðs- og fyrirtækjabréf

·        8% ríkistryggð bréf

·        25% erlend hlutabréf 

·        25% íslensk hlutabréf

Þetta þýðir að ég var að fjárfesta, án þess að vita af því, töluverðar upphæðir í peningamarkaðsbréfum, fyrirtækjabréfum og íslenskum hlutabréfum en þessi bréf var ég einmitt að forðast.  Ég var svo sannfærður um að slæm tíðindi væru í aðsigi að ég varaði ítrekað við slíkum fjárfestingum í töluverðan tíma áður en hrunið átti sér stað síðastliðinn október.

Að sama skapi átti ég minna í þeim fjárfestingum sem ég taldi vera skynsamlegar.  Með vitneskju af nýrri samsetningu á viðbótarlífeyrissparnaði mínum hefði ég verið búinn að færa hann annað.

Ég hef orðið af töluverðu fjárhagslegu tjóni vegna þessa.  Þar sem að stærsta hlutfall endurgreiðslu af peningamarkaðssjóðum (hví var það hlutfall svo hátt?) hérlendis hafi verið hjá Byr þá er skaðinn ekki skelfilegur.  Hann er þó enn óljós vegna óvissu um endurgreiðslu í fyrirtækjasjóðnum.  Forvitnilegt væri að vita hver staðan sé á þeim sjóði.  Helmingi meira vægi í íslenskum hlutabréfum, á kostnað erlendra bréfa sem hækkað hafa í íslenskum krónum talið, laga vart stöðuna.  Þetta snýst þó augljóslega ekki bara um þær fjárhæðir sem ég tel mig hafa tapað heldur um rétt á upplýsingum og trausti til fjármálastofnanna.

Bréf frá Byr sent sjóðsfélögum 28.10.2008 gefur í skyn að verið sé að veita nýjar upplýsingar um fjárfestingastefnu leiðanna en í raun og veru var búið að breyta henni áður.  Fjárfestingastefna viðbótarlífeyrissparnaðar var þannig umbylt án þess að sjóðsfélögum væri tilkynnt um það.  Nánast ekkert tap hefði átt sér stað með gömlu fjárfestingastefnunni, ávöxtunin hefði jafnvel verið jákvæð.

Nýleg yfirlit frá Lífsvali, það er Lífeyrissparnaði sparisjóðanna, er í besta falli villandi og líklegast rangt.  Fólk sem er þessa daganna að taka út séreignarsparnað sinn er nú að átta sig á þeirri stöðu.

Því spyr áhugasamur sjóðsfélagi:

·        Veita yfirlit sem nýlega voru send rétta stöðu um eignir síðustu áramót í viðbótarlífeyrssparnaði?

·        Hvenær verður ný fjárfestingastefna birt?

·        Fá sjóðsfélagar Lífsvals upplýsingar um breytingar á fjárfestingarstefnu í framtíðinni?

·        Telur Byr að upplýsingagjöf til sjóðsfélaga sinna hafi verið í lagi?

·        Hver ber ábyrgð á tapi sem hlotist hefur vegna slakrar upplýsingagjafar?

mwm

MótByr í viðbótarsparnaði – 1. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/853104/

MótByr í viðbótarsparnaði – 2. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/854131/

MótByr í viðbótarsparnaði – 3. hluti -  http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855033/

MótByr í viðbótarsparnaði – 4. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855887/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband