Mótbyr í viðbótarlífeyrissparnaði III

Í gær fjallaði ég um áhrif breytinga á fjárfestingastefnu hlutabréfa- og skuldabréfaáherslu, sem eru tvær af þremur leiðum í Lífsvali, viðbótarlífeyrissparnaði Byrs.  Hér í þriðja hluta verður fjallað nánar um hvað hafi legið til grundvallar  og samskiptasögu Byrs vegna breytinganna.

Afhverju breytingar?

Miðað við þá neikvæðu umræðu sem átt hefur sér stað varðandi peningamarkaðssjóði má draga þá ályktun að ákvörðunin um að auka vægi peningamarkaðssjóðs í skuldabréfum hafi verið annarleg.  Slík umræða hefur riðið yfir íslensku þjóðina undanfarna sex mánuði og er ekki ástæða til að fjalla nánar um það hér.

Ég tel að það sé aftur á móti nánast óhugsandi að slíkt hafi átt við í þessu tilfelli.  Held ég að skýringin liggi frekar í því að utanaðkomandi þrýstingur hafi  valdið þessu.  Starfsmenn verðbréfafyrirtækja þurfa reglulega að svara símtölum og útskýra af hverju ávöxtun verðbréfa og sjóða hafi ekki verið betri en einhverjir aðrir mælikvarðar.  Oftar en ekki eru þeir mælikvarðar þau verðbréf eða verðbréfaflokkar sem veitt hafa bestu ávöxtun síðustu vikur og mánuði – stundum ár. 

Eftir ákveðinn tíma leiðir slíkur “þrýstingur” til þess að tilhneiging myndast til að auka fjárfestingar í slíkum bréfum.  Það er þekkt að fólk í eignastýringu glímir við meiri andlega streitu í vinnunni þegar ákveðnir verðbréfaflokkar snarhækka í virði með þeim hætti að slíkt vekur athygli.  Raunar eykur slík tilhneiging til frekari hækkana, til skemmri tíma í það minnsta, sem sannfærir fjárfesta um að þeir hafi gert rétt með því að “taka þátt í veislunni”. (Innskot – það eru oftast aðeins þeir sem leggja mest undir eða eru síðastir að taka þátt í slíkum keðjubréfaleik sem skaðast verulega).

Ofangreindur þrýstingur kemur iðulega upp í samtölum um sjóði.  Þar sem peningamarkaðssjóðir og fyrirtækjasjóðir höfðu veitt töluvert betri ávöxtun en ríkistryggð bréf í töluverðan tíma er líklegt að slíkt hafi haft leiðandi áhrif á stefnubreytinguna.  Það má ekki heldur gleyma því að slíkir sjóðir töldust hafa litla áhættu.

Að sama skapi hefur svipaður þrýstingur haft sitt að segja um að vægið var aukið í íslenskum hlutabréfum, enda var ávöxtun þeirra meiri á árunum 2002 til 2007 en nánast öll önnur tímabil í sögu hlutabréfa, alls staðar í heiminum!

Ofangreint veit ég ekki.  Ég einfaldlega tel að þetta hafi gerst.  Á sama tíma má spyrja hvort viðskiptavinir eigi þó ekki að geta treyst því að þeim fjárfestingaleiðum sem eru í boði sé ekki breytt eftir athugasemdum slíkra símtala.  Hér hlýtur sérþekking á fjármálasveiflum að vera mikilvæg. 

Ávöxtunin

Eins og fram kemur að ofan þá veittu þessar breytingar innan áherslna tímabundið góða ávöxtun.  Þar sem peningamarkaðssjóðurinn hafði veitt afar góða ávöxtun og um 95% fékkst endurgreitt þá er ekki ólíklegt að sjóðurinn hafi í raun skilað jafn góðri ávöxtun og jafnvel betri til fjárfesta en ef fjárfest hefði verið í ríkistryggðum bréfum.  Eins og fram kom í gær er óvissa hins vegar varðandi fyrirtækjasjóðinn, það er hversu mikið fæst endurgreitt úr þeim sjóði.

Klárlega hefur ávöxtunin rýrnað í hlutabréfahlutanum vegna aukins vægis í íslenskum hlutabréfum. 

Bréf frá Byr

Í lok síðastliðins október kom bréf til mín frá Byr dagsett þann 28.10.2008.  Í bréfinu kemur eftirfarandi fram orðrétt.

Verið er að yfirfara fjárfestingarstefnu Lífsvals með hliðsjón af þeim gerbreyttu aðstæðum sem upp eru komnar og verður ný stefna kynnt öllum sjóðsfélögum um leið og hún liggur fyrir.

Þetta fannst mér undarlegt því ég minntist þess ekki að ég hefði fengið bréf um að búið væri að breyta stefnunni, sem samkvæmt vefsíðu Byrs var svo sannarlega búið að gera.  Ég sendi Byr því eftirfarandi línur nokkrum dögum síðar.

Fram kemur í bréfi sem nýlega var sent að verið sé að breyta stefnum Lífsvals í ljósi gjörbreyttra aðstæðna.  Nú vil ég gjarnan vita hvenær tilkynning var send síðast varðandi breytta stefnu innan hluta- og skuldabréfaáherslum Lífsvals?

Tveim vikum síðar barst mér þetta svar sem er skeytað beint úr tölvupósti mínum á marmixa@yahoo.com. 

Sæll Már, Fjárfestingarstefnum Hlutabréfa- og Skuldabréfaáherslu Lífsvalsins var síðast breytt þann 20.10.2006. Eftirfarandi breytingar voru gerðar:
 Hlutabréfaáhersla 
 Eldri stefnaNý stefna, 20.6.06Breyting
Alþjóða virðissjóðurinn30%25%-5%
Alþjóða vaxtarsjóðurinn15%10%-5%
Úrvalssjóðurinn25%35%10%
Skuldabréfasjóðurinn17%4%-13%
Fyrirtækjasjóðurinn13%6%-7%
Peningamarkaðssjóðurinn0%20%20%
 100%100% 
    
    
 Skuldabréfaáhersla 
 Eldri stefnaNý stefna, 20.6.06Breyting
Alþjóða virðissjóðurinn13%11%-2%
Alþjóða vaxtarsjóðurinn6%4%-2%
Úrvalssjóðurinn11%15%4%
Skuldabréfasjóðurinn40%10%-30%
Fyrirtækjasjóðurinn30%15%-15%
Peningamarkaðssjóðurinn0%45%45%
 100%100% 

  

Hlutföll hlutabréfa og skuldabréfa héldust óbreytt, þ.e. 70% hlutabréf og 30% skuldabréf í Hlutabréfaáherslunni og 30% hlutabréf og 70% skuldabréf í SkuldabréfaáherslunniInnbyrgðis hlutföllum sjóðanna var hins vegar breytt og m.a. aukið vægi innlendra hlutabréfa á kostnað erlendra. 

Breytingar á fjárfestingarstefnum innan hvorrar áherslu fyrir sig voru ekki tilkynntar sérstaklega, enda verður það að vera á valdi stjórnar Lífsvalsins hverju sinni að bregðast við og breyta, til þess að ná sem bestri ávöxtun.  Áhugasömum sjóðsfélögum hafa þó ætíð staðið til boða aðgengilegar upplýsingar um fjárfestingarstefnuna hverju sinni. 

Að mínu mati er í lagi að breyta fjárfestingarstefnu.  Ofangreindar breytingar  kalla ég hins vegar umbyltingu á fjárfestingarstefnu.  Nú veit ég ekki hvaða gögn eru  lögð til grundvallar þegar stjórn Lífsvals bregst við og breytir, til að ná sem bestri ávöxtun, en augljóslega var lítill sómi í þeim viðbrögðum árið 2006.  Hverju var verið að breyta? Að mínu mati engu, einfaldlega var verið að hrífast með straumnum.

Nú er ég áhugasamur um minn séreignarsparnað, en er það í verkahring mínum að fylgjast reglulega með hvort að búið sé að umbylta fjárfestingarstefnu viðbótarlífeyrissparnaðar míns?  Samkvæmt þessu svari Byrs er það svo.  Í Lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða frá 1997 kemur hins vegar eftirfarandi fram í 34. grein. 

Lífeyrissjóður skal enn fremur láta útbúa skriflegt kynningarefni þar sem gerð er grein fyrir kostum og göllum einstakra valkosta miðað við mismunandi forsendur.

Minni skylda gildir (enn) varðandi starfsemi félaga sem sjá um ávöxtun og vörslu viðbótarlífeyrissparnaðar en almenns lífeyris.  Það afsakar ekki að viðhorf Byrs í tengslum við upplýsingaskyldu sé langt frá því að vera í anda þessa laga.  Ég auglýsi hér með sérstaklega eftir athugasemdum varðandi þessi atriði.

Bréf frá Lífsvali

Í bréfinu dagsett 28.10.2008 er talað um að ný fjárfestingarstefna sé í mótun.  Tæpum sex mánuðum síðar hefur enn ekki sést til hennar.

Í síðustu viku barst aftur á móti bréf varðandi viðbótarlífeyrissparnað frá Lífeyrissparnaði sparisjóðanna.  Ekki er minnst einu orði á þá staðreynd að hluti af eignum sjóðsfélaga sé í uppnámi vegna slits fyrirtækjasjóðsins. 

Sjálfur átta ég mig ekki á eign minni.  Samkvæmt heimabanka mínum hefur fjöldi eininga í þessum tveimur áherslum aukist örlítið þrátt fyrir að, samkvæmt bréfinu dagsett 28.10.2008, allur minn sparnaður ætti tímabundið að fara inn á verðtryggðan reikning. 

Gengið á hlutabréfa- og skuldabréfaáherslunni er auk þess það sama og það var skráð 5.10.2008.  Getur verið að nýleg yfirlit (sjá þennan hlekk) sýni ekki rétta stöðu?   Þetta spyr áhugasamur sjóðsfélagi.

Samantekt

Á morgun dreg ég saman hugleiðingar um viðbótarlífeyrissparnað.  Ráðgjöf, sparnaðarleiðir og upplýsingagjöf eru þar ofarlega á baugi.  Einnig fjalla ég stuttlega um þær leiðir sem krefjast þess að fólk visti sparnað sinn hjá sömu stofnun um aldur og ævi án þess að lenda í töluverðu fjárhagslegu tjóni.

mwm

MótByr í viðbótarsparnaði – 1. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/853104/

MótByr í viðbótarsparnaði – 2. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/854131/

MótByr í viðbótarsparnaði – 3. hluti -  http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855033/

MótByr í viðbótarsparnaði – 4. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855887/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband