Vilt þú ávaxta fé þitt betur... án þess að auka áhættu?

Margir sem eiga pening inn á bankabók gætu ávaxtað fé sitt miklu betur í dag með einföldum hætti.  Eftirfarandi tilkynning frá Íslandsbanka gefur vísbendingu af hverju:   Íslandsbanki hefur ákveðið að lækka útláns- og innlánsvexti bankans frá og með 11. maí nk. Þetta hefur í för með sér að vextir á óverðtryggðum inn- og útlánum lækka um 1,0 - 6,4 prósentustig og vextir á verðtryggðum inn- og útlánum lækka einnig um 0,95 - 1,00 prósentustig. 

Það sem ekki kemur fram er að;

  • vextir útlána lækka lítið
  • vextir óverðtryggðra innlána lækka mikið, líklegast allt að 6,4%! 

Þetta er langt umfram þeirri stýrivaxtalækkun sem nýlega átti sér stað.  Það gefur einnig auga leið að þetta eykur vaxtamun gífurlega og sýnist mér í fljótu bragði hann vera kominn á svipaðar slóðir og hann var í kringum 1995.

Flestar aðrar íslenskar fjármálastofnanir hafa lækkað innlánsvexti á svipuðum nótum.  Miðað við að þú eigir inn á bók 5 milljónir og eina krónu (með engan eða stuttan binditíma) færð þú eftirfarandi vexti* á peninga þína:

Byr                      10,90% (PM) til 11,48% (Net12)

Landsbanki         9,55% (Vaxtareikningur)

Kaupþing             9,00% (Markaðsreikningur)

Íslandsbanki       7,90% (Vaxtaþrep)

Mismunurinn er töluverður, t.d. 3% á milli PM reiknings Byrs og Vaxtaþrep Íslandsbanka.  Hann er þó lítill samanborið við netbanka Byrs, S24.  Þar færð þú, miðað við ofangreindar forsendur, á Sparnaðarreikningi 12,70% í vexti!  Mismunur á ávöxtun fjármagns í S24 og Íslandsbanka er 4,8% á ári.  Miðað við að 5 milljónir séu inn á reikningi fær sá sem geymir fjármagnið hjá S24 240 þúsund krónur á ári (fyrir fjármagnsgjöld) meira en sá sem geymir fjármagn sitt hjá Íslandsbanka.  Í ljósi þess að nú er ríkistrygging á öllum innstæðum íslenskra fjármálastofnanna fæst þessi mismunur í ávöxtun með sömu áhættu.

Þessi mismunur og þróun vaxtamunar er efni í aðra grein.  Fjalla ég um málið síðar í vikunni en það er skylt leiðaragrein minni sem birtist í helgarblaði Fréttablaðsins á laugardaginn.

Rétt er að taka fram að ofangreint flokkast ekki sem fjármálaráðgjöf og einnig að ég hef ekki hagsmuna að gæta við þessi skrif.

*Vaxtatöflur voru uppfærðar hjá öllum þessum fjármálastofnunum 11.5.2009

Viðbót:  MP banki - vextir samkvæmt ofangreindum forsendum eru 12,5%.


Fjárfestingarstefna lífeyrissjóða - Lágmark 50% í erlendum eignum, ekki hámark

 

Það má segja að hrun efnahagslífsins hérlendis hafi í sjálfu sér verið næganlega stórt högg til að koma Ísland á forsíður blaða um allan heim.  Því miður er það svo að ekki einungis versnaði staða okkar til skemmri tíma heldur hafa horfur á afkomu landsins beðið mikinn hnekk vegna gífurlegra afskrifta á eignum í lífeyrissjóðakerfinu; afskriftir sem vel að merkja fáum óraði fyrir.  Þetta er atriði sem koma hefði mátt að hluta til koma í veg fyrir og hlýtur að kalla á endurskoðun á fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða almennt.

Takmarkanir á eignum í erlendum gjaldmiðlum

Í 36. gr. í VII kafla laga um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða (1997 nr. 129) eru ákvæði með það fyrir augum að lágmarka áhættu.  Þar kemur meðal annars fram að lífeyrissjóðir skuli takmarka áhættu í erlendum gjaldmiðlum í heild við 50% af hreinni eign sjóðsins.  Þessi tala var reyndar sett í 40% árið 1997 en hækkuð í núverandi stærð árið 2000. 

Nokkur ágætis rök hafa verið fyrir þessu á sínum tíma.  Þetta ákvæði hefur sjálfssagt haft eitthvað að gera með reynsluleysi með fjárfestingar á erlendum mörkuðum.  Raunar höfðu fjárfestingar á erlendri grundu vart þekkst fram að byrjun tíunda áratugarins og því var litið á þessar takmarkanir frekar vera aukning heimilda á erlendum fjárfestingum frekar en að verið væri að takmarka þær.  Á sama tímabili var mikil áhersla lögð á að fjárfesta í íslenskum verðbréfum til að skapa hér skipulagðan markað með auknu viðskiptaflæði samhliða því  að lagt verði i fjárfestingar án ríkisafskipta.  Má með öðrum orðum segja að það hafi verið eðlilegt ástand að fjárfesta í íslenskum eignum og hafið yfir flestri gagnrýni.

Einnig er hægt að benda á að fjárfestingar tengdar erlendum gjaldmiðlum leiða óhjákvæmilega til þess að sveiflur í íslensku krónunni vega þungt á ávöxtun erlendra fjárfestinga, til styttri tíma í það minnsta, nema að farið sé út í gengisvarnir með framvirka gjaldeyrissamninga.

Þetta voru því gild rök lengi framan af en vægi þeirra hefur hins vegar minnkað án þess að ofangreind lagasetning hafi hugsanlega tekið næganlegt tillit til breytra aðstæðna.

Þó svo að slík stefna geti veitt framúrskarandi ávöxtun í ákveðin tíma er það svo að á ögurstundum, þegar að mesta þörfin er fyrir því að baklandið sé tryggt, er skynsamlegt að eiga mikið af fjárfestingum tengdum erlendum verðbréfum.   Mætti í því sambandi líta á fjárfestingakosti lífeyrissjóða sem öll verðbréf í alþjóðlegu ljósi, þar sem að íslenskar fjárfestingar eru aðeins brot af heildarflórunni.  Þrátt fyrir að ákveðnum hluta fjárfestinga sé haldið innanlands ætti meginþungi fjárfestinga að vera á svæðum sem eru óháðari árferði efnahags Íslendinga. 

Atvinnugreinar

Slík dreifing á áhættu ætti ekki einungis að takmarkast við landssvæði heldur einnig atvinnugreinar.  Líta þarf heildrænt á áhættustýringu vegna þeirra.   Þær atvinnugreinar sem eru uppistaða íslensks atvinnulífs ættu að vera undirvegnar í lífeyrissparnaði landsins frá því sjónarmiði að í þeim alþjóðavettvangi sem við þrífumst í er líklegt að mikil samfylgni sé á afkomu einstakra atvinnugreina hérlendis og erlendis.  Skynsamlegt hefði til að mynda að undirvega erlendar fjárfestingar í fjármálastofnunum þar sem sú atvinnugrein var hérlendis orðin það umfangsmikil.  Með hruni fjármálafyrirtækja væri það högg á lífeyrissparnaði landsmanna orðið minna, ekki aðeins vegna lækkandi gengis á hlutabréfum heldur einnig vegna neikvæðra áhrifa á heildarafkomu landsins. 

Að sjálfssögðu er það rétt stefna að á öllum tímum sé einblínt á að dreifa áhættu, framangreint hefði komið af sjálfu sér ef til dæmis að stefnan væri að ákveðin prósenta  af hlutabréfum væri í fjármálafyrirtækjum án tillits til landsvæðis.  Sú prósenta ætti þó að hafa verin undirvegin þar sem að þjóðarbúskapurinn hafði óbeint fjárfest það mikið í atvinnugeiranum með öðrum hætti.

Í raun er áhættudreifing með þessu ekki lengur takmörkuð við það sem kennt er almennt í kennslubókum og skoðað er í Excel skjölum, heldur er einnig tekið mið að undirstöðum íslensk samfélags og út frá því sjónarmiði er fjárfestingum dreift í aðrar áttir.  Líkja mætti þessu við þá stöðu sem starfsmenn fyrirtækja eins og Enron og Lehman Brothers lenti margir í; margir hverjir höfðu fjárfest ævisparnaðinn nánast eingöngu í fyrirtækinu sem þeir unnu hjá.  Þegar að fyrirtækin fóru á hausin þá varð höggið tvöfalt.  Bæði urðu þeir atvinnulausir og lífeyrissparnaðurinn gufaði í sumum tilfellum gjörsamlega upp.  Þetta eru ágætis rök fyrir því að fjárfesta engu í þeim atvinnugeira sem maður persónulega vinnur í.  Því ætti að breyta þessari löggjöf með þeim hætti að takmörk séu á innlendri fjárfestingu, ekki erlendri.  Ekki væri óeðlilegt að af heildarfjárfestingum, að húsnæðislánum undanskildum, væru erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða á bilinu 70-80% af fjárfestingarsafni þeirra.  Viðmið á dreifingu safna varðandi atvinnugeira tæki tillit til óbeinna fjárfestinga þjóðarinnar í geiranum.

Fjárfesting í erlendum gjaldeyri

Með þyngra vægi erlendra fjárfestinga í eignasöfnum landsmanna er óhjákvæmilegt að lífeyrissjóðir auki gjaldeyrisvarnir sínar.  Skuldbindingar lífeyrissjóða, sem eru í íslenskum krónum, eru góð rök fyrir 100% gjaldeyrisvarnir, en gengisvarnirnar hafa verið undanfarið í umræðunni.  Þær getspár að lífeyrissjóðir hafi tekið stöðu með krónunni eða verið í einhverri spákaupmennsku eru því ekki réttar.

Þegar að hlutir hérlendis eru í blóma, eða virðist í það minnsta vera það, er krónan sterk og innlendir markaðir skila afar góðri ávöxtun.  Á slíkum löngum tímabilum veita slíkar gjaldeyrisvarnir jákvæða ávöxtun, enda styrkist íslenska krónan gagnvart erlendum myntum sem gerir þær verðminni hérlendis. 

Nýleg reynsla hlýtur þó að sýna fram á að það er skynsamlegrar umræðu virði að meta kosti og galla við að hafa ekki gjaldeyrisvarnir á öllum hluta fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum.  Sveiflur á gjaldmiðlum, sérstaklega minni gjaldmiðlum, verða meiri og hraðari en flestum órar fyrir.  Því veita fortíðargröf litla vísbendingu um framtíðina í þeim efnum.  Með veikingu krónunnar væri ákveðið mótvægi í hluta af eignum lífeyrissjóða án gjaldeyrisvarna fyrir hendi því með hækkun á erlendum gjaldeyri hækkar eignavirði erlendra eigna í krónum talið. 

Þetta hefur sína ókosti því sveiflur í virði fjárfestinga aukast og mætti því líta svo á að aukin áhætta sé tekin með slíkri óbeinni fjárfestingu í erlendum gjaldmiðlum.  Kosturinn við að hafa hluta safnsins í erlendri mynt óvarðan gagnvart gengissveiflum er sá að almennt á veiking krónu sér stað þegar að innlend starfsemi gengur illa.

Erlendar fjárfestingar

Í framhaldi af þeirri holskeflu gjaldþrota sem nú á sér stað hefur heyrst að nú eigi að fara að kaupa erlend trygg skuldabréf.  Hefur þessi umræða held ég aldrei náð neinu flugi fyrr en nú.  Í raun hef ég oft furðað mig á því hversu litla athygli erlend ríkisskuldabréf hafa fengið hjá innlendum fjárfestum.

Að fara nú þó að hefja slík kaup kalla ég að kaupa köttinn í sekknum.  Gott dæmi er ávöxtunarkrafa bandarískra skuldabréfa.  Eins og meðfylgjandi graf sýnir þá er sú ávöxtun sem þau nú gefa í algjörru lágmarki, jafnvel þó að litið sé til síðustu 40 ára.  Sjálfssagt er að beina einhverju að erlendum tryggðum bréfum, sérstaklega þeirra sem eru með verðtryggingu.  Ég spyr aftur á móti: Er þetta virkilega augnablikið til að hefja fjárfestingar af krafti í tryggum erlendum skuldabréfum?

Aftur á móti hugnast nú fáum að fjárfesta í erlendum hlutabréfum, heimurinn er jú að í heild sinni að fara norður og niður, það er í skilningi fjárfestinga.  Það er áhugavert að bjartsýni fólks gagnvart hlutabréfum hefur verið í öfugu hlutfalli við kauptækifæri.  Árið 2000 var umtalið helst á þeim nótum að lífeyrissjóðir ættu að fá rýmri heimildir til hlutabréfakaupa þegar að netbólan, sem og gengi hlutabréfa, var í hæstu hæðum.  Rúmum tveimur árum síðar, þegar að hlutabréfavísitölur höfðu hrapað, flykktist fólk í öruggari fjárfestingar.  Loks, þegar að hlutabréfaverð hafði aftur náð svipuðum hæðum, var áhættusæknin meiri en nokkru sinni fyrr.  Ég vitna í orð Warren Buffett: „Vertu gráðugur fjárfestir þegar að aðrir eru hræddir og vertu mjög hræddir þegar að aðrir eru gráðugir“.

Það er athyglisvert að gengi hlutabréfa er lægra en það var fyrir 10 árum síðan.  Þetta á sér stað á tímabili þar sem að umræða um hlutabréf hefur aldrei verið jafn mikil í sögu Íslands.  Stundum er sagt að bestu kauptækifærin séu til staðar þegar að umræðan um þau er í lágmarki. 

Reyndar má því við bæta að hlutabréf með tilliti til ávöxtunarkrafna skuldabréfa hafa hlutabréf ekki verið jafn ódýr í áraraðir.  Neðangreint graf hef ég notað með góðum árangri í gegnum tíðina, sérstaklega við að byggja upp kalt mat á fjárfestingum.  Sé línan fyrir ofan núllið eru hlutabréf ofmetin gagnvart fjárfestingum í skuldabréfum, sé hún aftur á móti fyrir neðan núllinu eru hlutabréf gagnvart skuldabréfum vanmetin.  Grafið sýnir að hlutabréf gagnvart skuldabréfum hafa sjaldan verið jafn hagstætt verðlögð í áraraðir.  Þó ber að líta til þess að ávöxtunarkrafa skuldabréfa, eins og fram kemur að ofan, er í sögulegu lágmarki og því varasamt að leggja of mikið traust á þessar forsendur. 

Því má við bæta að V/H hlutföll að teknu tilliti til jafns vaxtar hagnaðar í Bandaríkjunum eru nú lægri en þau hafa verið í langan tíma.  Lág V/H hlutföll eru nánast undantekningarlaust forsenda fyrir góða langtímaávöxtun hlutabréfa. 

Aðrar fjárfestingar

Ekki er því þar með sagt að rétt sé að setja öll erlend fjárfestingaregg í hlutabréf þó að góðar líkur séu á því að þau séu ódýrt verðlögð.  Augljós ástæða er að það sem getur virst vera ódýrt í dag gæti enn hrapað í virði.  Nærtækasta dæmið er hrun hlutabréfa árin 1930-1932.  Oft hefur verið sagt að fyrst hafi viðvaningarnir og áhættufíklarnir tapað fjárhæðum, næstu árin hafi síðan vitru fjárfestarnir farið sömu leið.

Önnur rök eru þau að þrátt fyrir að ávöxtunarkrafa skuldabréfa sé afar lág í sögulegu samhengi þá er ávöxtunarkrafa hlutabréfa ekkert sérstaklega lág (lít hér á V/H hlutföll hlutabréfavísitalna út frá meðalhagnaði síðustu tíu ára).  Ávöxtunarkrafan gæti hæglega hækkað ef að ávöxtunarkrafa skuldabréfa hækkar á nýjan leik.  Mikil samfylgni hefur verið á milli ávöxtunarkrafna hlutabréfa og skuldabréfa í gegnum tíðina og er nær öruggt að sú fylgni haldist í framtíðinni.

Í því ljósi er skynsamlegt að dreifa hluta fjárfestinga í óhefðbundnar fjárfestingar sem væru ekki jafn næmar fyrir þróun vaxtamála.   Auk þess er áhættuálag á skuldabréfum án ríkisábyrgða nú í hæstu hæðum eftir að hafa nánast horfið í nokkur ár og því vert að skoða sem fjárfestingarkost. 

Niðurlag

Ávöxtun lífeyrissjóða hefði ekki nauðsynlega verið betri samkvæmt ofangreindum ávöxtunarleiðum.  Lauslegur útreikningur á ávöxtun þeirra í ár, þegar að þörfin er mest, hefði hins vegar verið jákvæðari hefðu fjárfestingar þeirra verið á ofangreindum nótum.  Því er rétt að staldra við og endurskoða fjárfestingarstefnur lífeyrissjóða með langtímasjónarmið í huga, þar sem að áhætta við vali á fjárfestingarkostum er borin saman við stöðu þjóðarskútunnar og litið sé til varna á fjárfestingum þegar að neikvæð efnahagsleg þróun á sér stað hérlendis.

Viðbót - Athugasemd Metamorphosis veitir enn betri sýn í sögulega nálgun á þessari umræðu og hvernig fortíðin hefur áhrif á nútíðina.


Framtíð sparisjóða – Byr og Sparisjóður Hafnarfjarðar – MótByr í Viðbótarsparnaði I - IV

Þó svo að nær 5 ár séu síðan ég starfaði í Sparisjóð Hafnarfjarðar tifar hjarta mitt enn með þeim sparisjóði.  Eins og flestir vita rann sá sjóður inn í Sparisjóð Vélstjóra árið 2006 og myndaði nýjan sparisjóð, Byr.  Þó svo að ég hafi lengi verið þeirrar skoðunar að sameina þyrfti rekstur sparisjóða hefur þróun sameininga sparisjóða verið afleit. 

Sameina þarf alla sparisjóði á Íslandi hið fyrsta.  Rekstur þeirra af reglulegri starfsemi hefur ekki borið sig í mörg ár að örfáum sjóðum undanskildnum.  Sú þróun hefur hins vegar verið á rangri braut innan Byrs.  Sparisjóðurinn Byr hefur lítið með þá sparisjóðahugmynd sem ég tel að aðgreini sparisjóði frá öðrum fjármálafyrirtækjum.  Lít ég frekar til fyrirkomulagsins sem meðal annars er notað á Spáni þar sem sjálfstæði sparisjóða er mikið og einbeita þeir sér fyrst og fremst á að þjónusta sín heimasvæði.  Sparisjóðabankinn í Madrid er miðstöð sparisjóða þar sem að miðlæg verkefni eru höndluð.

Nú er tækifæri til að stýra þróun sparisjóða á svipaða braut.  Stofna þarf einn sparisjóð þar sem að höfuðstöðvar eru nýttar til sameiginlegs rekstrar, svipað og Samband íslenskra sparisjóða og Sparisjóðabankinn voru forðum, en sjálfstæði sparisjóða felst einungis í því að þjónusta sína heimabyggð.  Í því tilliti á að takmarka þjónustu sparisjóða við viðskiptaþjónustu og útiloka fjárfestingarstarfsemi frá rekstrinum.

Væri þá Sparisjóður Hafnarfjarðar endurreistur og aðrir sparisjóðir kenndir við sína heimabyggð.  Inn- og útlánastefna þeirra væri sjálfstæð að mestu án afskipta höfuðstöðva.  Þetta þýðir að skýr stefna þyrfti að ríkja varðandi takmarkanir útlána.  Byr sparisjóður hefur þróast vel hvað straumlínulögun kostnaðar varðar.  Þetta er frá mínum bæjardyrum séð aftur á móti sparisjóður sem skortir tengingu við heimabyggð mína í Hafnarfirði. 

Spyrja þarf, verða hagnaðarsjónarmið ráðandi eða verður frekar stefnt að ákveðinni arðsemi sem telst vera viðunandi?  Hvernig verður þeim hagnaði ráðstafað?  Fer hann einungis til hluthafa eða til eflingar ýmissa þátta í heimasvæði hvers sparisjóðs?

Í dag verður ný stjórn Byrs sparisjóðs kosin.  Ég óska henni gæfu næstu mánuði.  Eitt verðugt verkefni væri að taka á viðbótarsparnaði sparisjóðsins.  Að neðan eru hlekkir af umfjöllun minni um klúður sparisjóðsins í þeim efnum en fyrst er stuttur úrdráttur.

Helstu niðurstöður

·        Fjárfestingarstefna Lífeyrissparnaðar Sparisjóðanna (Lífsval) í hluta- og skuldabréfum var umbylt án þess að sjóðsfélögum væri tilkynnt það.

·        Vægi ríkistryggðra skuldabréfa fór úr 100% niður í 15%, hinn 85% fóru í peningamarkaðsbréf og fyrirtækjabréf

·        Vægi erlendra hlutabréfa fór úr 2/3 niður í helming á kostnað aukningar íslenskra hlutabréfa, sem nú eru nánast verðlaus.

·        Áhrifin eru að ávöxtun er um það bil 25-30% lakari en ef til engra breytinga hefði komið

·        Yfirlit nýlega send frá Lífeyrissparnaði sparisjóðanna minnast ekki einu orði um að verið sé að slíta fyrirtækjasjóðnum og virðast tölur miðast við 5.10.2008. 

·        Síðan að greinin var fyrst birt á bloggi mínu er búið að uppfæra í heimabankanum stöðu lífeyrissparnaðar miðað við dagsetninguna 16.4.2009.  Óljóst er þó hvort að búið sé að taka tillit til slits fyrirtækjasjóðsins.  

 

MótByr í viðbótarsparnaði – 1. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/853104/

MótByr í viðbótarsparnaði – 2. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/854131/

MótByr í viðbótarsparnaði – 3. hluti -  http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855033/

MótByr í viðbótarsparnaði – 4. hluti - http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/855887/


mbl.is Fjölmenni á aðalfundi Byrs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimurinn í augum Black

Fyrirlestur William Black í gær var afar áhugaverður.  Hann telur að bókhaldskúnstir sé helsta tól fjárglæframanna við að koma fjármagni kerfisbundið frá almenningi til örfárra manna.  Aðferðin er í stuttu máli þessi:

  • Veita fólki lán sem ólíklegt er að geti greitt þau til baka
  • Slík lán fylgja almennt há gjöld sem bókfærast strax sem hagnaður
  • Gíra starfsemina eins mikið og unnt er þannig að hver króna skapi enn meiri hagnað
  • Viðhalda örum vexti á meðan að hagvöxtur er jákvæður
  • Þetta leiðir til mikils hagnaðar og hárra bónusgreiðslna svo lengi sem veislan varir

Til að koma ofangreindu í verk þarf að skapa landslag sem gerir það að verkum að fáir fetti fingri út í vafasamar ákvarðanir.  Slíkt miðar fyrst og fremst að því að draga úr eftirliti og óþægilegum spurningum.  Helstu verkfærin eru:

  • Board of Directors - Veita stjórnum lán til kaupa bréfa í eigin fyrirtækjum - þannig eru hagsmunir þeirra orðnar beintengdar hagsmunum stjórnenda á bónustengdum launum sem miða að skammtímahagnaði og aðfinnslur á ákvörðunum ólíklegri
  • Inside Controls - Borga helstu aðilum stjórnendateymisins háar greiðslur með svipuðum hætti og áhrifum og gert er við stjórnarmeðlimi
  • External Controls - Greiða endurskoðendum veglega til að draga einnig úr þeirra gagnrýni á ársreikningum
  • Softly Softly - Vinna stöðugt í því að eiga góð samskipti við aðila sem stunda regluverk þannig að þeir taki síður föst tök á nauðsynlegum málum

Black telur að sterkir persónuleikar sem nánast drottna yfir fyrirtækjum sé sterkt viðvörunarmerki um ofangreinda stjórnunarhætti.  Í umræðum kom fram að Black gefur lítið fyrir Stress Test í sjálfu sér, en FME hefur verið gagnrýnt fyrir jákvætt mat á slíku rétt fyrir bankahrun.  Slík próf eru í raun gagnslaus án rökvísrar greiningar.

Hann tók fram að hann hefði ekki kynnt sér málefni Íslands til hlítar en sýnist við fyrstu sýn að munstrið varðandi stýrð fjársvik samsvari því munstri sem hann hefur áður séð annars staðar.  Helsti lærdómurinn sé að koma auga á ofangreindar upptalningar og halda þróun þeirra í skefjum.

 

 


100 daga áætlun - Endurreisn bankanna - Aðskilnaður í bankarekstri, SNB og aukið sjálfstæði SÍ

Lykilatriði við endurreisn efnahags Íslands er að ná aftur trausti almennings og erlendra aðila á fjármálakerfi landsins.  Ný ríkisstjórn þarf að skipa sérstaka nefnd hið fyrsta með sjálfstæði til erfiðra ákvarðanna.  Helstu verk þeirrar nefndar væri að:

  1. Aðskilja bankarekstur
  2. Stofna nýja banka
  3. Auka sjálfstæði Seðlabankans á ýmsum sviðum

Bankarekstur - Það þarf enga skoðanakönnun til að staðfesta að traust almennings til íslenskra banka er lítið.  Traust er hins vegar orðið sem þarf að vera til staðar í huga fólks eigi íslenskir bankar að ná fótfestu á nýjan leik.  Einfaldasta aðgerðin í þeim efnum er að aðskilja viðskipta- og fjárfestingarþjónustu þeirra.  Viðskiptaþjónustan nýtur þess að innstæður eru tryggðar af ríkinu.  Rétt væri að slíkir bankar væru u.þ.b. 40% í eigu ríkisins og afgangurinn í dreifðri eignaraðild.  Hægt væri að veita erlendum kröfuhöfum einn slíkan banka upp í skuldir, ein 40% ríkisbanki sæti eftir ásamt sameinuðum sparisjóði Íslands.  Lilja Mósesdóttur hefur lýst því yfir að hún sé hlynnt slíkum aðskilnaði, vonandi notar hún nýtilkomin áhrif sín til að koma slíku í verk.

Stofna nýja banka - Fjárfestingararmur bankanna fer í nýja banka.  Slíkur banki tæki við þeim eignum sem hægt væri að skapa virði úr.  Þær eignir sem aðeins eru rekstrarhæfar vegna þjóðfélagslegs ábata færu undir vernd ríkis og sveitarfélaga.  Slíkur banki færi fljótt að mestu í eigu stofnannafjárfesta en bakhjarl þeirra nyti ekki ríkistryggingar.

Sjálfstæði Seðlabankans er nauðsynleg aðgerð.  Stýrivaxtaákvarðanir bankans þurfa að endurspegla ríkjandi efnahagslegar aðstæðum hverju sinni.  Til að vextirnir beri tilætlaðan árangur þarf bankinn einnig að hafa sjálfstæða skoðun varðandi áhrif ákvarðanna sem stjórnvöld taka og afleiðingar þeirra.  Sú þróun undanfarin ár að SÍ hækki stöðugt vexti samhliða þensluhvetjandi ákvörðunum stjórnvalda má ekki eiga sér stað á nýjan leik. 

Þetta er, í stuttu máli, þau markmið sem 100 daga áætlun endurreisnar fjármálakerfisins ætti að einblína á. 


Vextir, stýrivextir og tvíhöfða vaxtastefna

Ef ekki væri til einhverskonar seðlabanki eða annað vald sem stýrði stýrivexti, hvernig væri vaxtastig ákvarðað? Slíkt byggðist í raun, eins og með aðrar vörur, einfaldlega eftir framboði og eftirspurn. Stundum eykst framboð á fjármagni og stundum dregst...

Mikil lækkun stýrivaxta framundan?

Frétt á RÚV í gær um að vinna við að finna leiðir til að létta þrýstingi af íslensku krónunni væri á lokastigi er afar athyglisverð. Fram kemur að áætlun til að fá þá fjárfesta sem eiga krónueignir upp á mörg hundruð milljarða til að fjárfesta innanlands...

Lífeyrir

Inga Jessen spurði nýlega hvort ríkið tryggði séreignarsparnað fólks. Hún segir orðrétt: Þegar ríkið gerir að lögum að vinnuveitendum sé skylt að greiða 2% mótframlag í séreignasparnað og ýtir þess vegna undir að fólk nýti sér það, ætti...

Farsælast að stunda hefðbundna bankastarfsemi

Margeir Pétursson sagði nýverið í viðtali að tæki MP Banki yfir þjónustu SPRON yrði viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi aðskilin. Hann er sjálfum sér samkvæmur í þessum efnum því þetta sagði hann fyrir rúmum 6 árum síðan og fannst mörgum hann þá...

Atvinna

Umræðan og ýmsar lagasetningar sem henni tengjast hefur undanfarið verið á þeim nótum að nauðsynlegt sé að fólk auki við neyslu sína. Margir halda að aukin neysla sé nauðsynleg til að koma hjólum efnahagslífsins í gang á nýjan leik. Hefur til að mynda...

Hver ber ábyrgð á skuldastöðu íslenskra heimila í dag? Svarið er íslensk stjórnvöld

Gull, silfur og brons sætin deila Framsóknarmenn, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn. Árið 2001 hófst sú hættulega þróun sem nú er búin að koma mörgum íslenskum heimilum í skuldafjötra. Ég vitna í grein sem ég skrifaði sama ár, Hinir skuldugu munu...

Mótbyr í viðbótarlífeyrissparnaði IV

Eftirfarandi línur bárust mér varðandi 3. hluta þessara skrifa og birti ég þær orðrétt. Miðað við það að engar tilkynningar bárust þegar fjárfestingarstefnunni var breytt 2006, þá spyr maður sig hvort lögin þurfi ekki að vera strangari og knýja á um að...

Mótbyr í viðbótarlífeyrissparnaði III

Í gær fjallaði ég um áhrif breytinga á fjárfestingastefnu hlutabréfa- og skuldabréfaáherslu, sem eru tvær af þremur leiðum í Lífsvali, viðbótarlífeyrissparnaði Byrs. Hér í þriðja hluta verður fjallað nánar um hvað hafi legið til grundvallar og...

Mótbyr í viðbótarlífeyrissparnaði II

Í gær fjallaði ég um ávöxtunarleiðir sem voru í boði í því sem kallast Lífsval sparisjóða. Þær eru þrjár, verðtryggður reikningur, hlutabréfaáhersla og skuldabréfaáhersla. Fram kom að þótt hlutföll í hlutabréfa- og skuldabréfaáherslu hafi ekki breyst er...

Mótbyr í viðbótarlífeyrissparnaði

Eftirfarandi er fyrsti hluti af fjórum þar sem fjallað er um svokallaðan viðbótarlífeyrissparnað. Þó svo að aðeins séu rúm tíu ár síðan að slíkt sparnaðarform hóf göngu sína á Íslandi eru fjárhæðirnar sem safnast hafa gífurlegar, að því marki að útborgun...

Áhugi á aðskilnað fjármálaþjónustu

Undanfarnar 2 vikur hefur könnun verið í gangi á bloggsíðu minni þar sem spurt er hvernig bankakerfi hins nýja Íslands eigi að líta út. Þátttaka hefur verið afar góð og svöruðu 239 einstaklingar, kærar þakkir. Þó svo að þessi könnun uppfyllir augljóslega...

Kallaði engin(n) Úlfur Úlfur?

Hví stöðvaði þetta engin(n)? Augljóst var að aukin skuldtaka var í tísku. Hér er ekki einungis hægt að benda á einhverja útrásarvíkinga, stjórnvöld hefðu átt að taka í taumanna á þessu máli löngu fyrr. Hægt er að sjá viðvaranir mínar sem fram komu vorið...

Hægan hægan

Viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, sagði í athyglisverðu viðtali við Bubba í vikunni að skörp lækkun stýrivaxta hefði ekki nauðsynlega góð áhrif á heimilin. Lækkun stýrivaxta gæti leitt til veikingu krónu sem hefur í för með sér meiri verðbólgu. Auk...

Lánasöfnin einfölduð og unnið er úr þeim með skilvirkum hætti

Bjarni segir í umræðu um endurreisn efnahagslífsins ... gríðarlega mikilvægt, að ríkissjóður taki ekki á sig of mikla áhættu við endurreisn bankanna. Svo segir hann að það "væri sérstaklega brýnt að stjórnvöld komi kröftuglega til móts við atvinnulífið...

Aðskilja fjármálastofnanir

Þessi tíðindi hljóta að undirstrika enn frekar nauðsyn þess að aðskilja fjármálastofnanir, þ.e. að hefðbundin bankaþjónusta og fjárfestingarbankastarfsemi sé ekki undir sama hatti. Í tilkynningu kemur fram að: "Tekið er fram í tilkynningu um yfirtöku...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband